Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.11.–1.12.2022

2

Í vinnslu

  • 2.–12.12.2022

3

Samráði lokið

  • 13.12.2022

Mál nr. S-222/2022

Birt: 17.11.2022

Fjöldi umsagna: 3

Áform um lagasetningu

Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Áform um lagasetningu - breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996

Niðurstöður

Þrjár jákvæðar umsagnir bárust um áformin og verður unnið að drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996.

Málsefni

Áformað er að breyta ákvæðum laganna með þeim hætti að ekki sé skylt að eyða fósturvísum við ákveðnar aðstæður aðila.

Nánari upplýsingar

Í gildandi 4. mgr. 10. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, segir:

„Nú er hámarksgeymslutími fósturvísa ekki liðinn en par sem samþykkti geymslu fósturvísanna slítur hjúskap eða óvígðri sambúð sinni og skal þá eyða fósturvísunum. Sama gildir ef annar aðilinn andast nema um gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun hafi verið að ræða.“

Orðalag ákvæðisins bendir til þess að gert sé ráð fyrir að par sem samþykkir geymslu fósturvísa hafi hvort um sig lagt til kynfrumur sem urðu að fósturvísum. Löggjafinn hefur ekki gert ráð fyrir því að staðan yrði önnur ef einungis annar aðilinn leggur til kynfrumur eða að réttarstaðan breytist ef aðstæður breytast. Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 55/1996 er ekki fjallað nánar um það hvers vegna ekki sé heimilt að nota fósturvísa nema í samræmi við samþykktan tilgang geymslunnar.

Með lögum nr. 64/2005 tóku gildi ákvæði í ýmsum lögum til að tryggja réttindi samkynhneigðs fólks, þ. á m. var réttarstaða samkynhneigðra til að geta gengist undir tæknifrjóvgun gerð sú sama og gagnkynhneigðra. Þegar lögunum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna var breytt með lögum nr. 54/2008, var einhleypum konum veitt heimild til þess að gangast undir tæknifrjóvgunarmeðferð. Tekið var fram í frumvarpinu að þegar einhleyp kona elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun sé það meðvituð ákvörðun sem einhleypar konur taka, að uppfylltum skilyrðum, eftir að hafa metið sínar aðstæður og hæfni sem uppalanda, bæði með tilliti til líkamlegrar heilsu sinnar, félagslegrar og fjárhagslegrar stöðu. Skilyrði fyrir tæknifrjóvgun eru þau sömu hjá einhleypum konum og öðrum konum.

Í ljósi sífellt fjölbreytilegri fjölskylduforma geta komið upp tilvik sem gildandi lög ná ekki til eða hreinlega bjóða upp á mismunun. Nefna má sem dæmi þegar að tvær konur sem eignast fósturvísa í hjónabandi eða sambúð með gjafasæði og kynfrumum annarrar þeirra. Samkvæmt gildandi lögum ber að eyða fósturvísunum, þó að vilji beggja standi til þess að sú sem lagði til kynfrumurnar eða þær báðar nýti fósturvísana. Þessu þarf löggjafinn að breyta og þess vegna mun heilbrigðisráðherra leggja fram frumvarp, sem breytir ákvæðunum laganna með þeim hætti að ekki skuli eyða fósturvísum ef fyrir liggur upplýst samþykki aðila um að slíkt skuli ekki gera. Um er að ræða mikið réttlætismál og ríkir hagsmunir standa til þess að þessu verði breytt sem allra fyrst. Við vinnuna verður hugað að annarri löggjöf sem breytingin gæti haft áhrif á, eins og erfðalöggjöf.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa heilsueflinga og vísinda

hrn@hrn.is