Umsagnarfrestur er liðinn (18.11.2022–02.12.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur.
Markmið með frumvarpsdrögunum er að tryggja skýra lagaheimild Orkuveitu Reykjavíkur til að eiga hlut í félögum sem tengjast Carbfix- aðferðinni. Carbfix aðferðin felst í að leysa koldíoxíð í vatni og dæla því niður í basaltsberggrunn þar sem náttúrulegt ferli er notað til að steinrenna því til frambúðar. Við þróun tækninnar var stuðst við rannsóknir, búnað, aðstöðu og þekkingu Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga. Sveitarfélögin sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur, stjórn fyrirtækisins og stjórn Carbfix telja æskilegt að stofna hefðbundið hlutafélag, Carbfix hf., um rekstur tækninnar, eigi hugmyndir félagsins um framtíðarnýtingu Carbfix aðferðarinnar fram að ganga.
Verkefni Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga eru tilgreind í lögum um Orkuveitu Reykjavíkur sem skilgreinir kjarnastarfsemi þeirra. Þar er einnig áskiliðað önnur verkefni séu heimil, svo fremi sem í þeim sé nýtt þekking og rannsóknir félaga innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur enda tengist þau kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Með frumvarpi þessu eru tekin af öll tvímæli um að Carbfix aðferðin teljist til slíkra verkefna.
Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 2. desember nk.
Sjá umsögn, sbr. viðhengi, um mál í Samráðsgátt nr. 223/2022, varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 136/2013.
ViðhengiSent í Samráðsgátt 2.12.2022.
Eftirfarandi ábendingar varða mál þetta (nr. 223/2022) og mál, sem vísað er í sem tengds máls (nr. 153/2022). Bæði málin snúast um breytingar á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur („OR“) með það að markmiði að tryggja lagaheimild OR til þátttöku í hlutafélögum tengdri starfsemi félagsins, þ.m.t. sérstaklega hlutafélaga, sem annast geymslu koldíoxíðs og annarra vatnsleysanlegra gastegunda í jörðu.
Fram hefur komið af hálfu OR, að markmið félagsins sé að fénýta svokallaða Carbfix-aðferð, sem fyrirtækið hefur þróað sérstaklega með öðrum, svo sem Háskóla Íslands, til þess að dæla koldíoxíði niður í berggrunn til samruna við bergið. Það markmið að fénýta aðferðina er að sjálfsögðu góðra gjalda vert, þó að auðvitað sé ekki sama, hvernig sú fénýting fer fram frekar en önnur nýting fjár.
Að áliti undirritaðs eru þau drög að frumvörpum, sem koma fram í málum nr. 223/2022 og 163/2022 langt í frá að vera fullbúin til flutnings á Alþingi. Á það bæði við um undirbúning málanna af hálfu OR, sem á frumkvæðið, og af hálfu ráðuneyta.
OR vill nota Carbix-aðferðina til fjáröflunar. Treystir sér samt ekki fjárhagslega til að standa eitt að því verkefni. Gott og vel. En er bara ein aðferð til þess að gera pening úr aðferðinni? Stofna hlutafélög hér og þar. Hér bregðast bæði OR og ráðuneytin í því að gæta réttra lagasetningaraðferðar. Engin valkostagreining virðist hafa farið fram. Eru engir valkostir aðrir fyrir OR en að einkavæða fyrirtækið að hluta og fara út í alls konar félagastofnanir með áhættu af ýmsu tagi og matarholum fyrir ýmsa aðila (verðuga og óverðuga), sem ekki telja sig síður eiga rétt til fjár en þann almenning, sem haldið hefur Orkuveitunni uppi og er raunverulegur eigandi hennar?
Augljósir valkostir koma strax upp í hugann. Hvað um að selja Carbfix-aðferðina núna, þegar góður markaður hlýtur að vera fyrir hana meðal allra þeirra fjölmörgu, þ. á m. sterkríkra, aðila, sem vilja losa okkur við loftslagsvána og græða á því í leiðinni? Þannig fengi OR (almenningur) fjármuni sína beint í vasann án frekari áhættu, þ. á m. orðsporsáhættu. Annar kostur gæti verið, að OR seldi sérleyfi (og ráðgjöf) til nýtingar á aðferðinni. Þetta er kostur, sem alsiða er að nota við fénýtingu hugverkaréttinda. Samkvæmt frumvarpsdrögunum vantar ekki áhugann á aðferðinni úti um allan heim. Hvers vegna á þá OR sérstaklega að fara að vasast í rekstri hlutafélaga með hinum og þessum, kannski stundum vafasömum aðilum?
Hver svo sem niðurstaðan yrði að lokum yrði um val á aðferð til þess að fénýta Carbfix-aðferðina, verður málefnaleg og gegnsæ valkostagreining að fara fram í samræmi við regluverk um undirbúning stjórnarfrumvarpa og niðurstöður hennar verður að birta almenningi – þó að írafárið sé greinilega mikið.
Svo eru það ósögðu hlutirnir. OR er nú þegar búið að stofna a.m.k. tvö hlutafélög til að sýsla með Carbfix – auk Eignarhaldsfélagsins Carbfix ohf. - án þess að hafa fengið umbeðna lagaheimild til þess. Þetta eru félögin Carbfix hf., stofnað 14.9.2022, áður en málið er svo mikið sem komið fram í samráðsgátt stjórnvalda, og Coda Terminal hf., stofnað 14.3.2022, löngu áður.
Sérstök ástæða er hér til að vekja athygli á félaginu Coda Terminal hf., enda áform þess ekki smá í sniðum. Heyrzt hefur, að Rio Tinto sé þar í nánu sambandi við OR, jafnvel frumkvæðisaðili, en það fyrirtæki hefur ekki beint verið rekkjunautur umhverfisverndarsinna.
Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá er tilgangur Coda Terminal hf. þessi: „Tilgangur félagsins er uppbygging og starfræksla á alþjóðlegri móttöku- og förgunarstöð fyrir koldíoxíð sem bundið verður í berg, fjárfestingar, kaup, sala og leiga fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur.“ Alþjóðleg móttöku- og förgunarstöð fyrir koldíoxíð.
Og hvar skyldi þessi alþjóðlega móttöku- og förgunarstöð fyrir stóriðjuúrgang eiga að vera? Hvar annars staðar en á Íslandi. Í Straumsvík og á stóru landsvæði upp af Straumsvík.
Nú er í kynningu matsáætlun fyrir umhverfismat stöðvarinnar, sjá:
Coda Terminal, móttöku og geymslustöðvar fyrir koldíoxíð, Hafnarfjarðarbæ | Öll mál í kynningu | Skipulagsstofnun
Samkvæmt áætluninni er áformað, að í stöðinni verði dælt niður allt að þremur milljónum tonna af koldíoxíði árlega. Úrganginn á að flytja hingað til lands með skipum.
Hér er ekki þörf á að fara nánar út í matsáætlun þessa sem gengur út á að gera Ísland að úrgangsgeymslu/sorpgeymslustöð fyrir stóriðjuna í heiminum. Þetta verkefni hlýtur að falla um sjálft sig – þegar af þeirri ástæðu, að það fær ekki staðizt samkvæmt meginreglum umhverfisréttar.
Það er meginregla í umhverfisrétti, að umhverfisvandamál verða bezt leyst á þeim stað þar sem þau eiga upptök sín. Menn eiga ekki að kasta umhverfisvandamálum á milli sín. Það á að ráðast að rótum vandans og uppræta hann. Carbfix er engan veginn eina leiðin til þess að geyma koldíoxíð, og allir eiga hinir stóru mengunarvaldar í heiminum kost á því að leysa sín umhverfisvandamál með öðrum og betri aðferðum en þeirri, að Ísland verði gert að ruslatunnu fyrir þá. Við kölluðum að vísu yfir okkur of mikið af stóriðju, óþarfi samt að refsa okkur með því að demba yfir okkur stærri hlut af úrgangi hennar en okkur ber, þó að einhverjir telji sig geta grætt á því stórfé. Ekki víst, að allir þeir, sem gróðann ætla að hirða, láti sér svo annt um hagsmuni Íslands, þ. á m. um umhverfisvernd á Íslandi.
Þá er komið að þessu með gróðann. Hann fá náttúrlega hluthafarnir í gróðafyrirtækinu/gróðafyrirtækjunum. Að minnsta kosti er ekkert farið að minnast á auðlindakostnað. Hvernig verða hluthafarnir valdir? Hvaða aðferð ætlar OR, sem er í eigu almennings, að beita til þess að velja þá? Handvelja? Þegar byrjað? Ríkisstjórn og Alþingi ætti meðal annars að velta þessari spurningu fyrir sér áður en svona mál er afgreitt blindandi og í góðri trú einni saman. Ekki þýðir endalaust að koma af fjöllum – fyrir þá, sem eru margbrenndir af mistökum við meðferð sína á eignum almennings.
Að lokum: Lagt er til, að umrædd frumvarpsdrög verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í ráðuneytinu og ríkisstjórn í heild sinni og sturluð áform um Stóriðjuruslatunnuna Ísland verði stöðvuð þegar í stað og áður en þau valda landi og þjóð stórtjóni og skömm. Síðan mætti endurskoðunarvinnan sjálf byrja á greinargóðri valkostagreiningu.
Hörður Einarsson.