Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.11.–2.12.2022

2

Í vinnslu

  • 3.12.2022–8.1.2023

3

Samráði lokið

  • 9.1.2023

Mál nr. S-224/2022

Birt: 18.11.2022

Fjöldi umsagna: 2

Áform um lagasetningu

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Ný lög um nafnskírteini

Niðurstöður

Tvær umsagnir bárust um áformaskjalið sem verða teknar til skoðunar við vinnslu frumvarps til nýrra laga um nafnskírteini. Þegar drög að frumvarpinu eru tilbúin verða þau sett í Samráðsgátt og óskað umsagna.

Málsefni

Áformað er að setja ný heildarlög um nafnskírteini sem verða örugg persónuskilríki til auðkenningar og gild ferðaskilríki innan EES/Schengen-svæðisins

Nánari upplýsingar

Nafnskírteini samkvæmt núgildandi lögum um útgáfu og notkun nafnskírteina nr. 25/1965 standast ekki kröfur nútímans til öruggra persónuskilríkja. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 um aukið öryggi persónuskilríkja, sem nú er í innleiðingarferli hjá sameiginlegu EES-nefndinni, er kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til öruggra persónuskilríkja sem einnig skulu teljast til gildra ferðaskilríkja á EES/Schengen-svæðinu. Áformað er að nafnskírteini samkvæmt nýjum lögum standist kröfur reglugerðarinnar og verði því hvort tveggja örugg persónuskilríki til auðkenningar og gild ferðaskilríki á EES/Schengen-svæðinu.

Gert er ráð fyrir að ný og örugg nafnskírteini muni nýtast þeim sem kjósa að nota örugg og handhæg persónuskilríki sem einnig má nota sem ferðaskilríki þegar ferðast er á EES/Schengen-svæðinu. Þá þykir líklegt að sér í lagi ungmenni og aðrir sem ekki njóta ökuréttinda muni kjósa að nota ný handhæg nafnskírteini fremur en vegabréf sem persónuskilríki til auðkenningar í daglegu lífi.

Til skoðunar hafa verið mismunandi kostir við útgáfu nafnskírteina hvað varðar útgáfu þeirra á stafrænu formi. Gert er ráð fyrir að nafnskírteini verði á plastformi en þó er ekki talið nauðsynlegt að í nýjum lögum verði kveðið á um form þeirra heldur nægi að setja slík ákvæði í reglugerð á grundvelli laganna. Lögin komi þá ekki í veg fyrir að unnt verði að gefa út stafræn nafnskírteini á grundvelli þeirra þegar fram líða stundir. Með lögunum verði heldur ekki komið í veg fyrir að unnt verði að hlaða nafnskírteinum niður í stafræn veski en til að byrja með yrðu slíkar stafrænar útgáfur tengdar útgefnum plastkortum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is