Samráð fyrirhugað 22.11.2022—04.12.2022
Til umsagnar 22.11.2022—04.12.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 04.12.2022
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/2015 um leigu skráningarskyldra ökutækja

Mál nr. 226/2022 Birt: 22.11.2022
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (22.11.2022–04.12.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið byggir á tillögum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Snýr að breytingu á skilyrði um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð. Einnig auknum öryggiskröfum og upplýsingum.

Með frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2021, um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, var ráðist í fyrri hluta lagabreytinga í samræmi við tillögur OECD á sviði ferðaþjónustu á því málefnasviði er heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneyti. Í framhaldi af lagabreytingunum voru gerðar fjölmargar breytingar á reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 1277/2016, þar sem m.a. voru afnumin nákvæm forskriftarákvæði í stöðlum um gististaði, í samræmi við fyrrnefndar tillögur OECD.

Með umræddum laga- og reglugerðarbreytingum var stigið mikilvægt skref í að efla viðspyrnu hagkerfisins í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, stuðla að einfaldara regluverki, aukinni framleiðni og fjölgun starfa, s.s. með styttingu málsmeðferðartíma vegna útgáfu tækifærisleyfa, rýmkun á aldursskilyrði umsækjanda eða forsvarsmanns umsækjanda um rekstrarleyfi, og lækkun gjalda vegna rekstrarleyfa tiltekinna veitinga- og gististaða. Þá var afnumið það skilyrði að starfsstöð ökutækjaleigu skuli vera opin almenningi, ásamt því að ýmsar kröfur um búnað sem hótelum og gistiheimilum var skylt að hafa til staðar voru afnumdar, svo sem krafa um tvö handklæði fyrir hvern gest, spegil á snyrtingu og stól í hverju herbergi svo dæmi séu nefnd.

Meðfylgjandi drög að frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015, fela í sér síðari hluta lagabreytinga í samræmi við tillögur OECD í þeim tilgangi að halda áfram að bæta rekstrarskilyrði íslenskrar ferðaþjónustu.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til, í samræmi við tillögur OECD, að afnumið verði gildandi skilyrði um að ökutækjaleiga skuli rekin á fastri starfsstöð. Með breytingunni er lagt til að ökutækjaleigum verði ekki lengur skylt að reka starfsemi sína á fastri starfsstöð heldur einungis hafa geymslustað þar sem skráningarskyld ökutæki eru geymd. Verður því ekki lengur þörf á að húsnæði eða annað rými sé til staðar þar sem ökutækjaleiga er rekin, staðbundin og reglulega. Með frumvarpinu er í öðru lagi lagt til að skerpt verði á orðalagi um skilyrði fyrir útgáfu og niðurfellingu starfsleyfis til að fyrirbyggja mistúlkun og auka skýrleika. Með frumvarpi þessu hefur menningar- og viðskiptaráðuneytið brugðist við öllum tillögum OECD um ferðamál á málefnasviði ráðuneytisins, sem krefjast lagabreytinga.

Verði frumvarpið að lögum mun reynast nauðsynlegt að uppfæra reglugerð um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 840/2015, m.a. með tilliti til eftirlitshlutverks Samgöngustofu og áskorana sem geta skapast samhliða nýjum viðskiptaháttum, svo eftir sem áður verði unnt að halda uppi öflugu eftirliti með leyfishöfum. Sú vinna er þegar hafin innan ráðuneytisins í samstarfi við Samgöngustofu. Í þeim tilgangi að auka umferðaröryggi stendur jafnframt til að bæta því skilyrði í reglugerðina, að í leigusamningi við erlenda aðila, skuli leyfishafi sérstaklega vekja athygli á helstu hættum sem geta skapast á íslenskum vegum. Þau atriði sem eru til skoðunar að bæta við reglugerðina, og ökutækjaleigum er ekki skylt að upplýsa um í dag, eru m.a.:

• Hættu vegna færðar og veðurs (vegaloknir yfir vetrartímann).

• Einbreiðar brýr.

• Malarvegi og hætta sem skapast þegar ekið er af malbiki yfir á möl.

• Blindhæðir og blindbeygjur.

• Akstur í hringtorgum.

• Ljósaskylda allan ársins hring.

• Hætta við að stöðva bíl á vegum.

• Neyðarnúmerið 112.

• Beltaskylda í öllum sætum bifreiða.

• Sjálfgefinn hámarkshraði.

Jafnframt verða gerðar frekari breytingar á reglugerðinni í samræmi við tillögur OECD um afnám skilyrðis um starfsábyrgðartryggingu sem ætlað er að bæta leigutökum almennt fjártjón er stjórnendur og starfsfólk ökutækjaleigu kunna að baka leigutökum af gáleysi vegna vanefndar á leigusamningi. Rétt er að geta þess að tillögur OECD á sviði ferðaþjónustu sem snúa að málefnasviðum annarra ráðuneyta, s.s. varðandi flugumferð, leigubifreiðar eða Isavia, eru ýmist til skoðunar eða úrvinnslu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök ferðaþjónustunnar - 02.12.2022

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/2015 um leigu skráningarskyldra ökutækja.

Með góðum kveðjum

F.h. SAF

Gunnar Valur Sveinsson

Viðhengi