Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 6.12.2022–6.1.2023

2

Í vinnslu

  • 7.–9.1.2023

3

Samráði lokið

  • 10.1.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-228/2022

Birt: 6.12.2022

Fjöldi umsagna: 8

Drög að frumvarpi til laga

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna í starfi hjá ríkinu

Niðurstöður

Í kjölfar birtingar í Samráðsgátt var frumvarpinu breytt þannig að aðeins væri um bráðabirgðaákvæði til fimm ára að ræða í stað varanlegrar breytingar á lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Fjallað er um umsagnir sem bárust við frumvarpsdrögin í Samráðsgátt ásamt viðbrögðum við þeim í samráðskafla frumvarpsins eins og það var lagt fram á Alþingi 3. apríl 2023. Vísast til samráðskaflans varðandi niðurstöður úr samráði, sjá 5. kafla frumvarpsins í slóð hér.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir drög að frumvarpi að lögum um breytingu á lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, varðandi hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna ríkisins í 75 ár.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið er samið í heilbrigðisráðuneytinu og felur í sér að sett verði nýtt ákvæði í lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sem kveði á um heimild til undanþágu frá reglu um hámarksaldur ríkisstarfsmanna sem kveðið er á um í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og aðrar undanþágur í tengslum við hana.

Markmið frumvarpsins er að auka sveigjanleika í starfslokum heilbrigðisstarfsmanna. Er frumvarpið til þess fallið að bæta mönnun heilbrigðisþjónustunnar og þar með auka gæði hennar og auka öryggi sjúklinga. Talið er að frumvarpið muni bæta réttarstöðu þess heilbrigðisstarfsfólk sem er yfir sjötugt og þegar starfar í heilbrigðiskerfinu. Einnig sé það til þess fallið að heilbrigðisstarfsfólk sem býr við góða heilsu eftir sjötugt muni í auknum mæli óska eftir því að leggja sitt af mörkum við veitingu heilbrigðisþjónustu. Einn lykilþáttur í fyrirséðum versnandi mönnunarskorti er sá að umtalsverður hluti heilbrigðisstarfsmanna nálgast eftirlaunaaldur og við 70 ára aldur er skylt að segja þeim upp. Lagasetningin er því talin nauðsynlegur liður í því markmiði að tryggja fullnægjandi mönnun heilbrigðisþjónustu þó að ljóst sé að meira þurfi að gera til að ná markmiðum um mönnun.

Til þess að ná þessu markmiði þarf að breyta lögum þannig að heimilt verði að bjóða fólki yfir sjötugt sanngjörn kjör með ráðningarsamningi. Frumvarpið felur í sér að heilbrigðisstarfsfólki verði heimilað að starfa við heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu eftir sjötugt. Með lagasetningunni verður sett heimild í lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sem mun kveða á um undanþágu frá reglu 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt undanþágunni verður heimilt að ráða heilbrigðisstarfsmann með tímabundnum ráðningasamningi til allt að tveggja ára í senn allt til 75 ára aldurs í starf við veitingu heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu, þrátt fyrir að skylt hafi verið að segja honum upp störfum við 70 ára aldur, enda hafi hann enn heilsu og áhuga til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Með því yrði aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna ríkisins fært til samræmis við gildandi aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna sem veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu. Ákvæðið nær ekki til embættismanna.

Í lagaheimildinni mun koma sérstaklega fram að starfið þurfi að felast í veitingu heilbrigðisþjónustu til sjúklinga, og er hér átt við bein klínísk störf, m.ö.o. á gólfinu. Einnig er gert ráð fyrir að starfið geti samhliða beinum klínískum störfum eða að öllu leyti falist í handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks og nema. Þá er í lokamálsgreininni sérstaklega tekið fram að undanþáguheimild ákvæðisins gildi ekki um ráðningu í yfirmanns- eða stjórnunarstöður hjá ríkinu þar sem mönnunarvandi heilbrigðiskerfisins liggur ekki þar.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að heilbrigðisstarfsfólk sem náð hefur 70 ára aldri greiði ekki lengur í samtryggingarsjóð lífeyrisréttinda, enda stendur lagaskylda til þess aðeins fram að 70 ára aldri. Þar sem starfsmenn eiga rétt á því að draga lífeyrissparnað frá launum sínum í ákveðnu hlutfalli og greiða aðeins skatt af upphæðinni síðar meir þegar hún er greidd til þeirra úr lífeyrissjóði gerir lagafrumvarpið ráð fyrir að heilbrigðisstarfsfólki verði heimilt að láta draga af launum sínum upphæð sem fari í séreignasjóð lífeyrisréttinda. Kjósi starfsmaður að gera það skal hann eiga rétt samkvæmt ákvæðinu á því að vinnuveitandi greiði mótframlag eins og tíðkast með séreignalífeyrissparnað launþega sem eru yngri en 70 ára. Með þessu móti gefst heilbrigðisstarfsfólki sem náð hefur 70 ára aldri tækifæri til að starfa áfram, fresta lífeyristöku, safna auknum lífeyrisréttindum í séreignasjóð lífeyrisréttinda og búa við rýmri kost þegar eftirlaunataka þeirra hefst, sem gera má ráð fyrir að verði alla jafna í síðasta lagi við 75 ára aldur.

Gert er ráð fyrir að lagabreytingin taki gildi 1. janúar 2024, þ.e. eftir rúmt ár.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is