Samráð fyrirhugað 24.11.2022—09.12.2022
Til umsagnar 24.11.2022—09.12.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 09.12.2022
Niðurstöður birtar

Verkleg þjálfun sálfræðikandídata

Mál nr. 230/2022 Birt: 24.11.2022 Síðast uppfært: 13.12.2022
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (24.11.2022–09.12.2022). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með reglugerðarbreytingunni eru skilyrði um 12 mánaða verklega þjálfun sálfræðikandídata útfærð með nánari hætti. Lagt er til að stofnuð verði mats- og hæfisnefnd.

Verkleg þjálfun hefur ekki verið í boði hér á landi með formlegum hætti. Með því að veita skilyrði reglugerðar um 12 mánaða verklega þjálfun að loknu háskólanámi, áður en starfsleyfi fæst veitt, eru kröfur hér á landi fyrir starfsleyfum sálfræðinga færðar til samræmis við þær kröfur sem eru almennt gerðar á Norðurlöndum. Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var falið að taka gera tillögur að útfærslu á verklegri þjálfun sálfræðikandídata. Ráðuneytið frestaði gildistöku ákvæðisins síðast í nóvember 2021 og allt til júlí 2023, í þeim tilgangi að tækifæri fengist til að að útfæra verklega þjálfun. Hagsmunaaðilar voru upplýstir um að gildistöku ákvæðisins yrði ekki frestað aftur.

Vorið 2022 var stofnaður hópur hagsmunahafa til að semja lýsingu á innihaldi 12 mánaða verklegrar þjálfunar sálfræðikandídata. Áhersla var lögð á að tillögur tækju mið af gæðum, öryggi og hagkvæmni. Hópurinn skilaði landsráði í júlí 2022 tillögum að útfærslu á verklegri þjálfun sálfræðikandídata.

Út frá niðurstöðu landsráðs hafa verið unnin meðfylgjandi drög að reglugerð í samráði við embætti landlæknis. Reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði fyrir almennu lækningaleyfi og sérfræðileyfi, var höfð til hliðsjónar en í henni er að finna fyrirmynd að skipulagi verklegrar þjálfunar utan skólakerfisins sem reynsla er komin á. Þaðan voru fengnar hugmyndir að mats- og hæfisnefnd og kröfu um að lýsing á verklegri þjálfun liggi fyrir. Einnig voru teknar upp í drögin tillögur sem hafa komið fram við vinnu vinnuhóps um breytingu á reglugerð um lækna, t.a.m. um gerð samnings við kandídat um þjálfun sem hann undirgengst og varðandi vottorð um að þjálfun sé lokið. Skoðað var hvort handleiðaraþjálfun ætti að vera skilyrði fyrir handleiðara en ákveðið var að sleppa því skilyrði þar sem slíkri þjálfun hefur ekki verið komið á fót. Sóknarfæri er fyrir því að bjóða upp á námskeið í handleiðarþjálfun fyrir heilbrigðisstéttir t.d. hjá Endurmenntun eða öðrum og hún gæti verið styrkhæf frá stéttarfélögum.

Helstu útfærsluatriði í meðfylgjandi reglugerðardrögum:

1. Sálfræðikandídat geri samning um verklega þjálfun við framkvæmdastjóra kennslustöðvar og ábyrgan handleiðara.

2. Þjálfunin skuli vera samkvæmt lýsingu frá mats- og hæfisnefnd og fara fram á kennslustöð sem hefur hlotið viðurkenningu mats- og hæfisnefndar sem slík.

3. Ráðherra skipi þriggja manna mats- og hæfisnefnd um verklega þjálfun sálfræðikandídata sem viðurkenni heilbrigðisstofnanir, deildir innan þeirra og sálfræðistofur sem kennslustöðvar fyrir verklega þjálfun sálfræðikandídata.

4. Tilnefningar komi frá Landspítala, fagfélagi sálfræðinga og sálfræðideildum háskólanna.

5. Handleiðarar skuli hafa að lágmarki fimm ára starfsreynslu sem sálfræðingar.

6. Mats- og hæfisnefnd setji sér starfsreglur sem ráðherra staðfesti. Nefndin útbúi einnig lýsingu á verklegri þjálfun sálfræðikandídata með hliðsjón af tillögum í handbók frá hópi hagsmunahafa og viðmið fyrir úttektir á kennslustöðvum sem embætti landlæknis birti, ásamt lista yfir viðurkenndar kennslustöðvar. Ráðuneytið útvegi nefndinni starfsmann.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Matthías Matthíasson - 25.11.2022

Mjög tímabær og áhugaverð tillaga til lausnar á þeim vanda sem skapaðist þegar ekki var hægt að framfylgja gildandi reglugerð um verklega þjálfun sálfræðinkandidata.

Sálfræðingar hafa hingað til ekki haft aðgang að sambærilegu kerfi og læknar hvað varðar starfsþjálfun og sérnám. Engu að síður á sér stað heilmikil framhalds- og endurmenntun hjá starfandi sálfræðingum. Sálfræðingar sækja framhaldsnám og námskeið auk þess sem sálfræðingar sækja handleiðslutíma. Má slá því föstu að nánast allir nýútskrifaðir sálfræðingar séu í raun í áframhaldandi námi eftir að starfsleyfi hefur fengist og að eldri sálfræðingar leggi talsverða rækt við það að viðhalda og auka við færni og þekkingu sína. Oft bera sálfræðingar sjálfir kostnað af þessu námi og handleiðslu á meðan læknar geta gengið að námsstöðum vísum á heilbrigðisstofnunum.

Í nágrannalöndum okkar er um skipulagðara framhalds- og sérhæfingarnám að ræða heldur en hefur verið boðið upp á hér. Sem dæmi má nefna að í Danmörku þurfa nýútskrifaðir sálfræðingar að starfa í tvö ár á ákveðnum forsendum (um 1.000 vinnustundir í þjálfun í greiningum og meðferð fyrir einstaklinga og hópa auk 160 handleiðslutíma) til að fá autorisation eða formlega viðurkenningu á færni (sem veitir viðbótarréttindi og tækifæri í starfi). Að auki er mjög góður rammi utan um sérfræðinám sem felur í sér kröfu um 3 ára starf á sérfræðisviði, 200 tíma í handleiðslu, 40 tíma í sjálfsvinnu (til að fá meðferðarsérhæfingu) og 360 tíma í nám. Einnig er til sérstakt nám fyrir special psykolog eða sérhæfðan sálfræðing í geðþjónustu sem felur í sér fjögurra ára starfsnám til að ná sérhæfingu í kínísku starfi á geðdeildum. Loks má nefna handleiðaranám sem er til viðbótar við sérfræðiréttindi. Í öllum tilfellum er um að ræða nám á launum sambærilegt við framhaldsnám lækna. Það er því ljóst að sú þarfa breyting sem hér er lögð til er aðeins lítið brot af því sem er gert hjá öðrum þjóðum til að mæta þörfum sálfræðinga fyrir frekara nám og þjálfun.

Afrita slóð á umsögn

#2 Inga Hrefna Jónsdóttir - 08.12.2022

Það er fagnaðarefni að skilyrði um 12 mánaða verklega þjálfun sálfræðikandídata verði í boði hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum, kröfur fyrir starfsleyfum sálfræðinga verði sambærilegar þeim og standist alþjóðlegan samanburð. Í reglugerðinni þarf hins vegar að gera betur grein fyrir nokkrum atriðum:

• Hversu margar stöður sálfræðikandídata verða í boði og hvernig eru þær fjármagnaðar? Mikilvægt er að eyrnamerkja fjármagn í þessar stöður til að þær verði að veruleika því heilbrigðisstofnanir og aðrar starfstöðvar sálfræðinga hafa takmarkað fjármagn fyrir stöðugildum sálfræðinga og ráða því frekar útskrifaða sálfræðinga með fullt starfsleyfi og sérfræðinga í klínískri sálfræði til að tryggja gæði í sinni starfsemi.

• Einnig þarf að tryggja að sálfræðikandídat í starfsþjálfun hafi skilyrt starfsleyfi landlæknis til að starfa sem sálfræðikandídat undir handleiðslu sálfræðings með sérfræðileyfi í klínískri sálfræði.

• Í stað þess að tala um (í 5. gr.) að handleiðari hafi fimm ára starfsreynslu sem sálfræðingur er eðlilegra að gera kröfur um að handleiðari sé sérfræðingur í klínískri sálfræði til að tryggja gæði handleiðslunnar.

Inga Hrefna Jónsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði,

forstöðusálfræðingur á Reykjalundi endurhæfingu ehf. í Mosfellsbæ.

Afrita slóð á umsögn

#3 Landspítali - 09.12.2022

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ragnar Pétur Ólafsson - 09.12.2022

Tillaga að breytingu á reglugerð nr. 1130/2012, felur í sér að leyfi til að starfa sem sálfræðingur sé veitt að loknu framhaldsnámi á meistarastigi og tólf mánaða verklegri þjálfun (starfsþjálfun). Gildistöku ákvæðis um starfsþjálfun var síðast frestað af ráðuneytinu í nóvember 2021 til að tækifæri gæfist að útfæra verklega þjálfun. Þótt Sálfræðideild HÍ fagni því að unnið hafi verið að nánari útfærslu á verklegri þjálfun sálfræðikandídata í samráði við hagsmunaaðila, ríkir enn óvissa um mikilvæg atriði sem ráða miklu um hvort settum markmiðum verði náð með þessari breytingu. Þessi markmið koma meðal annars fram í heilbrigðisstefnu til 2030 þar sem segir meðal annars: „Það er því nauðsynlegt að stöðugt sé fjárfest í menntun og þjálfun alls heilbrigðisstarfsfólks og að skapaðar séu starfsaðstæður og kjör hér á landi sem standast samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndunum.“

Þessi umsögn tekur mið af nýrri útfærslu verklegrar þjálfunar, en ekki síður, hvort reglugerðarbreytingin tryggi áframhaldandi og jafna nýliðun í sálfræðingsstéttinni þar sem nýútskrifaðir úr framhaldsnámi eigi greiða leið í viðeigandi þjálfun áður en starfsleyfi er veitt. Slíkt er bæði í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu og vaxandi eftirspurn eftir vinnu sálfræðinga í samfélaginu almennt. Það er líka í samræmi við yfirstandandi vinnu ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og ráðherra heilbrigðismála til að fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki, þar á meðal sálfræðingum.

Með þetta í huga, bendi ég á eftirfarandi atriði sem eru nauðsynleg forsenda fyrir því að reglugerðin þjóni tilgangi sínum og vinni vel með markmiðum stjórnvalda og fleiri aðila um gott aðgengi og framboð sálfræðiþjónustu sem standist samanburð við það sem best gerist best í nágrannalöndunum:

1. Tryggja þarf nægan fjölda þjálfunarplássa á starfsstöðvum (kennslustöðvum) eftir 1. júlí 2023. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík útskrifa hvor um sig, um 20 nemendur með meistarapróf í klínískri sálfræði á hverju ári, en hafa nýlega verið beðnir um að útfæra tillögur um hvernig fjölga megi útskriftarnemum. Það mun því að þurfa að lágmarki 40 pláss til að þessir útskriftarnemar geti hafið þjálfun strax. Yfirvöld verða að tryggja nægt fjármagn svo heilbrigðisstofnanir geti hafið þjálfun þeirra sumarið 2024. Án þessa fjármagns er mjög ólíklegt að fjöldi þjálfunarplássa, sem mæta ásættanlegum viðmiðum um starfsþjálfun, sé í samræmi við fjölda nýútskrifaðra sálfræðikandídata ár hvert. Gerist það, mun sálfræðingum fækka og ásókn í sálfræðinám dragast saman, sem gengur gegn markmiðum stjórnvalda um fjölgun nemenda í heilbrigðisgreinum til að vinna gegn skorti á heilbrigðisstarfsfólki.

2. Tryggja þarf að vinna mats- og hæfisnefndar, sem á að meta og viðurkenna starfsstöðvar, setja sér starfsreglur og búa til lýsingu og viðmið fyrir þjálfunina, sé raunhæf og gerleg. Samkvæmt reglugerðarbreytingunni leggur ráðuneyti nefndinni til starfsmann til að styðja við störf hennar, sem er mikilvægt. En fyrirséð er að vinna nefndarinnar verði umfangsmikil, og er ekki raunhæf nema að fjármagn komi til. Í vinnu nefndarinnar við útfærslu á viðmiðum fyrir starfsþjálfun, er mikilvægt að lykilþættir verði vel skilgreindir, svo sem umfang, form og inntak handleiðslu svo og hámarksfjölda kandídata sem handleiðandi er með. Það er mat okkar að handleiðsla ætti að vera að lágmarki vikuleg einstaklingshandleiðsla í að lágmarki klukkustund og hver handleiðandi beri ekki ábyrgð á fleirum en tveimur kandídötum á hverju ári. Í útfærslu mats- og hæfisnefndar á þjálfun á kandídatsári er mikilvægt að sálfræðikandídatar fái einnig svigrúm til undirbúnings og úrvinnslu í verkefnum sínum enda er um starfsnám og þjálfun að ræða.

3. Ekki kemur fram hvort sálfræðikandídat hafi tímabundið starfsleyfi á meðan þjálfun stendur eða ekki. Lagalegar skyldur og ábyrgð sálfræðikandídata á starfsþjálfunarári eru því óljósar samkvæmt reglugerð. Mikilvægt er að þetta verði útfært nánar. Sálfræðideild HÍ telur mikilvægt að hver sálfræðikandídat fái tímabundið starfsleyfi á kandídatsárinu. Án þess eykst mjög ábyrgð hvers handleiðara sem þarf að sinna kandídatinum mun meira. Um leið minnkar hvati starfsstöðva til að bjóða upp á þjálfunarpláss.

4. Lagt er til að ákvæði um mats- og hæfisnefnd í reglugerðardrögunum verði breytt. Samkvæmt reglugerðinni er mats- og hæfisnefnd skipuð þremur fulltrúum tilnefndum af heilbrigðisstofnunum, fagfélagi sálfræðinga og sálfræðideildum háskólanna og eru jafn margir skipaðir til vara. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Sálfræðideild telur mikilvægt að í mats- og hæfisnefnd, eigi sæti fulltrúar beggja háskóla (HÍ og HR) sem útskrifa nemendur á meistarastigi í klínískri sálfræði, og því sé nefndin skipuð fjórum fulltrúum að lágmarki. Þetta fyrirkomulag myndi tryggja betur samfellu á milli formlegs háskólanáms í báðum skólum og útfærslu starfsþjálfunar á kandídatsári.

5. Lagt er til að 6 gr. reglugerðarbreytingarinnar verði breytt, en þar er fjallað um ákvæði um gildistöku til bráðabirgða. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að framhaldsnemar á seinna ári í meistaranámi, og munu að öllu óbreyttu útskrifast í lok júní 2023, séu undanþegnir ákvæði um kandídatsár. Fyrsti árgangur framhaldsnema sem falla undir ákvæðið, eru þeir sem útskrifast í lok júní 2024. Hins vegar eiga nokkrir framhaldsnemar úr fyrrnefnda hópnum, kost á því að útskrifast í október 2023 og febrúar 2024, vegna leyfis á námstímanum. Það er þó fyrirséð að undirbúningur þjálfunarplássa fyrir sálfræðikandídata verði ekki lokið á þessum tíma og því mælum við með að þeir nemendur sem ljúka námi fyrir 1. mars 2024, og sæki um starfsleyfi eigi síðar en 1. maí sama ár, verði undanþegnir ákvæðinu.

Til að draga saman að lokum: Það er lykilatriði að fjármagn fylgi breytingum á reglugerð, til að tryggja nægjanlegan fjölda þjálfunarplássa á kennslustöðvum. Án fjármagns, munu kennslustöðvar verða of fáar og leiða til fækkunar sálfræðinga og minni ásóknar í framhaldsnám í klínískri sálfræði á háskólastigi. Það gengur gegn yfirstandandi vinnu ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og ráðherra heilbrigðismála til að fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki, svo og gegn settri heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Fylgi fjármagn þeim breytingum sem lagðar eru til í þessari reglugerðarbreytingu, er stigið mikilvægt skref til eflingar faglegrar sálfræðiþjónustu sem stenst samanburð við nágrannalöndin og fylgir yfirlýstum markmiðum stjórnvalda.

Ragnar P. Ólafsson

Prófessor og Deildarforseti

Sálfræðideild Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#5 Inga Hrefna Jónsdóttir - 09.12.2022

Meðfylgjandi er umsögn Félags sérfræðinga í klínískri sálfræði (FSKS).

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Pétur Maack Þorsteinsson - 09.12.2022

Umsögn um drög að breytingum á reglugerð um starfsþjálfunarár sálfræðikandídata

Reglugerð um starfsþjálfunarár sálfræðikandídata átti fyrst að taka gildi árið 2013. Þá, og æ síðan hefur gildistöku reglugerðarinnar verið frestað, yfirleitt um eitt ár í senn. Mikil óvissa hefur fylgt þessum síendurteknu frestunum, fyrst og fremst fyrir þá sálfræðinga sem útskrifast ár hvert en einnig fyrir sálfræðina sem fag og heilbrigðisgrein.

Á Íslandi geta sálfræðingar nú lært sálfræði til starfsréttinda í tveimur háskólum, HÍ og HR. Nám sálfræðinga á Íslandi er í öllum grundvallaratriðum byggt á námi sálfræðinga á hinum Norðurlöndunum. Þar er grunnnámið líkt og hér 3ja ára BA eða BS nám og svo tveggja ára Cand. Psych. eða MS gráða. Frá því að starfsréttindanám í sálfræði var fyrst í boði á Íslandi árið 2000 hefur þetta fimm ára nám nægt til að fá full starfsréttindi sem sálfræðingur. Á hinum Norðurlöndunum þurfa sálfræðingar hins vegar líka að standa skil á starfsþjálfunarári, s.k. kandídatsári að loknu fimm ára námi í háskóla.

Með starfsþjálfunarári er tryggt að allir sálfræðingar sem ljúka námi til starfsréttinda fái aðgang að sams konar þjálfun en það er afar mikilvægt til að halda uppi og efla gæði í störfum sálfræðinga. Í dag er staðan á Íslandi sú að þjálfunin sem ungir sálfræðingar fá að lokinni útskrift ræðst fyrst og fremst af því hvort að á vinnustað þeirra er virk mannauðs- og endurmenntunarstefna. Sumir nýútskrifaður sálfræðingar fara til starfa á vinnustöðum þar sem margir sálfræðingar eru fyrir og öflugt faglegt starf innan stéttarinnar. Það fá hins vegar ekki allir starf á slíkum vinnustað strax að lokinni útskrift og sumir nýútskrifaðir sálfræðingar fara beint til starfa á eigin starfstöð af þeirri einföldu ástæðu að þeir fá ekki starf þar sem þeir geta notið handleiðslu reyndari kollega. Þessu fylgir að viðkomandi hefur ekki aðgang að virkri þjáfunar- og endurmentunarstefnu. Af þessu má sjá að það er afar mikilvægt reglugerð um starfsþjálfunarár komist loks til framkvæmda svo gæði þjónustu verði tryggð.

Þær breytingar á reglugerðinni sem nú eru lagðar til eru settar fram eftir samráð við starfshóp sem var að störfum sumarið 2022 og eru að flestu leiti til framfara. Þrátt fyrir það má segja að enn vanti mikilvægasta atriðið í þessa reglugerð en það er fjármögnun starfsþjálfunarárs – hver skal borga. Það er ljóst að starfsþjálfunarár er ekki skipulagt nám í háskóla (enda er viðkomandi útskrifuð/aður) og því ekki um það að ræða að menntasjóður námsmanna komi að málinu. Því er ljóst að starfsþjálfunarstaðir þurfa að geta greitt sálfræðingum í starfsþjálfun laun og það gerist ekki nema í reglugerðinni verði skilgreint að starfsþjálfunarstöðum fylgi fjármagn til að ráða inn kandídata og greiða mentorum þeirra fyrir sína vinnu.

Miðað við lágmarkslaun sálfræðinga í flestum núgildandi stofnanasamningum Sálfræðingafélagsins við ríkisstofnanir má gera ráð fyrir að launakostnaður eins kandídats á starfsþjálfunarári sé um 9 milljónir á ári. Í dag útskrifa HÍ og HR 40 nýja sálfræðinga á ári svo að beinn launakostnaður hópsins verður um 360 milljónir á ári. Það er því ljóst að með öðrum kostnaði (kostnaði við mats- og hæfisnefnd, greiðslum til mentora o.fl) má gera ráð fyrir að kostnaður af því að innleiða reglugerð um starfsþjálfunarár að fullu muni nálgast 400 milljónir á ári. Það er há fjárhæð en hér er afar mikilvæg að hafa í huga að hér er ekki aðeins um að ræða kostnað, heldur munu kandídatar sinna greiningum og sáfræðimeðferð og verða því ef að líkum lætur góður liðsauki á sínum starfstöðvum. Ætla má að hver kandídat sinni meðferðarvinnu í amk 15 klst á viku þann tíma sem þau verða í starfsþjálfun. Á heilu ári í starfsþjálfun sinnir sálfræðikandídat því ekki færri en 600 klukkustundarlöngum meðferðarviðtölum undir handleiðslu. M.v. eðlilega lengd meðferðar má því gera ráð fyrir því að 60-80 skjólstæðingar fái meðferð hjá hverjum sálfræðikandídat að jafnaði. Gangi það eftir má gera ráð fyrir því að 2-3000 einstaklingar muni eiga kost á sálfræðimeðerð hjá kandídötum á starfsþjálfunarári ár hvert. Af þessu má vera ljóst að starfsþjálfunarári sálfræðinga fylgir ekki aðeins kostnaður heldur er það einnig mjög góð fjárfesting í enn öflugri sálfræðimeðferð en nú er í boði á öllum starfstöðvum sálfræðinga.

Af framangreindu má sjá að það er afar mikilvægt að fjármagn verði tryggt svo að reglugerð þessi komist nú loks til framkvæmda og stuðli í senn að auknum gæðum sálfræðiþjónustu í landinu og auknu framboði hennar. Besta leiðin til þess er að í reglugerðinni verði skilgreint að hverjum kandídat muni fylgja fjármagn sem tekur mið af umsömdum kjörum sálfræðikandídata í kjarasamningum.

Pétur Maack Þorsteinsson,

Yfirsálfræðingur, Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Afrita slóð á umsögn

#7 Linda Bára Lýðsdóttir - 09.12.2022

Háskólinn í Reykjavík fagnar nýjum drögum að reglugerð um (7.) breytingu á reglugerð nr. 1130/2012, um menntun, réttindi og skyldur sálfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Undirrituð telur mikilvægt að ítreka að vissar forsendur þurfa að vera til staðar áður en breytingar verða samþykktar.

1. Mikilvægt er að tryggja öllum þeim sem útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands pláss á kennslustöð sem hefur hlotið viðurkenningu mats- og hæfisnefndar sem slík. Eru þetta um það bil 45 pláss á ári, en Háskólinn í Reykjavík útskrifar um 23 nemendur á ári og Háskóli Íslands útskrifa um 20 nemendur á ári. Jafnframt verður að tryggja pláss fyrir þá sem hafa lokið námi erlendis án þess að hafa lokið starfsnámi.

2. Til að hægt sé að tryggja öllum pláss er mikilvægt að ríkið fjármagni starfsnámið hjá mismunandi kennslustöðvum. Mikilvægt er að heilbrigðisstofnanir, staðsettar um allt land sem og aðrar starfsstöðvar sálfræðinga taki þátt í að tryggja nýútskrifuðum kandídötum pláss. Ef stöður verða ekki fjármagnaðar er mikil hætta á að svo verði ekki.

3. Mikilvægt er að tryggja tímabundið starfsleyfi fyrir sálfræðikandídata á meðan þeir eru í þjálfun. Samkvæmt lögum getur landlæknir eingöngu veitt tímabundið starfsleyfi til þeirra sem lokið hafa námi erlendis. Ekki er leyfilegt að veita þeim sem hafa stundað nám í klínískri sálfræði hér á landi tímabundið starfsleyfi. Það er ekki ljóst hvaða aðrar leiðir eru í boði og því eru forsendur fyrir því að nýútskrifaðir kandídatar frá íslenskum háskólum geti sinnt sálfræðistörfum á meðan á þjálfun stendur ekki til staðar.

4. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna mats- og hæfisnefnd. Í dag eru tveir háskólar sem bjóða MSc nám í klínískri sálfræði og því mikilvægt að báðir skólarnir tilnefni sinn fulltrúa. Því er lagt til að nefndin samanstandi af fjórum aðilum, einn sem tilnefndur er af Landspítala, einn frá fagfélagi sálfræðinga, einn frá sálfræðideild Háskóla Íslands og einn frá Háskólanum í Reykjavík.

5. Fram kemur að ráðuneytið útvegi mats- og hæfisnefnd starfsmann. Samkvæmt reglugerð er gert ráð fyrir mikilli vinnu nefndarmanna, sérstaklega á meðan verið er að þróa starfsreglur, lýsingar á verklegri þjálfun, viðmið fyrir úttektir á kennslustöðvum og lista yfir viðurkenndar kennslustöðvar. Forsendur fyrir því að nefndarmenn fáist til starfa er að ríkið veiti fjármagn til að hægt verði að borga laun fyrir nefndastörf.

Dr. Linda Bára Lýðsdóttir

Forstöðukona masternáms í klínískri sálfræði við Háskólan í Reykjavík

Afrita slóð á umsögn

#8 Logi Úlfarsson - 09.12.2022

Umsögn um drög að reglugerð um starfsþjálfunarár sálfræðikandídata

Það er fagnaðarefni að til standi að koma starfsþjálfunarári sálfræðikandídata á stokk líkt og lengi hefur tíðkast á hinum norðurlöndunum sem við berum okkur hvað mest saman við. Það er mikilvægur liður í því að tryggja viðunandi þjálfun sálfræðinga og tryggja gæði geðheilbrigðisþjónustu. Í dag er nýútskrifuðum sálfræðingum ekki tryggð viðunandi þjálfun við útskrift og eru þeir háðir aðstæðum á sínum fyrsta vinnustað.

Til þess að þetta mikilvæga skref muni gagnast líkt og vonir standa til þarf að gæta að nokkrum atriðum, fyrst og fremst þarf að tryggja að þjálfunarstöður séu nægilega margar og að þeim fylgi fjármagn. Ljóst er að heilbrigðisstofnanir hafa ekki bolmagn til þess að fjármagna þessar stöður eins og staðan er í dag og þær munu líklega bera þungan af flestum þjálfunarstöðunum. Það er því mikilvægt að stöðunum fylgi eyrnamerkt fjármagn til að tryggja að nægilega margar og fjölbreyttar stöður verði í boði. Enn fremur er mikilvægt að handleiðarar séu ekki með of marga kandídata á sínum snærum til að tryggja gæði handleiðslunnar og að stilla álagi í hóf. Ef þjálfunarstöður verða of fáar vegna skorts á fjármagni mun sálfræðingum fækka og ásókn í sálfræðinám gæti dregist saman. Það gengur gegn markmiðum heilbrigðisstefnu stjórnvalda.

Í reglugerðinni er ekki nægilega skýrt hver réttindi og skyldur kandídata eru þar sem ekki er tekið fram hvort tímabundið eða takmarkað starfleyfi sé veitt fyrir kandídatsárið. Þetta þarf að skýra bæði fyrir kandídata og handleiðara þeirra svo ábyrgð hvors aðila um sig sé alveg skýr.

Að öðru leiti er því fagnað að skref sé tekið að tryggari sálfræðiþjónstu fyrir almenning á Íslandi.

Fyrir hönd stjórnar Fagfélags Sálfræðinga í Heilsugæslu

Afrita slóð á umsögn

#9 Sálfræðingafélag Íslands - 13.12.2022

Viðhengi