Samráð fyrirhugað 25.11.2022—12.12.2022
Til umsagnar 25.11.2022—12.12.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 12.12.2022
Niðurstöður birtar 10.01.2023

Áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Mál nr. 231/2022 Birt: 25.11.2022 Síðast uppfært: 10.01.2023
  • Forsætisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Níu umsagnir bárust um áformin og verða þær hafðar til hliðsjónar við vinnslu frumvarps til laga um mannréttindastofnun. Drög að frumvarpinu verða birt í samráðsgátt þegar þau liggja fyrir.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 25.11.2022–12.12.2022. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 10.01.2023.

Málsefni

Fyrirhugað er að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið um mannréttindastofnanir.

Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun á Alþingi haustið 2023. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að slíkri stofnun skuli komið á fót.

Sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun er ætlað víðtækt hlutverk við að efla og vernda mannréttindi. Hún þarf að uppfylla viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um slíkar stofnanir eða svokölluð Parísarviðmið.

Dæmi um almenn skilyrði sem mannréttindastofnun þarf að uppfylla samkvæmt Parísarviðmiðunum:

• Almenningur þarf að geta leitað til stofnunarinnar.

• Stofnunin skal hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda.

• Kveðið skal á um hlutverk stofnunarinnar í lögum.

• Áhersla er lögð á dreifingu valds og að þau sem komi að ákvarðanatöku endurspegli borgaralegt samfélag.

• Fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði stofnunarinnar skal vera tryggt.

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur að nokkru leyti gegnt hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar hér á landi. Hún uppfyllir þó ekki fyrrnefnd Parísarviðmið, enda gera þau kröfu um sjálfstæða stofnun sem komið er á fót með lögum. Er lagasetning því metin nauðsynleg.

Ísland hefur fengið fjölda áskorana frá innlendum og erlendum aðilum um að koma sjálfstæðri mannréttindastofnun á fót. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið samþykkti fjölmörg tilmæli um að koma slíkri stofnun á fót í síðustu tveimur allsherjarúttektum á stöðu mannréttindamála (UPR) hér á landi, árin 2016 og 2022. Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. Er tilvist slíkrar stofnunar því talin forsenda þess að hægt sé að lögfesta samninginn hér á landi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hörður Einarsson - 25.11.2022

Hér er gott mál og löngu tímabært á ferðinni. En á því er þó einn stór hængur. Framkvæmd þess mun kosta peninga og örugglega meira fé en gert er ráð fyrir í upphafi. Allar eftirlitsstofnanir, sem ætlað er að gæta hagsmuna almennings hér á landi, eru fjársveltar eða illa mannaðar, a.m.k. hafa þær ekki burði til þess að sinna þeim málum, sem almenningur beinir til þeirra. Grípa allar til þess að forgangsraða málum, sem þýðir, að flestum málum, sem almenningur þarf að fá skorið úr hjá þeim, er hent í ruslatunnuna, eða mönnum bent á að leita til dómstóla, sem ekki eiga völ á þeirri letilegu lausn að "forgangsraða" og henda þannig langflestum málum aftur í hausinn á fólki, sem telur hafa verið á sér brotið. Þekktustu dæmin um þessar stofnanir eru Samkeppnisstofnun og Umboðsmaður Alþingis. Nú á samkvæmt frumvarpi, sem er í smíðum um breytingu á lögum um persónuvernd að bæta Persónuverndí hóp þessara ríkisstofnana, sem geta valið sér mál til að leysa úr þeim málum, sem þeim sjálfum sýnist, til þessa hefur Persónuvernd orðið að vinna vinnuna sína, ekki búið við forgangsröðunr-lúxusinn. Stofnanir, sem henda frá sér málum, sem almenningur beinir til þeirra og þær eiga samkvæmt tilgangi sínum að leysa úr, á náttúrlega bara að leggja niður. Það er tvennt, sem þarf til að reka svona stofnanir, eðlilegt fjármagn og hæft starfsfólk. Ef annað hvorn þáttinn vantar, þýðir ekkert að vera að setja þessar stofnanir á fót. Áður en sett er á fót ný stofnun, sem einhverjir ætla að stæra sig af að hafa loksins komið í verk að stofna, tel ég vera þjóðráð að taka stofnanakerfið í heild til skoðunar. Þar þarf forgangsröðunin að fara fram. Hvaða stofnanir eru nauðsynlegastar, hverjar mega missa sig úr því að þær treysta sér ekki til að sinna verkefnum sínum í þágu almennings. Gera almennilega það, sem gert er, sleppa hinu bara alveg. Ein lausn er að leggja þessar stofnanir allar niður, ætla bara dómstólunum að leysa úr málum, sú lausn væri örugglega ódýrari og almenningur fengi úrlausn sinna mála, þótt seint sé stundum. Dómstólarnir eru ekki í neinum vandræðum með að verða sér úti um nauðsynlega sérþekkingu í hverju tilviki. Í guðanna bænum ekki fara í góðri meiningu að koma upp enn einni stofnuninni, sem daginn eftir að hún horfist í eigu við raunveruleikann, verður farin að kvarta undan vanmönnun og vanfjármögnun.

Afrita slóð á umsögn

#2 Svavar Kjarrval Lúthersson - 04.12.2022

Vert er að taka fram að réttindagæslan sinnir ýmsum verkum sem telja má til stjórnvaldsákvarðana þ.m.t. staðfestingu á vali talsmanns, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2011, og ef slíkt hlutverk færi til Mannréttindastofnunar Íslands er augljóst að ýmis álitamál gætu komið upp ef boðið væri upp á stjórnsýslukærur eða -kvartanir ef einhver er ekki sáttur við ákvörðun Mannréttindastofnunar Íslands. Meðal þeirra eru hagsmunaárekstrar ef umsækjandinn teldi sig vera hlunnfarinn í stjórnsýslumálinu, eða jafnvel dómsmáli ef málið færi í slíkan farveg. Ekki væri það mikið skárra ef engin slík leið yrði í boði. Þetta á auðvitað við um hvert það hlutverk sem Mannréttindastofnun Íslands myndi öðlast með lagaboði og því tel ég að beita ætti mikilli varfærni í að afmarka stofnuninni einhver tiltekin hlutverk sem líkjast stjórnsýsluverkum.

Til að gæta að sjálfstæði slíkrar stofnunar hvað fjárhag varðar tel ég viðeigandi að sett yrði í frumvarpið sambærileg vernd og veitt er dómstólum varðandi fjárlagafrumvörp í 7. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.

Afrita slóð á umsögn

#3 Margrét Steinarsdóttir - 08.12.2022

Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 09.12.2022

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 UN Women Ísland - 12.12.2022

Meðfylgjandi er umsögn UN Women á Íslandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Öryrkjabandalag Íslands - 12.12.2022

Umsögn ÖBÍ - réttindasamtaka um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Samtök atvinnulífsins - 12.12.2022

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 12.12.2022

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna því heilshugar að til standi að hefja vinnu við að setja á stofn sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun á Íslandi.

Íslenska ríkið hefur endurtekið fengið athugasemdir frá eftirlitsstofnunum mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna, m.a. Barnaréttarnefndinni vegna þeirrar stöðu að hér hefur slík stofnun ekki verið sett á stofn með formlegum hætti. Í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndarinnar nr. 2 frá árinu 2003 var sérstaklega fjallað um mikilvægi innlendra mannréttindastofnana og hlutverk þeirra fyrir mannréttindi barna, sjá: Treaty bodies Download (ohchr.org). Voru athugasemdir þessar ítrekaðar í lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar vegna 5. og 6. skýrslu Íslands, sem birtar voru í júní sl.

Börn hafi sjálfstæðan rétt til að kvarta

Mikilvægt er að tryggja börnum rétt til að kvarta um brot á réttindum sínum til innlendrar mannréttindastofnunar og að þeim verði auðveldað eins og kostur er að senda inn kvartanir sínar, krefjast úrbóta og þess að brotum gegn þeim verði hætt. Gera verður því ráð fyrir kvörtunarrétti barna til hinnar nýju mannréttindastofnunar, í frumvarpi til laga um stofnun hennar.

Í áðurnefndum lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar var íslenska ríkið hvatt til að tryggja nægilegt fjármagn til að börnum yrði gert kleift að beita rétti sínum til að kvarta undan brotum gegn sér um réttindi Barnasáttmálans. Í því samhengi vilja Barnaheilla hvetja stjórnvöld til að tryggja stofnun og rekstri mannréttindastofnunar nægilegt fjármagn og mannafla til að hún geti sinnt verkefnum sínum með fullnægjandi hætti og jafnframt að sjálfstæði hennar verði tryggt í raun. Samtökin telja tillögu um þrjú stöðugildi allt of lítið og hvetja stjórnvöld til að bæta þar úr.

Barnaheill telja enn fremur afar brýnt að Ísland fullgildi hið allra fyrsta þriðju valfrjálsu bókun Barnasáttmálans um kvörtunarleið fyrir börn til Barnaréttarnefndarinnar.

Reynsla og þekking Mannréttindaskrifstofu Íslands verði nýtt

Mannréttindaskrifstofa Íslands er rekin af frjálsum félagasamtökum, m.a. Barnaheillum, en hún hefur að hluta til gegnt hlutverki innlendrar mannréttindastofnunar og með stuðningi frá íslenska ríkinu. Ljóst er að heilmikil þekking og reynsla hefur byggst þar upp sem nauðsynlegt verður að nýta við uppbyggingu nýrrar mannréttindastofnunar. Barnaheill taka því undir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um málið.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Samtökin eru boðin og búin að taka þátt í áframhaldandi samráði við undirbúning að frumvarpi um innlenda óháða mannréttindastofnun.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Sigþrúður Guðmundsdóttir - 12.12.2022

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, um áform um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun.

Viðhengi