Samráð fyrirhugað 29.11.2022—05.01.2023
Til umsagnar 29.11.2022—05.01.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 05.01.2023
Niðurstöður birtar 31.01.2023

Aðalnámskrá leikskóla endurskoðun kafla 7-10

Mál nr. 232/2022 Birt: 28.11.2022 Síðast uppfært: 31.01.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Alls bárust átta umsagnir við drögum að breytingum á köflum 7-10 í aðalnámskrá leikskóla. Sex umsóknir bárust frá einstaklingum og tvær frá félagasamtökum. Almennt eru umsagnaraðilar jákvæðir gagnvart þeim breytingum sem lagðar eru til en benda þó á einstaka atriði sem skerpa má betur á. Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir breytingar á köflum 7-10 í aðalnámskrá leikskóla fyrir hagsmunaaðilum vorið 2023.
Breytt aðalnámskrá verður birt í stjórnartíðindum.
Breytingar á aðalnámskrá leikskóla taka gildi 1. ágúst 2023 og eiga að fullu að vera innleiddar í leikskólum landsins 1. ágúst 2024.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.11.2022–05.01.2023. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 31.01.2023.

Málsefni

Endurskoðun kafla 7-10 með það að leiðarljósi að skýra nánar hlutverk leiksins sem námsleið leikskólans og hvernig meta megi með virkri þátttöku barna viðhorf, líðan og stöðu þeirra.

Mennta- og barnamálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingum á 7.-10. kafla aðalnámskrár leikskóla.

Starfshópur þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis um styrkingu leikskólastigsins skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2021 þar sem lagt var til að kaflar 7, 9 og 10 í aðalnámskrá leikskóla yrðu endurskoðaðir. Starfshópur mennta- og barnamálaráðuneytis um endurskoðun á aðalnámskrá leikskóla hefur nú skilað af sér tillögum að endurskoðaðri aðalnámskrá þar sem finna má nánari skýringar á hlutverki leiksins sem námsleið leikskólans og hvernig meta megi með reglubundnum hætti, með virkri þátttöku barna, viðhorf, líðan og stöðu þeirra. Í starfshópnum sátu auk fulltrúa mennta- og barnamálaráðuneytis fulltrúar Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Grunns - félags fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum, Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Í drögum að kafla 7 er nú aukin umfjöllun um leik barna með áherslu á að skýra sjálfsprottinn leik og mikilvægi þess að börnin stýri leik sínum. Auk þess eru þar skilgreind nánar hlutverk leikskólakennara og annars starfsfólks leikskóla við að styðja við og hlúa að námi barna í gegnum leikinn, sjá nánar í viðhengi 7. Leikur og nám.

Í drögum að kafla 9 er nú aukin umfjöllun um samþættingu námssviða leikskóla og grunnþátta menntunar og umfjöllun um leik sem námsleið. Að auki er í kaflanum fyrir hvert námssvið aukin umræða um leikin og tengsl hans við viðkomandi námssvið sjá nánar í viðheni 9. Leikur í samþættu og skapandi leikskólastarfi.

Í drögum að kafla 10 er nú aukin áhersla á að matið skuli vera umbótamiðað og byggja á leik barna. Einnig er þar nú að finna umfjöllun um einstaklingsmiðað og hópmiðað mat á leik, námi og velferð barna ásamt skýringum á muninum á þessu tvennu, sjá nánar í viðhengi 10. mat á leik, námi og velferð

Kafli 8 var einnig endurskoðaður með það að leiðarljósi að hann samrýmdist þeim breytingum sem gerðar voru í köflum 7, 9 og 10. Einungis eru lagðar fram tillögur um smávægilegar breytingar á kafla 8 sjá nánar í viðhengi 8. Námsumhverfi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Anna Mjöll Guðmundsdóttir - 29.11.2022

Það er gríðarlega mikilvægt að lögð sé áhersla á frjálsan leik barna í leikskóla eins og verið er að gera með þessum breytingum og því ber að fagna.

Það mætti þó bæta við, í liðnum, aðstæður barna í leikskóla að hljóðvist og rými fyrir hvert barn sé viðunandi og samkvæmt svokölluðu "best practice".

Það þarf líka alltaf að gæta að því að það sé nógu margt starfsfólk til staðar til að annars börnin (líka þegar það eru veikindi), þá þurfa borg- og sveitafélög að styðja leikskólastarfið svo hægt sé að ráða nógu margt starfsfólk og hafa afleysingu en þetta hefur mikið að segja um öryggi og öryggistilfinningu barnanna.

Tilfinningalæsi mætti vera miklu meira atriði í starfi leikskólanna, í formi samkenndar, hlýju, forvitni um líðan og ástæður fyrir vanlíðan barna auk umhyggjusamrar nálgunar í öllu starfinu.

Það ætti að vera bannað að skamma börn eða niðurlægja þau á nokkurn hátt eða beita þau andlegu ofbeldi með óvönduðu málfari.

Að vanda orðaval og tala við börn af virðingu, sérstaklega vegna þess að þau taka öllu sem sagt er, bókstaflega og gera ekki greinamun á alvöru og kaldhæðni t.d.

Það ætti að innleiða Lausnahringinn frá Brákarborg inn í alla leikskóla eða "Non violent communication" til að efla samvinnu og lausnamiðað samtal á milli leikskólabarna og kenna þeim þannig virðingarík samskipti.

Með góðri kveðju,

Anna Mjöll Guðmundsdóttir

Foreldri og formaður Fyrstu fimm - hagsmunafélag foreldra og fagaðila um barnvænna samfélag.

Afrita slóð á umsögn

#2 Björg Jónatansdóttir - 29.11.2022

Er ekki betra að hafa byggingaleik á undan því í ærslaleik þurfa þau að læra að setja mörk þá gæti setningin litið svo út. Með sjálfsprottnum leik er til dæmis átt við hlutverkaleik, byggingaleik og ærslaleik en þar þurfa börnin að læra setja mörk.

Afrita slóð á umsögn

#3 Unnur Henrysdóttir - 01.12.2022

Er ekki komin tími á að setja inn kafla sem er tileinkaður áhættuleik barna? Þetta er þáttur sem er að verða meira og meira áberandi í leikskólastarfinu og tengir sterkt við útiveru sem þó er mjög lítið fjallað um. Set hér með lokaorð mín í B.ed ritgerð sem ég skrifaði um áhættuleik barna.

Sem leikskólakennari til margra ára og áhugamanneskja um áhættuleik hef ég haft gagn og

gaman af að lesa mér til um rannsóknir sem gerðar hafa verið um áhættuleik og gert mig

margs fróðari. Lesturinn hefur fengið mig til að hugsa enn frekar um hvaða leiktækifæri

börnum er boðið upp á í dag þegar kemur að útiveru og leikefni á útisvæðum. Meðvitund

mín um mikilvægi þess að bjóða börnum upp á útisvæði þar sem þau fá að ögra sér í leik,

læra að bera virðingu fyrir umhverfinu sem og að meta áhættu hefur styrkst. Því miður erum

við að sjá alltof mikið af manngerðum einhæfum leiksvæðum þar sem öryggið er sett svo

hátt að börn ná ekki einu sinni að verða skítug.

Við þurfum að vera tilbúin að líta á börn sem hæfileikaríka, færa og sterka einstaklinga,

að hlusta á hugmyndir þeirra og vinna saman að því að gera útisvæði sem ögra og örva.

Svæði sem hægt er að breyta og bæta án þess að kosta miklu til. Efniviður eins og bretti,

sjóbelgir, dekk, greinar, trjádrumbar og grjót er allt aðgengilegur efniviður sem hefur þessa

kosti. Eftir að hafa lesið mér meira til um áhættuleik sé ég hversu mikilvægt það er að

efniviður á útisvæði leikskóla ögri og örvi börnin. Að hægt sé að bjóða upp á opin efnivið þar

sem tilgangurinn er að þau fái að prófa sig áfram, hvort sem er að draga, lyfta, sveifla, byggja

eða setja saman. Að geta gefið börnum tækifæri til að taka áhættu, uppgötva og prófa sig

áfram á sínum forsendum. Að taka umræðu um hvaða hættur eru í umhverfinu og fá börn og

kennara til að bera virðingu fyrir hættunum. Einnig hversu miklu máli það skiptir hvað

viðhorf mitt sem kennari hefur að segja varðandi það hverju börnin fái að kynnast.

Að vera úti í náttúrunni og geta boðið upp á tækifæri til að klifra í trjám, hoppa af þúfum,

kanna óþekkt svæði, klifra í klettum, tálga grein sem liggur í grasinu eða hlaupa um frjáls eru

allt hlutir sem börn ættu að fá að upplifa. Úti í náttúrunni fá börn betra tækifæri til að hreyfa

sig meira þar sem pláss innan veggja skólanna er takmarkaðra heldur en úti í náttúrunni. Eins

og komið hefur fram hér að ofan þurfa börn að hafa tækifæri til að þroska líkamsþroska sinn

og það gera þau með því að vera virk og hreyfa sig. Börn sem fá tækifæri til að kynnast

líkama sínum og stjórna hreyfingum sínum ná betra valdi á samhæfingu hreyfinga sem gerir

þau bæði líkamlega öruggari og sjálfsöruggari. Eins og Sandseter talaði um að úti í náttúrunni

þroska börn betur grófhreyfingar sínar og læra betur að bregðast við áhættu en það er í

höndum okkar fullorðinna að gefa þeim þessi tækifæri.

Afrita slóð á umsögn

#4 Alda Agnes Sveinsdóttir - 20.12.2022

Hér koma athugasemdir frá mér varðandi 8. kaflann – Námsumhverfi.

Mér finnst vert að koma að klausu í námsumhverfiskaflanum um að gæta skal þess að leikefni barnanna innihaldi ekki efni sem skaðleg eru börnum. Þar sem unnið er með endurnýtanlegan efnivið er mikilvægt að starfsfólk hafi þekkingu til að flokka frá efnivið sem er óæskilegur. Starfsfólk og rekstaraðilar verða að vera vakandi fyrir nýjustu rannsóknum sem sýna fram á skaðsemi efna sem hafa hingað til verið algeng í leikefni barna svo og húsgögnum, dýnum o.fl. sem börn eru í snertingu við í leikskólanum og fjarlægja það úr umhverfinu.

Varðandi leikskólalóðina tel ég ástæðu til að taka fram að á lóðum leikskólanna skuli vera svæði fyrir lausan opinn efnivið. Mér skilst að eins og staðan er í dag er víða bannað að hafa lausan opinn efnivið á leikskólum vegna þess að hann getur skapað hættu þegar hann er nálægur leiktækum s.s. rólum og köstulum.

Bendi líka á að orðið þarf kemur 13 sinnum fyrir í 8. kaflanum – kannski einum of mikið?

Afrita slóð á umsögn

#5 Súsanna Ósk Gestsdóttir - 21.12.2022

Takk fyrir rosalega flotta vinnu - mjög margt frábært sem kemur fram í þessari þörfu viðbót/endurskoðun.

Eitt sem ég sá í kafla 7 og er mjög mikilvægt að sé útsýrt betur er í undirkaflanum: Hlutverk og ábyrgð leikskólakennara og starfsfólks þar sem punkturinn: greina og bregðast við kynjun og fjölmenningu í leik barna kemur fram. Mér finnst mikilvægt að fara nánar í það hvað kynjun er svo að starfsfólk geti verið meðvitað um það í starfi sínu í leikskóla.

Annað sem vakti athygli mína er að finna í kafla 9 - undir grunnþættinum sköpun - að það komi fram að börn fái tækifæri til þess að stýra hugmyndaferli sínu og hafi aðgang að efnivið sem þau geta nýtt sér til sköpunar. Að fullorðnir stjórni ekki hvað er gert eða hvernig það er gert heldur fái börnin að móta eigið nám og hafa áhrif á t.d. hvernig myndverk þeirra kemur til með að líta út - eða hvort það verði til yfirhöfuð sem einhvers konar lokaafurð. (lesist: að afnema leikskólaföndur)

Kveðja,

Súsanna.

Afrita slóð á umsögn

#6 Haraldur Freyr Gíslason - 02.01.2023

Félag leikskólakennara fagnar þessum breytingum á Aðalnámskrá leikskóla og þá sérstaklega aukinni áherslu á mikilvægi frjáls og sjálfsprottins leiks sem helstu námsleiðar barna. Framsetning er skýr og vel til þess fallin að kennarar og allt starfsfólk leikskóla geti nýtt sér í starfi með börnum í leikskólum.

Fyrir hönd Félags leikskólakennara

Haraldur F. Gíslason, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kristín Dýrfjörð - 04.01.2023

Umsögn um Aðalnámskrá leikskóla

Ég fagna því mjög að verið sé að endurskoða aðalnámskrá leikskóla og færa hana til framtíðar. Mér finnst mikilvægt að sjá að aðalnámskráin endurspeglar bæði íslenska leikskólahefð og rannsóknir. Annað getur ekki verið til án hins. Styrkur námskrár hlýtur að liggja í hugmyndafræði og ýmsum hefðum sem íslenskt leikskólastarf hefur byggst á en jafnframt að tekið sé tillit til nýrra rannsókna á sviði leikskólafræða. Mér finnst mikilvægt að námskráin sé opin og gefi einstökum leikskólum tækifæri til að þróa starfsaðferðir en samtímis vera leiðarljós sem bæði starfsfólk og foreldrar geta notað. Að aðalnámskrá sé bæði almenn en samtímis sértæk. Við lestur kaflanna saknaði ég þess að sjá ekki hugtakið inngilding. Ég tel það gæti mjög vel átt heima í 9. kafla, þar sem fjallað er um grunnþætti menntunar og námssvið leikskóla. Þar gæti einn punkturinn vel verið að * stuðla að því að starf leikskóla einkenndist af inngildandi hugarfari og starfsháttum.

Hér að neðan eru nokkrir punktar sem komu upp í huga minn við lestur kaflanna og mér finnst eiga erindi í umræðuna.

Kafli 7 -Leikur og nám barna

Í upphafi kaflans er lögð áhersla á að leikurinn er lífstjáning barnsins, að hann verði að virða og gefa börnum tækifæri til leiks. Að mínu mati skiptir máli að fjallað er um mismunandi leiki og sérstaklega að sjálfsprottinn leikur sé skilgreindur. Þar sem hann er megin námsleið leikskólans. Mér finnst líka skipta máli að nota hugtakið sjálfsprottinn leikur þar sem það ýtir undir sjálfræði barna og stjórn á því sem gerist í leik. Það er að mínu mati þakkarvert ef hið íslenska leikskólasamfélag getur komið sér saman um megin hugtak um leikinn. Það má í framhaldi velta fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á sérútgáfu um leik barna frá hinum ýmsu sjónarhornum. Hefti Valborgar Sigurðardóttur var mikið notað á sínum tíma en hefur verið því sem næst ófáanlegt, auk þess sem rannsóknum á leik barna hefur fleytt fram og mikil ný þekking til staðar.

Í drögunum er þessi málsgrein:

Þó að börn þurfi að leika sér á eigin forsendum, á leikskólakennari ekki að vera aðgerðarlaus. Langur vegur er á milli aðgerðarleysis og stjórnunar. Þeir styðja við leik barna með því að skapa þeim góðar leikaðstæður og leikumhverfi sem hvetur þau til náms.

Hér tel ég verið sé að ýja að því sem máli skiptir að leikskólakennarar séu að skrá og fylgjast með leik, en hér mætti e.t.v. orða betur sem og að bæta við mikilvægi þess að meðal hlutverka leikskólakennara sé ekki bara að útbúa umhverfi heldur og að gefa sér tóm til að vera stundum virkir þátttakendur í því umhverfi - en auðvitað á forsendum leiksins og barnahópsins. Ég velti fyrir mér hvort þessi málsgrein gæti endurspeglað ofangreinda málsgrein:

Börn þurfa að eiga þess kost að leika sér á eigin forsendum, en jafnframt er það skylda leikskólakennara að vera til staðar og á forsendum leiksins farið inn í hann, stutt og tekið þátt í honum ef á þarf að halda. Að í ljósi skráninga og athugana geti leikskólakennarar stutt við leik og skapað góðar aðstæður og leikumhverfi sem hvetur til náms.

Í punktunum sem fylgja kaflanum má finna þennan punkt:

• taka nýjungum á sviði miðla og tækni með opnum örmum og nýta á skapandi hátt í leik,  

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að umorða hann og segja:

• taka nýjungum á sviði miðla og tækni með opnum en gagnrýnum hug og nýta á skapandi hátt í leik,  

Ég er ekki viss um að okkur beri að taka öllum nýjungum með opnum örmum, en vissulega, gagnrýnið og opið.

Kafli 8 - Námsumhverfi

Kafli um ytri umgjörð leikskóla er afar mikilvægur og í sjálfu sér er ég í flestu sammála því sem þar kemur fram. Hins vegar í ljósi umræðu um fjölda barna í oft litlu rými finnst mér í lagi að orða sterkar að taka þurfi tillit til þeirra þátta. Jafnframt ætti líka að spegla þekkingu á t.d. hljóðumhverfi og lýsingu, sem rannsóknir benda á að skipti miklu máli fyrir þroska barna og vitað er að er víða ekki til fyrirmyndar í íslenskum leikskólum.

Kafli 9 -Leikur í samþættu og skapandi leikskólastarfi

Í kafla 9 er undirkafli um heilbrigði og velferð barna. Í ljósi þess að rannsóknir sýna fram á að einelti milli barna hefst og í einhverjum tilfellum nær að þrífast í leikskólum, tel ég að það ætti að vera umfjöllunarefni í aðalnámskrá leikskóla, og það ætti heima í kafla um andlega velferð og heilbrigði. Í sjálfu sér gæti það líka átt heima í kafla um leik, því vitað er að inngildandi leikur og staðblær eru meðal stærstu varnarþátta gagnvart einelti á meðal leikskólabarna.

Kafli 10 - Mat á leik, námi og velferð barna

Mat á leik, námi og velferð barna í leikskóla skal taka mið af áhuga, getu og hæfni þeirra. Mat á meðal annars að efla trú barns á eigin getu og sjálfsmynd þess ásamt því að stuðla að jafnrétti til menntunar.

Hér velti ég fyrir mér þessum texta „efla trú á eigin getu og sjálfsmynd“, hér finnst mér eins og eitthvað skorti. Það vanti orð fyrir framan sjálfsmynd. Eða ... að efla sjálfsmynd barna og trú á eigin getu...

Varðandi eftirfarandi:

Matsferli á að vera samþætt daglegu starfi leikskólans, byggjast á leik barna sem námsleið þeirra og endurspegla markmið leikskólastarfsins og skólanámskrá leikskólans.

Leikur er meginnámsleið barna í leikskóla og því þarf hver leikskóli að þróa matsaðferðir þar sem nám barna í leik er metið.

Ég fagna sérstaklega þessum orðum sem ég tel styrkja vel við að leikurinn er námsleið barna samkvæmt aðalnámskrá leikskóla og líka eitt meginmarkmið leikskólastarfs. Atriði sem ekki verður sagt of oft.

Með vinsemd og virðingu,

Reykjavík 4. Janúar 2023

Kristín Dýrfjörð,

leikskólakennari og dósent í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri

Kt. 2806613769

dyr@unak.is

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 05.01.2023

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um Aðalnámskrá leikskóla, endurskoðun kafla 7-10

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á köflum 7-10 í aðalnámskrá leikskóla. Með aukinni áherslu á mikilvægi leiks barna er betur komið á móts við þarfir þeirra og er það í samræmi við 3. grein barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um að hafa ávallt að leiðarljósi það sem börnum er fyrir bestu. Með breytingunni kemur nú skýrar fram hversu stórt hlutverk leikurinn hefur, þegar kemur að þroska barna auk þess sem skýrar kemur fram hvernig starfsfólk leikskóla getur betur komið á móts við leik barna.

Barnaheill telja mikilvægt að koma á þeirri samþættingu námssviða og grunnþátta sem lögð er til með áherslu á leikinn, enda er leikurinn í senn helsta náms- og þroskaleið barna. Með leik gefst börnum tækifæri til að tjá líðan sína og upplifun á eigin forsendum og vinna úr þeirri fjölbreyttu reynslu sem þau öðlast með þátttöku í samfélaginu. Í leiknum endurspegla börn gjarnan það sem þau verða vitni að og máta sig þannig í mismunandi aðstæður. Auk þess getur leikur barna gefið vísbendingar um færni þeirra í samskiptum og félagslegum tengslum.

Barnaheill vilja benda á mikilvægi þess að halda áfram að leita leiða til að efla mat barna á leikskólastarfi og lýsa því samtökin yfir ánægju með eflingu á mati barna á leikskólastarfinu í gegnum leik. Með því að gefa börnum tækifæri til að meta leikskólastarfið er séð til þess að þeirra skoðunum er komið á framfæri. Í 12. gr. Barnasáttmálans kemur fram að börn eiga rétt á því að tjá sig um öll málefni sem þau varða. Barnaheill vilja þó taka sérstaklega fram að einnig er mikilvægt að vinna á markvissan máta úr niðurstöðum mats barna á leikskólastarfi og taka tillit til niðurstaðna matsins.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi