Samráð fyrirhugað 24.11.2022—08.12.2022
Til umsagnar 24.11.2022—08.12.2022
Niðurstöður í vinnslu frá 08.12.2022
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um alþjóðlega reikiþjónustu

Mál nr. 233/2022 Birt: 24.11.2022
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 24.11.2022–08.12.2022. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Óskað er eftir umsögnum um drög að reglugerð um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan EES. Með reglugerðinni stendur til að innleiða reglugerð (EB) 2022/612 um reiki á almennum farnetum.

Meðfylgjandi eru drög að nýrri reglugerð um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Með reglugerðinni er lagt til að innleiða Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2022/612 frá 6. apríl 2022 um reiki á almennum farnetum innan Bandalagsins, með tilvísunaraðferð og fella úr gildi eldri reglugerðir.

Nýja reikireglugerðin (EB) 2022/612 tekur við af eldri reikireglugerðinni (EB) 2012/531, sem innleidd var með reglugerð nr. 1174/2012. Til einföldunar er lagt til að sett verði ný reglugerð, en ekki gerð breyting á fyrirliggjandi reikireglugerð nr. 1174/2012, enda byggir hin nýja reglugerð á nýjum fjarskiptalögum. Athugið að reglugerðir sem vísað er til í b. og c. lið 2. gr. reglugerðarinnar hafa þegar verið innleiddar hér á landi.

Með því að innleiða nýju reikireglugerðina er tryggt að íslenskir neytendur njóti sambærilegra kjara og aðrir neytendur á EES svæðinu.

Umtalsverð þróun á reikiþjónustu innan EES hefur átt sér stað á síðustu árum, ekki síst með tilkomu "Roam like at home", sem felur í sér að farsímanotendur greiða almenna notkun á ferðalögum innan EES samkvæmt heimagjaldskrá. Markmið nýju reikireglugerðarinnar er líkt og áður að tryggja samræmdar reglur um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins, til þess að notendur almennra farneta á ferðalagi innan Evrópska efnahagssvæðisins borgi ekki óhóflegt verð, í samanburði við samkeppnishæf, landsbundin verð, fyrir reikiþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins, þegar hringt er og tekið er á móti símtölum, send eru smáskilaboð og tekið á móti þeim, og notuð er pakkaskipta gagnaflutningsþjónusta.

Í nýju reikireglugerðinni nr. (EB) 2022/612 er m.a. fjallað um aukið gagnsæi varðandi verð á virðisaukandi þjónustu og bætt aðgengi að neyðarþjónustu. Ákvæði um smásöluverð verða reglulega endurskoðuð hjá ESB. Þá er kveðið á um að hámarksverð í gagnaflutningi í alþjóðlegu reiki, fari lækkandi í skrefum allt til ársins 2032. Þá er felld niður kvöð á fjarskiptafyrirtæki um aðskilda sölu reikiþjónustu, auk þess sem gerðar eru breytingar á því hvernig skuli standa að ákvörðun á hámarksverði á heildsölu lúkningaverði vegna reikis.

Óskað er eftir umsögnum um drög að reglugerð um alþjóðlega reikiþjónustu á almennum farnetum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Lagastoð fyrir reglugerðinni er að finna í 54. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.