Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.11.2022–9.1.2023

2

Í vinnslu

  • 10.1.–29.6.2023

3

Samráði lokið

  • 30.6.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-237/2022

Birt: 28.11.2022

Fjöldi umsagna: 2

Drög að reglugerð

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Drög að reglugerð um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð

Niðurstöður

Tvær umsagnir bárust. Skjalið var birt, með nokkrum breytingum, sem reglugerð nr. 441/2023 um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Málsefni

Umsagna er óskað um drög að reglugerð um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð, sem til stendur að setja á grundvelli laga um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Nánari upplýsingar

Óskað er eftir umsögnum um drög að reglugerð um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Með lögum nr. 7/2020, um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, var m.a. innleidd í landsrétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar o.fl. (CSD-reglugerðin eða CDSR). CSDR er aðallega ætlað að samræma reglur um uppgjör fjármálagerninga á Evrópska efnahagsvæðinu (EES) og reglur um skipulagningu og háttsemi verðbréfamiðstöðva til að stuðla að öruggu, skilvirku og snurðulausu uppgjöri. Ákvæði IV. kafla laganna byggja á sambærilegum ákvæðum eldri laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997, sem féllu úr gildi við samþykkt laga nr. 7/2020. Þau fjalla um eignarskráningu (skráningu réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð) og þá réttarvernd sem hún felur í sér.

Markmið reglugerðarinnar er að kveða nánar á um grundvöll og framkvæmd eignarskráningar í skilningi laga nr. 7/2020, réttindi og skyldur þátttakenda í verðbréfamiðstöðvum að því er hana varðar, stofnun reikninga og innköllun í því skyni að afmá réttindi yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð eða ógilda áþreifanlega fjármálagerninga vegna rafrænnar útgáfu þeirra í verðbréfamiðstöð.

Drögin voru undirbúin af dr. Andra Fannari Bergþórssyni, dósent við Háskólann í Reykjavík, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Byggt var á grunni eldri reglugerðar um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð, nr. 397/2000 (m.áo.br.), og horft til norrænna fyrirmynda um uppbyggingu.

Helstu breytingarnar og/eða nýmæli sem felast í drögunum eru eftirfarandi:

• Umfang reglugerðarinnar er minnkað töluvert, sem er í samræmi við fyrirkomulag á Norðurlöndum eftir gildistöku CSDR.

• Leitast er við að lýsa ferlinu við eignarskráningu og þeirri réttarvernd sem hún hefur í för með sér með skýrari hætti og í samræmi við framkvæmdina í dag.

• Hafa ber í huga að skilgreining á hugtakinu eignarskráning hefur verið þrengd, frá því sem var í eldri lögum og reglugerð, og er nú svohljóðandi: „Skráning réttinda yfir rafbréfum í verðbréfamiðstöð“ (sbr. 4. gr. laga nr. 7/2020). Um útgáfu rafbréfa í verðbréfamiðstöð fer samkvæmt ákvæðum CSDR.

Við undirbúning reglugerðarinnar kom til skoðunar hvort tilefni væri til að minnka kröfur til fyrirkomulags við innköllun áþreifanlegra hlutabréfa og annarra fjármálagerninga í tengslum við rafræna útgáfu í verðbréfamiðstöð, en í 14. gr. laga nr. 7/2020 er vísað beint í kröfur 13. gr. laganna (Lögbirtingablað og þriggja mánaða innköllunarfrestur). Ákvæði V. kafla reglugerðardraganna endurspegla þetta, enda krefðist önnur nálgun breytinga á gildandi lögum. Sjónarmið óskast frá umsagnaraðilum, að því er mögulega breytingu á 14. gr. laganna varðar.

Reglugerðin verður sett með heimild í 1.-4. og 6. tölul. 31. gr. og 13.-14. gr., laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaðar

fjr@fjr.is