Umsagnarfrestur er liðinn (02.12.2022–08.12.2022).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Þátttakendum í þessu samráðsferli var þó heimilt að óska eftir því að efni umsagnar og nafn sendanda birtist ekki í gáttinni.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Lagaumgjörð sem skapar farveg fyrir einstaklinga sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða vegna misgjörða af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila á þeirra vegum til að fá greiddar sanngirnisbætur.
Fyrirhugað er að setja heildarlög um sanngirnisbætur þar sem einstaklingar sem orðið hafa fyrir varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt vegna illrar meðferðar eða ofbeldis sem þeir hafa orðið fyrir vegna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila hjá stofnunum ríkisins eða sveitarfélaga eða af hálfu einkaaðila á grundvelli ákvörðunar eða samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi samkvæmt lögum eiga rétt til greiðslu sanngirnisbóta.
Gert verður ráð fyrir að umsóknir séu sendar til dómsmálaráðuneytisins sem yfirfari umsóknir m.t.t. þess hvort að þær uppfylli lágmarkskröfur. Matsnefnd sanngirnisbóta fái síðan umsóknir til meðferðar og gerir tillögur til sanngirnisbótanefndar um það hverjir eigi að fá bætur og hversu háar þær eigi að vera.
Komið sæl, það vill nú svo til að ég var bæði vistaður á barnaheimilinu Hjalteyri sem og einnig á Vöggustofu Thorvaldsen sem ungabarn og svipað átt við um sysktin mín
á vordögum 2022 áttum við nokkur sem tilheyrum hópi þeirra barna sem voru á Hjalteyri fund með Dómsmálaráðherra, þar sem við ræddum okkar mál og lögðum meðal annars fram örlitla greinargerð sem var allþokkalega rökum studd
Ekkert af því sem við lögðum áherslu á kemur fram í þessu frumvarpi og virðist sem skilningur á raunverulegri stöðu barna sem á þessum heimilium voru sé af skornum skammti sem og einnig skilningur á afdrifum þessa fólks
Ég sendi hér í viðhengi það plagg sem við lögðum fram við Dómsmálaráðherra, og óskum við eftir að það verði raunverulega haft til hliðsjónar, því það sem fram kemur í núverandi drögum frumvarps, er ekki á nokkurn hátt unnið af fólki með þekkingu á afleiðingum svona mála á líf fólks eftir svona dvöl,
Breytingar á upphæð bóta, auðvitað ættu bætur að miðast við sömu upphæð og áður verðbætta til þess að jafnræðis sé gætt en ekki lækkaðar um ca 6 milljónir að raunvirði, bara þessi þáttur er þvílík niðurlæging fyrir okkur börnin sem þarna voru og höfum við verið niðurlægð nóg
Annað er að á fundi með Dómsmálaráðherra var rætt um að hann beitti sér fyrir hlutum eins og aðgengi okkar sem vildum að sérfræðiþjónstu við hæfi til að takast á við það sem þessi dvöl olli okkur, ekkert er um það í frumvarpinu
Einnig er auðvitað galið að börn og aðstandendur þeirra sem látnir eru verði nánst alfarið hafðir útundan algjörlega í bága við það sem áður hefur verið
Það er þó einna alvarlegast að fólk þurfi að fara að kafa ofan í fortíðna, og þann sársauka sem þar er, mögulega með alvarlegum afleiðingur því þannig vinna þyrfti ef vel er að gáð að fara fram undir handleiðslu sérfræðings
vona að þetta plagg verði tekið til alvarlegrar skoðunar við gerð þessa frumvarps
mbk Steinar Immanúel Sörensson
ViðhengiLangflestir plumaðu sig aldrei vegna meðferðar á vöggustofu Hlíðarenda og finnast þeir ekki getað samsamað sig við aðra, finnast annað fólk ekki vera af sömu tegund ,heldur einhverjar dýrategund sem ég átta mig ekki á, 3 milljónir fyrir að eyðileggja líf þessara barna finnst mér vera skömm
Þetta er sannarlega skref aftur á bak alla leið til þeirra tíma sem börn,gamalmenni og fátæklingar voru verðlaus með öllu nema ef hægt var að nota það við vinnu.
Þetta er engin framkoma við þá sem vorum sett á vöggustofu án þess að við gætum rönd við reist svona lítil saklaus börn og hvítvoðungar.
Mörg okkar eru sködduð fyrir lífstíð og margir farnir sem má rekja til erfiðrar æsku sem ungabörn
Það er ekki eins og bótafjárhæðir útaf ýmsum stofnunum hafi verið svimandi háar fyrir. Núna eiga 3 millj. að vera hámark, engar bætur til erfingja og girt fyrir alla frekari möguleika á upptöku bótamála og það án vitneskju um hvað gekk á á þeim stofnunum sem hafa ekki verið rannsökuð og afleiðingum af því. Það er mikil afturför ef þetta nær í gegn, ekki bara vegna 50% lækkunar á hámarks bótafjárhæð á sama tíma og allar vísitölur eru að snarhækka heldur líka vegna afnemingar á mögulegum bótum til erfingja þeirra sem hafa fallið frá, sum jafnvel fyrir eigin hendi vegna afleiðinganna og eftir sitja börn og barnabörn réttlaus.
Vona að þetta frumvarp fái ekki ssmþykki
Þetta frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, er klætt í þann búning og auglýst að það sé til bóta. Tekið er undir að lögin muni ná utan um það fólk sem varð fyrir skaða vegna ofbeldis eða misréttis á smærri vistheimilum en hefur hingað til lent á milli stafs og hurðar. Einnig er tekið undir að til bóta er að löggjöfin muni veita rýmri tímamörk en núverandi löggjöf sem nær einungis til brota sem framin voru til 1. febrúar árið 1993. Þar með er allt jákvætt í frumvarpinu upptalið því önnur atriði eru afturför og í raun ískaldar kveðjur til vistheimilabarna. Höfundar frumvarpsins skáka í skjóli þess að fyrirkomulagið sé með líkum hætti í Noregi. Þó að skapalónið sé ættað frá frændum vorum í Noregi þá er ekki þar með sagt að það sé til fyrirmyndar. Öðru nær eins og athugasemdir sem hér fylgja bera með sér. Það má nefna í þessu sambandi að bætur í Noregi eru mun hærri en lagt er til í frumvarpinu.
„Ekki eru greiddar sanngirnisbætur vegna varanlegs skaða einstaklinga sem stafar af athöfnum eða athafnaleysi opinberra aðila og einkaaðila skv. 1. gr. sem tengjast almennum atburðum sem snertu marga. Þar geta fallið undir m.a. náttúruhamfarir, hópslys og farsóttir.“
Þessi efnisgrein er með ólíkindum og dæmir sig í raun sjálf en það er rétt að velta henni aðeins fyrir sér. Þarna er allri ábyrgð af varanlegum skaða, sem börn urðu fyrir á meðan yfirvöld báru ábyrgð á velferð þeirra, varpað frá sér með furðulegum rökum. Það er fáránlegt að leggja að jöfnu skaðlega meðferð á börnum og „náttúruhamfarir, hópslys og farsóttir“ sem enginn ræður við. Afleiðing skaðlegrar meðferðar á börnum er því afgreitt sem hvert annað náttúrulögmál sem enginn ber ábyrgð á. Þetta er snautleg leið til að fría sig ábyrgð svo ekki sé meira sagt. Hafa ber í huga að yfirvöld ákváðu fyrirkomulag á vistheimilum og aðhöfðust ekki, jafnvel áratugum saman, þrátt fyrir ábendingar og vitneskju um skaðlega starfshætti. Þetta hefur verið staðfest í mikilvægum rannsóknum Vistheimilanefndar og þar er ábyrgð yfirvalda óumdeild. Hörmuleg meðferð á vistheimilabörnum var mannanna verk — fólks er starfaði fyrir yfirvöld og í skjóli þeirra. Í skýrslu Vistheimilanefndar er ábyrgð yfirvalda í þessum efnum dregin fram: „Sem fyrr er ljóst að mati nefndarinnar að verulegir annmarkar voru í ýmsum tilvikum á málsmeðferð og ákvörðunartöku stjórnvalda þegar teknar voru ákvarðanir um vistun barna á þessar stofnanir, hvort sem er af hálfu barnaverndarnefnda og fræðsluyfirvalda, og opinberu eftirliti.“
Hingað til hafa opinberar rannsóknir og skýrslur legið til grundvallar ákvörðunum um sanngirnisbætur en skv. frumvarpinu verður grundvallarbreyting þar á: „Í umsókn skulu koma fram helstu ástæður þess að einstaklingur telur sig eiga rétt til sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum. Þá skal umsækjandi, eins og kostur er, leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, þar á meðal læknisvottorð og vitnisburði einstaklinga.“ Hafa ber í huga að mörg fyrrum vistheimilabörn hafa ekki uppurð í sér til sækja rétt sinn, jafnvel þó kveðið sé á um einhverja aðstoð. Það blasir við að með þessu fyrirkomulagi munu margir aldrei fá þær bætur sem þeim ber og einhverjar krónur munu sparast í ríkissjóði með því.
„Aðstandendur og eftirlifandi ættingjar einstaklinga sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi vegna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila eða einkaaðila skv. 1. gr. eiga ekki rétt til sanngirnisbóta...“
Þetta ákvæði er sorglegur vitnisburður um sáttavilja og sanngirni stjórnvalda enda er það smánarlegt. Eðli málsins samkvæmt eru fjölmargir úr hópi vistheimilabarna fallnir frá. Sá skaði sem þessi börn urðu fyrir í umsjón yfirvalda var varanlegur og olli því að fjölmörg þeirra misstu fótanna. Stór hluti þessara barna glímdi síðar við slæma líkamlega heilsu, geðraskanir og þá var áfengis- eða fíkniefnaneysla áberandi í þessum hópi vegna tilfinningalegs sársauka sem reynt var að líkna. Þá hafa sjálfsvíg í þessum hópi verið óvenju algeng. Af þessu leiðir að meðalaldur fyrrum vistheimilabarna er mun lægri en almennt gerist og því eru mörg þeirra fallin frá. Ábyrgð yfirvalda á þessum ótímabæru dauðsföllum er óumdeild enda báru þau ábyrgð á velferð barnanna á sama tíma og þau voru eyðilögð. Ég var sjálfur á vistheimilum meira og minna til 16 ára aldurs. Á þeim tíma tíma kynntist ég fjölmörgum börnum sem voru í sömu stöðu. Nokkur þeirra, sérstaklega strákarnir, fóru að týna tölunni strax á unglingsaldri og nú er svo komið að þeir eru flestir látnir. Samkvæmt frumvarpinu skipta hinu látnu engu máli og teljast ekki með enda eiga bætur þeirra að falla dauðar niður. Í því sambandi verður mér hugsað til látinna vina minna, meðal annarra þeirra Hrafns Jökulssonar og Fjölnis Geirs Bragasonar sem börðust fyrir réttlæti fyrir vöggustofubörn. Það er skammarleg lágkúra að greiða ekki bætur látinna til barna þeirra eða eftir atvikum til annarra aðstandenda. Hafa ber í huga að börn og fjölskyldur liðu einnig fyrir þá meðferð sem hinu látnu hlutu í æsku er yfirvöld báru ábyrgð á velferð þeirra. Að stjórnvöld ætli sér að spara ríkissjóði óverulegar fjárhæðir með því svipta hina látnu réttmætum bótum talar sínu máli um sanngirni og sáttavilja stjórnvalda. Þessu smánarlega ákvæði verður að breyta og ég trúi ekki öðru en að höfundar frumvarpsins sjái sóma sinn í því að gera það skilyrðislaust.
Í dag eru í gildi lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn. Kemur þar fram að bætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en sex milljónir króna en hámarkið breytist á hverju ári miðað við vísitölu neysluverðs. Samkvæmt frumvarpinu á að lækka þessa upphæð um helming eða í þrjár milljónir króna. Venjan hefur verið sú að greiða vistheimilabörnum hlutfallsbætur miðað við þann tíma sem þau voru vistuð á stofnunum. Ef hámarksbætur verða þrjár milljónir kr. þá blasir við að flestir munu fá sanngirnisbætur sem nemur aðeins einum til þremur meðalmánaðarlaunum.
„Sanngirnisbætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en þrjár millj. kr. enda er þeim ekki ætlað að bæta fjárhagslegt tjón einstaklinga að fullu.“
Það er auðvitað rétt að það tjón sem vistheimilabörn urðu fyrir, hvort heldur fjárhagslegt eða annað í víðum skilningi, verður aldrei bætt sama hvað krónutalan yrði há. En að lækka hámark sanngirnisbóta úr sex milljónum kr. í þrjár milljónir kr. er skammarlegt. Í því felst helmingi minni sanngirni í garð þeirra vistheimilabarna sem verða ofurseld þessum lögum.
„Þá er sett hámark á fjárhæð sanngirnisbóta sem endurspeglar að ekki er um að ræða fullnaðarbætur vegna liðinna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila eða einkaaðila sem fela einkum í sér viðurkenningu á misgjörð opinberra aðila og einkaaðila.“ Þetta endurspeglar helmingi minni viðurkenningu á misgjörðum opinberra aðila og einkaaðila í garð þeirra vistheimilabarna sem verða ofurseld þessum lögum.
Síðan segir „svo rétt sé að veita viðkomandi lágmarksbætur til viðurkenningar á misgjörð sem getur hjálpað þeim sem fyrir verða að sættast við orðinn hlut og ná þeim bata sem mögulegur er miðað við aðstæður.“ Sem sagt þá á að hjálpa fyrrum vistheimilabörnum að sætta sig við orðinn hlut, allan skaðann, og ná bata fyrir helmingi lægri upphæð en áður. Ég bið höfunda frumvarpsins um að hafa í huga hvaða skilaboð er verið senda með slíkri gjaldfellingu á þeim skaða sem yfirvöld ollu vistheimilabörnum.
„Þannig verði almennt horfið frá þeim einstöku, umfangsmiklu og tímafreku rannsóknum sem hafa hingað til verið grundvöllur greiðslu sanngirnisbóta og þess í stað mælt fyrir um almennan og um leið einstaklingsbundinn farveg fyrir slík mál.“
Þetta ákvæði er mesta afturförin í frumvarpinu og ber með sér algjört skilningsleysi á mikilvægi þess að rannsaka söguna — gera upp fortíðina. Með því móti má læra af sögunni enda hefur hún tilhneigingu til að endurtaka sig. Því miður eru enn að koma upp ljót mál í tengslum við vistun barna og skv. þessu ákvæði munu þau vistheimilamál sem koma upp í framtíðinni liggja í þagnargildi. Hvaða skilaboð felast í því að hætta eigi að rannsaka vistheimili? Í mínum huga felast í þeim að misgjörðir ábyrgra aðila gagnvart vistheimilabörnum skipta ekki lengur eins miklu máli. Að sama skapi skiptir sú sorgarsaga ekki nógu miklu máli til að vera sögð.
Vistheimilanefnd var ljóst mikilvægi þess að rannsaka áfram illa meðferð á vistheimilabörnum. Í niðurlagi þriðju áfangaskýrslu nefndarinnar segir: „Með allt þetta í huga telur vistheimilanefnd að sannfærandi rök standi til þess að til framtíðar sé leitast við að viðhalda fyrirkomulagi sem geri það kleift að kanna frásagnir af því tagi sem þegar hafa komið fram, sbr. kafli 1.1 hér að framan, um að börn hafi sætt illri meðferð og ofbeldi á öðrum stofnunum og heimilum en þeim sem þegar hafa hlotið umfjöllun af hálfu vistheimilanefndar.“ Jafnframt benti nefndin á mikilvægi þess „hvaða lærdóm mætti draga af niðurstöðum könnunar og gera tillögur sem ætlað væri að koma í veg fyrir að brotinn verði réttur á börnum í opinberri forsjá.“ Til þess að svo megi verða þá er bráðnauðsynlegt að rannsaka vistheimili áfram með sama hætti og verið hefur.
Ekki liggur ljóst fyrir hver sé raunverulegur hvati að þeirri ákvörðun að hætta rannsóknum á vistheimilum. Þó má greinilega sjá að sparnaður spilar þar inn í: „Þó má búast við að þar sem gert er ráð fyrir að hámarksbótafjárhæð sé óveruleg og þar sem ekki verður í sama mæli þörf á stórum, tímafrekum og fjárhagslega dýrum rannsóknum varðandi tiltekna hópa, verði kostnaður í lágmarki. Þannig er gert ráð fyrir að hámarksbætur til einstaklinga séu þrjár millj. kr. en í mörgum tilvikum verður um lægri bótafjárhæð að ræða að álitum.“
Fátt ef nokkuð segir einmitt meira um samfélag en meðferð þess á börnum. Skýrslur Vistheimilanefndar afhjúpuðu skelfilega meðferð á vistheimilabörnum og þar með samfélagið á hverjum tíma sem lét sér misgjörðirnar í léttu rúmi liggja. Nú bendir allt til þess að þetta frumvarp muni girða fyrir opinberar rannsóknir á vistheimilum. Því munu ýmis konar misgjörðir á börnum sem hafa viðgengist aldrei verða afhjúpaðar og því ómögulegt að læra af þeim.
Sem fyrr segir þá er þetta frumvarp að mestu leyti afturför og sum ákvæði í því eru skammarleg. Bætur verða smánarlegar en þær skipta auðvitað miklu máli þar sem í þeim felst viðurkenning og sættir. En svo lágar bætur eru niðurlægjandi enda munu þær almennt aðeins nema einum til þremur meðalmánaðarlaunum. Að svipta börn og aðstandendur látinna einstaklinga réttmætum bótum er lítilmannleg leið til að spara ríkissjóði einhverjar krónur — þetta er í raun óviðfelldið og ljótt ákvæði. Mikilvægast er að rannsaka áfram og afhjúpa óboðlega meðferð á vistheimilisbörnum samfélaginu til heilla. Ég trúi ekki öðru en að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi sómakennd sem leiði til þess að hún hafi frumkvæði að því að leiðrétta frumvarpið og sýna þar með raunverulegan sáttavilja og sanngirni.
Ég vil mótmæla því að bætur til hinna látnu falli niður því afkomendur þeirra hafa einnig hlotið miska sem ríkið/sveitafélög bera ábyrgð á, það sýnir skilningsleysi á málinu að halda öðru fram. Ég mótmæli því einnig að hámarksbætur verði
3 000 000, svona lágar bætur (mánaðarlaun ráðherra) eru yfirlýsing um að líf þessa fólks sé lítils virði og að ríki og sveitafélög beri í raun enga ábyrgð.
Ég get ekki orða bundist vegna þessa frumvarps og ekki trúi ég því að hinn almenni þingmaður á Alþingi Íslendinga samþykki frumvarpið. Síst af öllu trúi ég því að þetta frumvarp eins og það lítur út núna, sé yfirleitt sett fram. Það er hins vegar orðin staðreynd og við því þarf að bregðast. Það er margt sem stingur í augu, til dæmis það að; "Ekki eru greiddar sanngirnisbætur vegna varanlegs skaða einstaklinga sem stafar af athöfnum eða athafnaleysi opinberra aðila og einkaaðila skv. 1. gr. sem tengjast almennum atburðum sem snertu marga. Þar geta fallið undir m.a. náttúruhamfarir, hópslys og farsóttir". Það er ljóst að samkvæmt þessu er varnarlausum börnum fyrri tíma er ekki gert hátt undir höfði og það má spyrja sig að því hvort meðferð barna á umræddu tímabili á vistheimilum ríkis og bæja, hafi hreinlega verið "hópslys" af þeirra hálfu. Í dag eru mörg hundruð manns enn að glíma við afleiðingar af veru sinni á vistheimilinum/vöggustofum. Undirrituð er ein þeirra. Rannsókn á starfssemi vistheimila/vöggustofa er nauðsynleg til að fá heildarmynd af því sem gerðist og því sem fór úrskeiðis. Einnig er rannsókn á afdrifum þeirra sem á vistheimilunum/vöggustofum dvöldu ekki síður nauðsynleg. Sú rannsókn er nauðsynleg til að draga fram í dagsljósið þær afleiðingar sem dvöl á vistheimili/vöggustofum hafði á börnin eftir að þau urðu fullorðin. Sanngirnisbætur sem lagðar eru til í umræddu frumvarpi verða aldrei annað en hjóm eitt á meðan niðurstöður rannsóknar á afdrifum barnanna og afleiðingum af dvölinni liggur ekki fyrir. Mér er ómögulegt að skilja lækkun sanngirnisbóta frá því sem núgildandi lög kveða á um. Mér er líka ómögulegt að skilja að höfundar þessa frumvarps ætli sér ekki að standa í lappirnar og sigla þessu máli heilu í höfn. Forsendur þess að lækka sanngirnisbætur um helming standast ekki að mínu mati. Ég sé ekki að hægt sé að gjaldfella afleiðingarnar með þessum hætti án þess að það sé rannsaka eitt né neitt. Ég vil trúa því að rannsókn leiði í ljós sannleikann og opni augu þeirra sem eru með þau lokuð núna. Þetta eru kaldar kveðjur til alls þess fólks sem hefur burðast með afleiðingar af dvöl sinni á vistheimilum/vöggustofum í gegnum lífið. Ég leyfi mér að segja að frá Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, þá átti ég ekki von því að svona liti frumvarpið út þegar það liti dagsins ljós.
Eftir að hafa lesið þessi drög að frumvarpi um sanngirnisbætur get ég ekki annað samviskunnar vegna en sent eftirfarandi athugasemdir.
1.gr.
Í grunninn er það siðferðilega rangt í mínum huga að sá aðili (ríkið) sem greiða þarf sanngirnisbætur fyrir að valda varanlegum skaða á einstaklingum eins og það er orðað í 1.gr. skuli sjálft setja um það reglur og ákveða þak á bótaupphæðina. Það hlýtur að brjóta gegn þrískiptinu valds að aðilinn sem þarf að greiða bæturnar setji sjálfur þak á upphæðina og semji lögin um réttinn til bóta.
2.gr.
Það er sorglegt að ríkið leifi sér að fría sig frá því að greiða sanngirnisbætur til þeirra sem hafa hlotið varanlegan skaða ef það tengist almennum atburðum sem snertu marga m.a. náttúruhamfariri, hópslys og farsóttir. Höfum hér í huga að hópslys getur stafað af gáleysi starfsmanns á marga mögulega vegu og þá er ríkið hér með búið að fría sig ábyrgð. Barátta við farsóttir eru einnig undir stjórn stofnunar á vegum ríkisins og ber þar ríka ábyrgð á því hvernig til tekst að verjast farsóttum, Börn sem er safnað saman á vöggustofu á vegum ríkisins hafa enga möguleika á að verjast hópslysum eða farsóttum. Ábyrgð umsjónaraðila barna er alger hvort sem það er ríkið eða einhver annar og það er ekki boðlegt að gerðar séu undantekningar á þeirri ábyrgð á nokkurn hátt.
Það er ekki boðlegt að erfingjar eigi ekki rétt á þeim bótum sem ríkið hefur dregið að greiða út til brotaþola í áratugi og beðið þar til fjölmargir þeirra eru fallnir frá og sumir fyrir eigin hendi vegna afleiðinga af illri meðferð. Varanlegur skaði á einstakling hefur þannig oft bein áhrif á aðstandendur og afkomendur. Það eru fordæmi til dæmis í Guðmundar og Geirfinssmálinu að bætur voru greiddar út til erfingja . Það er ekkert sem getur réttlætt það að bætur fyrir illa meðferð á öðrum stofnunum séu ekki greiddar á sama hátt til erfingja. Hér má ekki mismuna fólki á þennan hátt eftir því hversu fræg málin eru eða eftir því hversu spennandi er fyrir fjölmiðla að fjalla um þau. Jafnt skal yfir alla ganga, ill meðferð hefur sömu áhrif á fólk óháð stétt og stöðu.
3.gr.
Það er alls ekkert sem réttlætir þetta 3milljóna þak á bótafjárhæð fyrir illa meðferð á börnum óháð alvarleika brota og árafjölda sem brotin eru endurtekið framin. Lög nr.47 2010 um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum fyrir fötluð börn eru nú orðin 12 ára gömul og þá var hámarksupphæð bóta 6milljónir og bundin vísitölu neysluverðs og er því nærri 9,5 milljónum í dag. Í Guðmundar og Geirfinnsmálinu voru greiddar út 350 milljónir fyrir einn einstakling sem var fallinn frá og öll sú upphæð fór til erfingja. Það er engin sanngirni í því að takmarka bætur fyrir illa meðferð á börnum þetta langt undir öðrum bótum sem hafa verið greiddar út og fría sig frá því að greiða bæturnar til erfingja ef viðkomandi brotaþoli hefur fallið frá á einhverjum af þessum áratugum sem liðnir eru frá brotunum. Þessi upphæð er smánarleg þegar talað er um að verið sé að leita sátta vegna varanlegs skaða á einstaklinga sem opinberar stofnanir eða einkaaðilar bera ábyrgð á.
Þessi gjörningur gerir ekkert til þess að ná sáttum við þá sem hafa þurft að berjast við afleiðingar illrar meðferðar á stofnunum. Þetta vekur aftur á móti upp reiði og vanvirðingu gagnvart yfir völdum og þeim sem leggja til þvílíka gengisfellingu á skaðsemi illrar meðferðar með þessum drögum að frumvarpi.
4.gr.
Í því máli sem nú er til rannsóknar hjá vöggustofunefnd hefur nefndinni verið veitt víðtæk heimild til að sækja öll möguleg og persónulega viðkvæm gögn. Einstaklingar sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðfeðar, frumvarpið snýst jú um þann hóp, er misjafnlega vel undir það búinn að fara að rifja upp alla sína hörmungar sögu og safna gögnum, vitnisburði og standa í því að fylla út umsóknir sem oft á tíðum getur verið frekar flókið ferli, það er hreinlega ekki fyrir alla að standa í slíku án nokkurrar aðstoðar. Ef það er raunverulegur vilji hjá ríkinu að leita sátta þá eru eflaust margir þolendur sem þurfa raunverulega aðstoð við svona umsóknarferli og gagnasöfnun. Það eru ekki allra að standa í því að fylgjast með öllum nýjustu lögunum sem eru sett á alþingi og þaul lesa lögbyrtingarblaðið á hverjum morgni til að fylgjast með hvort opnað hafi verið fyrir umsóknir um bætur fyrir illa meðferð sem það var fyrir fyrir mörgum áratugum.
7.gr.
Hér er sagt að ákvarðanir sanngirnisbótanefndar séu endanlegar á stjórnsýslustigi.
Hér vísa ég aftur í Guðmundar og Geirfinnsmálið, því að þótt málin séu ólík þá eiga þau það sameiginlegt að snúast um bætur fyrir illa/rangláta meðferð. Í lögum um greiðslu bóta fyrir það ranglæti sem þar var í gangi er tekið fram að þær greiðslur bóta sem í því máli voru greiddar út og numu tugum og hundruðum milljóna á hvern einstaling, kæmu ekki í veg fyrir að bótaþegar geti höfðað sérstakt bótamál fyrir dómstólum til heimtingu frekari bóta.
Þessi mismunun á réttindum til frekari málshöfðunar sem hér er lagt til að verði að lögum er ekki boðleg fyrir fólk sem hefur orðið fyrir varanlegum skaða líkamlegum og/eða andlegum , vegna illrar meðferðar sem börn, unglingar eða fullorðnir.
Ef hugur og tilgangur forsætisráðuneytisins er að leita sátta við þann hóp sem nú er að berjast fyrir réttlæti fyrir illa meðferð þá skal gæta jafnræðis og ekki girða fyrir að aðrir þolendur illrar meðferðar geti höfðað sérstakt bótamál fyrir dómstólum til heimtingu frekari bóta.
Alþingi Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 8. desember 2022
Efni: Umsögn Brynju Skúladóttur um frumvarp til laga um sanngirnisbætur. Mál nr. 240/2022
Eftirfarandi er umsögn mín um frumvarp forsætisráðherra um sanngirnisbætur.
Ég lýsi miklum vonbrigðum með fyrirliggjandi frumvarp og er það mín ósk að löggjafarvaldið endurskoði það.
3. gr.
Í þriðju gr. frumvarpsins er kveðið á um að hámarksupphæð sanngirnisbóta verði þrjár milljónir króna. Árið 2010 voru hámarksbætur 6 milljónir sem væru tæpar 9,5 milljónir í dag samkvæmt verðlagsreiknivél Seðlabanka Íslands
Sú lækkun sem nú er lögð til niður í þrjár felur því í sér 318% lækkun sanngirnisbóta frá árinu 2010. Það er lítil sanngirni í þessari breytingu sem er í engu samræmi við þann skaða sem vistun á stofnunum olli börnum og endurspeglar mat höfunda frumvarpsins á því ofbeldi sem börn urðu fyrir.
Mörg af þeim sem vistuð voru á ýmsum stofnunum hafa aldrei náð að fóta sig í lífinu og hafa átt erfitt uppdráttar. Aldrei er hægt að bæta fyrir þann skaða sem var hlýst af vanrækslu og ofbeldi í æsku en í bótum felst ákveðin viðurkenning og vilji til sátta.
Hið hríðfallandi gengi sanngirnisbóta sendir ákveðin skilaboð og ég velti því fyrir mér hvort höfundar frumvarpsins geri sér grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar stofnanavistun á t.d. Varpholti/Laugalandi hefur haft í för með sér. Gengisfelling sanngirnisbóta er hindrun á leið til réttlætis gagnvart fv. vistfólki, börnum þeirra og aðstandendum látinna vistmanna sem öll hlutu skaða, beint eða óbeint, ósanngjörn og órökstudd.
Rannsóknir á ofbeldi
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum kemur fram að lögð er til sú breyting að horfið sé „frá þeim einstöku, umfangsmiklu og tímafreku rannsóknum sem hafa hingað til verið grundvöllur greiðslu sanngirnisbóta og þess í stað mælt fyrir um almennan og um leið einstaklingsbundinn farveg fyrir slík mál.“
Undirrituð lýsir sig algjörlega mótfallna þessari breytingu.
Mjög mikilvægt að rannsaka það ofbeldi sem börn urðu fyrir á vistheimilum hins opinbera. Íslenska ríkið þarf að taka fulla ábyrgð á því sem gerðist og veita brotaþolum tækifæri til þess uppgjörs sem felst í góðum rannsóknum á ofbeldinu og er það mikilvægur liður í réttlætisferlinu ekki síður en fébætur. Rannsóknir á hugmyndum þolenda um réttlæti benda eindregið til þess að sú viðurkenning sem fæst í gegnum rannsóknir og úttektir á stofnunum sem valdið hafa einstaklingum skaða geti verið, ef rétt er á málum haldið, mikilvægur þáttur í réttlætis- og heilunarferlinu.
Í fyrirliggjandi rannsóknum kemur skýrt fram að hið opinbera brást stórlega með aðgerða- og eftirlitsleysi sínu. Nauðsynlegt er að ofbeldið sé viðurkennt og skrásett og það eru fráleit rök að sleppa rannsóknum vegna þess að þær eru tímafrekar og fjárhagslega dýrar. Við þurfum að gera upp fortíðina, læra af henni og hlusta á þolendur til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Hingað til hafa sanngirnisbætur verið byggðar á rannsóknum og skýrslum sem hafa verið gerðar en með þessu frumvarpi er lagt til að umsækjendur skili sjálfir inn gögnum og vitnisburðum sem styðja þeirra frásögn. Margt af því fólki sem frumvarpið fjallar um er jaðarsett og margir hafa ekki bolmagn til erindisrekstur hjá hinu opinbera enda á það ekki að vera í þeirra verkahring. Með þessu er verið að takmarka þann hóp sem mun geta sótt sér um bætur og varpa að vissu leyti ábyrgð yfir á þolendur kerfisins.
Að lokum geri ég athugasemd við að hvergi sé minnst á félagslegan né sálfræðilegan stuðning.
Ég tel þetta frumvarp mikla afturför í þessum málaflokki og að í því birtist skilnings- og ábyrgðarleysi gagnvart uppgjöri við fortíðina, sem hið opinbera ber ábyrgð á. Undanfarið hefur verið fjallað opinberlega um vistheimilið að Laugalandi/Varpholti og er nýútkomin skýrsla um það mál sem gerðist í óþægilega nálægum samtíma. Við eigum því miður enn langt í land með að tryggja mannréttindi fólks á stofnunum en með því að hætta rannsóknum er verið að loka augunum fyrir því að þessi saga er búin að endurtaka sig aftur og aftur. Einnig er hætta á því að margt af því fólki sem sannarlega ætti rétt á sanngirnisbótum treysti sér ekki í einstaklingsbundna sönnunarfærslu í sínu máli og að réttlætið muni því aldrei rata til þeirra.
Með þessum fyrirætlunum virðast stjórnvöld við fyrstu sýn vera að stíga skref í átt til aukins siðgæðis og sanngirni frá því sem hingað til hefur einkennt viðbrögð hins opinbera við þolendum ríkisofbeldis. Útfærslan sem hér er lögð til – stofnun tveggja stjórnsýslunefnda til að taka við beiðnum um bætur þegar önnur úrræði hafa verið tæmd – virðist þannig geta virkað sem mótefni gegn þeirri pólitísku stefnu sem rekin er af öðrum valdastofnunum ríkisins, einkum ríkislögmanni og saksóknurum. Forsætisráðherra hefur sjálf talað um að „hefðbundið“ sé í íslensku stjórnarfari að grípa til ýtrustu varna þegar þolendur ríkisofbeldis eða ranglætis reyna að sækja sinn rétt [1]. Forsætisráðuneytið þekkir það jafnframt úr eigin bókhaldi að engu er til sparað þegar verjast þarf fyrir dómi kröfum þolenda um sannleik og réttlæti. Þó hefur umboðsmaður Alþingis bent á – og núverandi forsætisráðherra verið minnt á það álit hans – að þó að lagatæknileg rök á borð við fyrningu eigi við þegar ríkið grípur til sinna varna (eða eftir atvikum sóknar) er ekkert í lögum sem skyldar ríkið til að velja þá leið [2]. Það var því ágætlega að orði komist hjá forsætisráðherra að um „hefð“ væri að ræða. Svona hefur þetta sem sé verið í hennar ráðherratíð og svona mun þetta eflaust vera áfram. Mætti því ætla að talsverð framför felist í að eðlilegum og réttlátum kröfum þolenda ríkisins sé fundinn annar vettvangur, fastur og almennur, fjarri þeirri átakamenningu sem gegnsýrir áðurnefndar stofnanir.
Innihald og umfang þessa nýja vettvangs þyrfti þó að skýra betur. Það vekur forvitni að ritarar þessara textadraga minnast ekki á þolendur lögreglu og stofnana réttarvörslukerfisins, að undanskildu einu orði um fangelsi sem stofnanir þar sem ofbeldi hefur hugsanlega verið beitt. Ætlar forsætisráðuneytið sér með þessu kannski einmitt að flokka ofbeldi – og vanrækslu – lögreglu áfram sem lögmætt og nauðsynlegt ofbeldi, og undirstrika þannig sérstöðu hennar í samanburði t.d. við aðila sem eiga að veita heilbrigðis- eða velferðarþjónustu?
Skoðum í því samhengi 5. mgr. 2. gr. sem fjallar um réttleysi aðstandenda þolenda. Sú grein yrði sérstaklega ósanngjörn ef lögreglan væri líka hér undir. Hvað ætti t.d. að gera við umsóknir aðstandenda þeirra sem hafa horfið og lögregla framkvæmt lélegar rannsóknir, eða framganga hennar við rannsóknir valdið aðstandendum miska [3]? Hvað þá um aðstandendur þeirra sem hafa verið drepnir af lögreglu [4], eða aðstandendur þeirra sem lifa það ekki að fá mál sín endurupptekin og sýknað í? Allt eru þetta dæmi um mál sem koma til hugar í fljótu bragði og eru afar ólíkleg til að ná fram bótum eftir hefðbundnum leiðum íslensks réttarkerfis í ljósi þeirrar hörðu átakastefnu sem stjórnvöld reka og þeirrar spillingarhættu sem enn er til staðar hjá lögreglunni skv. t.a.m. nýlegri úttekt GRECO [5]. Allt ættu þetta því að vera dæmi um mál sem þær almennu nefndir, sem nú á að leggja grunn að, ættu að geta tekið fyrir, en virðist ekki vera gert ráð fyrir í þeim drögum sem hér liggja fyrir.
Sem aðstandandi þolanda hvers lögerfingjar hafa, eftir áratugi af harkalegum og niðurbrjótandi átökum baráttufólks við ríkisvaldið, fengið greiddar bætur fyrir ríkisofbeldi vil ég sérstaklega fagna 4. gr. um gagnaöflun við umsóknir, þar sem áhersla er lögð á söfnun vitnisburða. Með þessu sýnist mér að dreginn hafi verið ákveðinn lærdómur og skilningur aukist frá því sem áður var. Eins og ráðuneytinu er kunnugt um fór ég, og mín fjölskylda, fram á við svokallaða „sáttanefnd“ um Guðmundar- og Geirfinnsmál, sem forsætisráðherra setti á stofn haustið 2018, að farið yrði vel ofan í einmitt m.a. reynslu og upplifun annarra aðstandenda í því augnamiði að fá heildstæða mynd af afleiðingum ofbeldisins á þolendur og aðstandendur. Þetta var sem sé ekki gert, en með því að sniðganga fólk um að fá að tjá sig, sem vildi fá að tjá sig, fór ráðuneytið á mis við dýrmæt tækifæri til að leiða fram sannleik og sættir í því tiltekna máli.
Í drögum þessum er talsvert gert úr því að nefndirnar eigi sér norska fyrirmynd utan þess að ráðuneytið vill að þær verði stjórnsýslunefndir en ekki nefndir á vegum íslenska þingsins. Í þeim efnum eru rökleiðslur höfunda frumvarpsdraganna frekar óljósar. Án frekari raka er erfitt að fallast á að tíu opinberir starfsmenn á vegum opinberra stofnana og sjálfs forsætisráðuneytisins séu einhvern veginn betur í stakk búnir til að „tryggja að þeir einstaklingar sem falla hér undir fái bætur“, en nefnd sem heyrir undir þingið, sem er jú kjörið af fólkinu í landinu og verður að svara því. Óljósar og gildishlaðnar vangaveltur ráðuneytisins byggja ekki, að mér vitandi, á nokkrum raunverulegum, sögulegum dæmum. Dettur manni hér í hug að um sé að ræða, þegar allt kemur til alls, einhvers konar ótta um að nefndirnar, heyri þær undir þingið, fjarlægist miðju stofnanavaldsins um of. Óttinn er kannski sá að kjörnir stjórnmálamenn yrðu fúsari en ráðuneytin og stofnanirnar sjálfar til að vilja viðurkenna ranglæti sem stjórnvöld hafa þagað um eða þaggað niður. Í því samhengi leyfi ég mér að vísa hér að neðan í grein sem ég skrifaði sumarið 2021, um það hversu mikilvægur þáttur uppgjörsins við sögu ríkisofbeldis á Spáni það hefur verið að almenn stjórnmál létu sig loks þau mál varða [6]. Þá má ég líka til með að ítreka staðreynd sem oft hefur verið endurtekin – yfirleitt af grömum verjendum valdastofnananna – að það voru stjórnmálin og Alþingi sem drifu áfram uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Hefðu ráðuneytin og stofnanir réttarvörslukerfisins fengið sínu framgengt hefði fráleitt tekist að aflétta þeirri þöggun sem ríkti, og ríkir raunar enn á göngum Stjórnarráðsins og stofnana réttarvörslukerfisins, um það mál.
Miklu meira þarf að gera í þessum málaflokki en þetta. Ganga þarf úr skugga um að þessar nefndir – og allar aðgerðir í framtíðinni sem leitast við að bæta hag þolenda – verði til þess að auka þekkingu og skilning á fortíðinni, en ekki bara til að afgreiða óþægileg mál á skjótan hátt. Íhuga þarf vandlega hvernig mætti betur losa íslenskt stjórnkerfi og háskólasamfélag úr þeim viðjum mótþróa, þagnar, aðgerða- og úrræðaleysis þegar kemur að málaflokknum. Það mætti t.d. gera með hvötum innan háskólanna, sérstökum styrkjum til fræðimanna og nemenda þvert á fræðigreinar – enda hljóta að vera meiri líkur á að sjálfstæðir fræðimenn komist að raunsönnum niðurstöðum um ríkisofbeldi en lögfræðingar á snærum ráðuneyta eða annarra valdastofnana. Þá þarf að huga sem fyrst að breytingum á persónuverndarlögum sem ýmist torvelda eða banna rannsóknir fræðimanna á ýmsum gögnum ríkisins sem gætu gefið gleggri mynd af ríkisofbeldi fortíðar. Í málum sem þessum skýtur skökku við að persónuverndarsjónarmið veiti ríkisvaldinu skálkaskjól, og forði því sjálfu frá gagnrýnum augum og gagnrýnni meðferð. Þá þyrfti að vera skýrt að fræðimenn gætu fylgst með þessum nefndum og störfum þeirra í nálægri framtíð, ekki síst til að þær upplifi aðhald.
Að því sögðu bendi ég á samantekt sem ég afhenti forsætisráðherra á fundi 4. apríl 2019 um mögulegar aðgerðir sem stjórnvöld gætu sett á oddinn til að minnast arfleifðar ríkisofbeldis. Mér er ekki kunnugt um að nokkuð hafi verið gert við þetta plagg, en það verður einnig haft í viðhengi við þessa umsögn.
Í lokin skal tekið undir með öðrum umsögnum hér í Samráðsgátt um að þau skilaboð sem hin mikla almenna lækkun bóta, sem drög þessi kynna, sendir þolendum röng skilaboð.
[1] Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi þann 26. september 2019 um „ýtrustu varnir“ sem hefð: https://www.althingi.is/altext/raeda/150/rad20190926T104656.html
[2] Álit umboðsmanns Alþingis í máli Auðbjargar Reynisdóttur, máli nr. 7326/2013. Sjá: https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/2323/skoda/mal/. Sjá einnig bók Auðbjargar: Banvæn mistök í íslenska heilbrigðiskerfinu, frá árinu 2021.
[3] Grein Ingibjargar Daggar Kjartansdóttir um móður Birnu Brjánsdóttur: „„Ég get ekki lifað við þessa lygi““, í Stundinni þann 26. nóvember 2022. Sjá: https://stundin.is/grein/16192/eg-get-ekki-lifad-vid-thessa-lygi/
[4] Grein Jóns Þórs Stefánssonar um foreldra Heklu Lindar Jónsdóttur, „Vilja að einhver beri ábyrgð á andláti Heklu Lindar“, Fréttablaðið, 16. nóvember 2022. Sjá: https://www.frettabladid.is/frettir/vilja-ad-einhver-beri-abyrgd-a-andlati-heklu-lindar/ .
[5] GRECO, FIFTH EVALUATION ROUND. Preventing corruption and promoting integrity in central governments (top executive functions) and law enforcement agencies. SECOND COMPLIANCE REPORT. ICELAND https://rm.coe.int/fifth-evaluation-round-preventing-corruption-and-promoting-integrity-i/1680a93b8e (bls. 7).
[6] Tryggvi Rúnar Brynjarsson. „Í dal hinna föllnu“, Kjarninn, 16. september 2021. Sjá: https://kjarninn.is/skodun/i-dal-hinna-follnu/.
ViðhengiAlþingi Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík 8. desember 2022
Efni: Drög að frumvarpi um sanngirnisbætur. Mál nr. 240/2022
Undirrituð er fyrrum vistmaður á Varpholti/ Laugalandi, en fyrr á þessu ári kom út skýrsla sem unnin var af Gæða-og eftirlitsstofnun velferðarmála, varðandi ásakanir mínar og annarra fyrrum vistmanna um það ofbeldi sem við máttum sæta á árunum 1997-2007.
Undirrituð hefur verið í forsvari fyrir að baráttu okkar um að fá viðurkenningu á því ofbeldi sem við vistmenn urðum fyrir og að rannsókn yrði gerð á vistheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997-2007.
Undirrituð kom m.a. fyrir velferðarnefnd 16. nóv. 2022 ásamt tveimur öðrum vistmönnum þar sem við ræddum um mikilvægi þess að við sem höfum þurft að sæta nauðung, ofbeldi og illri meðferð, sem börn í vistun á vegum hins opinbera, fengjum fulla viðurkenningu á öllu því ofbeldi sem við vorum beitt. Mörg okkar vorum vistuð til lengri tíma, allt að tvö ár. Einnig færðum við rök fyrir mikilvægi þess að önnur samskonar heimili yrðu einnig skoðuð, þar sem gögn eru til sem sýna fram á að okkar mál er ekki einsdæmi (til að mynda dómsmál vegna nauðgunar á vistheimili fyrir norðan).
Það eru því mikil vonbrigði að lesa áætlað frumvarp frá forsætisráðuneytinu sem snýst um að:
Hámark sanngirnisbóta verði lækkaðar um 318% ef miðað er við árið 2010 þegar hámarksbætur voru sex milljónir en á núvirði er er það tæp níu og hálf milljón.
Ekki sé vilji til þess að gera upp fortíðina og rannsaka að nokkru ráði, hvort ofbeldi hafi átt sér stað á öðrum heimilum.
Það sé á ábyrgð brotaþola að sanna að hann hafi verið beittur ofbeldi með því að leggja fram gögn eins og læknaskýrslur o.s.frv.
Hvernig eigum við að læra af fortíðinni ef hið opinbera axlar ekki ábyrgð á því að gera henni fullnægjandi skil í rannsóknum á því ofbeldi og vanrækslu sem við urðum fyrir? Gera þarf því skil í hverju tilfelli fyrir sig hvað varð til þess að ofbeldi og ill meðferð á börnum sem voru vistuð á ábyrgð hins opinbera gat átt sér stað.
Er ekki fólgin í því hagræðing að koma í veg fyrir að slíkir atburðir eigi sér stað í framtíðinni, ekki bara fjárhagslegt hagræði heldur einnig tilfinningalegur og sálrænn ávinningur?
Þeir einstaklingar sem lenda í ofbeldi sem börn bera þess iðulega ekki bætur allt sitt líf, sérstaklega ekki ef ofbeldið stendur yfir lengri tíma. Rannsóknir sýna að æviskeið þeirra er styttra, minni líkur eru á að þeir afli sér menntunar, þeir eru almennt verr staddir félagslega og eru líklegir til þess leita í afbrot eða vera vistaðir á stofnunum á fullorðinsárum.
Við sem hópur erum jaðarsett og þurfum sérstaka og nærgætna nálgun, þröskuldur að þjónustu þarf að vera lægri (minni kröfur). Í drögunum er viðurkennt að einstaklingar sem tilheyra þessum hópi séu í viðkvæmri stöðu til þess að afla gagna sjálfir, en frumvarpið sýnir því ekki djúpstæðan skilning.
Íslenska ríkið þarf að sýna í verki að það virðir mannréttindi og líf borgaranna - með því að víkja sér ekki undan þeirri ábyrgð þegar börn eru beitt ofbeldi eða þurfa að sæta illri meðferð.
Íslensk yfirvöld ráðgera með þessu frumvarpi að lækka ekki bara bætur til þeirra sem um sárt eiga að binda vegna dvalar á vistheimilum, og öðrum úrræðum á vegum hins opinbera, heldur á einnig að spara kostnað við að skrásetja vanræksluna og ofbeldið. Því virðist sparnaður hins opinbera vera meginmarkmið frumvarpsins en ekki að auka á sanngirni gagnvart þolendum kerfisins. Þolendur og fjölskyldur þeirra verðskulda uppgjör, bæði fjárhagslegt og ekki síst og sálrænt.
Hvergi er minnst á að veita brotaþolum viðeigandi sálræna aðstoð með því að greiða fyrir, oft á tíðum, kostnaðarsama fagaðstoð - en það hefur verið krafa okkar fyrrum vistmanna í Varpholti/Laugalandi og á Hjalteyri. Afleiðing þess að hafa orðið fyrir ofbeldi sem börn er að mörg okkar eru lágt launuð og búum ekki við þau forréttindi að geta leitað okkur þeirrar aðstoðar sem við þurfum, sem afleiðing af ofeldinu..
Frumvarp þetta ber með sér að ekki hefur verið haft samráð við þá sem málið varðar. Ekkert um okkur, án okkar (nothing about us, without us) ætti að vera leiðarstefið. Enn og aftur stöndum við sem urðum fyrir valdbeitingu og ofbeldi af hendi ríkisvaldsins vanmáttug gagnvart ákvarðanatöku er varðar lífsgæði okkar og réttindi.
Virðingarfyllst,
Gígja Skúladóttir
ViðhengiÉg hef sjálf gengið í gegnum þetta ferli að sækja um bætur vegna kynferðislegrar misnotkunar í æsku, og kom mér þá tvennt á óvart þ.e.:
hve mikla nærgætni og tillitsemi starfsfólk nefndarinnar sýndi mér við rafræna afgreiðslu unsóknarinnar og
hversu lítil áhersla er lögð á sönnunarbyrði, en það eina sem ég hafði skjalfest við höndina var 40 ára gamalt ljósrit af reikningi sálfræðings: Samt fékk ég hámarksupphæðina.
Þvílik viðurkenning! Loksins!
(Þetta gerðist ekki á Íslandi árið 2022, þ.e. ég fékk greiðsluna vegna kynferðislegrar misnotkunar í æsku frá Þýskalandi 2016.)
Mér sýnist, að í nú fyrirliggjandi frumvarpi til laga um sanngirnisbætur sé viðhorf til manneskju sem lifði ofbeldi í æsku af vera ennþá að spyrja hana: „Hvað er að þér?!“ í staðinn fyrir „Hvað gerðist?“
Krafan til umsækjanda í umræddu lagafumvarpi um sönnun er fráleit. Efast einhver um varanlegan skaðann, sem verður, þegar barn elst upp við ofbeldi og vanrækslu? Afleiðingar vanrækslu og ofbeldis á börn eru vel þekkt, t.d. er unnið af fullum krafti í þessum málefnum við Háskólann á Akureyri og víðar
( https://www.unak.is/is/namid/namsframbod/framhaldsnam/salraen-afoll-og-ofbeldi ).
Enginn munur er á flóttafólki sem kemur langa leið til Íslands til að leita skjóls, eða einstaklinga, sem voru útsettir fyrir ofbeldi hérlendis. Það þarf að sýna öllum manneskjum sem lifðu ofbeldi af fulla tillitsemi og nærgætni.
Umsókn um sanngirnisbætur er fyrir þann, sem lifði ofbeldi af, ekki umsókn eins og t.d. umsókn um húsaleigubætur eða eitthvað annað. Er ekki nokkuð ljóst að þau skref sem taka þarf til að sækja um sanngirnisbætur vegna varanlegs skaðans eru aldrei auðveld? Þörf er fyrir allskonar aðstoð í umsóknaferlinu, þar með talin sálræna aðstoð. Sem dæmi um að hve sjálfsagt það er að hugsa um vellíðan viðkvæma einstaklinga má nefna að það er skilyrði fyrir leyfi siðanefnda í vísindarannsóknum sem tengjast sálrænum áskorunum, að þátttakendur rannsóknar geti fengið sálræna aðstoð því þátttakan gæti valdið vanlíðan.
Yfirleitt er auðvelt fyrir stjórnvöld að fá svar við spurninginni „Hvað gerðist?“ í skjölum um dvöl barna á heimilum og í skýrslum nefndar, sem rannsakar heimilin. Að leggja þessa leit að sönnunargögnum á herðar umsækjanda í „einstaklingsbundnum farvegi“ er algjör óþarfi. Það er ekki nauðsynlegt að umsækjandur geri svokallaðan „sálar-striptease“ gagnvart ókunnugum, svo sem í ráðuneytinu og matsnefndum til að fá sanngirnisbætur. Og það þarf að virða einkalíf þeirra.
Ég legg til, að við endurskoðun lagafrumvarpsins um sanngirnisbætur verði stofnun rannsóknanefndar sett inn og málsgreinar um sönnunarbyrði umsækjenda tekin út. Í staðinn nægir kennitalan (sem reyndar kemur fram fremst í umsókninni).
Þá legg ég til, að við endurskoðum lagafrumvarpsins um sanngirnisbætur sé unnið með fulltrúa úr hópi þeirra sem málið varðar, það eru þá einstaklingar sem lifðu uppvöxt á þessu sama heimili af.
Enfremur vil ég benda lagafrumvarpssemjanda/-semjendur á þann möguleika að sækja sér ráðgjöf hjá þeim mörgu innlendu sérfræðingum sem fyrirfinnast í þessum málaflokki. Margir þeirra hafa stundað rannsóknir og safnað saman þekkingu í námi við Háskólann á Akureyri undir leiðsögn þeirra Sígríðar Halldórsdóttur, Sígrúnar Sigurðardóttur og fleiri (https://www.unak.is/is/rannsoknir/rannsoknamidstod-gegn-ofbeldi ).
Ég styð umsagnaraðila, sem lýst hafa reynslu sinni hér fyrir ofan, þeirra ábendingar um nauðsynlegar leiðréttingar í lagafrumvarpinu, að fullu.
Synið þeim sem lifðu ofbeldi og vanrækslu af virðingu, og sendið þá ekki inn í helvíti minninganna og endurupplifunar!
Í viðhengi er tölvupóstur, sem ég sendi fyrir tveimur árum til nánast allra Alþingismanna, og hlaut hlýja móttöku hjá mörgum þeirra. Þingmaður VG - Ari Trausti Guðmundsson - tók málið upp í ræðu sinni í Alþingi, og fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins fór með erindi mitt og tillögur fyrir fund stýrihópsins um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi, sem starfar á vegum forsætisráðherra.
Mæva Marlene Urbschat MS í geðheilbrigðisfræði
ViðhengiAlþingi Nefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn Rutar Ríkeyjar Tryggvadóttur um frumvarp til laga um sanngirnisbætur. Mál nr. 240/2022
Reykjavík 7. desember 2022
“Aldrei er svo brot bætt að betra sé eigi heilt”
Það frumvarp sem hér er lagt fram er klætt í þann undarlega búning að það eigi að vera til bóta, framfara og sanngirni, byggt á hinni miklu þekkingu sem búi í hinu háa ráðuneyti.
Ekki er hægt að finna neitt jákvætt við það, nema jú kannski að tímaramminn er víkkaður, en þar með er það upptalið. Að öllu öðru leyti er þetta frumvarp eins og ísköld gusa framan í vistheimilabörn, sem nú þegar hafa átt brösótta lífsgöngu. Vel að merkja þau sem hafa borið gæfu til að lifa – allt of mörg hafa fallið fyrir eigin hendi. Ábyrgðin liggur hjá ríki- og sveitarfélögum – hvergi annarstaðar!
Þetta frumvarp er aumkunarvert krafs fólks, sem á að heita starfandi sérfræðingar í ráðuneytinu, til að takmarka ábyrgðina í krónum talið. Það að skera niður hámarksbætur niður í kr. 3.000.000. er alger hneisa.
Skoðum bara fyrsta kostnaðarliðinn sem fólk þarf að bera til að vinna með svona áföll: Sálfræðikostnaður og stuðningur, þessi fjárhæð – munum að við erum að tala um “Hámarksfjárhæð” dugar ekki fyrir nema svona 50 – 100 sálfræðitímum. Þau sem að hafa lifað af svona hörmungar þurfa miklu fleiri sálfræði tíma. Svo er því kastað í fólk að sumir fái einungis hlutfallsbætur “að álitum” Þetta heitir á tæpitungulausri íslensku: “Að sparka í liggjandi mann” En nú skulum við bara kalla hlutina réttum nöfnum, þetta er að sparka í barn – því þessi sár ber fólk úr æsku og það þarf að vinna með þau frá þeim stað af fagfólki.
Sú vitneskja og þekking sem ráðuneytis segist búa yfir hlýtur að vera borin í mjög götóttum sekkjum, því samkvæmt þessu frumvarpi á beinlínís að taka af fólki stjórnarskrárbundin rétt þess til réttlátrar málsmeðferðar. 70. gr. Stjórnarskrár “…Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur…”– samkvæmt frumvarpinu verði útskurðir nefndarinnar endanlegir og ókæranlegir til dómstóla.
Hér er um háalvarlega aðför að grundvallar réttindum borgara þessa lands að ræða. Sérstaklega þar sem þessi illa meðferð ungbarna og vistheimilabarna brýtur í bága við 68. gr. Stjórnarskrárinnar um að engann megi “…beita ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð...”
Eigi að síður er þessi klausa í greinargerð með frumvarpinu:
“4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Efni frumvarpsins gefur ekki tilefni til að skoða samræmi þess við stjórnarskrá og
alþjóðlegar skuldbindingar.” Sic-
Ég veit ekki betur en að við séum aðilar að Mannréttinda sáttmála Sameinuðu þjóðanna og að við sem þjóð viljum vera fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttist- og mannréttindamálum.
Annað dæmi um veruleikafirringu við smíði þessa frumvarps kemur fram í greinargerðinni þar sem segir: “Gera má ráð fyrir að kostnaður vegna sanngirnisbóta fari lækkandi á næstu árum þar sem fjöldi mála hefur þegar verið afgreiddur, auk þess sem gert er ráð fyrir lægri hámarksbótum en lög nr. 47/2010 kveða á um.”
Er fólk sem sagt að ímynda sér að svona ill meðferð á börnum, sem vistuð verði á vegum hins opinbera í nútímanum og í framtíðinni muni aldrei eiga sér stað?!
Þetta minnir dálítið á slagorðið: “Fíkniefnalaust Ísland árið 2000” Við heyrum daglega fréttir um haldlagningu gríðarlegs magns af fíkniefnum, sem þó virðist hafa lítil áhrif á markaðinn.
Það eru ennþá í okkar samtíma að koma fram upplýsingar um illa meðferð á börnum og ungmennum sbr. Laugaland/Varpholt.
Væri ekki viturlegt að reyna að læra af sögunni?
Ég er elst í stórum systkyna hópi sem tvístraðist tvist og bast á vöggustofur og vistheimili og þekki mæta vel hvernig var brotið á þeim og farið illa með þau. Sjálf dvaldi ég um hríð á vistheimili og ég slap heldur ekki við slæma meðferð. Ég held satt að segja að enginn hafi sloppið óskaddaður frá slíkri ráðstöfun hins opinbera.
Þetta frumvarp er þvílík hrákasmíð, vanvirða og niðurlæging gangvart þeim sem í hlut eiga að það á hvergi heima nema í pappírstætaranum!
Það ætti öllum að vera full ljóst að fébætur munu aldrei bæta þann skaða sem hlutaðeigandi hafa orðið fyrir. En að ráðuneytið skuli leggja fram þvílíkan óskapnað og láta sér koma til hugar að LÆKKA bæturnar og kalla þær Sanngirnisbætur er með ólíkindum!
Þetta frumvarp ber ekki með sér vott af sanngirni, sátt eða leið til að bæta þann skaða sem í raun er óbætanlegur!
Hér með skora ég á hæstvirtan forsætisráðherra að kasta þessu frumvarpi beint í ruslið, vera manneskja að meiri, með því að hafa frumkvæði að samvinnu og samtali við þau félagasamtök sem hafa boðið sig fram við farsæla lausn á þessu óhugnanlega máli.
Virðingarfyllst,
Rut Ríkey Tryggvadóttir
Ég er ein af vöggustofubörnunum og var þar frá janúar 1964 til október 1965 og hef fylgst með umræðunni á Réttlæti og er ekki sátt. Hvernig getur Katrín jakobsdóttir Forsætisráðherra sett fram frumvarp að allir sem voru vistaðir á þessum stofnunum eigi að fá 3 milljónir í sanngirnisbætur án þess að skoða málið frá A til Ö?
Thorvaldsen félagið gaf húsnæðið til Reykjavíkurborgar á sínum tíma til að hjálpa mæðrum sem voru í vandræðum og var það mjög gott framtak af þeim,
En það má ekki gleyma því að Reykjavíkurborg sá um reksturinn og eins og hefur komið fram voru við eins og dýr í búri. Það mátti ekki hugga börnin er þau grétu og þegar þeim var gefið að borða stóð starfsfólkið fyrir aftan þau og gaf þeim að borða án þess að horfa í augun á þeim. Er ég spurði móðir mína um þetta tímabil sagði hún mér að ég grét aldrei þegar ég kom heim tæplega 2 ára gömul þangað til ég var 6 ára því ég lærði það á vöggustofunni að engin kom mín þegar ég grét, Eins og hefur komið fram var vöggustofan óbein ættleiðingarmiðstöð þar sem fólk valdi sér börn og skilaði þeim ef þau hentuðu ekki. Einnig voru börn sem voru fötluð send þangað. Sagan þarf að vera sögð sem víti til varnaðar. Ég vona að öll mál sem snerta börn sem voru á þessum stofnunum verði skoðuð ofan í kjölinn. Sanngirnisbætur flatar á hópinn eins og lagt er fram eru eins og plástur á svöðusár. Með von um að sagan verði sögð Elsa Eiríksdóttir Hjartar
Sú lækkun sem nú er lögð til niður í þrjár felur því í sér 318% lækkun sanngirnisbóta frá árinu 2010. Það er lítil sanngirni í þessari breytingu sem er í engu samræmi við þann skaða sem vistun á stofnunum olli börnum og endurspeglar mat höfunda frumvarpsins á því ofbeldi sem börn urðu fyrir. Mörg af þeim sem vistuð voru á ýmsum stofnunum hafa aldrei náð að fóta sig í lífinu og hafa átt erfitt uppdráttar. Aldrei er hægt að bæta fyrir þann skaða sem var hlýst af vanrækslu og ofbeldi í æsku en í bótum felst ákveðin viðurkenning og vilji til sátta.
Hið hríðfallandi gengi sanngirnisbóta sendir ákveðin skilaboð og ég velti því fyrir mér hvort höfundar frumvarpsins geri sér grein fyrir hversu alvarlegar afleiðingar stofnanavistun á t.d. Varpholti/Laugalandi hefur haft í för með sér. Gengisfelling sanngirnisbóta er hindrun á leið til réttlætis gagnvart fv. vistfólki, börnum þeirra og aðstandendum látinna vistmanna sem öll hlutu skaða, beint eða óbeint, ósanngjörn og órökstudd.
Rannsóknir á ofbeldi
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum kemur fram að lögð er til sú breyting að horfið sé „frá þeim einstöku, umfangsmiklu og tímafreku rannsóknum sem hafa hingað til verið grundvöllur greiðslu sanngirnisbóta og þess í stað mælt fyrir um almennan og um leið einstaklingsbundinn farveg fyrir slík mál.“
Undirrituð lýsir sig algjörlega mótfallna þessari breytingu.
Mjög mikilvægt að rannsaka það ofbeldi sem börn urðu fyrir á vistheimilum hins opinbera. Íslenska ríkið þarf að taka fulla ábyrgð á því sem gerðist og veita brotaþolum tækifæri til þess uppgjörs sem felst í góðum rannsóknum á ofbeldinu og er það mikilvægur liður í réttlætisferlinu ekki síður en fébætur. Rannsóknir á hugmyndum þolenda um réttlæti benda eindregið til þess að sú viðurkenning sem fæst í gegnum rannsóknir og úttektir á stofnunum sem valdið hafa einstaklingum skaða geti verið, ef rétt er á málum haldið, mikilvægur þáttur í réttlætis- og heilunarferlinu.
Í fyrirliggjandi rannsóknum kemur skýrt fram að hið opinbera brást stórlega með aðgerða- og eftirlitsleysi sínu. Nauðsynlegt er að ofbeldið sé viðurkennt og skrásett og það eru fráleit rök að sleppa rannsóknum vegna þess að þær eru tímafrekar og fjárhagslega dýrar. Við þurfum að gera upp fortíðina, læra af henni og hlusta á þolendur til þess að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Hingað til hafa sanngirnisbætur verið byggðar á rannsóknum og skýrslum sem hafa verið gerðar en með þessu frumvarpi er lagt til að umsækjendur skili sjálfir inn gögnum og vitnisburðum sem styðja þeirra frásögn. Margt af því fólki sem frumvarpið fjallar um er jaðarsett og margir hafa ekki bolmagn til erindisrekstur hjá hinu opinbera enda á það ekki að vera í þeirra verkahring. Með þessu er verið að takmarka þann hóp sem mun geta sótt sér um bætur og varpa að vissu leyti ábyrgð yfir á þolendur kerfisins.
Að lokum geri ég athugasemd við að hvergi sé minnst á félagslegan né sálfræðilegan stuðning. Ég tel þetta frumvarp mikla afturför í þessum málaflokki og að í því birtist skilnings- og ábyrgðarleysi gagnvart uppgjöri við fortíðina, sem hið opinbera ber ábyrgð á. Undanfarið hefur verið fjallað opinberlega um vistheimilið að Laugalandi/Varpholti og er nýútkomin skýrsla um það mál sem gerðist í óþægilega nálægum samtíma. Við eigum því miður enn langt í land með að tryggja mannréttindi fólks á stofnunum en með því að hætta rannsóknum er verið að loka augunum fyrir því að þessi saga er búin að endurtaka sig aftur og aftur. Einnig er hætta á því að margt af því fólki sem sannarlega ætti rétt á sanngirnisbótum treysti sér ekki í einstaklingsbundna sönnunarfærslu í sínu máli og að réttlætið muni því aldrei rata til þeirra.
Ég er alfarið á móti þessu frumvarpi. Ég var sjálf vistuð á Varpholti í eitt ár frá 98-99 . Það var jú mikið ofbeldi til staðar og rannsókn þessa vistheimilis var jú tímafrek og dýr. Enda var um 10 ára tímabil að ræða þar sem ofbeldi gegn börnum fékk að viðgangast þrátt fyrir margar kvartanir af ofbeldinu sem átti sér stað.
Ég kom ekki betri manneskja út í samfélagið, það var akkurat öfugt. Ég hafði notað vímuefni en það voru kannski 3-4 vikur liðnar og þá hafði ég prufað þessi hörðustu efni, og í prufaði líka að nota í öðru formi, ég prufaði að nota vímuefni um æð
Ég gerði það ekki að því ég var svo hamingjusöm , ég notaði þetta sem bjargráð við áföllunum sem ég hafði orðið fyrir.
Ég verð að segja að þetta er svo mikil afturför og ég er fyrir svo miklum vonbrigðum því ég hélt í alvöru að þetta væri að breytast, að rannsókn Varpholts/Laugalands mindi kannski verða til þess að kynslóðir sem koma á eftir okkur þurfi ekki að upplifa það sama.
Mál 240/2022. Drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur. Umsögn. Ef eftir þí er leitað er ég tilbúinn að mæta og svara fyrir umsögn mína
ViðhengiForsætisráðuneytið
Skrifstofa stjórnskipunar og stjórnsýslu
netfang: postur@for.is
Mál 240/2022. Drög að frumvarpi til laga um sanngirnisbætur. Umsögn.
Undirritaður fagnar því að forsætisráðherra hafi nú lagt fram frumvarp til laga um sanngirnisbætur til einstaklinga vegna illrar meðferðar sem þeir hafa orðið fyrir vegna athafnaleysis og athafna hins opinbera og sveitarfélaganna og einkaaðila. Athafnir og athafnaleysi sveitarfélaga og einstaklinga/félagasamtaka sem tóku við börnum í vistun er ekki síst mikilvægur.
Að mínu mati eru það þó ekki endilega bætur í peningum sem leitað er eftir heldur er ekki síður mikilvæg viðurkenning á því að gróflega hafi verið brotið á réttindum barna og að þau fái það viðurkennt opinberlega. Peningar munu aldrei geta bætt þann skaða sem ríkisvaldið, sveitarfélögin og aðilar á þeirra vegum hafa valdið börnum á viðkvæmu uppvaxtarskeiði. En það er önnur saga.
Eftir áratuga langa leit mína að sanngirni og áheyrn hefur nú verið stigið mikilvægt skref. Skref þar sem einstaklingar sem vistaðir voru á vegum ríkis og sveitafélaga við skelfilegar aðstæður fá nú áheyrn. Tilraunir yfirvalda til að takmarka hvað skal rannsaka og hvað ekki verði nú loksins rutt til hliðar með almennri lagasetningu, verði þetta frumvarp að lögum.
Hrikalegar lýsingar einstaklinga á stöðugu ofbeldi, niðurlægingu og afskiptaleysi einkenna frásagnir okkar sem höfum haft stöðu og kjark til að stíga fram til að leita svara. Það eitt að þora að leggja þessar hörmungar fyrir alþjóð og lýsa stöðu sinni og upplifun af slíkri dvöl eða hálfgerri nauðungarvistun, krefst mikils kjarks enda er upprifjunin sársaukafull. Sérstaklega í ljósi þess að svörin sem ég hef fengið hafa alltaf verið neikvæð, áheyrn ágæt en engin niðurstaða fengist þrátt fyrir áratuga leit að réttum svörum.
Í mínu tilviki var ég sendur tólf ára gamall á sveitaheimili samkvæmt ákvörðun sveitarfélagsins sem ég bjó í. Heimilið hafði verið notað um langan tíma af sveitafélaginu og þekkti ég tvo þeirra sem þar dvöldu en þeir létust langt fyrir aldur fram. Þar dvaldi ég í 8 mánuði við hörmulegar aðstæður og lifði í stöðugum ótta, án nokkurs eftirlits af hálfu fulltrúa þess sveitarfélags sem sendi mig þangað, enginn kom að kanna hvernig aðbúnaði mínum væri háttað, hvernig skólagangan væri eða hvernig mér liði yfirleitt. Á heimilinu var allskonar fólk og deildi ég einn risi með veikum manni sem ég var logandi hræddur við alla daga, allar nætur vegna áreitis. Að fara með skólabílnum í skólann var mjög slæm upplifun. Aðrir krakkar sem komu með bílnum vissu að krakkarnir frá þessu heimili væru „vandræðabörn“ og forðuðust mig, færðu sig jafnvel um sæti þegar ég komi inn. Það sama átti við um skólann sem ég gekk í allir virtust með einum eða öðrum hætti forðast öll samskipti við vandræðabarnið. Án þess að fara í ýtarlegar lýsingar á breyttum högum mínum þá væri vægt til orða tekið að ég snéri heim að vori gjörbreyttur einstaklingur.
Ég vil því benda forsætisráðuneytinu á að huga betur að því að efni frumvarpsins nái vel utan um ótta, hræðslu og skelfingu barna sem þurftu að upplifa þessa ömurlegu framkomu ríkis og sveitarfélaga og einkaaðila á þeirra vegum. Líkamleg vanræksla, ofbeldi og vanvirðandi meðferð er eitt, en að skapa barni óöruggt umhverfi og láta það alast upp í stöðugum ótta og hræðslu vegna afskiptaleysis þeirra sem áttu að sjá um það, er ekki síður alvarlegt brot.
Það er svo sérkennilegt að það er ekki laust við að ég finni enn fyrir eigin ábyrgð á þessum gjörningi öllum þrátt fyrir að hafa verið rétt tólf ára gamall þegar ég var vistaður við aðstæður sem hreint út sagt voru skelfilegar fyrir barn á þessum aldri. Er ekki eitthvað rangt við það að 40 árum síðar upplifi ég að ég hafi með einum eða öðrum hætti borið ábyrgð á ákvörðunum félagsmálayfirvalda í því sveitafélagi sem ég ólst upp í. Ég nefni þetta til að upplýsa forsætisráðuneytið um að þessi reynsla fylgir manni alla tíð.
Þegar vinna vistheimilanefndar fór af stað komu fram fjölmargar tilkynningar um áþekka háttsemi á öðrum stofnunum og heimilum öðrum en þeim sem koma fram í lögum vistheimilanefndar og afmörkun þeirra. Það var strax ljóst að stór hópur einstaklinga var í raun undanskilinn í þeim lögum sem vistheimilanefnd var ætlað að vinna eftir. Það var strax ljóst að þegar nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar var skilað inn vegna málsins vekur hún athygli á því að miklum fjölda barna var ráðstafað af stjórnvöldum á einkaheimilum og að það væri mjög mikilvægt að þeir einstaklingar fengju jafnframt að gera upp vistun sína á slíkum heimilum með þeim hætti að hið opinbera skapaði vettvang þar sem þeir gætu greint frá aðstæðum sínum. Á sínum tíma ræddi ég þessi mál við einn nefndarmanna þar sem mig langaði að vekja athygli á stöðu okkar sem vistaðir voru á heimilum sem sveitafélög nýttu til vistunnar. Í því samtali var alveg ljóst að önnur heimili en þau sem ríkið stóð að væru ekki til skoðunar. Sú afstaða kom fram að ekki væri ástæða til að sinna öðrum málum. Þau heimili sem ekki voru á ábyrgð ríkisins en sveitarfélögin nýttu sér til vistunar fyrir börn voru fjöldamörg og þar voru börn oftast eftirlitslaus. Vistin reyndist mörgum börnunum erfið og stundum alger vítiskvöl, þar sem mikið ofbeldi átti sér stað, bæði andlegt, kynferðislegt og líkamlegt. Í andlega ofbeldinu fólst einnig afskiptaleysi, aðstæður sem sköpuðu börnum ótta, skelfingu og öryggisleysi.
Á síðustu áratugum hef ég velt við hverjum steini til að fá svör við spurningum mínum varðandi ákvörðun vistunar minnar, ábyrgð og tímasetningu. Margsinnis hef ég sent inn fyrirspurnir þar sem ég leita gagna sem væru hugsanlega til vegna málsins hjá sveitafélaginu, farið á fundi með starfsmönnum og bæjarstjóra sveitarfélagsins, óskað eftir leit á Þjóðskjalasafni Íslands en engin áþreifanleg gögn hafa fundist sem gætu gefið mynd af mínu máli. Þá hef ég sent þingmönnum erindi og ráðherra dómsmála ásamt ábendingum á forsætisráðherra sem nú hyggst leggja fram þetta mikilvæga frumvarp til laga um sanngirnisbætur, hafi forsætisraðherra þakkir fyrir enda hefur lítið verið um viðbrögð úr öðrum áttum og erindum ekki svarað.
Nokkur atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á og þarfnast betri úrvinnslu og útfærslu í frumvarpinu svo það nái tilgangi sínum:
1. Mjög stór hluti þeirra sem vistaðir voru á vegum ríkis, sveitarfélaga og hjá einkaaðilum, hafa aldrei haft getu til eða stöðu til að leita sér aðstoðar, hvað þá að þeir hafi skrásett eða safnað skráðum heimildum um þá aðstoð sem þeir hafa leitað eftir og fengið eða ekki fengið.
2. Skjalavistun ríkis og sérstaklega sveitarfélaga, hvað þá einkaheimila á þeirra vegum, er oft á tíðum mjög bágborin og svo virðist sem hreinlega séu ekki til neinar skjalfestar heimildir eða gögn sem styðja dvöl þeirra á tilteknum tímabilum og í mörgum tilvikum eru heldur engin vitni. Ábyrgðarmenn dvalarstaðar, starfsmenn þeirra og eða jafnvel foreldrar eða forráðamenn eru látnir og engin til frásagnar. Það þarf að taka tillit til þessa og ekki vísa frá umsóknum vegna þess að umsækjendur eigi erfitt með að leggja fram gögn. Jafnvel stór sveitarfélög virðast ekki hafa með ábyrgum hætti geymt eða varðveitt gögn sem gætu gefið glögga mynda af þessum ákvörðunum sínum eða ekki skilað gögnum á skjalasöfn. Þessi aðstaða má ekki undir nokkrum kringumstæðum koma niður á umsækjanda og virða skort á gögnum honum í hag og gera minni kröfur til sönnunargagna.
3. Áríðandi er að breyta 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins og styrkja rannsóknarheimildir matsnefndar sanngirnisbóta í stað þess að draga úr heimildum eins og gert er með þessum málslið: „Þá skal nefndinni vera heimilt að taka skýrslur af umsækjanda og hverjum þeim öðrum sem nefndin telur að búi yfir vitneskju sem komi að notum í starfi hennar enda veiti þeir samþykki sitt.“ Undirstrikuðu orðin verða að fara út, annars geta einstaklingar sem búa yfir upplýsingum sem matsnefnd telur mikilvægar neitað að koma fyrir nefndina og gefa skýrslu og þá fellur málið um sjálft sig enda skortir oft skrifleg gögn, sbr. lið 2. hér að framan. Það er engin ástæða fyrir matsnefnd sanngirnisbóta að takmarka valdheimildir sínar svona, þvert á móti er skorað á forsætisráðuneytið að bæta frumvarpið þannig að það styrki heimildir nefndarinnar til að kalla til skýrslugjafar alla þá sem upplýsingar geta veitt.
4. Þá má benda á að úrskurðarnefnd um bætur er ekki veittur neinn tímafrestur til að úrskurða bótafjárhæð eftir að mál kemur til nefndarinnar. Æskilegt væri að setja inn einhverja tímafresti.
Að lokum vil ég geta þess að ég vona svo sannanlega að frumvarpið verði að lögum eftir nauðsynlegar endurbætur á því enda löngu tímabært að yfirvöld viðurkenni þær brotalamir sem hafa verið í þessum málum í áratugi.
Þráinn Farestveit
https://forskersonen.no/barn-og-ungdom-kronikk-meninger/nar-penger-skal-erstatte-en-tapt-barndom/1688717?fbclid=IwAR25BtMkdapvyVLR5n1I7Wvx5DATTrd8jxs0a8w15NLw17D_iXZv5LvN6
KVET YKKUR AÐ HAFA ÞESSA GREIN TIL SAMRÁÐS.
https://forskersonen.no/barn-og-ungdom-kronikk-meninger/nar-penger-skal-erstatte-en-tapt-barndom/1688717?fbclid=IwAR25BtMkdapvyVLR5n1I7Wvx5DATTrd8jxs0a8w15NLw17D_iXZv5LvN6r0
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er hér í viðhengi.
ViðhengiÞað er hrópandi rangt að ríkið sem bar ábyrgð á því ofbeldi sem börn voru beitt af hálfu umsjáraðila barna, skuli ákveða upphæð bóta. Ég vék einnig athygli á hve bótafjárhæð er lægri en í öðrum málum er varða brot yfirvalda á einstaklingum í þeirra umsjá. Þar er nærtækast að benda á þá bótafjárhæð sem aðilum Geirfinnsmálsins voru dæmdar. En her er um brot á jafnvægisreglu að ræða.Brot ríkisins á mannsæmandi meðferð barna sem vistuðust bæði á einkaheimilum og stofnunum á þess vegum eru ekki síður alvarleg og jafnvel enn alvarlegri þar sem um var að ræða börn á viðkvæmum aldri sem ekkert höfðu til saka unnið. Skaðleg úrræði ríkisins gagnvart börnum sem bjuggu mörg við erfiðar félagslegar aðstæður voru brot á mannréttindum. Það að þessum einstaklingum er auk þess gert að sanna skaðan sem þeim var valdið, með umsögn þriðja aðila , er fáraðleg. Niðurstöður rannsókna a starfsemi þessara heimila, sem þegar hefur farið fram, eru nægar sannanir. Hér eru yfirvöld enn á ný að brjóta á þessum einstaklingum, með auðsýndri fyrirlitningu og vantrú á getu þeirra til að meta eigin upplifun og afleiðingar ofbeldis. Þetta nýjasta úrræði ríkisins ber að kæra til mannréttindadomstóls Evrópu. Því hér er um að ræða svæðið brot á mannréttindum einstaklinga sem eiga mörg erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér vegna ofbeldisverka sem á þeim í æsku sem íslenska ríkið bar ábyrgð á. Ég skora á höfunda þessa frumvarps að skoða betur og breyta því í samræmi við almenn mannréttindi og virðingu fyrir þeim einstaklingum sem það varðar
Sæl ég var vistuð á barnaheimilinu Hlíðarenda. ég hef fengið loksis skýringu á af hverju ég hef alltaf verið hrædd við að vera skilin eftir og alltaf verið með mikill hviða og er í dag á lyfi vegna þess svo hef mér alltaf fundist ég ekki vera verðug . Ég skil ekki hvernig Katrin Jakopsdóttir getur stoppað að ýtarleg ransókn fari framm og að lækka hámarksbætur niður í 3.000.000 er til skammar. Katrin Sigurjónsdóttir
Ég var vistuð á Laugalandi 2004 þá 13 ára gömul
Ég var einnig vistuð á Árbót í 20 mánuði 2004-2006 og þar var mikið af andlegu & líkamlegu ofbeldi á þessum báðum stöðum.
ég er 32 ára í dag & enn þann dag í dag , er ég að kljást við eftirköst - á Laugalandi var eg ristarbrotin af starfsmanni & eg fékk ekki að fara til læknis fyrr en nokkrum dögum seinna. Í dag er eg öryrki.
. eg mun aldrei fá allt mitt til baka sem var bókstaflega drepið í mér á þessum stöðum & hef síðan eg var barn verið í sálfræðimeðferð ofan á sálfræðimeðferð & jú eg hef náð hellings árangri - en þessir staðir eyðilögðu æskuna mína & það er eitthvað sem eg mun þurfa að lifa með það sen eftir er.
318% lækkun er eitthvað sem ekki er í lagi. Að lækka bætir úr 6 milljónum í 3 milljónir í staðinn fyrir að hækka þær í þessa 9,5 milljónir - mér finnst það ekki mannlegt.
Ég hef eytt töluvert meira en 3 milljónum í sálfræðikostnað , læknis kostnað & geðlækna kostnað.
Og er hvergi nærri búin með það að vinna í sjálfri & mun sennilega þurfa að gera það það sem eftir er.
Það eru vangaveltur frá mér um hvort að sanngirnisgbætur eigi að ná til þeirra sem hafa farið illa út úr samskiptum við foreldra sína.
Það eru til börn sem hafa beðið andlega og líkamlegt tjón af samskiptum við foreldra. Það eru líka til börn sem hafa fengið að líða fyrir það
sem gerist kringum skilnað foreldra. Og þau notuð sem vopn í þeirra deilu.
Þessi mál geta þróast út í að faðir getur ekki höndlað hvað er að gerast í kringum skilnað, öðruvísi en að fara út í að hefna sín á börnum með
því að neita að tala við þau, eða spá í þeirra framtíð og hvernig þeim líður, út af því hann fær ekki forræði í skilnaði.
Ég bý hjá foreldrum föður míns frá 15 ára aldri, og veit að amma, móðir hans hafði oft beðið hann um að tala við mig.
Því var bara mætt með nei og þvermóðsku. Ég á yngri sistkyni og þau hafa fengið sömu meðferð.
Ég veikist um 2019 og er að eiga við lækna upp á hjartagátt, og heyrði þá tala um að hafa hringt í föður minn til að spyrja um hjartasjúkdóma í ættinni,
og þeir fengu það svar að honum kæmi þetta ekkert við, því að við værum ekkert að talast við í dag.
Móðir mín er í svipuðum pakka, árið 2015 þá er ég að ræða við félagsfræðing hjá velferðarsviði Reykjavíkur , og hún segir mér að mútta sytji úti í svíþjóð
og skrifi þeim email og segi þeim frá hvað ég sé hræðilegur. Og ég hef ekki séð hana síðan ég var 15 ára, þegar ég bað um að fara til ömmu og afa,
því ég átti að byrja í skóla úti í Noregi og tala ekki málið þar.
Árið 2017 þá er ég í smá samskiptum við múttu á facebook, og hún fer að segja mér að ég hafi gert henni svo mikið í síðasta lífi, og þetta er
einhver réttlæting fyrir það hvernig hún hefur hagað sér gagnvart mér.
Svo væri einhver hissa á að ég velti fyrir mér hvort að fólk sem á að snar bilaða foreldra eigi rétt á sanngirnisbótum.
Foreldrar mínir hafa ekkert að spá í mína framtíð, eða velta því fyrri sér hvernig ég hafi það.
Ég hef skrifað endurminningar og sett á netið. Slóðin er https://tiny.cc/shortstory og opnast sem pdf skjal.
Ég get komið inn á önnur dæmi sem ég hef kynnst, og heyrt af, til dæmis þá er netið frábær vettvangur til að kynnast fólk, og ég kynnist konu
sem virkaði sæmilega hress og normal. En svo þegar ég kynnist henni meira þá fer hún að segja mér frá því að mamma hennar hafi reynt að kæfa
hana þegar hún var 10 ár, og útkoman úr því öllu er að hún hlaut heilaskaða vegna súrefnisskorts.
Mikið af fólki sem á í miklum félagslegum erfiðleikum , það endar inni hjá Tryggingastofnun, og er það mjög glæsilegt að enda þar ?