Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.12.2022–10.1.2023

2

Í vinnslu

  • 11.1.–2.5.2023

3

Samráði lokið

  • 3.5.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-252/2022

Birt: 21.12.2022

Fjöldi umsagna: 6

Áform um lagasetningu

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Heimild til aukinnar samvinnu heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu vegna heimilisofbeldis og sérstaklega hættulegra einstaklinga

Niðurstöður

Í kjölfar samráðs voru drög að frumvarpi skrifuð í heilbrigðisráðuneytinu og voru þau birt í Samráðsgátt 27. janúar 2023, sjá slóð.

Málsefni

Áform heilbrigðisráðherra um að móta skýrari lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga.

Nánari upplýsingar

Fyrirhugað er að semja lagafrumvarp í heilbrigðisráðuneytinu og lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til þess að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga.

Ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla upplýst um málið.

Þá yrði með fyrirhuguðu lagafrumvarpi sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Slíkt kæmi einungis til greina þegar rökstutt mat lögreglu lægi fyrir um að viðkomandi einstaklingur væri sérstaklega hættulegur. Miðlun upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu.

Ýmis atriði hafa komið upp við vinnslu áformanna, fyrir utan lög og reglur um persónuvernd, miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga og siðareglur heilbrigðisstarfsfólks. Til dæmis mögulegur fælingarmáttur þolenda að leita sér heilbrigðisþjónustu, ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna að hafa samband við lögreglu, mikilvægi þess að virða sjálfsákvörðunarrétt þolanda, hver yrði forvarnarþáttur og skilaboð til samfélagsins með breytingu á lögum og hvernig styrkir það stöðu þolenda og aðstandanda þeirra (oft börn) ef ekkert er að gert. Þessi atriði og fleiri þarf að ræða ítarlega með haghöfum við gerð frumvarps.

Hvað varðar heimilisofbeldi þá skulu heilbrigðisstarfsmenn, skv. gildandi lögum, gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Aðeins má víkja frá þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða samkvæmt ákvæðum annarra laga. Skilyrðið um brýna nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera heldur matskennt og þolendum þar með ekki endilega til hagsbóta.

Vegna alvarleika heimilisofbeldismála, stöðu þolenda og óljósra heimilda til að tilkynna til lögreglu þykir vera ríkt tilefni til að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Lagabreyting myndi stuðla að því að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem ætla má að þolendur slíks ofbeldis veigri sér við að leita réttar síns og þekki réttindi sín oft ekki nægilega vel. Án lagabreytingar geta lög og reglur, sérstaklega um þagnarskyldu, hamlað framgangi mála hjá lögreglu og í einhverjum tilfellum komið í veg fyrir að þolandi fái viðeigandi aðstoð. Þannig getur lagumhverfið viðhaldið ofbeldisaðstæðum þolanda í stað þess að stíga inn í aðstæður og veita alla tiltæka aðstoð sem þolandi á rétt á.

Markmið með breytingunni er að auka þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og að auka vernd þolenda ofbeldis. Aðferðin við að ná því markmiði er að brúa bilið sem vantar í löggjöfina þannig að ákvæði um þagnaskyldu og annað hindri ekki framvindu mála í þeim tilvikum sem hér er lýst.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa sjúkrahúsa og sérþjónustu

hrn@hrn.is