Samráð fyrirhugað 30.12.2022—20.01.2023
Til umsagnar 30.12.2022—20.01.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 20.01.2023
Niðurstöður birtar

Heilbrigðiskröfur til fiskara

Mál nr. 258/2022 Birt: 30.12.2022
  • Innviðaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (30.12.2022–20.01.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir drög að breytingu á reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Með henni verða sett ákvæði um heilbrigðiskröfur til fiskara.

Reglugerð þessi gerir breytingar á reglugerð nr. 944/2020 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Ákvæði hennar gilda um fiskara, sem eru skilgreindir samkvæmt 9. tölul. 2. gr. laga um áhafnir skipa, nr. 82/2022, sem hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut.

Í I. viðauka reglugerðar nr. 944/2020 eru sett fram skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur, sem réttindamenn, þ.e. skipstjórnar- og vélstjórnarmenn, skulu uppfylla. Með þessari reglugerð verður settur nýr viðauki með heilbrigðiskröfum til annarra fiskara en réttindamanna. Skulu læknar gefa út læknisvottorð um að fiskari sé fær um að gegna viðkomandi stöðu af heilsufarsástæðum. Skulu vottorðin vera á formi, sem Samgöngustofa ákveður.

Fiskarar á fiskiskipum, sem eru 24 metrar að lengd eða lengri eða eru að jafnaði á sjó í þrjá daga eða lengur, skulu leggja fram vottorð til útgerðar eða skipstjóra skips á að minnsta kosti tveggja ára fresti. Í tilviki réttindamanna eru heilbrigðisvottorð vegna öflunar skírteinis fullnægjandi í þessum skilningi. Sé fiskari yngri en 18 ára gildir vottorð að hámarki til eins árs.

Þá skulu réttindamenn á fiskiskipum, sem eru styttri en 24 metrar að lengd og eru að jafnaði á sjó í minna en þrjá daga leggja fram vottorð til útgerðar eða skipstjóra á að minnsta kosti fimm ára fresti.

Fyrirhugað er að reglugerðin öðlist gildi 1. júní 2023.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Óskar Þór Hallgrímsson - 03.01.2023

Er algjörlega mótfallinn þessu og er í raun brjálaður að mönnum skuli detta þetta í hug!!!!!

Hef ekki heyrt í einum einasta sjómanni sem styður þetta.

Kv

Óskar

Afrita slóð á umsögn

#2 Kristján Rafn Guðmundsson - 03.01.2023

Þetta er alveg út í hött að vera að koma inn einhverju ný yrði fiskari! Fiskimaður verður alltaf fiskimaður og sjómaður verður alltaf sjómaður hef ekki heyrt einn einast sjómann vera sáttan við þessa arfa vitlausu breytingu og tilgangurinn algjörlega út í hött verður þá ekki Þingmaður þingari? Eða eitthvað álíka vitlaust.

Afrita slóð á umsögn

#3 Ólafur Haraldsson - 05.01.2023

Hér hefur rétttrúnaðurinn borið ykkur ofurliði. "Fiskari" er bókstaflega hlægilegt orð í þessari merkingu. Í guðanna bænum breytið þessu og notið gömlu og góðu hugtökin "sjómaður" og/eða "fiskimaður" um þessa fornu starfsgrein manna, og munið að konur eru líka menn!

Með bestu kveðju,

Ólafur Haraldsson

Afrita slóð á umsögn

#4 Bjarni Svanur Kristjánsson - 05.01.2023

Hef ég misst af einhverju „fiskari“ hvað í andsk. er nú það? Er hér verið að tala um áhafnir á fiskiskipum? er nú háseti eða fiskimaður orðið of virðuleg orð fyrir þessa stétt sjómanna? Minni á að það er fleira veitt úr sjónum en fiskur eða allt frá skeljum upp í hvali, hlutaðeigandi sjómenn mundu þá væntanlega vera kallaðir skeljarar og hvalarar. Kvalari mundi nú eiginlega henta betur sem nýyrði yfir alþingismenn.

Reglugerð sem beinist einvörðungu að og þrengir að einni stétt manna, stangast augljóslega gegn jafnræðis og meðalhófsreglu stjórnarskrár Íslands.

T.d. þetta stendur í drögunum. „Heilbrigðiskröfur fiskara, annarra en réttindamanna.“ „Í augum eða tengdum líffærum skal ekki vera til staðar neitt sjúklegt ástand, sem skert geti hæfni fiskara og ógnað öryggi við skyldustörf.“ Eru sjómenn (hásetar) á fiskiskipum nú farnir að vinna skyldustörf! Er hér verið að rugla saman sjómennsku og herskyldu?

Hugsanlega er hér verið að undirbúa að róbótar eða klónaðar forritaðar eftirlíkingar fólks séu „ráðin“ til sjós! Væri nú ekki skynsamlegra að gefa út almenna reglugerð sem tæki á því að sálarlausir róbótar færu í nokkurskonar bifreiðaskoðun ár hvert, óháð því hvaða störf sem þeir vinna, á sjó eða landi.

p.s. vinsamlega takið þessar ábendingar ekki persónulega.

Afrita slóð á umsögn

#5 Aríel Pétursson - 19.01.2023

Sjómannadagsráð mótmælir því harðlega að í ofangreindri reglugerð sé vísað í nýtt heiti á stétt fiskimanna sem væntanlega er samofið sögu þjóðarinnar og íslenskrar tungu frá því land var numið. Nægilega margir hafa bent á grunnhyggnina sem í því er fólgin að ákveða að fiskimaður skuli héðan í frá heita fiskari til þess að mæta meintri karllægri merkingu hins fyrrnefnda. Vonandi hefur ráðherranum (eða ætti ég kannski að segja ráðmenneskjunni?) ekki yfirsést að hið fyrirhugaða nýja heiti er einnig karlkyns. Og vonandi þarf ekki að ítreka það grundvallaratriði að konur eru menn.

Enda þótt íslenskan á alþingi götunnar muni væntanlega aldrei ansa þessu ákvæði laganna er vonandi að það verði engu að síður, virðingar Alþingis vegna, fjarlægt úr lögunum. Ella þyrfti væntanlega, samræmisins vegna, að fikta á síðari stigum í gamalgrónum starfsheitum til sjós á borð við bátsmann og stýrimann og jafnvel láta greipar sópa víðar í karllægum starfsheitum um borð. Og jafnvel skipta þeim útaf fyrir önnur karlkynsheiti á borð við „bátari“, „stýrari“ svo ekki sé talað um sjómanninn sem e.t.v. á, vegna duttlunga Alþingis, eftir að breytast í „sjóara“ og bæði sjómannadagurinn og Sjómannadagsráð um leið þvinguð í afleiddar nafnbreytingar.

Það er einnig ámælisvert að þessi ákvörðun um orðskrípið „fiskari“ sé tekin án nokkurs formlegs samráðs við sjómannastéttina eða einstök félög innan hennar. Þess vegna er þessari ákvörðun mótmælt harðlega og þess farið á leit að undirrituðum og eftir atvikum öðrum hagshöfum verði gefið tækifæri til þess að skiptast á skoðunum við þar til bæra aðila til þess að fá í senn rökstuðning fyrir ákvörðuninni og tækifæri til þess að færa rök fyrir því að ofan af henni verði undið.

Afrita slóð á umsögn

#6 Þórður Birgisson - 19.01.2023

Athugasemdir varðandi reglugerðarbreytingu á reglugerð 944/2020

Orðið fiskari er ekki gott og mun aldrei verða notað af sjómönnum , orðið sjómaður er gilt fyrir bæði kyn samanber kvenmaður- karlmaður. Einfaldlega að halda okkur við orðið sjómaður, það er nær yfir allar stéttir sjómanna.

Ég sé ekki af hverju þetta þarf að vera á 2ja ára fresti á meðan réttindin okkar gilda í 5 ár.

Annað sem þarf að skoða og samræma við slysavarnarskólann, það er nýliðun.

Menn sem eru að fara í fyrsta skiptið á sjó eru ekki að fara til læknis áður til að fá vottorð, það tekur upp í 6-8 vikur að fá tíma hjá lækni í dag.

Við skipstjórnarmenn höfum oft þurft að redda okkur manni rétt fyrir brottför , þessi reglugerð mun koma í veg fyrir það þar sem ekki er tekið á aðlögun, eins og með slysavarnaraskólann, þar sem þú hefur 180 lögskráða daga til að verða þér út um það skírteini.

Annað þessi vottorð verða að vera rafræn, það er ekki séns að menn geti haldið upp á læknisvottorð í tvö ár , þau muna pottþétt týnast og þá er maðurinn úr leik. Einnig mætti skrá þetta inn í lögskráningarkerfið eins og atvinnuréttindi og skírteinið sem fæst eftir námskeið í Sæbjörgu.

Hvernig á venjulegur læknir að meta hvort við komandi sé hæfur til að gegna hinum og þessum störfum um borð, hafa læknar einhverja vitneskju um hvaða starfstöð viðkomandi er að fara í ?

Menn eru með mismunandi getu til að gera hina mismunandi hluti og það er oft þannig að þó þú hafir ekki færni/ getu til að gera einn hlut um borð getur þú verðið afbragðs góður í öðru.

Þetta er bara mjög illa unnið skjal hjá ykkur , og ekki gert í samráði við fólk í stéttinni , eins og svo oft áður. T.d. varðandi þessa rugl reglugerð um lyfjakistu báta.

Kveðja

Þórður Birgisson

Afrita slóð á umsögn

#7 Sjómannafélag Íslands - 19.01.2023

Umsögn f.h. Sjómannafélags Íslands um fyrirhugaðar breytingar á reglugerð nr. 944/2020 um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum

Sjómannafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við þau áform að binda í reglugerð verulega íþyngjandi kröfur til fiskara, um að þeir sanni heilbrigði sitt til að gegna starfanum, eins og boðað er í fyrirhuguðum viðauka III. Ólíkt skipstjórnar- og vélstjórnarmönnum, sem slíkar kröfur hafa fram að þessu náð til, starfa fiskarar ekki á grundvelli sérstakra starfsréttinda eða menntunar. Engin sannfærandi rök hafa verið færð fram því til stuðnings að takmarka með þessum hætti stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi þessa hóps, en að mati Sjómannafélagsins geta sömu sjónarmið ekki gilt um fiskara og réttindamenn, sem starfa á grundvelli sérstaks starfsleyfis. Sjómannafélagið telur þessi áform vera óhóflega íþyngjandi inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi, bæði hvað varðar atvinnufrelsi, persónufrelsi og persónuvernd, sem ekki fái staðist. Þá telur félagið ljóst að lagastoð skorti fyrir því að setja svo strangar kröfur í reglugerð, og bendir í því samhengi á að með fyrirhuguðum viðauka III er gengið mun lengra en boðað er með 188. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um vinnu við fiskveiðar (ILO 188), um sama efni.

Fh. Sjómannafélags Íslands

Bergur Þorkelsson

Formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Valgeir Sigurðsson - 19.01.2023

Vinnuvernd er framsækið þjónustu- og ráðgjafafyrirtæki að norrænni fyrirmynd sem stuðlar að heilbrigði einstaklinga og vellíðan á vinnustað. Það er staðsett á höfuðborgarsvæðinu en sinnir verkefnum víða um land. Hjá fyrirtækinu starfa læknar og hjúkrunarfræðingar auk annara fagstétta sem hafa sérhæft sig í atvinnutengdum heilbrigðisskoðunum sem krafist er skv. íslenskum lögum og reglugerðum.

Í mörgum tilfellum er krafist staðfestingar Samgöngustofu til að geta sinnt heilbrigðiskoðunum tengslum við störf við samgöngur.

Hjá Vinnuvernd starfa nú fjórir fluglæknar sem hafa aflað sér menntunar erlendis og hlotið viðurkenningu Samgöngustofu auk fjögurra lækna sem starfa sem sérstakir sjómannalæknar með leyfi sömu stofnunar.

Í tilfelli heilbrigðiskoðana áhafna á farm- og farþegaskipum er það eingöngu sjómannalæknar sem geta gert slíkar skoðanir auk þess að um er að ræða ítarlegar kröfur um heilsufar.

Í reglugerðardrögum sem nú liggja fyrir varðandi heilbrigðisskoðanir áhafna fiskiskipa, varðskipa auk annara skipa er ekki gert ráð fyrir að slíkar skoðanir séu í höndum sjómannalækna og tekið sérstaklega fram að heimilislæknir viðkomandi skuli að jafnaði framkvæma skoðun og gefa út vottorð.

Vinnuvernd telur mikilvægt að sama fyrirkomulag gildi varðandi heilbrigðisskoðanir áhafna allra skipa og það séu sjómannalæknar sem framkvæmi þær. Með slíku fyrirkomulagi getur Samgöngustofa haft betri yfirsýn og tryggt betur að læknar hafi kynnt sér þau lög og reglugerðir sem um slíkar skoðanir gilda. Við innleiðingu STCW reglugerðar varðandi sjómannalækna 2017 kom fram í kynningu Samgöngustofu að búast mætti við því að krafan skuli ná til fleiri sjófarenda en áhafna farm- og farþegaflutninga. Þessi reglugerðardrög virðast ekki ganga í þá átt.

Við leggjum til að ákvæði um heimilislækna verði fellt út enda óljóst hvaða áhrif það hafi að taka fram að heimilislæknir skuli að jafnaði framkvæma skoðun. Myndi slíkt einnig takmarka læknaleyfi annara lækna. Rétt er einnig að taka fram að heimilislæknir ber fyrst og fremst hagsmuni sinna skjólstæðinga fyrir brjósti. Útgerðir bera nánast undantekningalaust kostnað vegna þessara skoðana og með því að beina þeim í heilsugæsluna sem nú þegar á í erfiðleikum með að sinna sinni kjarnaþjónustu væri ríkissjóður að niðurgreiða þessa þjónustu fyrir útgerðarfélög.

Við teljum óþarft að taka fram að notaður sé heyrnarmælir sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands meti fullnægjandi enda lúta heilbrigðisstofnanir eftirliti Embættis Landlæknis varðandi lækningatæki.

Í 9. grein III. viðauka er talað um að fiskari skuli ekki haldinn neinum þeim sjúkdóm sem ógnað geti öryggi skips og áhafnar eða verulega skert hæfni hans í starfi. Það sé mat viðkomandi læknis hvort svo sé. Ljóst er að þessi grein býður uppá afar mismunandi túlkun eftir því hvaða læknir á í hlut. Mun heppilegra væri að styðjast við sambærilegar reglur og gilda um áhafnir farm- og farþegaskipa (ILO/WHO guidelines on the medical examinations og seafares) til að tryggja betur að samræmi sé við útgáfu heilbrigðisvottorða.

Í tilfelli STCW heilsufarsskoðana áhafna á farm- og farþegaskipum þarf viðkomandi að gera grein fyrir heilsufari sínu og lyfjanotkun og skrifa undir eftirfarandi texta:

“Ég undirritaður lýsi því yfir að ofangreindar upplýsingar eru réttar og gerðar samkvæmt minni bestu vitund. Ég hef ekki vísvitandi leynt upplýsingum eða gefið villandi upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á niðurstöður. Ég geri mér fulla grein fyrir því að gefi ég rangar eða villandi upplýsingar í sambandi við umsóknina eða ónógar upplýsingar varðandi sjúkrasögu getur Samgöngustofa neitað mér um eða dregið til baka heilbrigðisvottorð sem þegar hefur verið gefið út. Auk þess kunna að eiga við önnur viðurlög samkvæmt landslögum. Ég gef hér með leyfi til að allar þær upplýsingar varðandi heilsufar mitt hjá læknum sjúkrastofnunum og öðrum sem hafa með höndum upplýsingar um heilsufar mitt, verði látnar í té sjómannalækni og ef nauðsyn krefur, til Samgöngustofu í þeim tilgangi að meta heilufar mitt til starfa á sjó. Trúnaðar verður ávallt gætt.”

Vinnuvernd telur nauðsynlegt að sama fyrirkomulag gildi um skoðanir áhafna á fiskiskipum.

Fh. Vinnuverndar ehf.

Valgeir Sigurðsson, framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#9 Guðríður Björk Magnúsdóttir - 19.01.2023

“ Heilbrigðiskröfur til fiskara” er ekki allt í góðu? Þetta orðskrípi er til skammar.

Fiskari getur aldrei komið í stað orðsins sjómaður, sjómenn starfa á skipum, ekki bara fiskiskipum, heldur líka ferjum, varðskipum og fraktörum og þeir starfsmenn verða aldrei kallaðir fiskarar heldur sjómenn sem er gott og gilt orð yfir þá sem vinna á skipum óháð kyni því konur eru líka menn, þeir sem telja sig ekki vera kk eða kvk eru samt menn.

Afrita slóð á umsögn

#10 Guðni Arinbjarnar - 19.01.2023

Það er ánægjuefni að hreyfing er að komast á eitt stærsta öryggismál sjófarenda síðan Sjómannskólinn var settur á fót. Við hjá Sjómannaheilsu höfum framkvæmt læknisskoðanir að norskri fyrirmynd í 10 ár og lengi unnið að og reynt að fá þeirra reglur og leiðbeiningar settar á hér heima.

Tilgangur norsku lagann er : Að sjófarandi hafi ekki sjúkdóm sem getur versnað á hafi úti og valdið varanlegum skaða, að sjófarandi geti bjargað sjálfum sér og öðrum í sjávarháska og að menn leggi sig ekki í hættu við að reyna að bjarga honum. Enginn annar tilgangur er með þessum lögum en að stuðla að og bæta heilsu allra sem vinna á sjó. Norskar kröfur eru mismunandi eftir því hvað sjómenn eru á stórum skipum og hversu langt frá landi þeir fara svo og hversu lengi þeir eru fjarverandi. Allir sjófarendur eiga að uppfylla sömu kröfur sama hvaða stöðu þeir gegna - eðlilega. (undantekning er að yfirmenn í brú þurfa örlítið betri sjónskerpu og góða litasjón).

Hér hjá okkur hefur eitthvað misfarist að mínu mati það eru misjafnar kröfur gerðar til sjófarenda eftir því í hvaða atvinnugrein þeir eru. Meiri kröfur eru gerðar til farmanna og þeirra sem flytja farþega en fiskimanna. Meiri kröfur eru gerðar til réttindamanna og minnstar kröfur eru gerðar til háseta og starfsmanna á dekki - en þeir eru í hættulegustu störfunum!

Í Noregi eru gerðar faglegar kröfur til lækna sem mega framkvæma skoðunina, en á Íslandi eru engar faglegar kröfur til lækna sem mega kalla sig sjómannalækna.

Að mínu mati eiga allir sjófarendur að uppfylla sömu kröfur - og eiga þær að vera settar fram númer eitt, tvö og þrjú sjómannsins vegna.

Ég vil gleðja Sjómannafélagið með því að á þessum 10 árum sem við hjá Sjómannaheilsu höfum framkvæmt þessar alþjóðaskoðanir höfum við framkvæmt um 600 skoðanir og rekur okkur minni til þess að 3-4 sjómenn hafi fallið varanlega. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur hvaða kröfur eru gerðar og hver er tilgangur laganna. Sjófarendur hafa að mínu mati mun meira upp úr þessum reglum en útgerðir ef rétt er staðið að málum.

Ég tek undir með Valgeiri að mjög mikilvægt er að vel sé að málum staðið strax í upphafi, sömu kröfur til allra sjófarenda og faglegar kröfur til lækna og samræmdar leiðbeiningar nýttar en þær eru öllum aðgengilegar (ILO/IMHO guidelines on the medical examination of seafarers)

Að lokum vil ég leggja til að við fylgjum frændum okkar norðmönnum sem standa þjóðum fremst í þessum málum - að mínu mati

Guðni Arinbjarnar

Sjómannalæknir og bæklunarskurðlæknir

Meðfylgjandi er þýðing okkar á norsku reglunum og leiðbeiningunum sem eru í takt við ILO/IMHO

Afrita slóð á umsögn

#11 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 20.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn SFS

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Valmundur Valmundsson - 20.01.2023

Sjómannasamband Íslands (SSÍ)

SSÍ telur með neðangreindum fyrirvara að þessi reglugerð gæti verið til bóta fyrir heilsu Íslenskra sjómanna.

SSÍ minnir á að undirmenn á fiskiskipum starfa ekki á grunni sérstakra starfséttinda og/eða menntunar nema hvað varðar Slysavarnarskóla sjómanna sem allir Íslenskir sjómenn þurfa að sækja með grunnnámskeiði og síðan á fimm ára fresti til endurmenntunar.

Meðan að mönnun fiskiskipa (mönnunarskírteini) er einungis bundin við þá athöfn að sigla skipi frá A til B, en tekur ekki til annara starfa um um borð, má líta svo á að krafa um heilsufarsskoðanir þeirra sem ekki virðist vera þörf fyrir samkvæmt mönnunarskírteini, sé afkáraleg svo ekki sé meira sagt.

SSÍ hvetur til þess að settar verði reglur um mönnun fiskiskipa sem tiltaka þann fjölda yfir- og undirmanna sem þarf til að sinna störfunum um borð með tilliti til þeirrar vinnu sem fer fram um borð, hvíldartíma og þeirra laga og reglna sem þar um gilda. Að þessum reglum settum má skoða af alvöru reglur um heilsufarsskoðanir allra um borð og samræmingu þeirra reglna.

(Að lokum leggur SSÍ til að orðinu ,,fiskari” verði tafarlaust úthýst úr íslenskum lögum og reglugerðum og orðin fiskimaður og/eða sjómaður eftir atvikum verði sett inn í staðinn.)

F.h. Sjómannasambands Íslands

Valmundur Valmundsson

Afrita slóð á umsögn

#13 Árni Sverrisson - 20.01.2023

Athugasemdir við breytingu á reglugerð nr. 944/2020

Félag skipstjórnarmanna fagnar því að tekin skuli upp ákvæði um læknisskoðanir á sjómönnum fiskiskipa eins og gilda um sjómenn á millilandaskipum. Ákvæðin eru samkvæmt alþjóðasamþykktum, annarsvegar MLC samþykktinni fyrir farmenn og hinsvegar Work in Fishing Convention númer C188, (sem Ísland á reyndar eftir að uppfylla). Báðar þessar reglugerðir eru settar með hagsmuni sjómanna að leiðarljósi. Eins og gefur að skilja er heilsa hvers og eins það mikilvægasta í lífinu, því er mikilvægt að allt regluverk sem heimilar eða setur manni skorður til atvinnu sé gagnsætt. Mikilvægt er að samhliða reglugerðinni verði settar samræmdar leiðbeiningar um hvernig læknisskoðun fer fram, þær eru til hjá ILO, (guidelines on the medical examination of seafarers), sjá vefsíðu Samgöngustofu. Í viðauka III í reglugerðinni gr. nr. 10, er ákvæði um að ef sjómaður unir ekki úrskurði læknis um hæfni hans til starfa hefur hann rétt á því að gangast undir læknisskoðun á ný. Nefnd sem ráðherra skipar með tveimur siglingafróðum mönnum og einum lækni sker úr um vafaatriði.

Félagið gerir ráð fyrir því að læknisvottorð séu sjómanni að kostnaðarlausu, en sjálfsagt væri að bæta því í reglugerðina þannig að það sé á hreinu.

Félagið hvetur Samgöngustofu til að taka upp rafræn atvinnuskírteini ásamt rafrænum læknisvottorðum, þannig að hvorttveggja sé skráð í lögskráningarkerfið og vottorðin á heilsuveru hvers sjómanns.

Síðast en ekki síst, hvetur félagið til þess að í stað orðsins „Fiskari“ í reglugerðinni komi „Sjómaður á fiskiskipi“ Mikil andstaða er meðal félagsmanna og margra annarra sem hafa tjáð sig um málið í ræðu og riti um þetta orð. Þau rök sem ég hef heyrt að ekki sé hægt að breyta þessu í reglugerðinni halda ekki vatni. Í 3. gr. reglugerðarinnar sem nefnist Orðskýringar er hægt að bæta við d. lið þar sem hljóðaði til dæmis þannig:

d. Sjómaður á fiskiskipi er hver sá eða sú sem starfar eða er ráðinn eða ráðin til vinnu á fiskiskipi, þ.m.t. þau sem eru ráðin upp á aflahlut. Hafnsögumenn, löggæsluaðilar, aðrir aðilar í fastri þjónustu hins opinbera, starfsmenn í landi sem sinna störfum um borð í fiskiskipum eða eftirlitsmenn með fiskveiðum teljast ekki vera sjómenn á fiskiskipi.

Félagið hvetur ráðuneytið til þess að breyta reglugerðinni og síðar lögum um áhafnir skipa nr. 82/2022 sem tóku gildi þann 1. janúar 2023. Þannig að orðskýring nr. 9 í lögunum falli niður og samhljóða orðskýring og d. hér að ofan komi í staðinn.

F.h. Félags skipstjórnarmanna

Árni Sverrisson Formaður

Afrita slóð á umsögn

#14 Landhelgisgæsla Íslands - 20.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn Landhelgisgæslu Íslands um drög að breytingum á reglugerð nr. 944/2020 er varða heilbrigðiskröfur til fiskara.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Öryrkjabandalag Íslands - 20.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ - réttindasamtaka.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Margrét Þórunn Jónsdóttir - 20.01.2023

Sjá viðhengi.

Viðhengi