Áform um lagasetningu - Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu)
Mál nr. 3/2023Birt: 05.01.2023
Matvælaráðuneytið
Áform um lagasetningu
Málefnasvið:
Sjávarútvegur og fiskeldi
Til umsagnar
Umsagnarfrestur er 05.01.2023–02.02.2023.
Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast. Senda inn umsögn
Málsefni
Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs áform um breyting á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands ásamt frummati á áhrifum lagasetningarinnar.
Í áformaskjalinu er lagt til að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hafi verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip á tilteknu tímabili. Áformað er að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, nemi aldrei hærra hlutfalli af heildaflahlutdeild í grásleppu en 2%.
Þá er lagt til að aflaheimildir í grásleppu verði svæðisskiptar og að framsal aflaheimilda verði eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða og framsal milli svæða verði óheimilt. Þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum en veiti samt sem áður möguleika til hagkvæmari veiða innan svæðanna.
Einnig er lagður til að sérstakur nýliðunarpottur fyrir grásleppu sem verði settur á í gegnum 5,3% kerfið og Fiskistofu falið að halda utan um úthlutun þess til nýliða. Bent hefur verið á að ekki hefur verið mikil nýliðun í grásleppuveiðum síðast liðin 10 ár þrátt fyrir að kostnaður við að hefja veiðar sé ekki hár. Ef að hlutdeildarsetning leiðir til aukinnar hagkvæmni í greininni er hugsanlegt að verðmæti aflaheimilda muni aukast og því verði kostnaðarsamara að hefja grásleppuveiðar verði frumvarpið að lögum. Lagt er til að úthlutun nýliðunaraflamarks í grásleppu yrði til nokkurra ára og að þeim tíma liðnum hafi viðkomandi sjómanni tekist að kaupa sér varanlegar aflaheimildir. Nýliðunaraflamark í grásleppu verði gjaldfrjálst að undanskildu greiðslu veiðigjaldi og þjónustugjalda. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til setningar reglugerðar um nýliðunaraflamark, þar sem komi fram hverjir geti sótt um nýliðunaraflamark, á hvaða tímamarki, hámarksaflamark fyrir nýliða og hvernig ráðstafa skuli því nýliðunaraflamarki sem ekki er sótt um. Þá er einnig lagt til að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um m.a. veiðitímabil, meðafla, umgengni við auðlindina og veiðarfæri í reglugerð.
Málið er á þingmálaskrá og er að hluta sambærilegt máli sem flutt var á 151. þingi. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í febrúar 2023. Þar sem veiðitímabil grásleppu hefst í mars 2023 er lagt til að gildistaka frumvarpsins, verði það að lögum, muni miðast við veiðitímabil grásleppu vorið 2024, þá gefst svigrúm til að undirbúa hlutdeildarsetninguna, setja reglugerð um nýliðunarpott og innleiða breytingarnar með góðum fyrirvara fyrir handhafa grásleppuveiðileyfa og Fiskistofu.
Međ tilkomu nýliđaaflamarki í frumvarpi ráđuneytis þá opinber ráđuneyti sína viđurkenningu ađ nýliđun í aflamarkskerfinu er engin. Þróun síđustu 40ára hafa skilađ verulega fækkun í fiskiskipaflotanum og skerđing orđiđ í sjávarplássum af völdum þess.
Međ kvótasettningu grásleppu verđur sú þróun til stađar.
Nýliđaaflamark er skammtímahugsun, hún verđur einfaldlega ekki til stađar nema innan fárra ára. Eftir þann tíma erum viđ komin á þann stađ ađ íslenskur almenningur "fæddist" ekki á réttum tíma og missir af aflareynslutíma og nýliđaaflamarki.
Áskorun mín er ađ ráđuneyti og Landsamband Smábátaeigenda ( L.S.) komi saman og myndi nýtt kerfi um stjórn grásleppuveiđa.
Fjölskyldan okkar hefur gert út árlega til grásleppuveiða sl. 80 ár. Langafi minn hóf þessar veiðar í fjölskyldunni og tók ég við af afa mínum fyrir tæpum 10 árum og stunda þessar veiðar árlega með föður mínum. Þegar ég segi að fjölskylda mín hafi stundað þessar veiðar óslitið í 80 ár þá er það ekki alveg rétt. Vegna ákvörðunar ráðherra þá var engin grásleppuveiði hjá fjölskyldunni árið 2020. Við teljum að þarna hafi ráðherra skapað hættulegt fordæmi með því að leyfa einu svæði að klára allan ráðlagðan kvóta og láta hina sitja upp með sokkin kostnað á veiðarfærum og fleiru. Þetta hættulega fordæmi gerir öllum öðrum en þeim sem hefja veiðar fyrst á vertíðinni ókleift að stunda veiðar. Kerfið sem hefur verið notað undanfarin ár er algjörlega búið að ganga sér til húðar. Það er að mati undirritaðra nauðsynlegt að gera á því breytingar. Ekki er hægt að fjárfesta í veiðarfærum, skipuleggja vertíðina með tilliti til annarrar vinnu, með þessari óvissu sem ráðherra bauð upp á.
Við feðgar höfum áður lagt inn umsögn á þessu máli og því má segja að það að reifa þá kosti að taka upp aflamark sé endurtekning. Þetta eru þeir kostir sem við teljum við að breyta í aflamark.
• Núverandi kerfi hefur skapað gríðarlega óvissu á hverju ári fyrir þær útgerðir sem hafa tekið þátt í veiðunum.
• Grásleppuveiðar eru áhættusöm atvinnugrein sem er gríðarlega háð veðri og vindum.
• Til að auka á flækjustig veiðanna hefur óvissa með fjölda daga, veiða áður en veiðitímabil hefst.
• Núverandi kerfi gefur embættismönnum og stofnunum of mikið pólitískt vald og skapar gríðarlega ógagnsæja stjórnsýslu
• Skrýtið er að hafa einungis grásleppu eina undanþegna frá varanlegum aflaheimildum
• Að breyta í aflamark myndi lágmarka þá ókosti sem nefndir hafa verið hér að ofan, óvissu (bæði með verð og fjölda veiðidaga), umhverfi (eyðilegging á netum þar sem ekki er hægt að taka upp net vegna samkeppni um staði).
Að lokum viljum við taka undir með niðurstöðum úr áhrifamati lagasetningar þar sem listaðir eru upp þeir kostir að taka upp aflamark á Grásleppu.
Ég er sammála því að setja grásleppuna í aflamark. Það er búið að vera mikið óvissuástand í grásleppuveiðum síðusta áratug. Menn vita aldrei við hverju má búast með dagafjölda og heildarmagn sem veiða má hverju sinni. Þær upplýsingar koma aldrei frá Hafró fyrr en veiðar eru hafnar. Það er óþolandi og erfitt að gera út á þessum forsendum. Þetta eru ólympískar veiðar sem byggjast frekar á heppni og keppni, því að um leið og dagarnir byrja að telja þá er allt undir að menn hafi eitthvað út úr vertíðinni.
Hér áður fyrr voru gefnir út 90 dagar til veiða og var ekki gefið út heildarveiðimagn frá Hafró. Síðustu 13 árin höfum við verið að rokka frá 15 dögum upp í 45 daga og skera netafjöldann niður um 1/3. Nú er farið að loka veiðisvæðum til verndunar landsel og hvatning til okkar veiðimanna að halda okkur frá svæðum þar sem landselur og teista eru í einhverjum mæli. Þetta þrengir að okkur því fyrst og fremst erum við að þessu til að hafa einhverja afkomu af. Með kvótasetningu kemur mikill sveigjanleiki til að stunda veiðarnar á hagkvæman hátt, t.d. að fyrst og fremst veiðimaðurinn ráði sínum hraða til að afla þess magns sem hann hefur heimildir til.
Tíðrætt hefur verið um nýliðun í grásleppuveiðum. Hún er engin og mun áfram verða þannig við núverandi aðstæður þar sem veiðarnar teljast varla útgerðarhæfar, startkostnaður til að hefja veiðar er mikill í tækjum og netum. Það sem menn taka heldur aldrei með inn í reikninginn þegar verið er að tala um útgerðarhlutann í veiðunum er sú mikla vinna sem til fellur við fellingu netanna og vinnan við frágang eftir vertíð. Þannig að ef ungt fólk ætlar að byrja útgerð þá velur það síst grásleppuveiðar og leitar frekar til strandveiða þar sem þær hafa breyst til batnaðar undanfarin ár og stofnkostnaður mun lægri. Með kvótasetningu sé ég frekar möguleika fyrir fólk að byrja grásleppuútgerð þegar vitað er að hverju er gengið. Óvissan í núverandi kerfi er ekki bjóðandi þeim sem eru að reyna að hafa ofan í sig og á með þessari atvinnu, þurfa að ráða mannskap og vera klár með úthaldið en vita ekki hvað er framundan. Því fagna ég hugmyndum um nýliðakvóta í nýju frumvarpi.
Í frumvarpinu er komið í veg fyrir samþjöppun aflaheimilda með því að hver útgerð megi einungis eiga 2% af heildaraflamarki grásleppu. Því fagna ég og tel að með þessu yrði svipuð dreifing veiða kringum allt land og því þurfi ekki að hafa stórar áhyggjur af samþjöppun. En um leið eru grásleppuveiðar orðnar útgerðarhæfar og möguleikinn til að efla útgerðina til staðar upp að vissu marki.
Ég styð hugmyndir varðandi staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar en tel mikilvægt að ávallt sé haft samráð við heimamenn þegar svæðin eru ákvörðuð.
Ég styð frumvarpið, finnst það liggja nokkuð ljóst fyrir og taka á því sem við grásleppusjómenn höfum verið að kalla eftir.
Valentínus Guðnason, Stykkishólmi.
Gerði fyrst út á grásleppu árið 1982 með hléum en samfellt öll sumur síðustu 15 árin. Alla tíð á Breiðafirði.
Ég er á móti kvótasetningu á grásleppu þar sem að ég tel að það verði erfiðara fyrir nýliða að byrja. Núverandi stjórnun er ekki fullkomin en það er hægt að breyta því sem nú er án þess að það komi til kvótasetningar. Finnst þetta frumvarp koma illa við þá sem eru nýbúnir að kaupa sér grásleppuleyfi, hafa ekki náð að vina sér inn veiðireynslu en koma líklega til með að sitja uppi með verðlaus og ógild leyfi. Læt fylgja hérna með viðhengi þar sem er stiklað á stóru varðandi þetta mál. þá aðallega sem vísan í svör við greinagerð starfshóps.
haldinn í Ráðhúsinu í Stykkishólmi þann 12. desember 2022 varðandi veiðistjórn/fyrirkomulag hrognkelsaveiða.
Bátafélagið Ægir telur að veiðistýring á grásleppu eigi að vera eins og í öðrum tegundum innan fiskveiðistjórnunarkerfisins, þ.e. setja hana í aflamark, og þar með hætta þeim ólympísku veiðum sem stundaðar eru í dag. Til að ná fram því markmiði telur félagið skynsamlegt að breyta ákvæðum laga og reglugerða sem um hrognkelsaveiðar gilda þannig að heimilt verði að svæðisbinda aflahlutdeild hrognkelsa og setja skipum aflahlutdeild með tilliti til aflareynslu viðkomandi skips. Mikilvægt er að tryggja í hinu nýja fyrirkomulagi eðlilega nýliðun í greininni og telur félagið að hugmyndir um nýliðapott sé vænleg leið til þess að styðja við það markmið.
Það er mat Bátafélagsins Ægis að veiðistýring með aflamarki sé eina leiðin til að tryggja stöðuleika, fyrirsjáanleika í afkomu við veiðarnar og eyða þeirri óvissu sem fylgt hefur veiðunum undafarin ár. Án þessara breytinga vita sjómenn í raun ekki að hverju er gengið hverju sinni, ekki einu sinni við upphaf vertíðar. Nauðsynlegt sé að skapa greininni stöðuleika og nauðsynlegan fyrirsjáanleika sem eru grundvallarþættir í öllum rekstri.
Veiðitímabil grásleppu er mismunandi eftir svæðum og hefst það seinni hluta mars fyrir Norðurlandi en ekki fyrr en um 20. maí við innanverðan Breiðafjörð. Vorið 2020 var búið að veiða leyfilegt magn í lok apríl. Endurspeglaðist vel á því ári hversu núverandi fyrirkomulag skerðir mjög samkeppnisstöðu greinarinnar þar sem hallar mjög á sjómenn við Breiðafjörð og ýtir undir ómálefnalega mismunun milli svæða.
Núverandi fyrirkomulag veiðistjórnunar með sóknarmarki, þar sem dagafjöldi og/eða stöðvun veiða þegar afli er kominn yfir ráðlagðan hámarksafla samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, er ekki til þess fallin að tryggja samfélagslega, líffræðilega eða efnahagslega sjálfbærni þegar til framtíðar er litið. Það hefur sýnt sig að slík stjórnun er auk þess hamlandi fyrir frekari nýsköpun og nýliðun í greininni. Vel á annað hundrað bátar hafa hætt veiðum á grásleppu á síðustu árum. Um 210 bátar stunduðu veiðar á síðasta ári, af þeim 449 bátum sem rétt hafa haft til grásleppuveiða frá árinu 1997. Bátafélagið Ægir telur að það liggi ljóst fyrir að hlutdeildarsetning hrognkelsaveiða muni koma til með að efla grásleppuútgerðir og á sama tíma þær byggðir landsins sem þessar veiðar stunda og tryggja efnahagslega, samfélagslega og líffræðilega sjálfbærni í sem mestri sátt við umhverfið.
Bátafélagið Ægir telur að veiðistjórn sem felst í hlutdeildarsetningu tryggi ábyrgari fiskveiðistjórn, hættuminni sjósókn, betri nýtingu veiðafæra og að veiðar falli betur að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum. Umgengni um auðlindina mun batna til muna með hlutdeildasetningu, m.a. draga úr olíunotkun, fækka netum í sjó og þar með tjónum á netum og minna verður um óæskilegan meðafla.
Umsögn Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar um fyrirhugaða kvótasetningu á grásleppu, sbr. mál nr. 3/2023 í samráðsgátt stjórnvalda.
Inngangur
Kvótasetning á grásleppu hefur um árabil verið til umræðu, bæði á Alþingi og innan Landssambands smábátaeiganda, LS. Sömuleiðis hafa einstök félög innan LS rætt og ályktað um þetta mál og skiptar skoðanir hafa verið á því. Aðalfundir LS hafa jafnan lýst sig andvíga kvótasetningu á grásleppu og var síðasti aðalfundur þar engin undantekning. Þá veldur það nokkurri furðu að VG, sem beitti sér í síðustu ríkisstjórn af alefli gegn kvótasetningu á grásleppu þegar sjávarútvegs¬ráðherra Sjálfstæðisflokksins gerði ítrekaðar tilraunir til að koma slíku í gegnum Alþingi, skuli nú leggja fram frumvarp um kvótasetningu.
Eins og kunnugt er hefur meginforsenda allrar kvótasetningar á nýtingu sjávarfangs verið verndum og uppbygging þeirra stofna sem hafa verið kvótasettir. Sömuleiðis hefur kvótasetning verið miðuð við að auka hagkvæmni við veiðarnar. Hvergi er minnst í frumvarpsdrögum á að þörf sé á að vernda og byggja upp grásleppustofninn við Ísland enda ekkert sem bendir til þess að hann hafi verið ofnýttur með því kerfi sem var við líði við veiðarnar áratugum saman. Þótt kvótasetning geti orðið til þess að auka hagkvæmni við veiðar er ljóst að með öllum þeim fyrirvörum og flóknu og takmarkandi aðgerðum sem kvótasetningu á að fylgja samkvæmt frumvarpinu verður ekki séð að hagkvæmni veiðanna muni vaxa.
Takmörkuð þekking
Fram að 2012 var grásleppuveiðum eingöngu stýrt með sóknarmarki og án þess að nokkur heildarkvóti væri gefinn út. Þannig sveiflaðist afli hér við land frá 4.000 tonnum og upp í 12.000 tonn allt frá 1980 og var raunar mestur afli á níunda áratugnum þegar engin var ráðgjöfin eða magnstýringin.
Þekking á stofnstærð, útbreiðslu, hegðan og náttúrlegum sveiflum innan þessa stofns var og er afar takmörkuð. Mikið vantraust er meðal grásleppusjómanna á ráðgjöfinni og vísindunum á bak við hana. Fyrir rúmlega tveimur árum tók undirritaður saman þau atriði sem þeir vísinda-menn sem best þekkja til grásleppunar höfðu sent frá sér um rannsóknir og þekkingu á þessum fiski. Þessi atriði voru helst:
1. Vitað er að grásleppu (hrognkelsi) er að finna á öllu hafsvæðinu frá Grænlandi um Ísland og allt til Noregs og Barentshafs. Hins vegar er ekkert vitað hvaða hluti stofnsins hrygnir við Ísland, hvað við Grænland og hvað við Noreg. Þá hafa uppsjávarskip fengið hrognafulla grásleppu í flottroll við kolmunnaveiðar við miðlínu Hjaltlandseyja og Færeyja.
2. Fiskifræðingar telja að grásleppurnar við Grænland komi til Íslands og að þær hrygni raunar alls ekki við Grænland en það er fjarri því að vera sannað.
3. Sömu menn vita heldur ekki hversu gömul hrognkelsin verða, hve lengi þau dvelja í djúpsjó og hversu hratt þau vaxa.
4. Vitað er að grásleppan hrygnir á löngu tímabili allt frá mars og fram í ágúst en ekkert er vitað um skýringar á því eða hvaða áhrif það hefur á stofninn.
5. Skiptar skoðanir eru á því hvort grásleppan hrygni einu sinni eða oftar og hvort hún drepist þá að lokinni hrygningu. Samt eru settar fram tilgátur um að hver og ein grásleppa hrygni á sama tíma ársins frá ári til árs.
6. Nánast ekkert er vitað um karldýrið þ.e. rauðmagann, ferðir hans og lífstíl.
Við þetta má bæta að vitað er að grásleppan er mestan hluta ársins uppsjávarfiskur fjarri landi en kemur upp á grunnsævi til hrygningar. Samt er togararall með botntrolli sem veiðir örfáar grásleppur á ári (jafnvel minna en 100 stk) helstu rann¬sóknagögnin við stofnmælingar og útreikninga á stærð og veiðiþoli grásleppu¬stofnsins. Loks er vitað að oft fæst gríðarlegt magn af grásleppu¬ungviði í flottroll, ekki síst við loðnuveiðar. Er það úbreidd skoðun meðal grásleppusjómanna að sú mikla aflaaukning sem varð á grásleppu á vertíðinni 2021 megi þakka því að engin loðna var veidd í flottroll tvö árin þar á undan. Svipað var raunar upp á teningnum 2010 þegar einnig veiddust um 8000 tonn af grásleppu í kjölfar lítillar sem engrar veiði á loðnu árin 2008 og 2009.
Afstaða Drangeyjar
Markaður fyrir grásleppu er fremur lítill á heimsvísu og þess vegna hefur verið talið æskilegt að stýra að nokkru framboði á afurðum hennar. Sú sóknarstýring sem var við líði fram að kvótasetningu á heildarafla fyrir um áratug reyndist í meginatriðum vel og tryggði bæði eðlilegt samspil veiðistofns og veiða sem og hagkvæmni veiðanna enda stýring þeirra að mestu látin taka mið af aðstæðum á heimsmarkaði þessarar vöru. Innan Drangeyjar eru skiptar skoðanir á kvótasetningu á grásleppu en engar ályktanir um það verið samþykktar á aðalfundum félagsins á síðustu árum. Vitað er að meirhluti þeirra sjómanna sem stundað hafa grásleppuveiðar á Skagafirði um alllangt skeið eru nú hlynntir kvótasetningu enda liggi ljóst fyrir á hvaða forsendum það verði gert og hvernig hún verði útfærð. Slíku er að áliti þeirra ekki til að dreifa í fyrirliggjandi drögum að frumvarpi.