Samráð fyrirhugað 05.01.2023—02.02.2023
Til umsagnar 05.01.2023—02.02.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 02.02.2023
Niðurstöður birtar

Áform um lagasetningu - Breyting á lögum um stjórn fiskveiða og um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (veiðistjórn grásleppu)

Mál nr. 3/2023 Birt: 05.01.2023
  • Matvælaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 05.01.2023–02.02.2023. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs áform um breyting á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands ásamt frummati á áhrifum lagasetningarinnar.

Í áformaskjalinu er lagt til að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til aflareynslu sem fengin hafi verið á grundvelli leyfis sem skráð er á viðkomandi skip á tilteknu tímabili. Áformað er að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, nemi aldrei hærra hlutfalli af heildaflahlutdeild í grásleppu en 2%.

Þá er lagt til að aflaheimildir í grásleppu verði svæðisskiptar og að framsal aflaheimilda verði eingöngu heimilt innan tiltekinna svæða og framsal milli svæða verði óheimilt. Þannig verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum en veiti samt sem áður möguleika til hagkvæmari veiða innan svæðanna.

Einnig er lagður til að sérstakur nýliðunarpottur fyrir grásleppu sem verði settur á í gegnum 5,3% kerfið og Fiskistofu falið að halda utan um úthlutun þess til nýliða. Bent hefur verið á að ekki hefur verið mikil nýliðun í grásleppuveiðum síðast liðin 10 ár þrátt fyrir að kostnaður við að hefja veiðar sé ekki hár. Ef að hlutdeildarsetning leiðir til aukinnar hagkvæmni í greininni er hugsanlegt að verðmæti aflaheimilda muni aukast og því verði kostnaðarsamara að hefja grásleppuveiðar verði frumvarpið að lögum. Lagt er til að úthlutun nýliðunaraflamarks í grásleppu yrði til nokkurra ára og að þeim tíma liðnum hafi viðkomandi sjómanni tekist að kaupa sér varanlegar aflaheimildir. Nýliðunaraflamark í grásleppu verði gjaldfrjálst að undanskildu greiðslu veiðigjaldi og þjónustugjalda. Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til setningar reglugerðar um nýliðunaraflamark, þar sem komi fram hverjir geti sótt um nýliðunaraflamark, á hvaða tímamarki, hámarksaflamark fyrir nýliða og hvernig ráðstafa skuli því nýliðunaraflamarki sem ekki er sótt um. Þá er einnig lagt til að ráðherra verði heimilt að mæla fyrir um m.a. veiðitímabil, meðafla, umgengni við auðlindina og veiðarfæri í reglugerð.

Málið er á þingmálaskrá og er að hluta sambærilegt máli sem flutt var á 151. þingi. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í febrúar 2023. Þar sem veiðitímabil grásleppu hefst í mars 2023 er lagt til að gildistaka frumvarpsins, verði það að lögum, muni miðast við veiðitímabil grásleppu vorið 2024, þá gefst svigrúm til að undirbúa hlutdeildarsetninguna, setja reglugerð um nýliðunarpott og innleiða breytingarnar með góðum fyrirvara fyrir handhafa grásleppuveiðileyfa og Fiskistofu.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.