Samráð fyrirhugað 10.01.2023—31.01.2023
Til umsagnar 10.01.2023—31.01.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 31.01.2023
Niðurstöður birtar

Ný lög um nafnskírteini

Mál nr. 4/2023 Birt: 10.01.2023 Síðast uppfært: 11.01.2023
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála
  • Samgöngu- og fjarskiptamál
  • Hagskýrslugerð og grunnskrár

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 10.01.2023–31.01.2023. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Með frumvarpinu er lagður grunnur að útgáfu nýrra handhægra nafnskírteina sem munu teljast örugg persónuskilríki til auðkenningar og jafnframt gild ferðaskilríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frumvarpið er þáttur í að tryggja útgáfu öruggra persónuskilríkja í samræmi við Evrópureglugerð 2019/1157, sem er í upptökuferli hjá sameiginlegu EES-nefndinni, og í að útvega öllum, sem þess óska, lögleg skilríki í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (16.9).

Frumvarpinu er ætlað að vera tæknilega hlutlaust og er gert ráð fyrir að stafræn skilríki geti verið gefin út á grundvelli laganna þegar fram líða stundir. Samkvæmt drögunum er því ráðgert að ráðherra setji reglugerð um form og efni nafnskírteina til að tryggja að þau uppfylli alþjóðlega staðla á hverjum tíma.

Meginefni frumvarpsins samkvæmt fyrirliggjandi drögum:

i. Allir íslenskir ríkisborgarar eigi rétt á að fá útgefið nafnskírteini. Er það breyting frá gildandi lögum sem mæla fyrir um útgáfu nafnskírteina til allra einstaklinga sem eru skráðir hér á landi og gera að skilyrði að umsækjendur séu orðnir 14 ára.

ii. Gefin verði út nafnskírteini bæði með og án ferðaréttinda og þannig tryggt að allir íslenskir ríkisborgarar geti fengið örugg persónuskilríki, jafnvel þótt þeir uppfylli ekki skilyrði laganna til að fá útgefin nafnskírteini sem eru einnig gild ferðaskilríki.

iii. Þjóðskrá Íslands beri áfram ábyrgð á útgáfu nafnskírteina. Þjóðskrá Íslands gefur út nafnskírteini og vegabréf samkvæmt gildandi lögum. Hjá stofnuninni er því fyrir hendi reynsla, þekking, kunnátta og tækjabúnaður til að annast skilríkjaútgáfu samkvæmt frumvarpinu með öruggum hætti.

iv. Lögfest verði heimild fyrir ráðherra að ákveða að andlitsmynd og fingraför fylgi umsókn um nafnskírteini sem og heimild fyrir Þjóðskrá Íslands að safna og varðveita þær upplýsingar. Í frumvarpsdrögunum eru jafnframt ákvæði sem er ætlað að tryggja viðeigandi verndarráðstafanir við meðferð allra persónuupplýsinga, sér í lagi andlitsmynda og fingrafara, t.d. um að Þjóðskrá Íslands hafi umsjón með því hvaða einstaklingar hafa leyfi til að safna þessum upplýsingum, að ítrustu öryggiskrafna skuli gætt við varðveislu þeirra og að þær verði ekki varðveittar lengur en þörf krefur.

v. Ákvæði, sambærileg ákvæðum vegabréfalaga, sem lúta annars vegar að því að tryggja öryggi við útgáfu og notkun nafnskírteina og hins vegar sjónarmiðum um refsivörslu. Þetta eru ákvæði um útgáfu til ósjálfráða einstaklings, synjun um útgáfu nafnskírteinis sem telst gilt ferðaskilríki, gildistíma nafnskírteina, varðveislu þeirra og tilkynningaskyldu þegar nafnskírteini glatast, skilyrði afturköllunar og skyldu handhafa til að afhenda nafnskírteini sem hefur verið afturkallað.

vi. Þjóðskrá Íslands haldi sérstaka nafnskírteinaskrá þar sem skráðar og varðveittar skulu upplýsingar sem hefur verið safnað til útgáfu nafnskírteina, þ.m.t. andlitsmynd og fingraför, og aðrar upplýsingar um skírteinin. Einnig er lagt til að Þjóðskrá Íslands haldi sérstaka skrá sem almenningur getur flett upp í til að staðreyna gildi nafnskírteina við notkun þeirra.

vii. Refsivert verði að ranglega afla sér eða barns nafnskírteinis eða að gera sér nafnskírteini að féþúfu.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.