Samráð fyrirhugað 18.01.2023—01.02.2023
Til umsagnar 18.01.2023—01.02.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 01.02.2023
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um Land og skóg

Mál nr. 8/2023 Birt: 18.01.2023
  • Matvælaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Landbúnaður
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.01.2023–01.02.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu er mælt fyrir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar með þeim hætti að sett verði ný stofnun á sviði landgræðslu og skógræktar undir heitinu Land og skógur.

Landgræðslan og Skógræktin eru stofnanir sem eiga sér langa sögu og hafa verkefni þeirra frá upphafi tengst. Oftar en einu sinni hefur verið skoðað hvort sameina eigi stofnanirnar án þess að það hafi gengið eftir af ýmsum ástæðum, ekki síst byggðapólitískum. Mikill samhljómur er með hlutverkum framangreindra stofnana eins og þau eru skilgreind í lögum nr. 155/2018 um landgræðslu og lögum nr. 33/2019 um skóga og skógrækt og nýverið gaf matvælaráðherra út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt „Land og líf“ auk aðgerðaráætlunar.

Hinn 17. maí 2022 skipaði ráðherra starfshóp sem var falið að greina rekstur Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, eignaumsýslu, samlegð faglegra málefna stofnananna og vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar og skilaði starfshópurinn meðfylgjandi skýrslu þann 3. október sl. Niðurstaða starfshópsins var að fagleg og rekstrarleg rök væru fyrir sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og með góðum undirbúningi mætti tryggja að slík sameining skili í heildina meiri ávinningi en ef áfram yrðu tvær stofnanir. Tækifæri væru til staðar og horfa mætti til þess að ná fram aukinni skilvirkni í málaflokknum. Stærstu tækifærin voru talin snúa að heildstæðari sýn á landnýtingu sem geti flýtt framgangi fjölmargra verkefna m.a. í þágu loftslagsmála.

Með vísan til framangreinds ákvað matvælaráðherra að leggja til að Landgræðslan og Skógræktin yrðu sameinaðar í nýja stofnun. Sérstök áhersla verður lögð á að tryggja mannauð í málaflokknum og að núverandi þekking nýtist áfram sem best. Þá getur aðalskrifstofa nýrrar stofnunar verið á hvaða starfsstöð stofnunarinnar sem er en ekki er gert ráð fyrir að forstöðumaður hafi aðsetur á höfuðborgarsvæðinu.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Skagafjörður - 26.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 25. janúar 2023.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 30.01.2023

Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Kveðja

Auður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Sveinn Runólfsson - 31.01.2023

Matvælaráðuneytið

Borgartúni 26

105 Reykjavík

Selfossi, 31. janúar 2023

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi til laga um Land og skóg, mál nr. 8/2023

Vísað er til máls. nr. 8/2023 í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi til laga um Land og skóg. Með frumvarpinu er mælt fyrir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í nýrri stofnun undir heitinu Land og skógar.

Eftirfarandi umsögn er gerð í nafni nýstofnaðs félags um náttúruvernd ,,Vinir íslenskrar náttúru“ hér eftir VÍN, sjá nánar www.natturuvinir.is .

Varðandi 1. gr.:

Félagið fagnar því að stuðla eigi að eflingu, verndun og endurheimt á auðlindum þjóðarinnar sem fólgnar eru í jarðvegi, skógum og öðrum gróðri og auka eigi skilvirkni í málefnum landgræðslu og skógræktar. VÍN leggur til að í stað jarðvegi, skógum og öðrum gróðri komi vistkerfum og gróðri.

Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er í eðli sínu fyrst og fremst lög um stofnun nýrrar stofnunar þ.e. Lands og skógar sem á að starfa eftir lögum nr. 155/2018 og lögum nr. 33/2019. Hin eiginlegu markmið nýrrar stofnunar er því að finna í 1., 2. og 3. gr. laga um landgræðslu og 1. gr. laga um skóga og skógrækt. Þessi markmið eru dregin saman í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins en þar segir: ,, Land og skógur skal með starfsemi sinni vinna að landgræðslu og skógrækt og stuðla að eflingu, verndun og endurheimt á auðlindum þjóðarinnar sem fólgnar eru í jarðvegi, skógum og öðrum gróðri í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.“ Að mati VÍN er hér um að ræða mikla einföldun á markmiðssetningum fyrrgreindra laga og ekki t.d. minnst á skyldur Skógræktarinnar og Landgræðslunnar sem snúa að vernd líffræðilegrar fjölbreytni, náttúruvernd né menningarminjavernd og ekki heldur endurheimt náttúrulegra vistkerfa. Að mati VÍN færi betur að sleppa svona einfaldri samsuðu en vísa frekar beint í markmiðsgreinar fyrrgreindra laga. Þessi áminning er sérstaklega nauðsynleg í ljósi þess að til stendur að stórauka skógrækt á Íslandi með framandi tegundum sem sumar hverjar eru álitnar ágengar.

Hlutverk hinnar fyrirhuguðu nýju stofnunar er því afar mikilvægt og ítarlegra en 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins gefur til kynna. VÍN leggur því til að við greinina verði bætt tilvísun til markmiða fyrrnefndra laga: sbr. 1.-3. gr. laga nr. 155/2018 og 1. gr. laga nr. 33/2019.

Varðandi 2. og 3. gr.

VÍN gerir ekki athugasemd við að Landgræðslan og Skógræktin séu sameinaðar í eina stofnun og vill benda á að við það skapast tækifæri til tímabærra og nauðsynlegra endurbóta.

Hin fyrirhugaða nýja stofnun mun væntanlega hafa það hlutverk að fylgja eftir aðgerðaráætlum með landsáætlunum um landgræðslu og skógrækt sbr. aðgerðaráætlunina Land og líf. Setja þarf mjög strangar reglur byggðar á lagaákvæðum í bæði í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 og lögum um menningarminjar nr. 80/2012 þegar kemur að framkvæmd og útfærslum á aðgerðaráætlununni Land og líf. Í því samhengi má, í ljósi bestu þekkingar og alþjóðlegra viðmiða, minna á nýlegt bréf yfir 550 vísindamanna til forystufólks Evrópusambandsins þar sem varað er við s.k. loftslagsvænni skógrækt (sjá: https://folding.bmc.uu.se/wp-content/uploads/2023/01/scientist-letter-to-EU-2023-01-23.pdf.).

Skógræktin sinnir nú tveimur hlutverkum sem geta skarast verulega innbyrðis. Annars vegar vernd íslenskra skóga þ.m.t. að gera tillögur um vernd birkiskóga í samræmi við lög um náttúruvernd nr. 60/2013 og hins vegar umsjón, ráðgjöf og framkvæmd landshlutaáætlana í skógrækt. Síðara hlutverkið getur skarast verulega við vernd vistkerfa, vistgerða og búsvæða þ.m.t. birkiskógavistgerða sé ekki farið að liðum a. og b. í 1. gr. laga nr. 33/2019.

Í tengslum við framfylgd landshlutaáætlana í skógrækt er sömuleiðis mikilvægt að haga fjárhagslegum hvötum þannig markmiðum laga nr. 155/2018, nr. 33/2019 og nr. 60/2013 sé fylgt eftir. Þessu tengist einnig hlutverk skóga til kolefnisjöfnunar, en í því samhengi er ljóst að fjárhagslegir hvatar hins opinbera hafa mikil áhrif á framkvæmd skógræktar sbr. þingskjal 725/2022-2023 þar sem fram kemur að, „Arðsemi af kolefnisbindingu skóga veltur að miklu leyti á stefnu stjórnvalda hverju sinni og á þeim hvötum eða skorðum sem fyrirtæki standa frammi fyrir til að ná að binda óhjákvæmilega losun kolefnis frá starfsemi sinni. Verðlagning á kolefni eykur arðbærni skógræktar umtalsvert.“

Sé þess ekki gætt að markmiðum fyrrgreindra laga sé fylgt eftir er hætta á að fjármunum sé beinlínis veitt til framkvæmda sem kunna að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir náttúru Íslands, jarðveg, gróður, fuglalíf og verðmætt landslag (sjá dæmi: https://natturuvinir.is/wp-content/uploads/2022/12/Erindi_SHM_compressed.pdf).

Þar geta einnig fjárhagslegir hagsmunir og ofurtrú á árangur á bindingu kolefnis haft veruleg áhrif m.a. á meðferð lands og umbyltingu íslenskra vistkerfa með áhrifum á þá líffræðilegu fjölbreytni landsins sem Íslendingar hafa skuldbundið sig til að vernda með íslenskum lögum og aðild að alþjóðlegum samningum á sviði náttúruverndar.

Varðandi 4. gr.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hin nýja stofnun hafi mjög opna og takmarkalitla heimild til að krefja aðrar stofnanir og fleiri aðila um upplýsingar og gögn. Þar segir að hún hafi heimild til að “krefja aðila um upplýsingar og gögn sem stofnunin telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu á því formi sem óskað er og innan tiltekinna tímamarka; er þeim skylt að verða við slíkri kröfu án þess að taka gjald fyrir…” Ekki kemur fram, hvorki í frumvarpstextanum né meðfylgjandi greinargerð um hvaða aðila sé að ræða. Nær þetta ákvæði til annarra opinberra stofnana s.s. Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar og Skipulagsstofnunar? Til háskóla landsins og náttúrustofa sveitarfélaga? Þetta þarf að skýra. Spurning líka um hverskonar gögn og upplýsingar er að ræða. Nær þetta til grunngagna viðkomandi aðila eða eingöngu opinberra upplýsinga? Texti þessa ákvæðis þarf að vera mun ítarlegri og taka af allan vafa varðandi heimildina, til hverra hún nái og til hvaða upplýsinga og gagna.

Varðandi greinargerð með frumvarpsdrögum:

Í inngangi greinargerðar er vitnað til metnaðarfullra markmiða ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar og áhersla lögð á að efla náttúrumiðaðar lausnir, m.a. með hvötum til aukinnar, skógræktar, landgræðslu og endurheimtar votlendis. VÍN leggur áherslu á að náttúrumiðaðar lausnir þýði í raun að þær séu í samræmi við bæði innlend lög um vernd og alþjóðasamninga um vernd lífríkis sbr. athugasemdir hér að ofan. VÍN styður því aðgerðir til að endurheimta t.d. jarðveg, skóga eða votlendi sem eru í samræmi við þessi grunnsjónarmið.

Í 5. lið greinargerðar, Samráð, segir: „Frumvarp þetta varðar fyrst og fremst Landgræðsluna og Skógræktina og starfsfólk þeirra stofnana, bændur, landeigendur, félagasamtök og sveitarfélög.“ VÍN tekur undir að þetta frumvarp varði alla þá sem taldir eru upp hér að framan, en bendir á að frumvarpið varðar fyrirhugaða stofnun sem ef af verður, mun hafa grundvallaráhrif á ráðstöfun náttúrugæða og auðlinda á Íslandi. Þau áhrif snúast um líffræðilega fjölbreytni, loftslagsmál, landgæði og ná raunar langt út fyrir landsteina og varða alþjóðlega samninga sem Ísland á aðild að. Efni frumvarpsins og eðli hinnar nýju stofnunar varðar því allan almenning á Íslandi og víðar.

VÍN gerir ekki fleiri athugasemdir við framangreind drög að frumvarpi til laga um Land og skóg en áskilur sér rétt til að koma að málinu á síðari stigum.

Fyrir hönd Vina íslenskrar náttúru, VÍN

______________________________________

Sveinn Runólfsson, formaður.

Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök atvinnulífsins - 01.02.2023

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Ólafur Sigmar Andrésson - 01.02.2023

Athugasemdir við Drög að frumvarpi til laga um Land og skóg, mál nr. 8/2023

Undirritaður telur sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar til bóta og ásamt nýrri stefnu og aðgerðaáætlun ráðuneytisins, Líf og land, bjóðast drjúg tækifæri til úrbóta og nútímavæðingar við landbætur, kolefnisbindingu og nytjaskógrækt eins og margir kalla eftir.

Mikilvægt er að ráðgjöf ásamt eftirliti annars vegar og nytjaskógrækt hins vegar verði betur aðskilin og að það verði undirstrikað í löggjöf og greinargerð. Nytjaskógrækt, sem felur í sér virðisauka og eftirsóttar vörur í formi viðarafurða og kolefnisbindingar, er framtíðaratvinnuvegur sem eðlilegt er að búi við sambærileg skilyrði og aðrir atvinnuvegir. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstofnun sé ekki í beinni samkeppni við atvinnugreinina, enda getur það varla staðist samkeppnislög. Af 3. gr. frumvarpsins má ráða að framleiðsla og sala á skógarafurðum sé ekki á verkefnasviði stofnunarinnar, en það þarf að koma skýrar fram, annaðhvort í frumvarpinu eða í meðfylgjandi greinargerð. T.d. má bæta við 3. gr. orðunum “...með ráðgjöf og eftirliti”. Verður þá svohljóðandi:

“b. vinna að og eftir landsáætlun í landgræðslu og skógrækt með ráðgjöf og eftirliti”

Einnig þarf að koma fram í greinargerð að framleiðsla og sala á afurðum í umsjá stofnunarinnar sé á samkeppnismarkaði og verð falin öðrum aðilum eða komið fyrir í sérstöku fyrirtæki.

Þessu til áréttingar skal bent á að tekjur Skógræktarinnar af vörusölu voru 419 milljónir króna árið 2021, og höfðu aukist um 140 milljónir króna frá 2020, aðallega vegna samstarfsverkefna um kolefnisbindingu með ýmsum samstarfsaðilum. Hvort tveggja, sala á viðarafurðum og kolefnisbinding, eru á samkeppnismarkaði og ættu að vera í höndum einkaaðila nema ríkið stofni sérstakt fyrirtæki um þessa markaðsstarfsemi. Ólíkt Skógræktinni virðist Landgræðslan ekki vera í þeirri stöðu að selja vöru á samkeppnismarkaði.

Skógræktin er bæði að selja viðarafurðir og kolefnisbindingu úr skógum í eign þjóðarinnar fyrir hundruðir milljóna króna á ári. Almennt þarf sérstakar heimildir til að selja eignir ríkisins. Hvers vegna ætti Skógræktin eða hin sameinaða stofnun Land og skógur að vera undanþegin?

Jafnframt skal bent á að skógarbændur eru atvinnurekendur á samkeppnismarkaði og það hlýtur að vera eðlileg krafa að þeir búi við svipuð skilyrði og aðrir bændur, og þurfi ekki að vera í markaðssamkeppni við stofnun sem þeir þurfa að sækja ráðgjöf til og sæta jafnframt eftirliti hjá.

Tekið er undir tillögu Landverndar um að við 3. gr. verði bætt við eftirfarandi málsgrein:

„e. tryggja sjálfbæra landnýtingu á Íslandi með eftirliti, upplýsingaöflun, aðgerðaáætlunum og skipulagi landnýtingar“

Þá er bent á að 4. gr. frumvarpsins varðandi upplýsingaskyldu ýmissa aðila þarf að útfæra með varúð, og með samráði við hlutaðeigandi aðila.

Loks skal ítrekaður stuðningur almennt við frumvarpið og markmið þess, enda getur það orðið til eflingar sviðinu sé vel á haldið, m.a. með aðskilnaði framleiðslu og markaðssetningu annars vegar og ráðgjafar og eftirlits hins vegar.

Virðingarfyllst,

Ólafur S. Andrésson kt. 091051-4519

Lífefnafræðingur og fyrrverandi prófessor

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Bændasamtök Íslands - 01.02.2023

Sjá í viðhengi umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi