Samráð fyrirhugað 18.01.2023—02.02.2023
Til umsagnar 18.01.2023—02.02.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 02.02.2023
Niðurstöður birtar

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028

Mál nr. 9/2023 Birt: 18.01.2023
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (18.01.2023–02.02.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Aðgerðirnar eru margvíslegar og miða allar að því að börn og ungmenni verði virkir þátttakendur í íslensku menningarlífi og barnamenning stór hluti þess.

Drögin að þingsályktuninni voru unnin af starfshópi forsætisráðherra sem skipaður var í mars 2022. Hópnum var ætlað að móta tillögu um framtíðarstefnumótun um eflingu barnamenningar og meta árangur af starfsemi Barnamenningarsjóðs frá árinu 2018.

Starfshópurinn skilaði tillögu sinni til forsætisráðherra í janúar 2023 og í framhaldi var hún kynnt í ríkisstjórn. Aðgerðaráætlun þessi byggir á tillögu starfshóps um framtíðarstefnumótun um eflingu barnamenningar, þingsályktun um menningarstefnu íslenska ríkisins frá 2013 og Menningarsókn – aðgerðaáætlun í menningarmálum til ársins 2030 en barnamenning er meðal megináherslna beggja stefna.

Starfshópurinn greindi landslag og fjármuni innan hverrar listgreinar fyrir sig og skilaði niðurstöðum um hvernig best væri að efla stjórnsýslu menningarmála með það að markmiði að ná fram markvissum samlegðaráhrifum og einföldun á stuðningskerfi menningar og lista. Starfshópurinn lagði til einföldun á stuðningskerfi menningar og lista með því að sameina alla sjóði í einn deildaskiptan og öflugan sjóð, Menningarsjóð Íslands.

Aðgerðaáætlunin telur samtals sjö aðgerðir og er meginmarkmið hennar að auka samhæfingu hlutaðeigandi aðila, efla stefnumótun á sviði barnamenningar og samþættingu hennar við starfsemi opinberra menningarstofnana og -sjóða sem leggi reglulega áherslu á barnamenningu við úthlutanir og hvetji þannig samfélag listafólks til nýsköpunar á þessum vettvangi. Áhersla er jafnframt lögð á aukið framboð lista, menningar- og listfræðslu fyrir börn og ungmenni og lagt til að fest verði í sessi starfsemi barnamenningarverkefnisins List fyrir alla og Barnamenningarsjóðs Ísland.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir - 31.01.2023

Umsögn um eflingu samstarfs á sviði barnamenningar

Undanfarin ár hefur þróunin verið sú að ólíkar stofnanir og félagasamtök sem vinna að að barnamenningu hafa tekið höndum saman og unnið að stórum og smærri samstarfsverkefnum sem nær til barna á öllu landinu. Þessi verkefni hafa bæði styrkt samtal og þróun meðal fagfólks á sviði barnamenningar og ekki síst aukið gæði, umfang og kynningu verkefnanna öllum til bóta með því að leiða saman fólk úr ólíkum áttum með mismunandi fagþekkingu.

Í slíkum verkefnum koma stofnanir og félagasamtök með sitt að borði, bæði með fjármagni, starfskröftum og þekkingu en oft þarf að sækja um fjármagn fyrir þá hluta verkefnisins sem ekki falla beint undir starfsemi stofnana eða félagasamtaka.

Sem dæmi um slíkan kostnað getur verið kostnaður við gerð sameiginlegs kynningarefnis, kostnaður við veitningu verðlauna og í stærri verkefnum er það laun verkefnastjóra sem leiðir verkefnið, tengir saman fagstofnanir og heldur utan um alla ólíku þræði verkefnisins og samstarfsaðila.

Dæmi um minna samstarfsverkefni er Siljan, árleg myndbandasamkeppni fyrir 5.-10. bekkinga um allt land sem unnið er í samstarfi Barnabókaseturs og Amtsbókasafnsins á Akureyri, Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar.

SÖGUR - samstarf um barnamenningu er dæmi um stórt samstarfsverkefni. Þar taka höndum saman eftirtaldar menningarstofnanir: Borgarbókasafnið, Borgarleikhúsið, KrakkaRúv, Bókmenntaborgin, List fyrir alla, Menntamálastofnun og Skóla og frístunasvið Reykjavíkurborgar.

Við óskum eftir því leitað verði leiða að verkefnum sem SÖGUR og Siljan geti sótt um í Barnamenningarsjóð til framtíðar og eigi ekki á hættu að fá höfnun þar sem um endurtekið verkefni er að ræða eða eingöngu menningarstofnanir.

Mikilvægt er að taka fram að grasrót listamanna tekur mikinn þátt í SÖGUM og er í raun burðarás verkefnisins þar sem verið er að kynna fyrir börnum ólíkar listgreinar og listamenn og þeir eru fengnir til að stækka hugmyndir barnanna – koma þeim á svið- í bækur, í tónlist, í kvikmyndir og slík verkefni fái þannig hvatningu til aukinnar samvinnu og samtals fagfólks á sviði barnamenningar.

Umsögnin er send inn fyrir hönd stjórnar Sagna og Siljunnar.

Afrita slóð á umsögn

#2 Öryrkjabandalag Íslands - 31.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ - réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir - 31.01.2023

Umsögn um eflingu fagþekkingar á sviði barnamenningar

Mikilvægt er að stuðla að og styrkja eflingu fagþekkingar á sviði barnamenningar til að tryggja þekkingu, grósku og lifandi samtal.

Bæði félagasamtök og stofnanir hafa unnið saman að ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að miðla og efla fagþekkingu á sviði barnamenningar.

Mýrin - alþjóðleg barnabókmenntahátíð og IBBY sem stendur að fagtímaritinu Börn og menning, styðja við bakið á fagfólki og eru mikilvægar stoðir í íslenskri barnamenningu. Hvorutveggja miðla helstu stefnum og straumum til fagfólks á sviði barnamenningar, sem eflir hugmyndavinnu og fræðslu þeirra sem sjá um að skipuleggja menningarviðburði eða vinna að menningarmiðlun fyrir börn. Þegar Mýrin og Ibby sækja um styrki og fjármagn í Barnamenningarsjóð, má ekki gleyma því hvernig fagfólk er grundvöllur þess að til er barnamenning og að henni sé haldið á lofti. Að sjálfsögðu er hugmyndin að börn skulu njóta góðs af barnamenningu, en ekki má gleyma þeim grundvallarþætti að það eru fullorðið fagfólk sem heldur heldur utan um barnamenningu, sér um að miðla bókmenntum, menningu og listum til barna, og skipuleggja menningarviðburði og dagskrá fyrir börn.

Afrita slóð á umsögn

#4 Upplýsing,fél bókas/upplýsfræð - 31.01.2023

Upplýsing, fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræða vill minna á mikilvægi þess að börn hafi aðgang að bókasafni í sinni heimabyggð í þessu samhengi.

Víða um land er verið að draga úr starfsemi bókasafna eða sameina bókasöfn í grunnskólum við almenningsbókasöfn. Það er ekki góð leið til að auka og efla menningu barna því bókasöfnin gegna lykilhlutverki í því að efla læsi og svala forvitni og auka áhuga ungra manneskja á menningu. Þetta gera bókasöfnin með því að uppfræða þau um og veita aðgengi að öllu því sem listheimurinn hefur upp á að bjóða, í orðum, í listum, í tónlist, í samskiptum, án þess að efnahagur fjölskyldna barnanna skipti máli. Með því að efla bókasöfnin í smærri samfélögum, auka samstarf heimila, bókasafna, skóla og tónlistarskóla um allt land er lagður grunnur að góðu menningarsamfélagi framtíðar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Sigrún Klara Hannesdóttir - 01.02.2023

Umsögn frá Félagi um barnabókasafn

Allir sem hafa áhuga á barnamenningu, skilja mikilvægi hennar og vilja veg barnamenningar sem mestan. Þess vegna hljótum við að að undrast að sjálf bókaþjóðin skuli ekki hafa komið sér upp sérstöku safni barnabóka á íslensku. Það sama gildir um frummyndir myndlýsinga úr íslenskum barnabókum sem eru fyrstu tengingar barna við myndlist. Hvorki handrit né frummyndir eiga sér neinn sérstakan samastað.

Félag um barnabókasafn var stofnað síðasta vetrardag, 21. apríl 2021 og er tilgangur félagsins samkvæmt stofnfundargerð:

a. Að safna öllum íslenskum barnabókum, frumsömdum og þýddum, auk tímarita fyrir börn.

b. Stunda rannsóknir á útgáfu barnabóka á Íslandi

c. Vera í samstarfi við alþjóðleg félagasamtök á sama sviði

d. Efla veg og vanda barnabókarinnar á Íslandi

Félagið hefur allt frá stofnun þaulsafnað og skráð gamlar og nýjar barnabækur og stefnir að því að koma upp heildarsafni yfir íslenskar barna- og unglingabækur, en áætlað er að um sé að ræða 10.000 titla bóka fyrir utan tímarit og annað form lesefnis.

Stjórn Félags um barnabókasafn fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um eflingu barnamenningar. Með þessari umsögn viljum við koma á framfæri nokkrum viðbótum sem við teljum að muni geta gert þessa aðgerðaáætlun markvissari og gagnlegri. Viðbæturnar tengjast viðkomandi köflum:

FRAMTÍÐARSÝN, MARKMIÐ OG ÁHERSLUR.

Til viðbótar við þá þætti sem tilgreindir eru viljum við bæta við tveimur þáttum sem eru mjög veigamiklir í eflingu barnamenningar. Annars vegar er það læsi og hins vegar barnabækur.

LÆSI:

Menningarlæsi er mikilvægt í uppeldi barna, en grunnurinn að hvers kyns notkunar menningararfsins er almennt læsi, lesskilningur og áhugi á lestri. Því teljum við að hér þurfi að leggja áherslu á eflingu læsis fyrir öll börn.

BARNABÆKUR:

Grunnurinn að menningarlæsi er að hafa aðgang að lesefni. Því teljum við að styðja þurfi við útgáfu, söfnun og aðgengi hvers konar að barnabókaútgáfu landsins. Barnabækur þurfa því að vera hluti af barnamenningu og eflingu hennar.

AÐGERÐARÁÆTLUN FYRIR ÁRIN 2024-2028

Hér viljum við bæta við einkum þætti til að styðja við ofangreinda framtíðarsýn og markmið.

D. Barnabókasafn, sem varðveiti allar íslenskar barnabækur, verði aðgengilegt fyrir fræðimenn, kennara, rithöfunda, myndlistarmenn, háskólanema og alla þá sem vinna við rannsóknir, listsköpun og miðlun til barna.

Barnabókasafnið sem er í uppbyggingu er hugsað fyrir fræðimenn, kennara og alla þá er miðla

menningararfinum til barna og unglinga. Það ætti því að vera hluti af aðgerðaráætlun um

eflingu barnamenningar.

A. Stefnumótun, stjórnsýsla og framkvæmd verkefna á sviði menningar og listsköpunar barna- og ungmenna.

A.1 Samráðsvettvangur um menningu og listsköpun barna og ungmenna

Hér finnst okkur vanta að í samráðsvettvangi um menningar- og listsköpun barna séu höfundar, bæði höfundar texta og mynda sem ætluð eru fyrir börn. Til þess að samþætting geti orði að sem mestu gagni þurfa þeir sem framleiða efni líka að eiga hlutdeild í þessu samráði.

Dæmi um samstarfsaðila sem hér ætti að bæta við eru t.d. SÍUNG, félag barna- og unglingabókahöfunda og FYRIRMYND sem er félag myndhöfunda innan FÍT.

A.2 Miðstöð barnamenningar

Að okkar mati ætti Félag um barnabókasafn að vera sjálfsagður samstarfsaðili við Miðstöð um barnamenningu og eiga fulltrúa í stjórn miðstöðvarinnar.

Umsögnin er send inn af stjórn Félags um barnabókasafn, en hana skipa:

María Hjálmtýsdóttir, formaður

Helga Halldórsdóttir, ritari

Sigrún Klara Hannesdóttir, gjaldkeri

Afrita slóð á umsögn

#6 Minjasafn Austurlands - 01.02.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá stýrihópi BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kolbrún K Halldórsdóttir - 01.02.2023

Umsögn stjórnar Barnamenningarsjóðs Íslands um niðurstöðu starfshóps um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar.

Stjórn Barnamenningarjóðs hittist á fundi 27. janúar sl. og fjallaði um niðurstöðu starfshópsins og tillögu þá sem hér er kynnt. Stjórnin fagnar fyrir sitt leyti þeim tillögum sem nú liggja fyrir og eru opnar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórnin lýsir ánægju með að lögð skuli til sú leið að fara með tillögu að þingsályktun fyrir Alþingi og telur gagnlegt að fulltrúar stjórnmálaflokkanna á þingi skuli þannig fá hlutdeild í þessari mikilvægu tillögu að aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar 2024 - 2028.

Stjórnin telur ástæðu til að nefna tvö atriði í tillögum starfshópsins, sem færa mætti til betri vegar. Annars vegar þann þátt tillögunnar sem varðar stjórn Barnamenningarsjóðs Íslands (sbr. liður C.1) og leggur það til að í meðförum ráðuneytisins verði skoðað hvort nægi að sjóðnum verði skipuð valnefnd en stjórn Miðstöðvar barnamenningar (sbr. liður A.2) fari jafnframt með hlutverk stjórnar sjóðsins. Þannig myndi gilda samsvarandi fyrirkomulag um sjóðinn og barnamenningarverkefnið List fyrir alla og vægi stjórnar Miðstöðvar barnamenningar styrkt að sama skapi. Í því sambandi leggur stjórn áherslu á að Rannís haldi áfram utan um umsóknarkerfi sjóðsins og tölfræði hans, nokkuð sem fest hefur verið í sessi og komin er á góð reynsla.

Hitt atriðið sem stjórn sjóðsins telur rétt að gera athugasemd við varðar fjármögnun tillögunnar. Stjórn fagnar því að verðgildi Barnamenningarsjóðs Íslands skuli halda sér, en telur nauðsynlegt að endurskoða upphæðina sem ætluð er barnamenningarverkefninu List fyrir alla (sbr. liður B.1), einnig þurfi að skoða vel rekstrargrunn væntanlegrar Miðstöðvar barnamenningar (sbr. liður A.2).

En í heildina fagnar stjórn Barnamenningarsjóðs markmiði tillögunnar og því að sjóðurinn skuli festur í sessi til framtíðar. Stjórn lýsir einnig yfir ánægju með það fyrirkomulag sem tillaga starfshópsins leggur til með stofnun Miðstöðvar barnamenningar og samlegð við verkefnið List fyrir alla. Stjórn væntir þess að tillaga hópsins verði afgreidd af Alþingi á vorþingi svo góður tími gefist til að undirbúa það að aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar taki gildi við næstu áramót.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar Barnamenningarsjóðs Íslands

Kolbrún Halldórsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#8 Hildur Halldórsdóttir - 01.02.2023

Umsögn um tillögur til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028.

Verkefnastjórar menningarmála hjá landshlutasamtökum fagna aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028 frá forsætisráðherra í samráðsgátt stjórnvalda og telur hana mjög mikilvæga í þróun og framförum á sviði barnamenningar.

Verkefnastjórarnir vilja koma fram með eftirfarandi athugasemdir við neðangreinda liði í tillögunni.

A.1. Samráðsvettvangur um menningu og listsköpun barna og ungmenna

• Mikilvægt er að í samráðsvettvangi sem skipaður verður, verði fulltrúar landshlutasamtaka sem þekkingu hafa á barnamenningu.

• Barnamenningarfulltrúar eða aðilar sem vinna með barnamenningu hjá menningarstofnunum á landsbyggðinni eru einnig verðugir fulltrúar í samráðsvettvanginn.

A.2. Miðstöð barnamenningar

• Í stjórn miðstöðva barnamenningar verði fulltrúar skipaðir sem menntun, þekkingu og eða reynslu hafa af því að vinna að listum og menningu með og fyrir börn.

• Gætt verði að því að fulltrúi landshlutasamtaka sveitarfélaga komi utan af landi og hafi þekkingu á barnamenningu líkt og aðrir fulltrúar. Aðilar sem vinna að og með barnamenningu hjá menningarstofnunum á landsbyggðinni eru einnig verðugir fulltrúar í stjórn.

B.1. Barnamenningarverkefnið List fyrir alla

• Mikilvægt er að fjármagn til verkefnisins List fyrir alla verði aukið á árunum 2024 – 2028 til þess að staðið verði við mælikvarða verkefnisins um að „börn og ungmenni fái tækifæri til að upplifa að minnsta kosti tvo listviðburði á ári fyrir tilstilli verkefnisins“.

• Fjármagn úr Byggðaáætlun upp á 5 milljónir er einungis tryggt árin 2023 og 2024. Mikilvægt að tryggja verkefninu áfram fjármagn í gegnum Byggðaáætlun og auka það fjármagn enn frekar.

• Tryggja þarf að fjármagn til Listar fyrir alla verði þannig að hægt sé að bjóða öllum börnum um allt land aðgengi að viðburðunum óháð staðsetningu.

C.1. Markmið og hlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands

• Í fimm manna stjórn barnamenningarsjóðs verði fulltrúi af landsbyggðinni t.d. verkefnastjórar menningarmála landshlutasamtaka eða barnamenningarfulltrúar frá menningarstofnunum á landsbyggðinni.

• Mikilvægt er að í reglum um starfsemi sjóðsins sé kveðið á um ofangreint eða það að alltaf sitji þar fólk fyrir utan stór Reykjavíkursvæðið.

Þá má einnig taka það fram að mikilvægt er að „ Menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs verði veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi allra barna og ungmenna á landinu öllu."

Virðingarfyllst,

Ari Páll Pálsson og Hildur Halldórsdóttir

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra

Ástrós Elísdóttir

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Logi Gunnarsson

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum

Signý Ormarsdóttir

Austurbrú

Sigursteinn Sigurðsson

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi

Skúli Gautason

Vestfjarðarstofa

Þórður Freyr Sigurðsson

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Dröfn Vilhjálmsdóttir - 02.02.2023

Undirstaða barnamenningar: Skólasöfn í grunnskólum landsins – öll börn landsins þurfa að hafa gott aðgengi að bókasafni og bókum.

• Fagfólk á skólasöfnum er stolt af starfsemi skólasafna í íslenskum grunnskólum. Oft er talað um þau sem hjarta skólans, þar sem hjartað slær. Skólasöfnin opna ævintýraheim fyrir nemendur sína og jafna aðgengi þeirra að bókum, verkfærunum sem þarf til lesturs! Þau sem starfa á söfnunum vinna í takti við þarfir nemenda og hlusta á raddir þeirra. Bókakosturinn er sniðinn að þörfum og áhuga nemenda. Skólasöfnin eiga það til að stökkbreytast nokkrum sinnum yfir skólaárið í takt við viðburði sem eru nemendum hjartfólgnir. Skólasöfnin eru vettvangur menningarlegra viðburða sem hugnast nemendum, starfsmenn safnanna nærist á að glæða áhuga nemenda og víkka sjóndeildarhring þeirra. Starfsemi skólasafnasafna er fjöregg nemenda þar sem barnamenningin skýtur rótum, vex og dafnar. Það er því þyngra en tárum tekur að heyra óm af röddum ráðamanna sem hyggjast skerða starfsemi skólasafna. Nú þegar hefur verið vegið að grundvallarstarfsemi skólasafna, ákvarðanir teknar sem hafa miklar afleiðingar og grafa undan starfseminni. Það er þungur róður að reyna að reka umfangsmikla starfsemi á skólasafni, sem oft og tíðum er hjarta skólans og í hringiðu skólastarfsins, en samtímis að þurfa stöðugt að berjast fyrir sjálfri tilvist safnsins og slíkar aðstæður eru ekki til þess fallnar að skólasöfn blómstri. Að standa vörð um starfsemi skólasafna og styrkja starfsemi þeirra er grundvallarþáttur í að viðhalda og efla barnamenningu.

• Móta þarf stefnu um skólasöfnin á landsvísu.

• Setja á fót Skólasafnamiðstöð á landsvísu sem tryggir jafnræði og jafnt aðgengi allra nemenda landsins að bókum.

• Setja upp sjóð sem þar sem skólasöfnin geta sótt um styrk fyrir lestrarhvetjandi verkefni. Nú eru styrkir til skólastarfs almennir en ekki eyrnamerktir skólasöfnum eða lestrarhvatningu.

Hér er dæmi um slíkan sjóð í Noregi:https://skolemagasinet.no/arkiv/3-pressemeldinger/1020-14-millioner-til-skolebibliotek

• Efla þarf barnabókaútgáfu:

Ríkið þarf tryggja lágmarks barnabókaútgáfu sem stuðlar að nægu úrvali lesefnis fyrir allan aldur og áhuga bæði með skáld- og fræðibókum fyrir börn- og unglinga.

-Norska leiðin. Í dag eru gefnar út rúmlega 200 barna- og unglingabækur á ári á Íslandi. Þar af eru einungis 50-60 skáldsögur sem henta skólabörnum 6-16 ára. Mat skólabókasafnafræðinga er að þessi útgáfa metti einungis um það bil 10-15% af bókaþörf íslenskra barna enda er útgáfa barnabóka alfarið í höndum einkarekinna bókaútgáfa sem byggja útgáfuna á sölutölum, ekki raunverulegri bókaþörf barnanna. Sú leið sem tryggja myndi stóraukna útgáfu á barna- og unglingabókum er norska leiðin. Í Noregi er starfrækt sérstakt innkauparáð sem kaupir ákveðinn eintakafjölda af öllum norskum barnabókum. Bækurnar eru keyptar á föstu verði óháðu markaðsverði (þótt heimilt sé að hækka eða lækka greiðslur þegar ástæða er til). Greiðslan er styrkur sem skiptist á milli útgefandans og höfundarins en í staðinn fær innkaupastofnunin eintök af bókinni sem dreift er á almenningsbókasöfn og söfn grunn- og leikskóla. Norska leiðin tryggir bæði höfundum og útgefendum „sölu“ svo bæði skrifin og útgáfan standa undir sér og síðast en ekki síst, öllum norskum börn greiðan aðgang að nýjum vönduðum og skemmtilegum bókum.

-Stofna þar til sérstakra listamannalauna fyrir barna-og unglingabókahöfunda.

-Auka þarf til muna framlag í bókasafnssjóð fyrir höfunda.

-Tryggja þarf aðgengi barna bæði að hljóð- og rafbókum.

Fyrir hönd Félags fagfólks á skólasöfnum,

Dröfn Vilhjálmsdóttir

Afrita slóð á umsögn

#10 Umboðsmaður barna - 02.02.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn umboðsmanns barna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Landssamtökin Þroskahjálp - 02.02.2023

Umsögn Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Reykjavíkurborg - 02.02.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn Reykjavíkurborgar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Bára Bjarnadóttir - 02.02.2023

Ég vil gjarnan vekja athygli á mjög verðmætum mögulegum samstarfsaðilum tengdum þáttum í aðgerðaráætluninni, sem ekki hefur verið minnst á.

Í lið A.1 mætti einnig líta til Listar án landamæra.

Í lið B.2 er bent á ungmennaráðin sem mögulega samstarfsaðila. Vert er að huga að því að þegar ungmennaráði er boðin þátttaka í verkefni, að þau fái greitt líkt og aðrir þátttakendur í verkefninu. Ef fundir eru setnir þar sem ungmennaráð mætir auk starfsmanna menningargeirans/borgarinnar/o.s.frv. þá geta þau verið einu einstaklingarnir sem fá ekki greitt fyrir sína þátttöku. Ungmennaráð hafa vakið athygli á þessu áður. Sjónarhorn þeirra er afskaplega verðmætt og eðlilegt að huga að þóknun fyrir þeirra vinnu eins og annarra. Undirrituð er fyrrum starfsmaður ungmennaráðs gegnum frístundastarf.

Í B.2 og fleiri liðum vantar einnig afar mikilvægann hóp sem getur veitt verðmæta innsýn og framlag í vinnnuferlið: Starfsfólk frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Sem fyrrum starfsmaður frístundastarfs og núverandi starfsmaður menningarstofnunar get ég staðfest að reynsla úr frístundastarfi er ómetanleg í menningarstarfi. Hvort sem það varðar leik, sköpun, skipulag verkefna, listræna dagskrárgerð, lýðræðisleg vinnubrögð með ungmennum, fræðslu, samskipti eða miðlun menningar til barna og unglinga verður að meta verkfærakassa og hæfni frístundastarfsmanna til verðleika. Þar að auki er frístundastarfsfólk oft nú þegar að vinna með áherslur sem koma fram í tillögunni, þar á meðal samfélagsvitund og virkjun ungs fólks gegnum uppbyggilega starfsemi.

Hafa skal þennan hóp í huga þegar kemur að ákvarðanatöku og framkvæmd tengda barnamenningu.

Afrita slóð á umsögn

#14 Tinna Grétarsdóttir - 02.02.2023

Reykjavík 2. febrúar 2023

Efni:

Umsögn um Mál 9/2023, Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028

Sviðslistahópurinn Bíbí & Blaka hefur sérhæft sig í framleiðslu danssýninga fyrir unga áhorfendur og hefur á síðustu 12 árum ferðast víða bæði innanlands og erlendis og sýnt hundruði sýninga fyrir mörg þúsund börn.

Bíbí & Blaka fagnar tillögu að aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024-2028. Sérstakt fagnaðarefni er að lagt er til að bæði Barnamenningarsjóður og List fyrir alla verði varanleg verkefni og framtíð þeirra þannig tryggð. Þetta eru ákaflega mikilvæg verkefni sem að stuðla að fjölbreytileika og aðgengi að list og listviðburðum um allt land.

Mikilvægt er þó að benda á að ef að þessi verkefni eigi að fá fasta krónutölu í framlög úr ríkissjóði á árunum 2024-2028 má reikna með að sjóðirnir séu í raun að minnka sem að óneitanlega mun koma niður á stuðningi við listamenn til að þróa verk fyrir börn og ungmenni.

Það er von mín að gerð verði sú breyting á tillögunni þegar hún verður tekin til frekari umfjöllunar og að framlag til Barnamenningarsjóðs og Barnamenningarmiðstöðvar verði vísitölutengt.

Virðingarfyllst,

Tinna Grétarsdóttir

Listrænn stjórnandi Bíbí & Blaka