Afnám banns við heimabruggun á áfengi til einkaneyslu
Mál nr. 10/2023Birt: 19.01.2023
Dómsmálaráðuneytið
Áform um lagasetningu
Málefnasvið:
Almanna- og réttaröryggi
Til umsagnar
Umsagnarfrestur er 19.01.2023–02.02.2023.
Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast. Senda inn umsögn
Málsefni
Áformað er að leggja fram frumvarp til breytinga á áfengislögum nr. 75/1998. Breytingarnar munu fela í sér afnám á banni við framleiðslu áfengis til einkaneyslu með gerjun (heimabrugg).
Með frumvarpi til breytinga á áfengislögum er ráðgert að afnema bann við heimabruggun á áfengi til einkaneyslu. Þó er gert ráð fyrir því að áfram verði óheimilt að framleiða áfengi til einkaneyslu með eimingu, en það er m.a. til samræmis við löggjöf á Norðurlöndunum. Þá verður einnig áfram óheimilt að stunda heimabruggun í því skyni að selja afurðina, enda er þá um atvinnustarfsemi að ræða sem er leyfisskyld samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi.
Á undanförnum árum hefur orðið til rík menning heimabruggunar, þá sérstaklega á bjór, samhliða vexti handverksbrugghúsa sem hafa hafið starfsemi sína um land allt. Félög hafa verið stofnuð utan um heimabruggun áfengis til einkaneyslu, námskeið um slíka bruggun verið auglýst opinberlega og almenn umræða átt sér stað fyrir opnum tjöldum um athæfið. Almenningur virðist lítt upplýstur um að heimabruggun áfengis til einkaneyslu feli í sér refsiverðan verknað, sem bendir til þess að réttarvitund almennings kunni að vera á skjön við hið lögfesta og fortakslausa bann í 4. gr. áfengislaga. Því er talið tímabært að taka til skoðunar hvort enn séu rök fyrir því að skilgreina heimabruggun sem refsiverða háttsemi samkvæmt lögum.
Ekki er talið að áform þessi um lagabreytingar séu andstæð þeirri stefnu sem ríkt hefur um áfengismálefni hér á landi. Sem fyrr segir þá er heimabruggun áfengis víða stunduð á Íslandi þrátt fyrir gildandi bann og því ófyrirséð hvort heimabruggun muni aukast verði bannið afnumið. Umrætt bann virðist því hafa takmörkuð varnaðaráhrif í dag.
Heimabrugg hefur fylgt okkur mannskeppnuni í óra tíma og er partur af matarmenningu. Heimabrugg er stundað þrátt fyrir að það sé ólöglegt og hrein fásinna að halda að það muni hverfa þó það yrði gert ólöglegt með öllu. Það hafa sprottið upp a.m.k 3 fyrirtæki hér á landi sem sérhæfa sig í vörum tengt heimabruggi og er því lífleg atvinnustarfsemi á bak við þetta, það þykir því pínu kaldhæðnislegt að slíkar verslanir geti stundað það að selja augljóslega tæki og hráefni ætlað til heimabruggs en á sama tíma er það ólöglegt. Eins og kemur fram í lýsingunni á þessari tillögu, þá er líflegt félagastarf í kringum heimabruggun og hefur verið það í mörg ár. Það er því löngu tímabært að breyta þessari löggjöf og líta e.t.v til landana í kringum okkur sem leyfa slíkt og skoða um leið hvernig slíkt hefur þróast, hvort það hafi verið til hins verra eða hvort nokkuð hafi breyst yfir höfuð. Ég styð þetta heils hugar, enda engin ástæða til að ætla að þetta fari úr böndunum þó það yrði gert löglegt. Það má svo deila um hvort og hverjar takmarkanir yrðu, t.d 100 lítrar á manneskju sem hefur náð lögaldri á ári og ekki leyft að eima. Hvernig því verður háttað, það má finna út eftir því sem þetta þróast.
Undirritaður rekur verslun þar sem ég sel hráefni og búnað til framleiðslu á bjór. Stór hluti viðskiptavina minna eru heimabruggarar. Verslun mín og þekking er sérsniðin að heimagerðum bjór og því læt ég duga að ræða aðeins heimagerðan bjór en ekki annað heimagert áfengi.
Heimabruggun á bjór er áhugamál sem hundruðir stunda hér á landi, sumir í leynd af ótta við þá staðreynd að heimabrugg er ólöglegt á Íslandi með ríflegum refsiramma. Bjórgerð í heimahúsum snýst ekki um framleiðslu á ódýru áfengi. Bjórgerð er margslungið áhugamál þar sjálfráða einstaklingar leggja alúð og metnað í eigin handverk þar sem saman kemur hugmyndaauðgi, þekking og reynsla. Mikill metnaður er lagður í gæði umfram magn og hafa
keppnir um besta heimagerða bjórinn verið haldnar undanfarin ár af fágun, félagi áhugamanna um gerjun.
Því hefur oft verið borið fyrir að það hafi enginn haft áhuga á að breyta lögunum því þetta virki ágætlega eins og er; lögunum sé ekki framfylgt og því taki því ekki að breyta þeim. Núna finnst mér kominn tími til að gera áhugamál margra íslendinga löglegt og því styð ég þetta frumvarp heilshugar.
Hver eru rökin fyrir því að leyfa heimabruggun en banna framleiðslu á áfengi til einkaneyslu með eimingu? Mér þykir alveg ótækt að breyta einungis hluta af lögum án þess að leggja fram réttlætingu fyrir því sem haldið er fyrri mynd, sérstaklega þarsem ýmsir hagsmunaðilar hafa komið fram opinberlega og talað fyrir væntanlegri breytingu á heimabruggi án eimingar. Rökin fyrir breytingunni að lögin hafa lítið sem ekkert forvarnargildi gildir ekki endilega einungis um heimabrugg án eimingar, hefur það verið kannað hvort slíkt gildi einnig um heimabrugg án eimingar? Ef lögin eru ekki endurskoðun í heild sinni og rök færð fyrir því hversvegna sumu skal halda óbreyttu en öðru breyta er erfitt að sjá að breytingin sé ekki geðþóttaákvörðun einhver valdhafa eða hagsmunaðila.
Undirritaður hefur stundað bjórbrugg um árabil og er starfsmaður í bruggverslun sem sérhæfir sig í bjórgerð.
Bruggun bjórs er skemmtileg, fróðleg og skapandi tómstund eins og hver önnur matargerð. Ég tel að lýðheilsu sé ekki ógnað með lögleiðingu heimabruggunar þar sem flestir sem hana stunda að einhverri alvöru eru meira að sækjast eftir að sinna áhugamáli frekar en endilega áfengi. Þó það skemmi alls ekki fyrir að enda uppi með t.d. svellkaldan skýjaðan IPA eðal bjór í stíl vesturstrandar Bandaríkjanna. Eða belgískan munkabjór sem maður hefur eytt árum í að reyna að láta líkjast Vestwleteren 12 sem mest.
Óhófleg drykkja passar eiginlega áhugamálinu ekki sérlega vel. Þar með eru þau mótrök allavega eiginlega farin.
Samfélag bjórbruggara er skemmtilegt og gefandi og ég hef mikið fundið mitt fólk þar. Þetta er hluti af menningu okkar og ætti ekki að þurfa að stunda undir ólöglegum hatti.
Afnám á refsingu við framleiðslu á vægu fíkniefni í heimahúsi til einkaneyslu er skynsamlegt og eðlilegt.
Það er gleðiefni að vita að hin öfgafulla forræðishyggja sem hefur mengað allar ákvarðanir stjórnvalda hvað varðar ávanabindandi efni verði ef til vill takmörkuð.
Þótt ég myndi hvorki kaupa né brugga áfengi sjálfur óska ég þeim sem kjósa þann lífstíl góðs gengis.
Mig langar að henda þeirri umsögn fram, í ljósi þeirra aðila sem þegar hafa gefið umsögn sina um bjór og léttvín. Afhverju ætti þetta bann að vera öðruvísi en nálgun stjórnvalda en vændi. Þú mættir þá framleiða eimað áfengi fyrir þig sjálfan sem og þá sem hjá þér dvelja í það skiptið, auðvitað án greiðslu. En sala væri bönnuð til þriðja aðila. Því legg ég til að framleiðslan yrði gefin frjáls með fyrrgreindum skilyrðum.
Ísland hefur í áranna raðir fylgt nágrannalöndum sínum hvað varðar lagabreytingar nema þegar kemur að lögum sem talin eru tengjast beint eða óbeint að skattinnkomu ríkissjóðs. Auðvelt er fyrir stjórnmálamenn að beita hræðsluáróðri að heimild heimabruggs á sterkari bjór muni hafa áhrif á hvenær ungmenni byrja drekka, magn neyslu áfengis og ýti undir heilsuskaða við rangri heimaframleiðslu. En hin dulda ádeila sem ríkið er meira að velta fyrir sér er hvort að aflétting á banni heimabruggs yfir 2,25% muni hafa mikla áhrif á innkomu ríkissjóðs með sölu áfengis í ÁTVR.
Það er mjög erfitt að staðhæfa að aukin bruggframleiðsla í heimahúsum muni hafa mikla áhrif á sölu ÁTVR því aukin vitund gæti ýtt undir að einstaklingar prufi fleiri tegundir sem þeir höfðu ekki áhuga á áður. Við heimabruggun öðlast einstaklingar meiri skilning á framleiðsluferlinu og á bjór yfir höfuð sem getur haft í för með sér að þeir vilja síður hefðbundna bjóra og því gæti sala á óhefðbundnari bjórtegundum aukist og ýtt undir fjölgun á úrvali bjórtegunda í ÁTVR.
Á undanförnum árum hafa lög og eftirlit um sölu nikótínvara breyst með innkomu rafretta og miklum innflutningi á nikótín púðum til Íslands. Í dag hafa búðir sem selja nikotínvörur fjölgað til muna og líklegast hefur sala á nikótínlyfjum í apótekum minnkað sökum þess. Bæði rafretturnar og púðarnir eru auglýstir á mjög tælandi hátt til ungmenni þjóðarinnar frá gráðugum sölufyrirtækjum án nokkurs konar fræðslu um notkun eða skaðsemi þessara vara. Engin fræðsla er á sölustöðum rafretta og púða (utan apóteka) um hvernig minnka skal reykingar með notkun nikotínvara eða niðurtröppun á nikótínvörum. Hér hefur Lyfjastofnun og ríkið algjörlega misst boltann, hvað varðar nikótínvara, úr greipum sér. Í stað þess er verið að tæla almenning að nota nikótínvörur í miklu magni og jafnvel með orkudrykkjum sem hefur mjög slæma áhrif á heilsu ungmenna og almennings í dag.
Ég styð heils hugar að ríkið heimili heimabrugg upp að 22% styrkleika eins og í nágrannalöndunum en hvernig ríkið afléttir banninu er það sem skiptir mestu máli. Það mætti endurskoða áfengislögin með þeim hætti að koma í veg fyrir tælandi auglýsingar og að misvísandi upplýsingar frá gráðugum heildsölum rati til almennings um heimabrugg. Þess frekar að setja skýrar reglur hvernig hrávörur til heimabruggs eru auglýstar og seldar ásamt því hvernig upplýsingar eru veittar varðandi þessa framleiðslu.
Bestu kveðjur
Árni Þorgrímur Kristjánsson, Lyfjafræðingur
Rannsóknastofustjóri Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands
#11 Fágun - félag áhugamanna um gerjun - 20.01.2023
Fágun, félag áhugafólks um gerjun, eiginlegt hagsmunafélag heimabruggara Íslands, lýsir yfir fullum stuðningi við þetta frumvarp.
Heimagerjun matvæla hefur tengst matarmenningu Íslendinga frá því fyrstu Íslendingarnir hófu hér búsetu og hefur bæði haldið lífi í fólki og glætt menningu og magaflóru landsmanna lífi allar götur siðan. Einn angi fjölbreyttrar matarmenningar eru gerjaðir, heimabruggaðir drykkir, sem falla undir þetta frumvarp.
Heimabruggun hefur blómstrað í öllum nágrannalöndum okkar um drykklanga hríð. Í Bandaríkjunum, til dæmis, var heimabruggun aftur gerð lögleg nokkuð seint, eftir að bannárin í upphafi 20. aldar höfðu gert hana útlæga. Þó er þar komin hart nær hálf öld síðan heimabruggun var leyfð með lögum í öllum ríkjum þessa annars íhaldssama lands. Í nágrannalöndum okkar og almennt í öllum vestrænum ríkjum ríkir sú regla að gerjun drykkja heima við til einkanota sé leyfileg. Ísland er eitt með skilgreinda áfengisprósentu það lága að gerð flest allra léttra áfengra drykkja er í raun ólögleg.
Afnám banns við heimabruggun virðist alls staðar í kringum okkur hafa borið með sér uppgang lítilla, staðbundinna brugghúsa, sem sækja innblástur, starfsfólk og hráefni í sitt nánasta umhverfi og laða þau oft einnig að sér ferðalanga og bjóráhugafólk mjög langar leiðir til að upplifa það sem borið er fram á slíkum stöðum og heimabruggunin verið fyrstu kynni margra af þessar menningu.
Gerjun drykkja hefur löngum verið stunduð hér á landi. Gerjun, hvort heldur með tilbúnu geri eða náttúrulegu, er sú einfalda aðferð að breyta sykruðum legi í léttan áfengan drykk, til dæmis áfengan berja- og ávaxtasafa, mjöð sem er að uppistöðu uppleyst hunang, síder sem er að uppistöðu eplasafi, bjór sem er úr vatnssósa byggi og léttvín úr vínberjasafa. Gera má ráð fyrir að fjöldinn allur af Íslendingum gerji létta áfenga drykki á heimili sínu til einkanota sér til ánægju og yndisauka, þó svo nákvæm tala um þann fjölda liggi ekki fyrir en ætla má að það hlaupi a.mk. á hundruðum ef ekki þúsundum.
Fæstir heimabruggarar eiga sér þó vonir eða drauma um að fara í stórhuga framleiðslu eða sölu á heimabruggi sínu, enda er það allt annað verkefni en iðnaðarbruggun atvinnubrugghúsa og verður áfram ólöglegt því til þess þarf ýmis framleiðsluleyfi ofl. Sennilega er munurinn á þessu tvennu eins og munurinn á því að hjóla í hverfinu sínu á léttu reiðhjóli miðað við að vera atvinnubílstjóri stórflutningabíl. Þetta er varla tengt á neinn hátt og heimabruggun áfengis sennilega nær því að vera sultugerð, bakstur, eða fluguhnýtingar en framleiðsluiðnaður göróttra drykkja.
Félagar í Fágun í gegnum tíðina hafa þó margir haldið til starfa í brugghúsum um allt land, eða tekið þátt í stofnun þeirra, eða heimabruggun vakið þannig áhuga að þeir hafa haldið utan í nám og komið aftur sem útlærðir bruggmeistarar og bætt mjög áfengismenningu Íslendinga á síðustu árum. Vöxtur litlu brugghúsanna á Íslandi hefur, hér eins og annars staðar, að mestu leiti verið knúinn áfram af áhuga heimabruggara og hefur þessi starfsemi blásið miklu lífi í þorp og byggðarlög um allt land undanfarinn áratug rúmlega. Þessi handverks- og örbrugghús laða til sín gesti víða að og eru bæjarfélögum sem hýsa þau til mikils sóma, svo um er talað. Oft fylgir þessum brugghúsum önnur starfsemi, eins og aukið menningarlíf, matargerð og listaviðburðir, sem þá lyftir bæjarbrag á enn hærra stig og bætir búsetuskilyrði og lífsgleði bæjarbúa. Það er jú lýðheilsunni almennt til heilla ef eitthvað er.
Við teljum að lögleg heimabruggun ætti ekki að hafa í för með sér aukna hættu á unglingadrykkju eða aukna misnotkun áfengis. Þar skiptir t.d hráefniskostnaður, kostnaður við tæki og búnað og það sem sennilega hefur mesta fælingarmáttinn, sem er löng, löng, mjög löng bið eftir að hægt sé að njóta drykkjanna sem bruggaðir eru heima. Hægir sú staðreynd sennilega á flestum sem ekki eru í þessu af ástríðunni einni saman, að bíða þurfi eftir hinum heimabrugguðu veigum í oft fjölmargar vikur og/eða mánuði og ár.
Ástríða fyrir nærumhverfi sínu, hagnýting jurta, útsjónarsemi og sköpunarkraftur eru allt einmitt kostir sem prýða margt félagsfólk okkar í Fágun. Drykkir sem þau gerja, bæði með tilbúnu geri og náttúrulegu, eru sennilega alls staðar á mögulegum gerjunarkvarða, frá 0,00% upp í 12-16%. Erfiðara, er að gerja sterkari drykki án þess að grípa til eimingar, sem áfram verður bönnuð samkvæmt þessu frumvarpi.
Fágun fær reglulega fyrirspurnir og tekur á móti fólki sem hefur alla jafna ekki hugmynd um að heimagerjun sem það stundar geti verið ólögleg og mætir það því á fundi til að sækja sér reynslu og hugmyndir. Fælingarmáttur laganna eins og þau eru nú er harla lítill og framkvæmd þeirra virðist ekki benda til að mikill áhugi sé á að framfylgja þeim meðal almennings. Fólk, bæði sem tengist félaginu og sem við ræðum við almennt, virðist koma af fjöllum þegar við kynnum þeim staðreyndir málsins og mælum með því að það haldi gerjuðum drykkjum undir 2,25% til að vera ekki að brjóta áfengislögin. Þessi staðreynd, að lögin heimili ekki heimabruggun til einkanota, kemur nær öllum á óvart, hvort sem um er að ræða almenning, löglært fólk eða fulltrúa þjóðarinnar á alþingi er um þetta hefur verið rætt. Það skýtur því skökku við að áhugamál, sem er stundað af jafn mörgum og raun ber vitni og gefur af sér reynslu og þekkingu sem undanfarin ár hefur leitt af sér fjölmörg ný fyrirtæki, sé refsivert.
Fágun, félag áhugafólks um gerjun, ítrekar enn og aftur stuðning við þetta frumvarp og hvetur félagið í leiðinni þingmenn í öllum flokkum til að skoða það með opnum hug og að þeir íhugi að veita því brautargengi.
Þessi frumvarp færir áhugafólki um gerjun betra umhverfi til að rækta sitt áhugamál með því að gera það löglegt, sem virkar þá vonandi sem hvatning til góðra verka og gerir þeim menningararfi sem felst í gerjun matvæla og drykkja enn hærra undir höfði til framtíðar. Þá hættir styrkur gerjaðs vínanda að skipta höfuðmáli við þetta áhugamál matargrúskara, sem oft gerir venjulegt fólk að lögbrjótum sér óafvitandi og er mikil tímaskekkja.
Um Fágun
Félag áhugafólks um gerjun, eða Fágun, eru samtök fólks sem hefur sameiginlegt áhugamál að stuðla að bættri þekkingu og menningu í gerð gerjaðra matvæla.
Tilgangur félagsins er að:
• Sameina áhugafólk um gerjun.
• Miðla þekkingu á gerð gerjaðrar matvöru og menningu henni tengdri.
• Stuðla að bættri ímynd heimagerjaðra matvæla.
• Stuðla að lagabreytingum til að heimila gerjun drykkja til einkanota.
Í starfsemi og reglugerðum félagsins, sem stofnað var árið 2010, vísar hugtakið gerjun til beitingar örvera í gerð matvæla og drykkja. Í því skyni starfrækir félagið heimasíðuna fagun.is og stendur félagið reglulega fyrir námskeiðum, keppnum og viðburðum til að vekja áhuga almennings og félagsmanna á efninu.
Að sjálfsögðu ætti heimabruggun ekki að vera ólögleg.
1. Heimabruggun er nú þegar stunduð um land allt. Núverandi bann stangast á við almenna réttarvitund, og lögin eiga að endurspegla vilja almennings.
2. Heimabruggun virðist fela í sér umtalsverð jákvæð félagsleg áhrif. Fólk nýtur þess að brugga saman. Fólk er að hittast í heimahúsum, stofna lítil félög, hittast og brugga. Þetta minnir á fyrri tíma sláturgerð. Maður er manns gaman. Leyfum fólki að hittast og eiga sín áhugamál.
3. Hætta á heilsuspillandi áhrifum við heimabrugg er hverfandi. Erfitt er að sjá hættuna sem af heimabrugginu hlýst.
4. Heimabrugg getur í raun verið ákveðin listgrein. Fólk er að prófa sig áfram, þróa nýjar tegundir. Þannig getur orðið til vísir að verðmæta og nýsköpun með því að fjarlægja þetta bann. Nýjar matvörur verða oft til í eldhúsinu heima.
Breytingin sem hér er lögð til er svo sjálfsögð að flestir gera sér líklega ekki grein fyrir því að heimabruggun sé ólögleg starfsemi. Enda er hún stunduð af fjölda áhugafólks um land allt, þeim sjálfum til yndisauka og engum til ama. Að banna heimabruggun er fáránleg skerðing á sjálfræði fullorðins fólks. Það er löngu tímabært að nema úr gildi bann við heimabruggun sem gerir mjög stóran hóp bruggáhugafólks að lögbrjótum fyrir skaðlausa iðja sem kemur ríkisvaldinu hreinlega ekkert við.
Heimur bruggsins er heillandi, spennandi, flókinn og fallegur. Það að umbreyta korni, ávöxtum, hunangi eða öðru slíku í sætan vökva sem svo er færður örsmáum verum sem útbúa gómsætar veigar fyrir okkur er upplifun sem er töfrum líkust. Það að upplifa þetta krefst ákveðins aga, nákvæmni, þolinmæði og síðast en ekki síst meiri hreinlætisvitundar en nokkurn hefði órað fyrir.
Líkt og annar útbúnaður á mat og drykk er fólk mistilbúið til þess að gera þetta sjálft. Það hafa ekki allir þolinmæði í að rækta upp súr til að setja í brauð eða til þess að fara út í berjamó til þess að tína ber í sultu. Fólk sem ekki hefur þolinmæði í að gera þessa hluti einfaldlega kaupir þá í verslunum landsins. Sumir vilja baka súkkulaði köku á sunnudögum en aðrir vöfflur eða jafnvel kleinur og allir eru með sína útfærslu á þessu, sem gerir heimagerðu vöruna einstaka (og að sjálfsögðu betri í huga þess sem gerir hana). Heimabrugg er ekkert frábrugðið þessu, sumir vilja útbúa létta lager bjóra, aðrir bragðmeiri IPA bjór og enn aðrir kolsvarta, tunnuþroskaða stout bjóra, en í öllum tilfellum eru þessir bjórar lagaðir að bragðlaukum bruggara og því að sjálfsögðu betri en nokkur vara sem hægt væri að kaupa (a.m.k. í huga bruggaranna).
Ólíklegt verður að teljast að þátttaka í áhugamálinu hafi í för með sér óhóflega drykkju en stærsta vandamál flestra heimabruggara er að þeir vilja helst brugga meira en þeir vilja drekka og eiga þeir flestir því oftast til bjór. Þeir sem þekkja til alkóhólisma vita það að á heimilum þar sem einstaklingur hefur ekki stjórn á sinni drykkju er allt áfengi drukkið jafn óðum og það kemur inn og er þetta þver öfugt við mína upplifun af heimabruggurum.
Eins verður að teljast ólíklegt að lögleiðing hafi í för með sér aukna unglingadrykkju en þeir sem hafa eytt vikum eða mánuðum í að útbúa dýrindis veigar eru harla ólíklegir til að afhenda þær unglingum sem hafa lítið vit á veigunum og eru eingöngu að sækjast eftir áhrifum vínandans. Ef aðili ætlar að framleiða áfengi fyrir þann markhóp sem unglingar, sem í flestum tilfellum væru bara að sækjast eftir vínanda, eru þá er eingöngu ein vara sem er rökrétt að framleiða, en það er landi. Landi er ódýr, fljótlegur og einfaldur í framleiðslu. En með áframhaldandi banni á eimingu er hætta á slíkri framleiðslu lágmörkuð.
Heimabrugg snýst fyrst og fremst um að fá frelsi til að skapa þá upplifun sem hverjum og einum hugnast. Það að banna slíkt á meðan áfengi er löglegt er í besta falli kjánalegt, því ég fagna því verið sé skoða það að breyta þessum hluta laganna án þess að blanda öðrum, og mögulega umdeildari, breytingum saman við.
Dagur Helgason
Heimabruggari, ríkisstarfsmaður, verkfræðingur og nörd.
Þessi lagabreyting er tímabær. Heimabruggun á bjór og léttvíni hefur í raun verið stunduð hér í áratugi, en með nútíma tækni og gæða hráefnum sem auðvelt er að kaupa í þar til gerðum verslunum má nú gera bjór í heimahúsnæði sem er á pari við bjóra brugghúsa í gæðum. Nágrannalönd okkar í Skandinavíu og Evrópu og önnur lönd sem við viljum miða okkur við hafa leyft gerð létts áfengis til einkanota um áratuga skeið. Í Bandaríkjunum var heimabruggun á bjór lögleidd 1. febrúar 1979 eftir að Jimmy Carter þáverandi forseti undirritaði lög þar um. Þessi lögleiðing hefur leitt til þess að Bandaríkin eru nú í fararbroddi nýrrar bylgju í bjórbruggun, svo kallaðri handverksbruggun og hefur það gefið af sér fjölda handverksbrugghúsa þar í landi, og í raun um heim allan, síðastliðna áratugi. Þessi þróun hefur náð hingað og eru nú starfandi um 25 smá handverksbrugghús á Íslandi. Þessi brugghús skapa störf, oft í brothættum byggðum og auðga úrval og gæði bjórs fyrir innlent bjóráhugafólk og ferðamenn. Mörg þessara handverksbrugghúsa eiga grunn sinn í heimabruggun stofnenda þeirra. Lögleiðing á gerð létts áfengis til einkanota mun án efa gefa af sér fleiri frumkvöðla og auðga enn flóru íslenskra handverksbrugghúsa um land allt.
Höfundur er stofnandi RVK Bruggfélags í Reykjavík og var fyrsti formaður Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa
Stefnan er "Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa og draga úr
skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi."
Samkvæmt því gengur ekki að afnema þetta bann, því það opnar fyrir ný tækifæri og markaðsetningu söluaðila til að innleiða bruggunartæki á heimili barna. Líkur á drukknum foreldrum aukast augljóslega en það hefur skaðleg áhrif á fjölskyldulífið og getur eyðilagt framtíð fleiri barna en nú er.
Annað frumvarp er í samráðsgáttinni um farsæld barna og er það vel. En þetta frumvarp um afnám banns við heimabruggun er í hróplegri mótsögn við farsæld barna.
Viðmiðin í samfélaginu snúast um að skapa börnum heilnæmt líf og heilbrigð lífskilyrði. Þar liggur þeirra frelsi og framtíð, ekki í verslunarfrelsi söluaðila og frelsi foreldra til að brugga heima. Það er á skjön við Heimsmarkmið SÞ. Vissuð þið sem leggið þetta frumvarp fram að: Það eru fyrirliggjandi rannsóknir um áhrif aðgengis að áfengi sem sýna að aukið aðgengi eykur drykkju/heildarnotkun og að takmarkað aðgengi dregur úr. Mikilvægustu aðgerðir sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með eru takmarkanir á aðgengi og verðstýring. Vegna þess hve áfengi er skaðlegt heilsu fólks með beinum og óbeinum hætti hefur WHO í Evrópu hraðað heimsáætlun til 2030 og hvetja ríki til að draga úr heildarnotkun áfengis um 10% árið 2025 með öllum tiltækum ráðum.
Þetta afnám er liður í því að auka aðgengi og opna fyrir markaðssetningu á tæki og tólum. Um hvaða velferð eru þið að spá í? Hagsmunaaðila eða barna? Það er leitað samráðs ýmissa söluaðila en engra nema Landlæknis sem geta tjáð sig um barnvænt Ísland eins og frumvarpið um farsæld barna stefnir að.
Niðurstaða: Frumvarpið mun hafa verulega slæmar afleiðingar og opna fyrir meiri drykkju á heimilum sem er í andstöðu við það barnvæna samfélag sem stefnt er að. Ég segi nei, nei, nei.
Tillögur um tilslakanir á áfengislögum eru til þess fallin að auka neyslu áfengis, sama í hvaða formi það er. Það eru þeir sem koma að áfengisiðnaðinum sem einir græða fjárhagslega því samfélagið sjálft tapar stórlega á aukinni áfengisneyslu.
Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur eitur sem veldur skaða á einstaklingum og samfélaginu í heild. Það má lengi telja þau neikvæðu áhrif sem áfengið hefur. Það er sama í hvaða formi áfengið er eða hvernig þess er neytt, það er skaðlegt frá fyrsta dropa.
Áfengisiðnaðurinn hefur það eina markmið að græða fyrir sína hluthafa. Þeir vaða yfir allt og alla, beita þrýsting á þingmenn til að koma sínum vörum að til að búa til fleiri notendur, að þeir byrji fyrr, noti meira og lengur.
Á Heimsvísu er unnið að því að draga úr notkun áfengis. Alþjóðastofnanir hafa gefið út leiðbeiningar s.s. SAFER, Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, Alcohol no ordanary commidity ofl. Alþingismenn, Ráðherrar og aðrir opinberir starfsmenn hafa gengist undir Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og eiga að vinna að því að ná 17 heimsmarkmiðum en áfengi hindrar í að við náum 14 þeirra ásamt. Það vinnur sannarlega gegn Barnasáttmálanum að auka notkun áfengis.
Mörg ríki vinna í dag ötullega í að draga úr notkun áfengis. Litháen samþykkti ítrekað bann við markaðssetningu áfengis. Finnland lét loka fyrir áfengisauglýsingar á Facebook. Canada hefur gefið út að áfengi sé skaðlegt og best sé að drekka það ekki. Írland setur áberandi merkingar á flöskurnar um skaðsemina og fl.
Við sjáum skýr merki þess að komandi kynslóðir hafa ekki þennan áhuga á að nota áfengi sem sést vel í könnunum. Þeir sem komu að forvarnamálum fyrir síðustu aldamót og sáu hve mjög neikvæð áhrif heimabrugg hafði á samfélagið vilja ekki aftur Villta Vestrið í þeim efnum.
Aðalsteinn Gunnarsson
Viltu senda inn umsögn um málið?
Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.
Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan,
sjá nánar hér.