Samráð fyrirhugað 20.01.2023—03.02.2023
Til umsagnar 20.01.2023—03.02.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 03.02.2023
Niðurstöður birtar

Áform um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna

Mál nr. 13/2023 Birt: 20.01.2023 Síðast uppfært: 23.01.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (20.01.2023–03.02.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir áform um ný heildarlög um gagnaöflun um farsæld barna.

Með frumvarpinu er ætlunin að lögfesta heimildir stjórnvalda til að mæla og kanna líðan, velferð og farsæld barna og safna upplýsingunum í sérstakt mælaborð. Markmiðið með söfnun gagna um farsæld barna er að fá betri yfirsýn yfir stöðu barna á Íslandi sem unnt er að nýta við stefnumótun, forgangsröðun fjármuna og fleiri atriði.

Undanfarið hefur ríkari áhersla verið lögð á það innan Stjórnarráðsins að ákvarðanir sem tengjast forgangsröðun stjórnvalda, stefnumótun og eftirliti með aðgerðum séu byggðar m.a. á tölfræðiupplýsingum. Sömu áherslur má finna í skýrslugjöf erlendra aðila. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er m.a. lögð áhersla á að unnið verði að samræmdri úrvinnslu, geymslu og framsetningu opinberra gagna ásamt því að stuðla að opnari aðgangi almennings að gögnum.

Markmið stjórnvalda með áformuðu frumvarpi er að tryggja aðgengi að ópersónugreinanlegum gögnum sem gefa yfirsýn yfir stöðu barna, ekki síst barna sem tilheyra viðkvæmum hópum. Gögnin verði nýtt með markvissum hætti í stefnumótun og eftirfylgni með aðgerðum. Einnig er horft til þess að tryggja opið aðgengi að tölfræðigögnum og afurðum þeim tengdum. Framangreind markmið koma til móts við athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda, þar sem kallað hefur verið eftir markvissri gagnaöflun og opnu aðgengi að tölfræðigögnum um stöðu og hagi barna á Íslandi. Einnig hefur nefndin kallað eftir því að tölfræðigögn séu markvisst nýtt í stefnumótun í málaflokkum er varða börn og eins forgangsröðun fjármuna og verkefna.

Mælaborð um farsæld barna hefur verið í markvissri þróun síðustu ár og við undirbúning þess hafa vaknað spurningar um heimildir til gagnaöflunar. Eftir kortlagningu á lagaumhverfinu er það mat mennta- og barnamálaráðuneytis að nauðsynlegt sé að sérstakur lagagrundvöllur verði lagður undir verkefnið.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landssamtökin Þroskahjálp - 26.01.2023

Umsögn Landssamtaka Þroskahjálpar er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Öryrkjabandalag Íslands - 31.01.2023

Meðfylgjandi er umsögn ÖbÍ - réttindasamtaka um áform um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Reykjavíkurborg - 03.02.2023

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna áforma um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna ásamt fylgiskjali.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Þorlákur Axel Jónsson - 03.02.2023

Hið alsjáandi auga ríkisins

Umsögn um Áform um frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna kynnt í samráðsgátt

Áformin eru að setja lög sem tryggja heimildir ríkisins til þess að afla gagna um börn og unglinga, ekki síst þau sem eru í viðkvæmri stöðu og búa í dreifðum byggðum. Slíkar heimildir munu ekki vera til staðar. Lögin eiga að tryggja að sveitarfélögum sé skylt að afla gagna og afhenda gögn sem fyrir þau er lagt að gera.

Umsögn:

Almenn heimild ríkisins til þess að krefjast og afla gagna frá öllum opinberum aðilum og almenn heimild til þess að tengja þessi gögn saman og vinna úr þeim að vild, mun vinna gegn þeim góðu markmiðum sem slíkri heimild virðist ætlað að hafa.

Hið alsjáandi auga ríkisvaldsins er ekki nauðsynleg forsenda velsældar barna. Hið lýðræðislega ríkisvald sem fullgildir þjóðfélagsþegnar koma sér upp, er það aftur á móti. Ekki er víst að auknu valdi ríkisins yfir þegnunum fylgi aukið réttlæti, eins og hugmyndafræðin sem áformin byggja á gefur sér.

Rannsóknir, stefna mótuð á grunni traustra upplýsinga, almennur aðgangur frekar en einkaaðgangur að gögnum sem aflað er með tilstyrk opinberra aðila eða með truflun á opinberri starfsemi, aðgangur haghafa og réttar upplýsingar, allt eru þetta eftirsóknarverð markmið.

Það eru líka frelsi til þess að lifa lífi sem ekki er undir eftirliti ríkisvaldsins, að mega vera til án þess að ríkið skilgreini hvern og einn þjóðfélagsþegn sem viðfang félagslegrar verkfræði í þágu mannauðshyggju í mennta- og félagsmálum, að hámarka framleiðslugetu framtíðar vinnuafls. Slíkar hugmyndir ganga í gegnum öll þessi áform. Mælaborð komu fyrst fram í verksmiðjum.

Persónuvernd verður ekki tryggð á stigi gagnaöflunar. Þess vegna höfum við ríkisstofnunina Persónuvernd og fleiri aðila sem segja til um hvort rannsóknir eigi að fara fram. Þegar unnið er úr gögnum verður hver sem það gerir, oft fræðafólk, að rökstyðja hvers vegna viðkomandi á að fá aðgang að gögnunum, hvernig hann tryggir vernd þeirra sem gögnin taka til og hvernig tryggt er að úrvinnslan samræmist siðferðisviðmiðum. Ekkert af þessu er tryggt með opnum aðgangi allra að öllum upplýsingum um alla, líka um börn í viðkvæmri stöðu í dreifðum byggðum.

Nefnum dæmi. Barnaverndarmál eru unnin í viðkvæmu trúnaðarsambandi opinberra starfsmanna og foreldra. Þetta er sama hugmyndin og þegar glímt er við sjúkdóma í trúnaðarsambandi lækna og sjúklinga. Eitt er að barnaverndarfólk geri öðrum grein fyrir starfi sínu og annað að þær upplýsingar séu tengdar öðrum gögnum án þess að sérstakt samþykki hafi komið fram af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli. Ef ríkisvaldið safnar gögnum um fólk í einum tilgangi og heimilar síðan notkun í öðrum tilgangi, þá þarf að rökstyðja það í hverju tilfelli. Ekki er nóg að vísa til almennra hugmynda um að með aukinni upplýsingaöflun aukist réttlæti í sama mæli. Þess vegna á alls ekki að gefa út almenna lagaheimild til þess að afla hvers kyns upplýsinga um börn og unglinga. Ekki frekar en fullorðna.

Athugið að það falla engin gögn til frá börnum sjálfum. Það eru alltaf fullorðnir sem afla gagna og búa þau þannig til. Líka þegar börn svara spurningum fullorðinna.

Miklum upplýsingum er safnað um fólk í samfélagi okkar. Lítið er unnið úr þessum upplýsingum, jafnvel þó þeirra sé aflað vegna rannsókna. Hugmyndin um almenna heimild ríkisins til þess að afla hvers konar upplýsinga um börn og unglinga, frá hverjum þeim sem því kemur til hugar að krefja svara, er til marks um að miklu meiri umræðu er þörf um þá upplýsingaöflun sem nú á sér stað og meiri skilning á því hvernig við verndum fólk fyrir mögulegu ofríki þeirra sem þær upplýsingar hafa.