Umsagnarfrestur er liðinn (25.01.2023–22.02.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Til samráðs eru drög að reglugerð um atvinnusjúkdóma og listi yfir bótaskylda atvinnasjúkdóma sem byggir á lista Evrópusambandsins um sama efni.
Hinn 12. nóvember 2021 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp og fól honum að setja saman drög að reglugerð með yfirliti yfir bótaskylda atvinnusjúkdóma, sbr. lög nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga, með síðari breytingum. Starfshópurinn samanstóð af fulltrúum frá Vinnueftirlitinu, heilbrigðisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Sjúkratryggingum Íslands, ASÍ, BHM, BSRB, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Með þeim breytingum sem gerðar vorum á lögum um slysatryggingar almannatrygginga sem samþykktar voru á Alþingi 13. júní 2021 var ætlunin að skýrt yrði að tryggingarvernd laganna næði einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Við lögin bættist ný grein þar sem atvinnusjúkdómar voru skilgreindir í fyrsta skipti hér á landi. Atvinnusjúkdómur er nú skilgreindur sem sjúkdómur sem orsakast af vinnu að aðstæðum í starfsumhverfi. Þannig er lögð áhersla á að orsakasamband við vinnu liggi fyrir.
Fyrrgreindur starfshópur vann drög að reglugerð um atvinnusjúkdóma og byggja drögin sem nú liggja fyrir til samráðs alfarið á þeim tillögum. Jafnframt lagði hópurinn til að tekin yrði upp listi Evrópusambandsins yfir atvinnusjúkdóma. Listinn kemur fram í viðauka með reglugerðinni. Þá lét hópurinn þýða leiðbeiningar Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma sem jafnframt eru sett inn í samráðsgáttina sem fylgiskjal.
Reglugerðardrögin byggja á leiðbeiningum Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma og skiptast í þrjá kafla. Í I. kafla er gildissvið reglugerðarinnar afmarkað þannig að reglugerðin nái til viðurkenningar á rétti slysatryggðra, skv. lögum nr. 45/2015, um slysatryggingar almannatrygginga, til bóta vegna atvinnusjúkdóma. Markmiðið sé að tryggja slysatryggðum bætur vegna atvinnusjúkdóma sem slysatryggðir greinast með óháð tekjum þeirra. Í II. kafla er eru ákvæði um hlutverk Sjúkratrygginga Íslands sem annast framkvæmd reglugerðarinnar, hvernig umsóknum skuli háttað og heimild til að kæra ákvarðanir til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í III. kafla eru ákvæði um nauðsyn þess að orsakasamband þurfi að vera til staðar við vinnu eða aðstæður í vinnuumhverfi svo sjúkdómur, sem fram komi á lista viðauka I við reglugerðina, teljist atvinnusjúkdómur. Þá byggir 7. gr. reglugerðardraganna á ákveðnum grunnþáttum úr leiðbeiningum Evrópusambandsins um greiningu atvinnusjúkdóma.
Miklvægt er að framkomi atvinnusjúkdómur bifreiðarstjóra bæði á smáum sem stórum bifreiðum og farþegum, sem fellst í bakeymslum, mjaðakúlu sliti og jafnvel fleiri stoðkerfisvandamálum, sem orsakast af sífeldum ágangi af faratálmum í götum og vegum við alskonar aðstæður þar sem auk þess myndast djúpar holur og ökutækin skella upp og niður og þá helst á litlum hraða sem þessir tálmar valda. Ekki má gleyma sama álagi á öll ökutækin og burðarvirki þeirra en þessir farartálmar auka EYÐSLU eldsneytis um 20-40% með tilheyrandi kostnaði og óþarfa mengun. Minna má á það að einu sinni voru malarvegir um allt með tilheyrandi holum og allir þráðu slétta vegi og götur en þú eru þær holur orðnar úthverfar og öllum til ama!
Vantaði að bæta við að, stór hópur atvinnubifreiðarstjóra eru að aka yfir hundruði farartálma á dag hverjum því þeir skipta þúsundum á höfuðborgarsvæðinu og eru því miklir NEIKVÆÐIR áhrifavaldar í umhverfinu!
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fagnar því að verið sé að vinna að nýrri reglugerð um atvinnusjúkdóma en teljum þó að betur hefði mátt gera gagnvart þeim starfsstéttum sem vísindin staðfesta að séu útsettari fyrir atvinnusjúkdómum.
LSS óskar eftir að tekið verði tillit til þeirra athugasemda sem lagðar eru fram í þessari umsögn um starfsstétt slökkviliðsmanna en umsögnin sem er viðamikil er send með sem viðhengi.
F.h. Landssambands slökkviliðs- og
sjúkraflutningamanna
Bjarni Ingimarsson
formaður LSS
Viðhengi