Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 10.–24.2.2023

2

Í vinnslu

  • 25.2.–8.5.2023

3

Samráði lokið

  • 9.5.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-29/2023

Birt: 10.2.2023

Fjöldi umsagna: 6

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Dómstólar

Sameining héraðsdómstóla

Niðurstöður

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 23. mars 2023. Í greinargerð er gerð grein fyrir umsögnum um málið.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn dómstól sem verði með starfsstöðvar þar sem héraðsdómstólarnir eru nú staðsettir.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu, sem byggist einkum á skýrslu starfshóps um sameiningu héraðsdómstólanna frá desember 2022, er lagt til að átta héraðsdómstólar landsins verði sameinaðir í einn dómstól undir nafninu Héraðsdómur. Lagt er til að yfirstjórn hans verði staðsett í Reykjavík, að dómstóllinn hafi átta lögbundnar starfsstöðvar á þeim stöðum sem héraðsdómstólar eru nú starfræktir auk þess sem gerð er tillaga um lögbundinn lágmarksfjölda starfsmanna á hverri starfsstöð. Kveðið verði á um það í lögum um dómstóla að þrír starfsmenn verði að lágmarki starfandi á hverri starfsstöð, þar af að minnsta kosti tveir héraðsdómarar eða einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi.

Lagt er til að dómstjóri Héraðsdóms verði skipaður af stjórn dómstólasýslunnar til fimm ára úr hópi starfandi héraðsdómara að undangenginni auglýsingu meðal þeirra og öllum héraðsdómurum þannig gefinn kostur á að sækja um. Lagt er til að dómstólasýslan setji reglur um hvernig staðið skuli að undirbúningi að skipun dómstjóra, þar á meðal um hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda og um hvaða sérfræðiaðstoð dómstólasýslan geti sótt sér. Þá er lagt til að við Héraðsdóm skuli starfa varadómstjóri sem einnig skuli skipaður til fimm ára í senn úr röðum héraðsdómara og um skipun hans fari á sama hátt og skipun dómstjóra.

Þá er lagt til að við Héraðsdóm skuli starfa skrifstofustjóri sem skipaður skuli af dómstjóra á sama hátt og mælt er fyrir um í lögum um dómstóla um skrifstofustjóra Hæstaréttar og Landsréttar. Verkefni, hlutverk, staða og hæfniskröfur skrifstofustjóra verði sambærilegar því sem mælt er fyrir um vegna þessara embættismanna. Þá er lagt er til að dómstjóri ákveði fjölda starfsmanna á hverri starfsstöð Héraðsdóms innan þess ramma sem lög um dómstóla og fjárveitingar setja og ráði aðra starfsmenn. Starfsheiti löglærðra aðstoðarmanna dómara verði breytt í dómarafulltrúa án þess að breytingar verði gerðar á inntaki starfsins og réttarstöðu þeirra. Þá verði einnig ráðnir aðrir lögfræðingar við Héraðsdómtil að aðstoða dómara, annast önnur lögfræðileg verkefni sem tengjast stafrænni málsmeðferð og önnur tilfallandi verkefni.

Af framangreindu leiðir að allir héraðsdómarar myndu eftirleiðis starfa við einn og sama dómstólinn og að úthlutun allra mála sem rekin yrðu í héraði yrði á hendi eins dómstjóra. Dómstjóri gæti úthlutað málum án tillits til þess hvar héraðsdómarar og dómarafulltrúar hafi fasta starfsstöð og án tillits til þess á hvaða starfsstöð mál séu rekin. Þannig getur til að mynda skapast svigrúm til þess að útivistarmál af ýmsum toga verði afgreidd af dómurum og dómarafulltrúum á hvaða starfsstöð Héraðsdóms sem er og eftir atvikum önnur mál. Með þessu ætti jafnframt að verða svigrúm til að nýta mannauð á héraðsdómstiginu betur en nú er og eftir atvikum skapa sérhæfingu í tilteknum málaflokkum ef það þykir heppilegt.

Þá er meðal annars lagt til að rýmkað verði hvar taka megi dómsmál fyrir. Það er gert í því skyni að héraðsdómari sem úthlutað hefur verið máli sem reka á í umdæmi annarrar starfsstöðvar en hann á fast sæti í, geti tekið það fyrir á sinni starfsstöð eða annarri. Tillagan lýtur annars vegar að því að heimild héraðsdómara til að taka mál fyrir utan umdæmis verði ekki lengur takmörkuð við fyrirtökur eftir þingfestingu máls, þó þannig að mál skuli að jafnaði taka fyrir þar sem heppilegt þykir vegna rekstrar þess. Tillagan lýtur hins vegar að því að héraðsdómari, sem úthlutað hefur verið máli, geti tekið mál fyrir á hvaða föstum þingstað sem er innan eða utan þess umdæmis sem hann starfar í og án tillits til þess hvar málið skal að öðru leyti rekið.

Af tillögum um einn héraðsdómstól með átta starfsstöðvar leiðir óhjákvæmilega að gera þarf nokkrar breytingar á ákvæðum laga um dómstóla er snúa að hlutverki og verkefni dómstólasýslunnar. Þær lúta í stórum dráttum að því að staða dómstólasýslunnar gagnvart Héraðsdómi verði að mestu leyti sú sama og verið hefur gagnvart Landsrétti og Hæstarétti frá 1. janúar 2018. Auk þess er lagt til að dómstólasýslunni verði fengnar auknar heimildir til að setja reglur um starfsemi Héraðsdóms, þar á meðal um úthlutun dómsmála og um undirbúning að skipun dómstjóra og varadómstjóra.

Þegar ráðist er í jafn miklar breytingar á uppbyggingu stofnana réttarkerfisins og hér er lagt til þykir mikilvægt að gefinn verði rúmur aðlögunartími frá lögfestingu til gildistöku laganna. Er því lagt til að sameining héraðsdómstólanna taki gildi 1. ágúst 2024 en dómstjóri verði skipaður frá 1. mars 2024 til þess meðal annars að undirbúa sameininguna og stofnun dómstólsins.

Verði frumvarpið að lögum er ráðgert að í framhaldinu leggi dómsmálaráðherra fram annað frumvarp þar sem mælt verði fyrir um breytingar á réttarfarslöggjöf sem nauðsynlegar verða ef héraðsdómstólar landsins sameinast í einn dómstól.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttarfars og stjórnsýslu

dmr@dmr.is