Samráð fyrirhugað 24.02.2023—12.03.2023
Til umsagnar 24.02.2023—12.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 12.03.2023
Niðurstöður birtar 09.05.2023

Breyting á kosningalögum

Mál nr. 42/2023 Birt: 24.02.2023 Síðast uppfært: 09.05.2023
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 30. mars 2023. Í greinargerð með frumvarpinu er gerð grein fyrir þeim umsögnum sem bárust um frumvarpið.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.02.2023–12.03.2023. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.05.2023.

Málsefni

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er leitast við að bregðast við þeim ágöllum sem komið hafa í ljós við beitingu nýrra kosningalaga.

Ný kosningalög tóku gildi 1. janúar 2022. Reyndi fyrst á beitingu þeirra í sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru vorið 2022. Í þeim kosningum komu í ljós ýmsir vankantar sem nauðsynlegt var að lagfæra við fyrsta tækifæri. Kallað var eftir athugasemdum um það sem betur mætti fara í löggjöfinni þegar áform um lagasetninguna voru birt í samráðsgátt. Komu þar fram ýmsar góðar ábendingar. Við vinnslu frumvarpisins var höfð hliðsjón af þeim athugasemdum sem þar komu fram. Þá var einnig höfð hliðsjón af greinargerð undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa frá í nóvember 2021. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar lagfæringar s.s. á reglum um hæfi kjörstjórnarmanna og kjörstjóra, ákvæðum um málshöfðunarfrest og flýtimeðferð vegna ákvarðana úrskurðarnefndar kosningamála, breytingar á kjördegi við sveitarstjórnarkosningar og reglum um fresti þegar alþingiskosningar eru í kjölfar þingrofs. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um gögn sem fylgja skulu framboðslista og úthlutun listabókstafs í kosningum til sveitarstjórna, og um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Þá eru lögð til nýmæli um endurtalningu atkvæða og lagt til að við endurtalningu fari fram næmisgreining. Þá er uppkosning skilgreind, og lögð til breyting á reglum um skil á kosningaskýrslum. Þá eru lagðar til breytingar á skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga við kosningar, breyting á reglum um rafræna kjörskrá og settar reglugerðarheimildir fyrir nánari skýringum á óleyfilegum kosningaáróðri og kosningaspjöllum sem og um umboðsmenn stjórnmálaflokka. Þá eru lagðar til ýmsar óhjákvæmilegar breytingar s.s. vegna breyttra heita á sveitarfélögum. Ekki er um heildarendurskoðun á lögunum að ræða heldur er verið að bregðast við athugasemdum um það sem betur má fara í löggjöfinni og nauðsynlegt er að lagfæra sem fyrst.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Skagafjörður - 02.03.2023

Á 37. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 1. mars 2023 var tekið fyrir 42. mál til samráðs "Breyting á kosningalögum" og þannig bókað.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar tillögu að breytingum á kosningalögum sem varða vanhæfisákvæði kjörstjórnarmanna en gildandi kosningalög ollu sem kunnugt er miklum vandræðum við mönnun kjörstjórna fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022. Byggðarráð lýsir jafnframt yfir ánægju sinni með að leitast sé við að skýra betur ákvæði er varða kostnað við sveitarstjórnarkosningar og aðrar kosningar. Nauðsynlegt er að fyrirhuguð reglugerð sem kveður á um fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga vegna hlutverks þeirra við framkvæmd annarra kosninga svo og um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með vegna framkvæmdar kosninga, verði unnin í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

f.h. byggðarráðs

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#2 Baldvin Björgvinsson - 02.03.2023

Af hverju 20 atkvæði? Er ekki eðlilegra að þetta sé hlutfallstala greiddara atkvæða í kjördæminu? Hvernig væri að lagfæra atkvæðavægið í leiðinni?

Afrita slóð á umsögn

#3 Gísli Baldvinsson - 02.03.2023

Bendi á að ekki fer saman föst atkvæðatala (20-40) í mismunandi fjölda kjósenda. Hlutfallstala á hér betur við, sérlega m.t.t mismunandi atkvæðavægi.

Gísli Baldvinsson, stjórnmálafræðingur.

Afrita slóð á umsögn

#4 Landssamtökin Þroskahjálp - 10.03.2023

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á kosningalögum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 12.03.2023

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir ekki aðrar efnislegar athugasemdir við frumvarpið en að eftir er að ljúka mati á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög og af þeirri ástæðu áskilur sambandið sér rétt til að koma að athugasemdum á síðari stigum. Gildir þessi fyrirvari einkum varðandi 39. gr. frv., um breytingar á 139. gr. kosningalaga.

Einnig telur sambandið mikilvægt að fram fari samtal á milli dómsmálaráðuneytis og innviðaráðuneytis um hvort mögulegt er að gera breytingar á frumvarpinu áður en það er lagt fram á Alþingi, hvað varðar tengsl ákvæða sveitarstjórnarlaga og kosningalaga sem reynt getur á við framkvæmd íbúakosninga í sveitarfélögum. Markmið slíkra breytinga væri eingöngu að létta á framkvæmd íbúakosninga.

F.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga,

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs

Afrita slóð á umsögn

#6 Múlaþing - 13.03.2023

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Þjóðskrá Íslands - 13.03.2023

Viðhengi