Samráð fyrirhugað 01.03.2023—20.03.2023
Til umsagnar 01.03.2023—20.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 20.03.2023
Niðurstöður birtar 03.04.2023

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Mál nr. 50/2023 Birt: 01.03.2023 Síðast uppfært: 03.04.2023
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
  • Háskólastig
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025 voru birt til kynningar og athugasemda í Samráðsgátt stjórnvalda 1.–20. mars 2023. Tillagan vakti mikla athygli og bárust alls 45 umsagnir um tillöguna. Margir umsagnaraðilar fögnuðu tillögunni og tækifæri til að lýsa yfir stuðningi við hana. Við frágang á þingsályktunartillögunni og greinargerðar með henni til framlagningar á Alþingi hefur verið tekið tillit til fjölmargra athugasemda og ábendinga. Nánar vísast til 5. kafla í tilvísuðu þingskjali.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.03.2023–20.03.2023. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.04.2023.

Málsefni

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra boðar til samráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Stefna um þekkingarsamfélag á Íslandi byggir á þeirri sýn að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Í því felst að hægt sé að vaxa út úr sveiflukenndu efnahagsástandi með því að beina sjónum að alþjóðageiranum en honum tilheyra öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Forsenda slíks vaxtar eru breyttar áherslur í menntakerfinu, í vísindum, nýsköpun, sjálfbærum þekkingariðnaði, upplýsingatækni, gervigreind, öflugum fjarskiptum og netöryggi. Með því að því að virkja hugvitið verði skapaðar aðstæður fyrir innlenda og alþjóðlega sérfræðinga í ný og áhugaverð störf í þekkingariðnaði hér á landi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök iðnaðarins - 08.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025, mál 50/2023.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Háskólafélag Suðurlands ehf. - 10.03.2023

Góðan dag.

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka þekkingarsetra / SÞS vegna þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

F.h. SÞS

Ingunn Jónsdóttir formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Helga Bragadóttir - 13.03.2023

Til: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins

Varðandi: Mál nr. 50/2023 Birt: 01.03.2023

Umsögn: Helga Bragadóttir, prófessor, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands,

formaður fagráðs hjúkrunarstjórnunar Landspítala

Málsefni: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra boðar til samráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Umsögn

Fyrir hönd Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands fagna ég mjög metnaðarfullri stefnu og ítarlegri Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Tillagan tekur til margar þátta sem snerta flesta fleti þekkingarsköpunar og nýtingu bestu þekkingar og þar með kjarna og starfsemi háskóla. Hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði, sem báðar eru stundaðar og kenndar við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, eru fræðigreinar sem láta til sín taka innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Deildin hefur ítrekað undanfarin ár, verið metin með þeim bestu í heimi á alþjóðlegum matslistum, sjá Shanghai Ranking https://www.shanghairanking.com/institution/university-of-iceland og mikilvægt að gæðum deildar sé við haldið.

Hjúkrun í Háskóla Íslands fagnar 50 ára afmæli í ár og má með sanni segja að rannsóknir og þekkingarþróun í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum hafi tekið stökkbreytingum á þeim tíma. Háskólinn er eini skóli landsins sem býður upp á nám í hjúkrunarfæði á öllum háskólastigum þ.e. BS, MS og PhD. Þekking og þekkingarþróun er forsenda þess að kenna og leiðbeina nýjum kynslóðum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og er einnig forsenda þróunar og gæða heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Til þess að vel takist til með vísindi og kennslu í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum til framtíðar og þátttöku hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi, vill undirrituð benda á þætti sem skortir í þeim stefnumótandi aðgerðum sem settar eru fram í umræddri tillögu til þingsályktunar.

1. Sérfræðingar í hjúkrun. Á bls. 9-10 í tillögunni er sérstaklega talað um mikilvægi þess að fjölga nemendum í heilbrigðisvísindum og þar með talið hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Þar er talað um að sérfræðinám á Íslandi verði eflt frekar, en þó eingöngu talað um sérfræðinám lækna. Sérfræðingar í hjúkrun og þ.m.t. ljósmóðurfræði, gegna lykil hlutverki í kennslu og þjálfun nemenda í þeim fræðigreinum. Því er ekki síður mikilvægt að sett sé í tillöguna umfjöllun um hvernig fjölga á sérfræðingum í hjúkrun, en sú fjölgun þarf að eiga sér stað í samstarfi Háskóla Íslands og klínískra heilbrigðisstofnana með aðkomu yfirvalda.

Lagt er til að bætt verði í kaflann Aðgerðir sem styðja við markmið í háskóla- og vísindastarfi til ársins 2025 að fjölga nemendum í meistaranámi í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði, fjölga hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum í sérfræðiþjálfun sambærilegri þeirri sem Landspítali hefur boðið upp á, og að fjölga sérfræðingum í hjúkrun og ljósmóðurfræði í heilbrigðisþjónustu svo sem á sjúkrahúsum, heilsugæslum, samfélagsþjónustu og hjúkrunarheimilum.

2. Akademískir kennarar í hjúkrun. Forsendur þess að bjóða upp á rannsóknatengt háskólanám er að hafa akademíska kennara á fræðasviðinu. Á síðastliðnum 50 árum hefur í Háskóla Íslands verið byggð upp öflug háskóladeild í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum, sem stenst samanburð við það besta sem gerist í heiminum. Deildin var byggð upp af áræðnum framsýnum frumkvöðlum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og ljósmóðurfræði, sem settu markið hátt og sættu sig aðeins við það besta fyrir íslenskt samfélag. Samhliða skorti á klínískum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum, er skortur á akademískum kennurum (hjúkrunarfræðingum með doktorspróf sem eru hæfir til háskólastarfa) í hjúkrunarfræði og er það ein stærsta áskorun Háskóla Íslands til viðhalds og eflingar kennslu og vísindum í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. Nauðsynlegur fjöldi akademískra kennara í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði er grundvallar skilyrði fyrir því að efla þekkingarsamfélag á Íslandi og verður tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir í þeim efnum að taka tillit til þess og fjalla um þann þátt sem slíkan.

Lagt er til að bætt verði í kaflann Aðgerðir sem styðja við markmið í háskóla- og vísindastarfi til ársins 2025 að fjölga hjúkrunarfræðingum með doktorspróf á Íslandi og að tryggja næga mönnun akademískra kennara í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

Virðingarfyllst,

Helga Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur, PhD, FAAN,

prófessor, deildarforseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands og formaður fagráðs

hjúkrunarstjórnunar Landspítala.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Gylfi Magnússon - 13.03.2023

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðferðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Þessi tillaga til þingsályktunar fjallar um fjölmörg atriði. Margar af tillögunum eru góðra gjalda verðar. Hins vegar er óhjákvæmilegt að gera athugasemd við nokkra þætti. Hér verður einkum fjallað um þá sem snúa að félagsvísindum en höfundur er forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands, sem er umsvifamest allra þeirra háskóladeilda sem kenna félagsvísindi á Íslandi.

Hér verður fyrst vikið að nokkrum almennum þáttum í drögunum en síðan fjallað sérstaklega um þau frá sjónarhóli félagsvísinda.

Í heiti draganna og víða í þeim er rætt um þekkingarsamfélag án þess þó að hugtakið sé skilgreint eða jafnvel lýst með skýrum hætti. Það er því erfitt að átta sig á því til hvers er verið að vísa nákvæmlega og raunar næsta víst að ekki leggja allir sama skilning í hugtakið.

Í lið 2.2 er rætt um fjármögnun rannsóknarinnviða. Einkum virðist horft til tækjakosts en eðlilegt væri að horfa einnig til annarra þátta sem styðja við rannsóknir, m.a. uppbyggingar og viðhalds ýmiss konar gagnagrunna. Þá er rétt að hafa í huga að slíkir innviðir nýtast illa, a.m.k. ekki innan háskóla, nema skólarnir hafi nægt fjármagn til að standa undir kostnaði vegna akademískra starfsmanna og doktorsnema sem sinna rannsóknum.

Í fyrirsögn þessa liðar er rætt um þekkingargreinar en ekki er ljóst til hvers er verið að vísa. Hafa ber í huga í þessu samhengi að allar sérgreinar háskóla byggja á, miðla og búa til þekkingu.

Í liðum 2.4 og 2.8 er rætt um sjálfbæran þekkingariðnað. Ekki er ljóst til hvers er ætlunin að vísa hér, hvorki hvað varðar sjálfbærni né þekkingariðnað. Hugtakið sjálfbærni er oftast notað með vísan til umhverfismála en af samhenginu má ætla að hugtakið sé notað í annarri merkingu hér, fjárhagslegri eða rekstrarlegri.

Á sama hátt er rætt um þekkingariðnað í lið 2.5 án þess að það sé skýrt nánar til hvers er ætlunin að vísa. Rétt er að hafa í huga að orðið iðnaður á íslensku hefur þrengri merkingu en industry á ensku en líklega er hér verið að nota orðið í mjög víðri merkingu.

Alþjóðageirinn er sagður öll fyrirtæki sem fá útflutningstekjur sem byggja á öðru en okkar takmörkuðu auðlindum. Þetta er ekki rétt skilgreining á alþjóðageiranum, eða a.m.k. ekki sú sem er almennt notuð sem þýðing á traded sector á ensku. Bæði orkufrekur iðnaður og sjávarútvegur á Íslandi teljast t.d. að mestu til alþjóðageirans.

Með auðlindum er hér væntanlega verið að vísa til náttúruauðlinda. Aðrar auðlindir, þar á meðal mannauður, eru þó vitaskuld einnig takmarkaðar þótt takmörkunin sé nokkuð annars eðlis en sú sem á við náttúruauðlindir. Hins vegar er rétt að hagvöxtur 21. aldar getur ekki byggt á sífellt aukinni nýtingu náttúruauðlinda, ólíkt því sem við áttum að venjast á 20. öldinni og síðari helmingi þeirrar 19. Sjálfbær nýting þeirra getur þó haldið áfram um alla fyrirsjáanlega framtíð.

Hvað sem því líður þá er ekki mjög gagnlegt að skipta atvinnulífinu upp með þessum hætti. Þótt sókn í náttúruauðlindir geti ekki aukist, sérstaklega ekki í sjávarútvegi, þá eru t.d. ýmis sóknarfæri í bættri nýtingu sjávarafurða sem hægt er að ná með hugviti og rannsóknum.

Þá er óljóst hvað er átt við með að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Það er sagt lykilatriði í þeirri framtíðarsýn sem teiknuð er upp. Sem samfélagslegt markmið er þetta of loðið og teygjanlegt til að það virðist hægt að byggja á því. Allar atvinnugreinar byggja á hugviti að einhverju marki en hugvitið sem slíkt verður vart flutt út. Ýmsar afurðir, bæði vörur og þjónusta, sem eru hugvitsamlega þróaðar, framleiddar og markaðssettar geta hins vegar verið fluttar út.

Enn fremur er ekki ljóst hvers vegna einblínt er á útflutning eingöngu. Þótt útflutningur sé vitaskuld mikilvægur fyrir hagkerfið og lífskjör þá hlýtur þekkingarsamfélag (hvernig svo sem það er skilgreint) að vera mun breiðara og loðnara hugtak en svo að það snúist eingöngu um útflutning. Mikil sóknarfæri fyrir íslenskt efnahagslíf liggja einmitt í því að auka samkeppni innanlands. Það hefur verið Akkilesarhæll hagkerfisins hve hún er lítil og að hagkvæmni stórrekstrar nýtist lítt fyrir hinn smáa innanlandsmarkað. Því er ekki síður ástæða til að huga að innanlandsmarkaði en útflutningi þegar mótuð er stefna sem þessi.

Í tillögunni er lögð veruleg áhersla á svokallaðar STEAM greinar. Sú áhersla er ekki vel rökstudd og því ekki ljóst hvers vegna þessar greinar eru valdar. Þær eru þó auðvitað góðra gjalda verðar og mikilvægar fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild. Í greinargerð er jafnframt rætt um fjölgun í menntavísindum. Samanlagt er þetta mjög stór hluti alls háskólastarfs sem ætlunin er að leggja áherslu á. Eingöngu félags- og hugvísindi eru skilin eftir útundan. Félagsráðgjöf fær þó að fljóta með en hún er eina félagsvísindagreinin sem lagt er til að leggja áherslu á og það eingöngu rökstutt með vísan til fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra.

Rökstuðningur fyrir áherslu á STEAM greinar umfram aðrar kemur einkum fram í lið 1.1. Hann er knappur og yfirborðskenndur og stenst ekki vel skoðun. Félags- og hugvísindi skipta ekki minna máli en aðrar greinar í skilvirku hagkerfi og gegna lykilhlutverki í ýmiss konar nýsköpun.

Má nefna sem dæmi að öflug vernd hugverka byggir á þekkingu úr félagsvísindagreininni lögfræði. Án skilvirks kerfis til verndar hugverkaréttinda er vart hægt að hugsa sér mikið af þeim rannsóknum og þeirri þróun sem er nauðsynleg fyrir nýsköpun. Þá gegnir markaðsfræði, önnur félagsvísindagrein, lykilhlutverki við að leggja mat á stærð markaða fyrir nýjungar og svo vitaskuld markaðssetningu þeirra. Enn aðrar félagsvísindagreinar, svo sem stjórnun, fjármál og reikningshald, gegna á sama hátt lykilhlutverki við að leggja mat á nýjungar og viðskiptahugmyndir og að leysa margs konar viðfangsefni sem eru nauðsynleg til að hugmynd verði að blómlegu fyrirtæki. Flestar nýjar viðskiptahugmyndir snúast ekki um að þróa nýjar tæknilausnir heldur byggja þær á hugmyndum frumkvöðla um hvernig hægt er að búa til nýja markaði eða ná árangri á mörkuðum sem fyrir eru með nýrri nálgun.

Þótt hér sé einkum horft á tillöguna frá sjónarhóli félagsvísinda verður þó einnig að benda á að engin umræða er í skjalinu um mikilvægi tungumálanáms sem þó hlýtur að vera lykilatriði í uppbyggingu þeirra alþjóðatengsla, bæði í háskólastarfi og viðskiptum, sem boðuð eru. Tungumálakunnátta og þekking á menningu, siðum og venjum annarra þjóða skiptir miklu fyrir árangursríka alþjóðavæðingu og eflingu útflutnings. Tungumálanám Íslendinga varð fyrir þungu höggi við styttingu náms á framhaldsskólastigi og má vart við því að veikjast enn frekar.

Áherslan á STEAM greinar endurspeglar heldur ekki þá reynslu, sem studd er fjölda rannsókna, að þverfaglegt samstarf sé æskilegt og raunar nær alltaf nauðsynlegt í nýsköpunarvinnu. Sérhæfð þekking á þröngu tæknisviði ein og sér er gagnleg við að leysa sérhæfð, fræðileg viðfangsefni en til að byggja upp og reka nútíma fyrirtæki þarf breiðari nálgun, sem reynir ekki síst á þekkingu úr ranni félagsvísinda.

Það var einn af mörgum veikleikum sovétkerfisins á sínum tíma að háskólar austan járntjalds útskrifuðu allt of marga nemendur með menntun í STEM greinum, t.d. stærðfræði og eðlisfræði. Sú áhersla dugði skammt við að byggja upp samkeppnishæft atvinnulíf. Hún skilaði vissulega árangri fyrir geimferðaáætlun Sovétmanna en hagkerfið vantaði sárlega fólk með menntun í félagsvísindagreinum (fyrir utan gagnslaus marxísk hjávísindi) og sérstaklega viðskiptafræði. Vitaskuld er enginn að leggja til sovéskt skipulag á Íslandi, því fer fjarri, en þessi samanburður sýnir engu að síður glögglega – þótt með ýktum hætti sé – hættuna við að beina nemendum á tilteknar námsbrautir byggt á pólitísku mati á því hvaða greinar eru æskilegri eða verðugri en aðrar.

Mikilvægi einstakra námsgreina byggir vitaskuld ekki á því eingöngu hve vel þær styðja við útflutning. Menntun og rannsóknir þjóna víðtæku samfélagslegu hlutverki sem endurspeglast ekki nema að litlum hluta í tölfræði um útflutning á vörum og þjónustu. Þetta á ekki síst við um félags- og hugvísindi.

Þess má geta að einn helsti vaxtarsprotinn í uppbyggingu viðskiptafræðimenntunar á Íslandi undanfarna áratugi, u.þ.b. frá aldamótum, hefur verið að bjóða upp á ýmist almenna eða sérhæfða menntun á því sviði fyrir þá sem þegar hafa lokið háskólamenntun í óskyldum greinum. Þörfin fyrir þá menntun – sem kemur fram í mikilli eftirspurn bæði meðal nemenda og atvinnurekenda – endurspeglar að í rekstri fyrirtækja og stofnana er sífellt verið að glíma við rekstrarleg viðfangsefni, sem félagsvísindagreinin viðskiptafræði nýtist vel við en annað nám mun síður.

Í þessu samhengi verður heldur ekki litið framhjá því að félags- og hugvísindi njóta nú þegar mun minni stuðnings hins opinbera við hvern nemanda en STEAM greinarnar. Fjárveitingar á hvern nemanda í félags- og hugvísindum eru þær lægstu sem þekkjast í háskólasamfélaginu. Í því felst að sjálfsögðu mismunun gagnvart nemendum í þessum fræðum. Hana er vart réttlætanlegt að auka með því að minnka enn skerf þessara greina af því fé sem varið er til rekstrar háskóla, líkt og hætt er við að verði raunin miðað við áherslur fyrirhugaðrar þingsályktunartillögu.

Hér er einnig óhjákvæmilegt að benda á að ýmsar greinar sem almennt eru taldar með í upptalningu STEAM greina eru að stofni til viðskiptafræði. Má þar nefna fjármálaverkfræði og rekstrarverkfræði. Fjárveitingar hins opinbera til slíks náms eru hins vegar mun rýmri sé það kennt undir fána verkfræði en viðskiptafræði.

Í lið 1.5 er stuttlega rætt um reiknilíkan það sem notað er til að ákvarða fjárveitingar vegna háskóla en ekki vikið að því að leiðrétta þá mismunun gagnvart félags- og hugvísindum sem felst í líkaninu nú. Slík leiðrétting er þó afar brýn. Það sama gildir um aukin fjárframlög til háskólastigsins í heild sem er illa vanfjármagnað miðað við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum eða í OECD löndunum í heild þrátt fyrir margendurtekin fyrirheit um að gera þar bragarbót á.

Í lið 1.5 kemur fram að nýtt líkan muni hvíla í minna mæli á magni en núverandi líkan og einblína frekar á gæði. Hér er rétt að hafa í huga að námsbrautir í félagsvísindum eru margar mjög vinsælar og því fjölmennar. Sé ætlunin að rýra enn frekar hlut þeirra með því að taka ekki fullt tillit til fjölda við úthlutun fjár þá væri það afar slæmt skref, sem myndi annað hvort kalla á minni þjónustu við nemendur og almennt lakara nám, eða harðar fjöldatakmarkanir.

Sú hugmynd að taka tillit til gæða getur verið góðra gjalda verð, þótt mælikvarðar á gæði náms séu ófullkomnir og ónákvæmir. Þó er rétt að hafa í huga að vanfjármögnun náms kemur óhjákvæmilega niður á gæðum og séu fjárveitingar skertar vegna þess þá getur það leitt til enn verra náms og á endanum til þess að leggja verður námið af.

Sú hugmynd að taka pólitískar ákvarðanir um hvaða nám skal sérstaklega styrkja og beina nemendum í hefur hættu í för með sér eins og áður var vikið að. Almennt horfa nemendur til margra þátta þegar þeir velja sér nám. Áhugasvið skiptir vitaskuld máli en einnig væntingar um störf og tekjur að námi loknu. Það ræðst síðan í grundvallaratriðum af framboði og eftirspurn á vinnumarkaði hvernig þær væntingar rætast. Vinnumarkaðurinn ræður almennt ágætlega við það viðfangsefni og beinir þannig ungu fólki í eðlilegan farveg. Skortur á fólki með tiltekna menntun leysist þannig alla jafna á farsælan hátt fyrir tilstilli markaðarins án pólitískrar miðstýringar.

Vegna þess hve langan tíma tekur að mennta sérfræðinga getur þó verið skortur á þeim af og til vegna skammtímasveiflna í framboði eða eftirspurn. Nú stefnir t.d. í að of fáir muni útskrifast næstu ár með menntun í reikningshaldi og endurskoðun, sem krafist er vegna löggildingar endurskoðenda. Í sumum sérfræðigreinum er hægt að leysa slíkan vanda með því að ráða erlenda sérfræðinga eða úthýsa verkefnum til útlanda. Það er erfitt í mörgum félagsvísindagreinum vegna þess hve tungumálið og þekking á íslensku samfélagi og regluverki skiptir þar oft miklu máli. Það gerir það enn mikilvægara en ella að halda uppi góðri kennslu í félagsvísindagreinum á Íslandi og að hið opinbera styðji vel við hana.

Það er annað mál að í greinum þar sem hið opinbera er nánast eini atvinnurekandinn getur verið tregða við að bjóða þau laun sem þyrfti til að geta ráðið í öll þau störf sem þarf að fylla. Því verður hins vegar varla breytt með þingsályktunartillögu sem þessari.

Sé ætlunin að miðstýra með einhverjum hætti námsframboði og jafnvel námsvali þá kallar það ef vel á að vera á miklu dýpri og yfirvegaðri greiningu og samfélagsumræðu en byggt virðist á í þessum drögum að þingsályktun. Skoða þarf og spá fyrir um fjölmargar breytur. Að einhverju marki hefur það verið gert í nokkrum löndum, t.d. í Danmörku, og er hægt að horfa þangað um fyrirmynd sé frekari miðstýring talin æskileg. Í mörgum nágrannalandanna hefur þó ekki verið talin nein þörf á slíkri miðstýringu og er hið dreifðstýrða bandaríska háskólakerfi gott dæmi um það.

Þá þarf að innleiða breytingar með löngum fyrirvara vegna þess hve langan tíma tekur að búa nemanda undir háskólanám á tilteknu sviði og síðan mennta og útskrifa. Ef vilji stendur t.d. til þess að fjölga þeim sem ljúka háskólanámi sem krefst mikillar færni í stærðfræði þyrftu fyrstu skrefin væntanlega að vera tekin á grunnskólastigi. Þar þyrfti ekki bara að bjóða upp á tiltekið undirbúningsnám heldur fá nemendur til þess að taka það af áhuga og halda síðan áfram námi með slíka áherslu. Telja má öruggt að slíkt þyrfti mun lengri tíma en miðað er við í drögunum en þau eiga að móta stefnu til ársins 2025 þótt e.t.v. mætti taka tiltekin byrjunarskref innan þess tímaramma.

Reykjavík, 13. mars 2023

Gylfi Magnússon,

Forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#5 Elín Soffía Ólafsdóttir - 13.03.2023

Umsögn frá deildarforseta Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands er í pdf skjali í viðhengi.

Heiti skjals: Umsögn ESÓ_Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.pdf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Elsa María Rögnvaldsdóttir - 13.03.2023

Umsögn Fagfélaganna f.h. Rafiðnaðarsambands Íslands, Samiðn -samband iðnfélaga, Matvís og VM -Félags vél- og málmtæknimanna.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kristín Vala Ragnarsdóttir - 14.03.2023

Samráðsgátt, 14. Mars, 2023

Umsögn um „Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025“

Frá Kristínu Völu Ragnarsdóttur, Prófessor í Sjálfbærnivísindum, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Umsögn mín er byggð á reynslu minni við að kenna, rannsaka, skrifa um og taka þátt í verkefnum sem tengjast sjálfbærni- og náttúruvá síðan um aldamót. Fyrir aldamót vann ég við umhverfisrannsóknir og kennslu í tvo áratugi.

Umsögn hefst:

Í Þingsályktunartillöguninni er margt sem er áhugavert – og ég ætla ekki að fara yfir það hér – heldur benda á það sem betur má fara og/eða vantar í tillögunina og greinargerðina.

Í grein sem Sigurður Kristinsson (2023) heimspekiprófessor við Háskólanna á Akureyri birti fyrr á þessu ári og ber titilinn „Háskóli í þágu lýðræðis,“ tók hann svo til orða: „Tengsl háskólamenntunar og lýðræðis blasa við þegar þess er gætt að lýðræðið krefst borgara sem geta myndað sér skoðun á grundvelli röksemda og upplýsinga, geta rökrætt við aðra, sýnt skoðunum annarra umburðarlyndi og tekið þátt í starfi sem miðar að sameiginlegum hagsmunum.“ Ég tek mér hér það bessaleyfi umbreyta þessari setningu á eftirfarandi máta: Tengsl háskólamenntunar og þekkingarsamfélags blasa við þegar þess er gætt að þekkingarssamfélag krefst nemenda/borgara sem geta myndað sér skoðun á grundvelli röksemda og upplýsinga, geta rökrætt við aðra, sýnt skoðunum annarra umburðarlyndi og tekið þátt í starfi sem miðar að sameiginlegum hagsmunum.

Að einblína einungis á þverfaglega samvinnu STEM (Science, Technology, Enginering and Matnematics) með aðferðum lista STEAM (Science, Technology, Engineering, Arts and Mathematics) er í grundvallaratriðum allt of þröngt. Kynni mín af frumkvöðlum hér á landi og erlendis hefur sýnt mér að hugmyndir geta komið alls staðar að, líka frá aðilum sem hafa engar háskólagráður. Samvinna mín við nemendur sem vinna að lausnum sem tengjast sjálfbærni og koma frá öllum sviðum háskólanna, hefur sýnt mér að áhugaverðustu lausnirnar koma oft frá nemendum sem eru í námi tengdu hugvísindum (t.d. heimspeki), félagsvísindum (t.d. stjórnsýsluvísindum), listum/hönnun, skipulagsfræðum og menntavísindum – en ekki einungiss frá raunvísindum, nátturuvísindum, verkfræði og heilbrigðisvísindum. Samvinna nemenda með víðann menntabakgrunn frá mörgum löndum er lykilatriði fyrir frjóa og lausnamiðaða hugmyndavinnu. Vinna mín og leiðtogahlutverk við stór rannsóknaverkefni hafa kennt mér að það mikilvægasta sem þarf að gera er að byggja upp teymi aðila með mismunandi styrkleika, þekkingu og áhuga. Af þessu leiðir að það þarf víðtæka þekkingu til að byggja upp myndug nýsköpunarfyrirtæki. Og þess vegna eru öll fög háskólamenntunar mikilvæg, ekki einungis STEM eða STEAM.

Þegar farið er að gera Þingsályktunartillögu um þekkingarsamfélag í þágu atvinnulífsins er lýðræðið og þar með háskólar farnir út á hálar brautir einræðis- eða alræðis (sjá Kristinsson 2023). Að mínu mati þarf að styrkja þverfaglega samvinnu allra greina, með sérstakri áherslu á að allir nemendur háskólanna fái kennslu og þjálfun í heimspekilegri rökræðu, siðferðislegri hugsun, ástandi undirstöðu lífs okkar á jörðinni – vistkerfum (sem við erum hluti af) og samhengi þeirra við heimskerfið (e. Earth System). Til þess þarf einnig þjálfun í kerfishugsun og kerfisgreiningu (e. system analysis). Í lausnamiðaðri teymisvinnu eru raddir allra jafn mikilvægar, tillögur um lausnir fljóta upp á yfirborðið með því að hlusta með athygli á alla í teyminu. Mikilvægar lausnir fyrir nýsköpun geta þá orðið að veruleika. Til þess þarf að þjálfa nemendur í ýmiss konar samskiptatækni (e. communication technology), t.d. (á ensku: World Café, Open Space, Time to Think, Scenario Planning, Visioning, Backcastting... og svo má lengi telja). Slík þjálfun er sjaldgæf í háskólum á Íslandi. Háskólar sem eru komnir langt í slíkri vinnu eru t.d. Challenges Lab í Chalmersháskólanum í Gautaborg og Innovation Lab í Uppsalaháslóla. Sem dæmi um slíka vinnu get ég nefnt námskeiðið Sjálfbær framtíð sem ég kenni undir námsbrautinni Umhverfis og auðlindafræði í Háskóla Íslands.

Í Þingsályktunartillöguninni er hvergi minnst á þekkingu þeirra sem sitja í stjórn nýsköpunarfyrirtækja. Fyrr á þessu ári kom út skýrsla frá sjálfbærnisérfræðingi ICGN (International Corporate Governance Network). Meðlimir í þessu netverki eru frá 47 löndum og hafa yfirráð af fjárfestingum upp á 70 trilljónir dollara (ca 8400 trilljónir IKR). Í skýrslunni er því haldið fram að ekkert sé mikilvægara en að fyrirtæki geri allt til að vernda líffræðilega fjölbreytni (þ.á.m. þekkingu á réttindum náttúrunnar og alvarleika þess að aðgerðir fyrirtækja leiði til vistmorðs (eða vistmorða)) – og að öll fyrirtæki verði að huga að því að hafa stjórnaraðila sem hafa slíka þekkingu (ICGN 2023).

Í Þingsályktunartillögunni er allavega tvisvar minnst á færnibúðir án þess að geta til um hvarð er átt við. Er það hugtakið „skills camp“ á ensku?

Tillagan tekur fram „samfélagslega mikilvægar greinar“ – hverjar eru það? Hver tekur ákvörðun um það? Að mínu mati eru engar greinar mikilvægari samfélaginu en sjálfbærnivísindi (svo að mannnkyn geti lifað af þessa öld) og heimspeki (svo að rökræður geti farið fram á siðferðilegum grunni). Um leið þurfa nemendur að fá þekkingu á umhverfislæsi (e. environmental literacy (Fang og fl. 2022)), sjálfbærnilæsi (e. sustainability literacy (Stibbe 2009)) og umbreytinga læsi (transformation literacy (Kuenkel og Ragnarsdottir 2022)).

Gott er að talað sé um a háskólarnir verði metnir út frá gæðum heldur en magni – enda er kominn tímin til að takmarka nemendur við þá kennara sem deildir hafa til umráða. Hér á landi (og víðs vegar í heiminum) eru til dæmis allt of margir, að margra mati, illa menntaðir viðskiptafræðingar (Parker 2018) og þeim og hagfræðingum eru að mestu kennt skv. úreltum hugmyndum neoklassískar markaðshagfræði með nýfrjálshyggjuáherslum, sem er að eyðileggja jörðina okkar (t.d. Blewitt ed. 2022). Þessi haghugsun hefur verið reynd (e. field tested) síðan eftir síðari heimsstyrjöldina, en hröðunin mikla (e. the great acceleration (Steffen og fl. 2015)) hófst um 1950 og síðan hefur jarðarkerfið okkar hnignað í veldisvexti um leið og fólksfjölgun, iðnaðarframleiðsla, neysla og mengun hefur einnig verið í veldisvexti. Ný haghugsun með áherslu á velsæld manna og náttúru í stað hagvaxtar er grundvallaratriði fyrir framtíðina. Til þess þarf borgaða og stjórnmálamenn með víða menntun sem háskólar geta byggt undir með því að styrkja allar faggreinar skólanna og samvinnu þeirra.

Stórátak þarf til framtíðar til að byggja upp þekkingu sem og nýsköpunarfyrirtæki sem vinna fyrir náttúruna (sem við erum hluti af) og samfélagið allt, en ekki fyrirtæki sem leggja höfuðáherslu á að „græða“ og borga út arð. Við megum ekki ganga þá vegferð að háskólar einskorðast við þarfir atvinnulífsins, án þess að lykilhugtök menntunar á borð við ígrundun, gagnrýna hugsun, opið hugarfar og samræður í skólastofunni komi þar neitt við sögu (Moussa og Abouchedid 2016).

Hvergi í Þingsályktunartillöguninni er talað um að mennta nemendur sem geta hugsað fram í tímann. Menntakerfið okkar miðar við að kenna nemendum mannkynssögu allavega frá því að landbúnaður hófst fyrir ca 7000 árum. Eftir að ræða við nemendur mína í áratugi hef ég komist að því að þeim hefur nær aldrei verið kennt eða verið hvattir til að hugsa til framtíðar. Þessu verður að breyta. Framtíðarfræði þurfa að verða hluti af mikilvægum greinum sem allir þurfa að læra (sjá hér að ofan, sjálfbærnifræði, heimsspeki og kerfishugsun). Háskólinn í Turku í Finnlandi er frumkvöðull í framtíðarfræðum.

Ýmis vandamál eru reyfuð – t.d. skortur á karlmönnum í háskólanám – sérstaklega nám í ýmsum heilsutengdum- og menntavíssinda greinum. Þessi vandamál þarf að leysa á lægri stigum skólakerfisins – það má t.d. benda á að skólarnir og kennsluaðferðir virðast ekki henta drengjum – það þarf að laga. Einnig er minnst á að nemendur af erlendum uppruna skili sér ekki í háskólana. Án þess að hafa gert á því rannsókn skilst mér að margir gefist upp á annaðhvort eða bæði íslensku og/eða dönsku. Íslenskuna má bæta með bættum stuðningi fyrir erlenda nemendur og dönskuna má fella út sem skildufag en gefa nemendum þess í stað möguleika á að móðurmál foreldra telji sem erlent tungumál til stúdentsprófs.

Talað er um mikilvægi þess að auka matvælaframleiðslu á Íslandi – og þar er ég sammála. Fara þarf í grunnvinnu svo að landbúnaður verði auðgandi (e. regenerative) svo að kolefni bindist í jarðveg - með því að stýra beit, hætta að plægja, og sá fjölbreittum grösum og belgjurtum (sjá t.d. Montgomery 2017). Þetta er mikilvæg aðgerð gegn loftslagsvánni. Þetta er einnig mikilvægt fyrir heilsu okkar – því með því að auðga jarðveginn ekki einungis með kolefni heldur einnig snefilefnum (sem tilbúinn áburður hefur ekki), bætum við heilsu manna og dýra. Auðgandi landbúnaður hefur því fyrirbyggjandi áhrif á heilsu okkar – og ekki veitir af þar sem stór hluti landsmanna hefur alls kyns undirliggjandi sjúkdóma þegar á miðjan aldur er komið (ef ekki fyrr). Ég legg þetta tilhér, því ég verð sjötug á næsta ári og er með enga undirliggjandi sjúkdóma, sem ég tengi því að ég hætti að borða ruslfæðu (og þar með sykur) fyrir 40 árum og hef síðan lagt áherslu á að borða hollan og ferskan mat sem ég elda sjálf – og eldað úr lífrænum afurðum eins mikið og ég hef komist yfir þær. Þannig hef ég forðast að eiturefni sem notuð eru í landbúnaði og tilbúinni matvöru fari inn fyrir varir mínar.

Á Lækjartúni í Ásahreppi er nú þegar byrjað á stýringu beitar og notkun tilbúins áburðar hefur minnkað um meira en 80% (Bændablaðið 2022). Þar er einnig nýstárleg ullarvinnsla og grænmetisræktun byggð á vistrækt (e. permaculture – sjá t.d des Plantes 2022). Á Lækjartúni er því nýsköpun á hverju strái – sem tengist ekkert STEAM menntun – heldur forvitni, hugmyndum og sjálfsmenntun bændanna á bænum.

Það þarf að vinna að því að menntun sem nemendur hljóta í skólum á háskólastigi (t.d. Hallormsstaðaskóla) sem leggja t.d. áherslu á sjálfbærni og vinnslu matvæla úr nærumhverfi – fái viðurkenningu inn í viðeigandi námsbrautir háskólanna. Þannig nýtum við betur menntunina í landinu og gefum nemendum færi á að ljúka háskólagráðu.

Að lokum vil ég taka mér orð Jóns Torfa Jónassonar (2008) í munn „Háskólinn er samfélag kennara og nemenda sem hafa þann eindregna ásetning að öðlast, varðveita og miðla þekkingu í þágu mannkyns.“ Þessu má ekki riðla með úreltri hugsun um að háskólar eigi að mennta nemendur fyrir atvinnulífið. Þeir eiga að mennta nemendur fyrir samfélagið sem láta sig varða lausnir sem leysa vandamál er varða nútíðina og komandi kynslóðir. Þannig styðjum við að menntun (þýska: Bildung) sem er mikilvæg fyrir velsæld (manna og náttúru) nú og í framtíð.

Heimildir sem vitnað er í

Blewitt J. ed. (2022) New Economy, New Systems: Radical Responses To Our Sustainability Crisis. Good Works Publishing. Schumacher Institute. https://www.schumacherinstitute.org.uk/a-new-book-from-the-schumacher-institute/

Bændablaðið (2022) Bændur á Lækjartúni í Ásahreppi bæta afkomu verulega með beitarstýringu innan girðinga: Eykur afrakstur á hvern hektara, stórminnkar vetrargjöf og áburðarkaup nánast úr sögunni. Bændablaðið bls 4, 25. maí, 2022

Chalmersháskólinn í Gautaborg: Challenges Lab https://challengelab.chalmers.se/about/

Des Plantes A. (2022) Think Like an Ecosystem: An Introduction to Permaculture, Water Systems, Soil Science and Landscape Design. Ecolocigal Food Forest Publisher.

Fang W.-T., Hassan A. And LePage B.A. (2022) Environmental Literacy. In The Living Environmental Education. Sustainable Development Goals Series. Springer. https://link.springer.com/chapter/10.1007/978-981-19-4234-1_4

Futures studies, University of Turku: https://www.utu.fi/en/university/turku-school-of-economics/finland-futures-research-centre

ICGN (2023) Biodiversity as Systemic Risk: 10 Game Chancers for Board of Directors and Stewardship Teams. ICGN, London, UK. https://www.icgn.org/biodiversity-systemic-risk10-game-changers-board-directors-and-stewardship-teams

Jonasson J.T. (2008) Inventing Tomorrow´s University: Who Is to Take the Lead? An Essay of the Magna Carta Observatory, Bononia University Press.

Kristinsson S. (2023) Háskóli í þágu lýðræðis. Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, 22(3), 169-198.

Kuenkel P. and Ragnarsdottir K.V. (2022) Transformation Literacy. Pathways for Regenerative Civilizations. Springer. https://link.springer.com/book/10.1007/978-3-030-93254-1

Montgomery D. (2017) Growing a Revolution: Bring Our Soil Back to Life. W.W. Norton & Co.

Montgomery D. and Biklé A. (2022) What Your Food Ate. How to Heal Our Land and Reclaim Our Health. W.W. Norton & Co.

Parker M. (2018) Shut Down the Business School. What´s Wrong with Business Education. Pluto Press.

Sjálfbær framtíð, námskeið í Umhverfis og auðlindafræði sem er opið öllum https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namskeid&id=70022820230

Steffen W., Broadgate W., Deutsch L., Gaffneey O., and Ludwig C. The trajectory of the Anthropocene: The Great Acceleration. The Anthropocene Review 2(1), 81-98.

Stibbe A. (2009) The Handbook of Sustainability Literacy. Skills for a Changing World. Green Books.

Uppsalahásskóli: Innovation Lab https://www.uuinnovation.uu.se/develop-your-idea/

Walid Moussa W. and Kamal Abouchedid K. 2016), New Technologies and their Implications for Higher Education’s Democratic Mission. Theme from the Arab Region, 21, 2019-232.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Sigurður Kristinsson - 14.03.2023

Umsögn um Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Háskólar gegna margvíslegum hlutverkum í þeim samfélögum sem þeir starfa. Í þeim eru stundaðar rannsóknir, í þeim er nemendum kennt og í þeim fer fram lýðræðisleg umræða akademískra starfsmanna og nemenda um málefni stofnunarinnar. Markmiðið með kennslunni er að nemendur menntist. Það þýðir að þekking þeirra eykst, þeir þroskast og skilja betur heiminn sem þeir lifa í, geta lifað betra lífi, eiga betri möguleika á starfi sem krefst þekkingar. Samfélagið allt hagnast á aukinni þekkingu borgaranna, lausnir á samfélagsvanda byggjast á bestu vitneskju á hverjum tíma, hagkerfi þróast á þekkingargrunni. Háskólar mennta embættisfólk, tæknifólk, sérfræðinga af öllu tagi. Það er rétt að benda á að þessar staðreyndir um betra líf nemenda og samfélagið eru óbein afleiðing starfsemi háskólanna.

Einhver mikilvægustu gæði háskólakennara er akademískt frelsi eða fræðilegt frelsi þeirra sem er orðalagið sem notað er í Lögum um háskóla nr. 63/2006. Það þýðir að þeir einir ákveða hvað þeir kenna, hvernig þeir kenna það, hvað þeir rannsaka og hvernig þeir rannsaka það. Háskólarnir „ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið“ (Lög um háskóla 63/2006). En yfirstjórn háskóla hefur ekki heimild til að skipta sér af rannsóknum starfsmanna sinna eða kennslu. Í 1. mgr. 2. gr.a segir „Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna felur í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur... Viðfangsefni rannsókna og kennslu á einstökum fræðasviðum háskóla skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.“ Það er ástæða til að benda á þessi grundvallaratriði í upphafi þessarar umsagnar.

Þessi umsögn hefur verið reifuð í hópi sem unnið hefur að rannsóknarverkefni um lýðræðislegt hlutverk háskóla og er sett fram m.a. í anda þess sem segir um aukið hlutverk háskólafólks í lýðræðislegri umræðu í drögunum. Ekki hefur gefist mikill tími til ítarlegrar greiningar svo athugasemdir okkar eru almennt orðaðar.

Of mörgu slegið saman án nægilegs rökstuðnings eða umræðu

Í þeim drögum að ályktun sem hér eru kynnt eru tilgreind fjölmörg mikilvæg málefni, þar sem í senn koma fram stefnumið, forsendur og rökstuðningur. Að okkar mati eru á drögunum þrír alvarlegir gallar sem þýða að þau eru ótæk til þingsályktunar. Í fyrsta lagi eru stefnumiðin mörg og raunar mjög ólík og útilokað að taka almenna afstöðu til þeirra nema greina þau niður í afmörkuð viðfangsefni. Það þykir undirrituðum bráðnauðsynlegt til þess hægt sé að láta í ljósi yfirvegaða rökstudda afstöðu án þess að fara ofan í mikil smáatriði og mjög langt mál. Þetta tengist framtíðarsýninni, en þó einkum meginmarkmiðunum þremur. Þau ættu í raun heima í a.m.k. þremur aðgreindum ályktunum. Í öðru lagi eru þær forsendur sem gefnar eru bæði umdeilanlegar og þröngar og krefjast mun agaðri rökstuðnings og meiri umræðu. Við teljum brýnt að hún fari fram á víðum vettvangi áður en Alþingi kemst að niðurstöðu. Í þriðja lagi er vel hugsanlegt að taka undir einhverja efnisþætti megintextans án þess að fallast á þann rökstuðning sem kemur fram í greinargerðinni. Þannig teljum við brýnt að hann fái miklu ígrundaðri umfjöllun þar sem tryggt er að ólík fagleg sjónarmið komi fram.

Ónóg undirbúningsvinna

Á níunda áratug síðustu aldar starfaði framtíðarnefnd sem vann mjög vandaða vinnu á mörgum sviðum en ekki náðist að fylgja henni eftir í stefnuplagg af því tagi sem hér er hugsað. Ekki er lagt til að farið sé í það far en samt að einhver slík undirbúningsvinna verði unnin. Jafnframt má lyfta upp þeirri vinnu sem hefur verið unnin á vegum síðustu ríkisstjórnar um skyld málefni og hún notuð til að undirbyggja ályktun af þessu tagi. Í nágrannalöndum okkar hefur þróast málefnalegt verklag á formi svonefndra „græn-“ eða „hvít-“ bóka sem lagðar eru til grundvallar ályktana af því tagi sem nú liggur frammi. Sumt af því sem tilgreint er í skjalinu krefst slíkrar agaðrar undirbyggingar. En hana vantar sárlega í þetta skjal.

Aðför að sjálfstæði háskóla

Við undirrituð þekkjum vel til umræðu um málefni háskóla, hvort heldur er um afskipti stjórnvalda af áherslum eða skiptingu fjár innan háskólanna eða um gæðamál og gerum verulegar athugasemdir við bæði stefnu, forsendur og rökstuðning hvað þau mál varðar. Við teljum að með þessari ályktun stigi stjórnvöld langt út fyrir þann ramma sem sátt hefur verið um eða skynsamlegur hefur verið talinn bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Í drögunum er tekin afstaða til umræðna um fjölmörg sjónarmið og álitamál sem tekist hefur verið á um innan háskólanna og sem þeim hefur tekist að leysa með ígrundaðri, lýðræðislegri umræðu og farsælli stjórnun. Fyrirhugað inngrip stjórnvalda er að okkar mati ekki skynsamlegt og mætti jafnvel ganga svo langt að tala um aðför að hefðbundnu og lögbundnu sjálfstæði háskóla í því sambandi. Margt af því sem gefið er í skyn um skiptingu fjár, gæði og stöðu háskólanna stenst alls ekki skoðun að okkar mati.

Dæmi um gallaðan rökstuðning

Sem fyrr segir teljum við útilokað að taka afstöðu til allra þeirra fjölmörgu málefna sem hér eru tilgreind. Við látum því nægja að tiltaka fáein dæmi um gallaðan rökstuðning að okkar mati.

Í fyrsta lagi er staðhæft mörgum sinnum án rökstuðnings að breyttar áherslur í menntakerfinu séu forsenda vaxtar í atvinnugreinum sem byggjast ekki á hefðbundnum auðlindum. Það er hins vegar í raun alveg óljóst hvert samhengið er þarna á milli og því fer fjarri að Tillagan og greinargerðin varpi sannfærandi ljósi á það. Sem dæmi má nefna það sem segir um STEAM í Tillögunni. STEAM er fyrst nefnt á bls. 2 en síðan skýrt á bls. 9 þannig að um sé að ræða að „raungreinar eru kenndar með aðferðum lista“. Það verður að skilja það sem segir á bls. 9 um STEAM sem eindregna skoðun ráðuneytis að taka eigi upp þessa kennsluhætti. Ekki er vísað í skilgreiningar eða rannsóknir á þeim kennsluháttum sem við er átt. Öllu alvarlegra er þó að slíkar yfirlýsingar af hálfu stjórnvalda brjóta gegn akademísku (fræðilegu) frelsi háskólakennara. Ef eðlisfræðingar, líffræðingar, stærðfræðingar eða aðrir sem kenna raunvísindi telja rétt að kenna grein sína með aðferðum lista þá gera þeir það. Ef þeir telja það fráleitt gera þeir það ekki. Það er háskólakennara einna að ákveða hvernig þeir kenna, ekki Alþingis, ráðuneytis eða stjórnar háskólanna. Þetta grundvallaratriði í háskólahugtaki nútímans er sem fyrr segir bundið í Lög um háskóla nr. 63/2006. Ekki verður betur séð en að Tillagan feli í sér brot á þeim lögum.

Annað dæmi um gallaðan rökstuðning er að á bls. 2 er rætt um fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum til að mæta hraðri öldrun þjóðarinnar og að innleiðing tækni og nýrra starfshátta dragi úr mikilli fyrirsjáanlegri kostnaðaraukningu í heilbrigðiskerfinu. Þetta atriði tengist engu öðru í tillögunni og það er alveg óljóst hvernig aukinn fjöldi menntaðra heilbrigðisstarfsmanna á að draga úr fyrirsjáanlegri kostnaðaraukningu í heilbrigðiskerfinu. Á bls. 9-10 er fjallað frekar um þetta og lesandi er engu nær um samhengið á milli nýrrar tækni og minni kostnaðar. Það verður að segjast eins og er að það er seint í rassinn gripið að grípa til aðgerða nú sem byrja að skila árangri eftir tíu ár, kannski fyrr, en öldrunin er nú þegar orðin samfélagsvandi sem bregðast þarf við með skjótvirkari hætti. Það sem sagt er um þetta byggist heldur ekki á rannsóknum á íslenska heilbrigðiskerfinu að því er best verður séð og óljóst hvernig aukin tækni og aukinn mannskapur mun ráða við öldrun þjóðarinnar. Það hefði hjálpað að vísað væri til einhverra rannsókna í þessu samhengi eins og öðrum í þessari tillögu.

Þriðji gallinn sem við teljum nauðsynlegt að nefna er að mörg lykilhugtök á borð við „samkeppnishæfni háskóla“, „menntun á heimsmælikvarða“, „gæði kennslu“ og „gæði menntunar“ eru alveg óskilgreind, enda þótt á þeim hvíli mörg af þeim efnisatriðum Tillögunnar sem afdrifaríkust yrðu fyrir starfsemi háskóla á Íslandi vegna þess hvernig þau snerta forsendur fyrir útdeilingu fjár.

Að lokum

Rétt er að benda á að sjónarhorn Tillögunnar er allt á framlag háskóla til efnahagslífs. Það er gott og gilt sjónarmið en það má ekki blinda okkur á önnur hlutverk háskóla, t.d. menningarleg, lýðræðisleg, menntunarleg og vísindaleg. Áhersla Tillögunnar á að stjórnvöld útdeili fjármunum á grundvelli hugmynda sinna um hvaða greinar séu samfélagslega mikilvægar fela í sér augljósa hættu fyrir þær háskólagreinar sem þjóna mikilvægum hlutverkum sem falla utan þeirra hugmynda.

Hvert og eitt okkar hefur í faglegu starfi fjallað um ólíka þætti menntunar sem vikið er að í drögunum, m.a. um mikilvægi lýðræðislegrar umræðu, um stöðu og starf háskólanna og framtíð menntunar. Við samsinnum því að þróun á öllum sviðum er brýn og mætti vera kvikari en teljum margt af því sem um þau mál er sagt í Tillögu og greinargerð orka tvímælis, þó ekki sé kveðið sterkar að orði.

Anna Ólafsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor emeritus, Háskólanum á Akureyri

Guðrún Geirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands

Jóhann Helgi Heiðdal, doktorsnemi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri

Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus, Háskóla Íslands

Sigurður Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri

Valgerður S. Bjarnadóttir, lektor við Háskóla Íslands

Vilhjálmur Árnason, prófessor emeritus, Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Birgir Guðmundsson - 15.03.2023

Umsögn um þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Ástæða er til að fagna tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Sérstaklega er jákvætt að samhliða framsetningu tiltekinna stefnumiða séu tíundaðar aðgerðir sem vinna á að til að ná þessum markmiðum.

Þingsályktunin byggir á þremur megin málaflokkum: a) háskóla- og vísindastarf b) nýsköpun og hugverkaiðnað og c) fjarskipti upplýsingatækni og netöryggi. Þó allir séu þessir málaflokkar mikilvægir og ýmislegt um þá að segja mun hér einvörðungu fjallað um atriði sem snerta þann fyrsta, háskóla- og vísindastarf. Aukinheldur verður hér ekki fjallað um einstök atriði eða tillögur þessa kafla, heldur sjónum beint að nokkrum almennum atriðum er varða skilning og skilgreiningar á hugtökum sem mikið eru notuð í þingsályktuninni.

Þekkingarsamfélag án hug- og félagsvísinda?

Stefnumörkunin sem verið er að kynna leggur áherslu á raun-og tæknigreinar á háskólastigi auk fagmenntunar, einkum heilbrigðisstarfsfólks. Það er vissulega ágæt og þörf stefnumörkun, en varasamt að þrengja hugtakið þekkingarsamfélag með þeim hætti sem virðist gert í tillögunni. Þannig er hvergi minnst beint á hugvísindi eða félagsvísindi í öllum þessum texta rétt eins og þau vísindasvið séu ekki mikilvægur hluti af þekkingarsamfélaginu á Íslandi. Í sjálfu sér er það ekki áhyggjuefni ef sú stefnumörkun liggur fyrir að efling tæki- og raungreina og fagnáms næstu tvö árin komi til viðbótar því öfluga háskólanámi í hug- og félagsvísindum sem fyrir er, en verði ekki á einhvern hátt á kostnað þess. Brýnt væri að taka slíkt fram í stefnuplaggi sem þessu. Reyndar er hér og þar vísað til hug- og félagsvísinda í ályktuninni án þess að þau svið séunefnd sem slík. Á þetta t.d. við þegar rætt eru um mikilvægi íslenskunnar, hlutverk háskólafólks í lýðræðislegri umræðu og þverfagleganálgun í háskólastarfi.

STEAM og þverfaglegt nám

Þetta tengist jafnframt því að í ályktuninni er talsvert rætt um mikilvægi svokallaðs STEAM náms fyrir framtíð og þróun íslensks háskóla- og vísindasamfélags. Mikið hefur verið rætt og ritað um STEAM sem kennslufræðilega nálgun í nútímasamfélagi ekki síst á grunn – og framhaldsskólastigi. Á háskólastigi hefur áherslan beinst að mikilvægi þess að raunvísinda- og tæknigreinar lokist ekki inni í þröngum fag-sílóum en nálgist viðfangsefni frá fleiri sjónarhólum sem leiði af sér sköpun og frjósemi. Þar geta samþætting vísinda og tækni við listir og hug- og félagsvísindi skipt sköpum. Í tillögunni er einmitt vikið að mikilvægi lista, en minna að hug- og félagsvísindum, en víðast þar sem fjallað eru um STEAM nám á háskólastigi vísar „A-ið“ (arts) í skammstöfuninni, jafnt til þess sem á ensku kallast „fine arts“ og „liberal arts“. (Sbr. námsgráðuheitin B.A. og M.A.) Þar sem áherslan næstu tvö árin á að taka mið af STEAM kennslu, er því mikilvægara að tryggja að áhersluatriði ályktunarinnar feli ekki í sér að dregið verði úr slagkrafti hug- og félagsvísinda.

Gæði?

Meginmarkmið þingsályktunartillögunnar hvað varðar málefni háskóla– og vísindastarfs er sagt vera að „auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum.“ Hugtökin um gæði og samkeppnihæfni koma enda víða fyrir í textanum án þess að það sé fyllilega skýrt hvað þessi hugtök fela í sér. Hvaða gæðaviðmið er verið að tala um og eru þau frábrugðin þeim gæðaúttektum sem gerðar hafa verið af Gæðaráði háskólanna? Gagnlegt hefði verið að nefna einfaldlega einhver gæðaviðmið sem talin eru mikilvægari en önnur, og losna þannig við huglægar túlkanir á því hvað átt sé við. Það koma hins vegar fram ákveðnar vísbendingar um hvað ráðuneytið er að hugsa í tengslum við reiknilíkanið sem á að „einblína“ á gæði frekar en magn eða umfang kennslu. Þar eru í greinargerð t.d. nefnd atriði eins og fleiri fastráðnir akademískir starfsmenn og meiri áhersla á meistara- og doktorsnám. Eins er „Times Higher Education World University Ranking“ nefnd á einum stað, en óljóst hvort það þýði að gæðamælikvarðar þeirrar mælingar eigi að eiga við um íslensku skólana.

Samkeppnishæfni?

Á sama hátt er frekar óljóst á hvaða sviði samkeppnishæfni íslenskra háskóla eigi að felast. Snýst sú samkeppni um að laða til sín nemendur eða snýst hún um að búa þeim einhvers konar gæða námsumhverfi með nánum tengslum kennara og nemenda? Snýst hún um að komast ofarlega á lista Times Higher Education, eða snýst hún um að birta fræðigreinar alþjóðlega eða ná í sem flesta og hæsta styrki til rannsókna að utan? Eða snýst samkeppnishæfnin um að háskólar stundi praktískar þjónusturannsóknir og vöruþróun sem geta af sér viðskipatækifæri, en leggi minni áherslu á grunnrannsóknir? Í raun má segja að tillagan gefi tilefni til að ætla að samkeppnishæfnin feli í sér allar þessar áherslur og jafnvel fleiri, sem er eðlilegt því samkeppnin er ekki á einhverju einu sviði eða um eitthvað eitt. Hagkvæmni stærðarinnar á vissulega við um sum þessara sviða en alls ekki öll. Slíkt getur t.d. farið eftir fræðasviðum og því hvort um grunn- eða framhaldsnám er að ræða. Því koma á óvart skilyrðislausar alhæfingar um að útilokað sé „að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema veruleg breyting verði á stjórnskipulagi þeirra.“ Erfitt er að skilja þingsályktunina á annan hátt en að stefnt sé að sameiningu einhverra háskóla á næstu tveimur árum, sem í sjálfu sér kann að vera skynsamlegt. Því þarf þó að halda til haga að mikil fjölbreytni og sköpun og þar með aukin samkeppnishæfni háskólakerfisins losnaði úr læðingi þegar háskólum fjölgaði á Íslandi.

Heildarmyndin

Þó hér hafi verið reifuð nokkur atriði sem vakið hafa spurningar varðandi þingsályktun um eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi, er rétt að taka fram að tillagan felur í sér jákvæð tíðindi og fjölmörg atriði sem gætu horft til mikilla bóta fyrir háskólakerfið. Augljóslega stendur metnaður stjórnvalda til að efla háskóla- og vísindastarf, og í því samhengi er mikilvægt er að horfa á heildarmyndina og skilgreina ekki þekkingarsamfélagið of þröngt eða nota of einhliða mælistikur við mat viðfangsefnum.

Birgir Guðmundsson,

Forseti Hug- og félagsvísindasviðs,

Háskólanum á Akureyri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Elinóra Inga Sigurðardóttir - 15.03.2023

Við þurfum að virkja hugvitið hjá öllum óháð kyni, aldri, uppruna, búsetu eða menntun.

Við þurfum að virkja alla þessa karlmenn sem falla út úr skólakerfinu því þeir hafa ekki fengið tækifæri við hæfi vegna ýmissa ástæðna.

Við þurfum að breyta menntakerfinu eins og ég legg til í skjalinu hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Sigrún Kristín Jónasdóttir - 15.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá starfsfólki Iðjuþjálfunarfræðideildar Háskólans á Akureyri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Rannsóknamiðstöð Íslands - 16.03.2023

Umsögn Rannsóknamiðstöðvar Íslands um Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 . Mál nr. 50/2023. 153. Löggjafarþing 2022-2023.

Stjórnendateymi Rannís fagnar tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi. Skýr sýn stjórnvalda um áherslur í menntakerfinu, í vísindum, nýsköpun og sjálfbærum þekkingariðnaði er forsenda markvissrar framþróunar í þessum málaflokkum. Skýr sýn stjórnvalda styður við það faglega starf sem Rannís vinnur til stuðnings áherslum stjórnvalda.

Rannís tekur undir mikilvægi þess að styðja við alþjóðavæðingu háskólastarfs, m.a. með því að fjölga erlendum nemum sem fá sínar gráður á Íslandi. Í því samhengi má geta að þess að Rannsóknasjóður styður nú þegar við sívaxandi fjölda erlendra doktorsnema og það sama má segja um erlenda nýdoktora. Í tillögunni er þar að auki lögð áhersla á tækifæri fyrir nemendur á Íslandi til að taka þátt í skiptinámi erlendis, sem Erasmus+ áætlunin hefur stutt dyggilega við í yfir 30 ár. Rannís vill í þessu samhengi benda á að aukin alþjóðavæðing getur einnig falist í fjölgun skiptinema sem hingað koma, meiri hreyfanleika alls starfsfólks í háskólum (þ.m.t. á stoðsviðum) og komu erlendra sérfræðinga úr atvinnulífinu til að sinna háskólakennslu til skemmri tíma.

Erasmus+ áætlunin hefur einnig stutt við samstarf háskóla, t.d. við að auka gæði náms og að innleiða nútíma kennsluhætti í alþjóðlegu samhengi. Skýr stefnumörkun stjórnvalda fyrir alþjóðavæðingu háskólastigsins myndi styðja stofnanir landsins enn frekar við að móta og ná markmiðum sínum á þessu sviði, og aukið samstarf þeirra á milli gæti tryggt enn betri árangur í alþjóðastarfi. Enn fremur lýsir Rannís yfir ánægju með hugmyndir að nýju og gagnsæju reiknilíkani um fjárveitingar til háskóla og hvetur til þess að það muni fela í sér hvata til frekari alþjóðavæðingar.

Í tillögunni er rætt hvernig megi laða að erlenda sérfræðinga til að styðja við íslenskt hugvitssamfélag, en einnig mætti gera ráð fyrir meiri stuðningi við að laða að íslenska sérfræðinga og vísindamenn sem starfa erlendis, t.d. með aukinni sókn í Marie Skłodowska-Curie áætlunina eða rýmkun skilyrða til að fá skattfrádrátt erlendra sérfræðinga. Slíkur hreyfanleiki er ekki síður mikilvægur fyrir Ísland, og er jafnvel líklegri til að leiða til þess að sérfræðingar ílengist hérlendis.

Rannís fagnar þeirri áherslu sem tillagan leggur á fjölgun þeirra sem ljúka háskólanámi eftir að „hafa farið óhefðbundnar leiðir við að undirbúa sig fyrir námið“. Þótt raunfærnimat sé ekki nefnt sérstaklega í þessu samhengi ber að undirstrika að stjórnvöld hér á landi hafa lagt út í mikilvægar stefnumótandi aðgerðir, meðal annars í samstarfi við Rannís, til að unnt sé að stytta háskólanám með því að meta fyrri reynslu til eininga. Slíkri nálgun mætti gera hærra undir höfði í tillögunni, enda þjónar það hagsmunum einstaklinga, háskóla, atvinnulífsins og samfélagsins alls að forðast að kenna eitthvað sem nemandi kann þegar. Þá ber að hrósa þeirri áherslu sem lögð er á mikilvægi örnáms til að auka aðgengi vinnandi fólks að háskólum landsins.

Rannís tekur undir ákall um að opinbert fjármagn sé nýtt eins og best verði á kosið og á það ekki síst við þá sjóði sem eru í umsýslu Rannís. Áhersla á færri og stærri samkeppnissjóði, þar sem gæði liggja til grundvallar mati, er ákjósanleg leið að því markmiði. Það myndi einnig leiða til stærri og metnaðarfyllri verkefna en raunin yrði með fleiri sjóðum sem útdeila minni styrkjum.

Rannís fagnar boðaðri endurskoðun á Tækniþróunarsjóði (m.a. endurskoðun á einkaleyfastyrkjum) og að styrkjaumhverfi nýsköpunar mæti mismunandi þörfum eftir vaxtarskeiði hugmynda, frumkvöðla og fyrirtækja. Rannís metur stöðugt hvernig auka megi líkur á því að verkefni sem sjóðurinn styrki nái sínum vörðum og markmiðum. Til dæmis styður sjóðurinn við verkefnið Dafna sem felst í vinnustofum og handleiðslu fyrir Sprota – og Vaxtarstyrkþega. Til að brúa bilið á milli rannsókna og nýsköpunar styður Rannsóknasjóðurinn við Auðnu-Tæknitorg sem veitir ráðgjöf til háskólafólks, þ.m.t. styrkþega Rannsóknasjóðs, um hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna, hugverkavernd og markaðssókn, svo fátt eitt sé nefnt. Rannís er því vel undirbúið og tilbúið að styðja við áframhaldandi þróun þessa styrkjaumhverfis og fagnar áformum um að auka tengsl vísinda og nýsköpunar á vettvangi nýs Vísinda- og nýsköpunarráðs.

Öflugt rannsóknaumhverfi veitir slagkraft til að knýja áfram nýsköpun í landinu. Því er nauðsynlegt að öflugir rannsókna- og innviðasjóðir séu öllum aðgengilegir og mæti mismunandi þörfum eftir vaxtarskeiði hugmynda og starfsferli vísindafólks. Rannsóknasjóður er nú eini sjóðurinn sem styður við grunnrannsóknir í landinu. Hefur fjármögnun hans aukist verulega undanfarin ár, sem ber að fagna. Hins vegar er fyrirhugaður niðurskurður á Innviðasjóði líklegur til að vinna gegn þeim markmiðum.

Í kjölfar aukinnar fjármögnunar í Rannsóknasjóð hefur fleira ungt vísindafólk fengið styrki og hægt hefur verið að styðja við fleiri öflug rannsóknateymi, sem eru bæði nauðsynlegar forsendur kraftmikils rannsóknastarfs til framtíðar. Næsta þrep fyrir vísindafólk í grunnrannsóknum er sókn í erlenda samkeppnissjóða, en til þess þarf íslenska fjármögnun. Sú fjármögnun má hins vegar ekki leiða til skertrar fjármögnunar Rannsóknasjóðs. Því verður að huga að leiðum til að fjármagna sókn íslensks vísindafólks í alþjóðlega samkeppnissjóði, sem svo aftur skilar sér í fjármagni og auknum mannauði inn í landið.

Í drögum að þingsályktunartillögu er framtíðarsýn fyrir nýsköpun í landinu sett fram á skýran og skilmerkilegan hátt, en sýn á framtíð rannsókna fær minni umfjöllun. Á bls. 9 í drögunum má einnig finna þá athugasemd að styrkjakerfi rannsókna á Íslandi sé „óaðgengilegt og lokað fyrir marga“. Rannís leggur metnað í að þjónusta sé aðgengileg öllum, og leggur áherslu á rafræna umsýslu, öflugt kynningarstarf um allt land og opna fjarfundi, auk þess sem Rannís leggur sig fram við að senda sérfræðinga á viðburði um allt land sé þess óskað. Því er vert að ítreka að Rannís er boðið og búið til að ræða hvernig hægt sé að gera enn betur í stuðningi við öll þau sem stunda rannsóknir á Íslandi.

Að lokum er vert að minnast á Markáætlun, en í tillögu að þingsályktunartillögu er lagt til að nýta fjármagn hennar í þágu loftslagsmála. Markáætlun er í eðli sínu ætlað að styðja við áhersluverkefni stjórnvalda og virðist hún því vel fallinn til þess að styðja við loftslagsmál. Einnig væri mögulegt að nota fjármagn hennar að hluta til að mæta skuldbindingum Íslands í alþjóðlegum samkeppnissjóðum í rannsóknum og nýsköpun, að því gefnu að markmið þeirra sjóða falli að áherslum stjórnvalda.

Þessi umsögn er unnin af stjórnendateymi Rannís.

Ágúst Hjörtur Ingþórsson

Forstöðumaður Rannís

Afrita slóð á umsögn

#13 Pétur Ástvaldsson - 16.03.2023

16. mars 2023

Umsögn Háskóla Íslands

Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í málaflokkum á starfssviði hins nýja ráðuneytis. Þingsályktunartillagan tekur til þriggja meginmarkmiða um:

• Háskóla og vísindastarf

• Nýsköpun, hugverk og þekkingariðnað

• Fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi

Að mati Háskóla Íslands er með tillögu þessari sett fram skýr og afar metnaðarfull framtíðarsýn um öflugra þekkingarsamfélag á Íslandi, þar sem framangreindar þrjár meginstoðir eru lagðar til grundvallar. Háskóli Íslands tekur heils hugar undir þá framtíðarsýn að lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum á Íslandi felist í aukinni áherslu á fjölbreytt og alþjóðlega samkeppnishæft háskólanám, rannsóknir, nýsköpun og framsækna upplýsingatækni.

Í þingsályktunartillögunni er lögð rík áhersla á svokallaðar STEAM-greinar. Það er vissulega mikilvægt enda sýna gögn að hlutfall þessara greina þegar litið er til fjölda stúdenta í íslenskum háskólum er lægst á meðal norrænna þjóða. Á hinn bóginn má ekki gleyma mikilvægi annarra fagsviða í tengslum við eflingu íslensks þekkingarsamfélags svo sem hug-, félags- og menntavísinda. Efling þekkingarsamfélags og aukin nýsköpun eru þverfagleg verkefni sem ná út fyrir hefðbundnar STEAM-greinar, svo sem í tengslum við hugverkavernd, viðskiptaþróun og alþjóðlega markaðssetningu. Þá hlýtur efling kennaramenntunar, nýliðun í kennarastétt og starfsþróun kennara að vera grundvallarþáttur í uppbyggingu þekkingarsamfélagsins.

Settar eru fram stefnumótandi aðgerðir fyrir hvert meginmarkmið. Þessar aðgerðir eru sumar hverjar mjög metnaðarfullar en ekki síður kostnaðarsamar. Aðgerðirnar eru jafnframt flestar þess eðlis að vinna þarf náið með hagaðilum við útfærslu og framkvæmd þeirra. Háskóli Íslands lýsir yfir eindregnum vilja til að taka þátt í þessu verkefni.

Aðgerðir sem styðja við háskóla og vísindastarf eru allar afar mikilvægar en háskólinn vill ítreka að afar brýnt er að ljúka sem fyrst endurskoðun reiknilíkans um fjármögnun háskóla (aðg. 1.5) í því skyni að treysta fjárhagslegan grundvöll þeirra. Mjög hæpið er að tala um aukna sókn í STEAM greinum (aðg. 1.1) og fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum (aðg. 1.2) án endurskoðunar reiknilíkans sem færir fjármögnun íslenskra háskóla nær fjármögnun norrænna og evrópskra háskóla. Háskólar á Íslandi verða að standast háskólum í nágrannalöndunum snúning enda eru þeir okkar helstu samkeppnisaðilar um nemendur og alþjóðlegt fjármagn til rannsókna, en þeir eru auðvitað um leið okkar mikilvægustu samstarfsaðilar.

Háskólinn tekur undir þau sjónarmið að aukið samstarf og jafnvel sameining háskóla sé líkleg til að styrkja háskólamenntun í landinu og auka samkeppnishæfni þess (aðg. 1.3). Háskólinn er reiðubúinn til viðræðna um hvort sem er aukið samstarf eða sameiningu, en leggur áherslu á að fyrir liggi skýr pólitískur vilji um mögulega sameiningu.

Aðgerðir sem ætlað er að styðja við nýsköpun, hugverk og þekkingariðnað eru í senn mikilvægar og metnaðarfullar. Í Háskóla Íslands er rekið öflugt nýsköpunarstarf sem nær til allra fræðasviða háskólans. Með markvissum hætti er unnið með samfélagsleg áhrif rannsókna og mögulega hagnýtingu þeirra. Lögð er áhersla á að vísindafólki háskólans standi til boða sérfræðileg ráðgjöf og aðstoð í tengslum við hvers kyns frumkvöðlastarf; hvort sem um er að ræða stofnun og rekstur sprotafyrirtækja, umsóknir um einkaleyfi eða samningagerð við þriðja aðila um tiltekna hagnýtingu. Háskóli Íslands styður eindregið alla viðleitni til að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf.

Háskóli Íslands vill draga athyglina sérstaklega að aðgerð sem beinist að uppbyggingu rannsóknarinnviða (aðg. 2.2). Í okkar litla vísindasamfélagi er einmitt mikilvægt að samnýta stærri og dýrari rannsóknarinnviði þvert á háskóla, rannsóknastofnanir og hátæknifyrirtæki. Smæð samfélagsins og stuttar boðleiðir ættu að auðvelda okkur slíka samnýtingu og samfjármögnun. Vegvísir rannsóknarinnviða og Innviðasjóður eru kjörin verkfæri til að stuðla að slíkri samvinnu. Háskólinn leiðir verkefni sem styrkt er af samstarfssjóði háskólanna sem hefur einmitt þetta sama markmið; að byggja upp sameiginlegan vettvang og skapa forsendur fyrir opna rannsóknarinnviði á landsvísu.

Einn mikilvægasti þátturinn í eflingu innviða eru fjarskipti, upplýsingatækni og netöryggi sem er þriðja meginmarkmið þingsályktunartillögunnar. Settar eru fram aðgerðir sem færa munu aukinn kraft í þessa grundvallarinnviði samtímans. Háskóli Íslands styður þær allar en bendir sérstaklega á mikilvægi aðgerða sem lúta að netöryggismálum (aðg. 3.3 og 3.6). Net- og upplýsingaöryggi er auðvitað lykilþáttur í stafrænu samfélagi og brotalamir í þeim efnum geta valdið miklum skaða. Brýnt er að fylgjast með alþjóðlegri þróun á þessu sviði þar sem framfarir eru hraðar. Háskóli Íslands reynir eftir bestu getu að tryggja net- og gagnaöryggi en er jafnframt meðvitaður um þær hættur og ógnir sem steðja að.

Að lokum ítrekar Háskóli Íslands stuðning sinn við þá framtíðarsýn sem ályktunin felur í sér, en minnir á að lykilforsenda þeirrar sýnar er bætt fjármögnun íslenskra háskóla. Háskólinn styður í öllum meginatriðum þær aðgerðir sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni um leið og skólinn lýsir vilja sínum til að taka virkan þátt í þessari mikilvægu vegferð.

Afrita slóð á umsögn

#14 Tryggvi Hjaltason - 16.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá mér.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Verkfræðingafélag Íslands - 16.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn Verkfræðingafélags Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025, mál 50/2023.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Fjóla Baldursdóttir - 17.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá Faghóp um iðjuþjálfun aldraðra.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Lára Jóhannsdóttir - 17.03.2023

Meðfylgjandi greinargerð felur í sér ábendingar varðandi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Textílmiðstöð Íslands og Þekkingarsetur á Blönduósi ses - 17.03.2023

Húnabyggð 17. mars 2023.

Umsögn Textílmiðstöðvar Íslands (hér eftir TMÍ) um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025, mál 50/2023.

Ekki eru gerðar athugasemdir við framtíðarsýn, meginmarkmið og stefnumótandi aðgerðir ályktunarinnar enda mjög almennar en hins vegar eru gerðar nokkrar athugasemdir við skýringar í greinargerð með tillögunni.

Í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni á bls. 17: Styrkir til frumkvöðla og sprotafyrirtækja á fyrstu stigum. Opinber stuðningur við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á fyrstu stigum felst m.a. í styrkjum Tækniþróunarsjóðs (Fræ og Sprota), Lóu nýsköpunarstyrkjum, styrkjum til reksturs stafrænna smiðja (Fab labs), auk annars stuðnings við nýsköpunar- og þekkingarsetur, hraðla og ýmiss konar félagastarfsemi.

Áherslan á öflugt stuðningskerfi nýsköpunar á landsvísu er fagnaðarefni en TMÍ gerir athugasemd við hversu þröngt stafrænar smiðjur eru skilgreindar í ályktuninni eða einungis Fab Lab. Vissulega er mikilvægt að styðja áfram við Fab Lab smiðjurnar en erlendis hefur mikil þróun átt sér stað og stafrænar smiðjur þróast ekki aðeins með áherslu á Fab Lab smiðjur heldur einnig með áherslu á sérhæfðari smiðjur. Hjá Fab Foundation, regnhlífarsamtökum Fab Lab á heimsvísu, er farið að bjóða upp á nám er tengist bæði líftækni og textíl. Gerðar eru aðrar kröfur til þeirra smiðja enda námið sem boðið er uppá - Bio Academy og Fabric Academy- töluvert öðruvísi en hefðbundin Fab Academy. Þekking, aðstaða og tækjakostur er ekki sá sami. Hjá Textílmiðstöð Íslands er búið að koma upp TextílLabi sem uppfyllir kröfur Fabricacademy með því að vera í samstarfi við Fab Lab Sauðárkrókur í þeim fáu tilvikum sem þarf að nota fræsara (í samræmi við áherslu 2.2.um deilihagkerfið og samnýtingu innviða). Fabric Academy er í fyrsta skipti verið að kenna hér á Íslandi. Vonir standa til að hægt verði, í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands, að bjóða upp á námið á meistarastigi. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld taki þessa þróun með í reikninginn við mótun nýrrar stefnu þannig að rými sé fyrir frekari nýsköpun og þróun í takt við það sem er að gerast í heiminum og skapa tækifæri til að innleiða nýja þekkingu.

TMÍ hefur unnið mjög í takt við áherslurnar í ályktuninni. Styrkur fékkst 2020 úr Innviðasjóði til að byggja upp rannsóknarinnviði í textíl sem skapaði tækifæri á öflugri þátttöku Textílmiðstöðvarinnar í Horizon 2020 rannsóknarverkefninu Centrinno. Í verkefninu taka þátt stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök í níu Evrópuborgum þar með talið Blönduós. Í verkefninu felst að byggja upp miðstöðvar sköpunar og framleiðni (FabCityHub), vettvang fyrir nýsköpun. Áhersla er lögð á að endurvekja iðnaðarframleiðslu og byggja á þekkingu og menningu hvers staðar og hjá Textílmiðstöðinni var það auðvitað textíllinn. Í lok mars fer af stað annað verkefni Track4Crafts sem Textílmiðstöðin taldi sig hafa bolmagn til að taka þátt í vegna fyrirheita um fjármagn til ráðningar starfsfólks í Textíllab. Í styrknum til Textílmiðstöðvarinnar er m.a. gert ráð fyrir fjármagni til frumkvöðla sem eru að nýta sér nútímatækni til að vinna með textílinn.

Eins og staðan er í dag lítur út fyrir að Textílmiðstöðin þurfi að segja sig frá verkefninu og skila Horizon 2022 styrknum Tracks4Crafts einfaldlega vegna þess að ekki verður fjármagn til að borga laun til að reka stafræna smiðju Textílmiðstöðvarinnar vegna vanefnda stjórnvalda í að fjármagna verkefnið og því ekki hægt að ráða og þjálfa fólk til að halda verkefninu áfram.

Laun starfsfólks hafa frá opnun TextílLabsins 21 maí 2021 verið fjármögnuð með áðurnefndum Horizon styrk. Jafnframt er smiðjan í leigulausu húsnæði til 5 ára sem Húnabyggð leggur til og SSNV styrkir rekstur húsnæðis (hita, rafmagn og internet ) til tveggja ára. Í þessu nýja verkefni Tracks4Crafts er m.a. lögð áhersla á að efla frumkvöðla í nýsköpun með textíl og nota menningararfinn sem innblástur.

Á blaðsíðu 18 segir: Kraftur landsbyggðarinnar nýttur. Mörg samfélög á landsbyggðinni búa yfir sterkum grunni að öflugri nýsköpun, eins og auðlindum, fjármagni, náttúru, samheldnu samfélagi og hugarfari grósku. Aftur á móti er skortur á leiðsögn, tengslaneti og stuðningi sem heldur aftur af tækifærum. Áfram verður unnið að eflingu Lóu, nýsköpunarsjóðs landsbyggðarinnar, og fjölþættum stuðningi sem snýr að því að efla leiðsögn, tengslanet og aðgengi landsbyggðarinnar að stuðningsumhverfi stjórnvalda.

Í þessum kafla er talað um að nýta kraft landsbyggðarinnar og er það mikilvægt en TMÍ harmar hversu ráðuneytið ákveður fyrirfram hvaða forsendur séu til staðar. TMÍ fellur ekki að þessum fyrirfram ákveðnu forsendum og t.d. er ekki hægt að tala um öflugan fjármagnsgrundvöll á Norðurlandi vestra. TMÍ hefur hins vegar mjög öflugt tengslanet bæði innlent sem alþjóðlegt og getur ekki fallist á þá fullyrðingu að skortur sé á tengslaneti. Væntanlega hafa aðrir aðilar sem vinna að uppbyggingu á landsbyggðinni mismunandi sögu að segja og falla misvel að fyrirfram gefnum hugmyndum stjórnvalda um stöðu mála. TMÍ tekur undir að stuðningskerfi stjórnvalda sé ekki alltaf aðgengilegt. Vandinn er ef til vill helst sá að það er ekki sniðið að þörfum samfélaga þar sem menntunarstig er lágt og ekki eru öflug fyrirtæki á svæðinu til að styðja við nýsköpun eins og veruleikinn er á Norðurlandi vestra. Í framkvæmd er stefnan sú (og ekki að sjá með þessari stefnu verði þar breyting i á) að stuðningur stjórnvalda er aðallega við öflug fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu (höfuðborgarsvæðisaðstoðin) en gert er ráð fyrir að ríkið greiði 11,8 miljarðar 2023 til fyrirtækja í formi endurgreiðslna vegna nýsköpunar. Á sama tíma nema Lóa nýsköpunarstyrkir á landsbyggðinni (byggðaaðstoðin svokallaða af stjórnvöldum) 100 milljónum króna fyrir árið 2023. Í þingsályktuninni er ekki gerð grein fyrir (nema óljóst), hvernig hægt er að bæta möguleika landsbyggðarinnar. Lausnirnar ná því ekki til svæða sem þurfa mest á stuðningnum að halda til að skapa þekkingarstörf og auka fjölbreytileika í atvinnulífi.

Á blaðsíðu 19: er lögð áhersla á uppbyggingu sameiginlegra rannsóknarinnviða til að efla þekkingargreinar. Við fögnum þessari áherslu vegna þess hjá Textílmiðstöð Íslands er verið að byggja einu rannsóknarinnviðina í textíl sem hefur verið gert með; uppbyggingarstyrk úr Innviðasjóði, með styrkjum úr alþjóðlegum rannsóknarsjóðum. Innviðirnir eru nú þegar nýttir af háskólum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum, bæði innlendum og erlendum sem vinna með textíl. TMÍ væntir þess að ráðuneytið líti til þessarar þróunar sem hefur átt sér stað hjá Textílmiðstöðinni og samrýmist algjörlega áherslum ályktunarinnar.

Á blaðsíðu 21: Hugvitið virkjað í þágu loftslagsmála, sjálfbærni og matvælaframleiðslu

TMÍ fagnar sérstaklega þessari áherslu og leggur um leið áherslu á að Ísland er langt á eftir flestum Evrópuþjóðum og þó víðar væri leitað í innleiðingu fjórðu iðnbyltingarinnar í tengslum við textíl hvort sem um er að ræða menntun, hönnun, framleiðslu og endurnýtingu á textíl. Ísland er í framlínunni með tilliti til sóunar á textíl. Gríðarlegt magn af innfluttum textíl er urðað á hverju ári og sá hluti sem fer í endurvinnslu er að mestu fluttur aftur úr landi. Rannsóknir, nýsköpun og þróun í nýtingu innlendra hráefna við nýtingu textíls eru enn í mýflugumynd, því miður. Áhugavert er að þeir frumkvöðlar sem hafa verið að nýta rannsóknarinnviði Textílmiðstöðvarinnar leggja mikla áherslu á umhverfisþáttinn og það sama má segja um þá nemendur sem nýta sér aðstöðuna og eru í háskólanámi í hönnun. Allt frá þátttöku í Horizon verkefninu Centrinno, sem hófst haustið 2020, hefur gríðarleg þekkingaryfirfærsla átt sér stað og hefur Textílmiðstöðin m.a. unnið með samstarfsaðilunum í verkefninu við að kortleggja hagaðila í tengslum við textílinn; hráefni og möguleika á umhverfisvænum leiðum við vinnslu textíls úr innlendum hráefnum. Síðastliðið haust var einnig farið að stað með Fabric Academy en megináherslan í náminu er á umhverfisvænar leiðir og sjálfbærni.

Á blaðsíðu 22: er lögð áhersla á mikilvægi þess að Ísland eigi frumkvæði og taki virkan þátt í því alþjóðlega samstarfi og tengslaneti sem felst í samstarfsáætlunum ESB á sviðum rannsókna, nýsköpunar og stafrænna mála. Um leið og TMÍ fagnar að sjálfsögðu þessari áherslu bendum við á að þessi áhersla virðist ekki ná til einu rannsóknarinnviða í textíl á Íslandi sem unnið hefur verið að í Húnabyggð undanfarin ár.

Á blaðsíðu 22: Nýsköpunarverkefni þar sem konur eru leiðandi fái aukna athygli

er lögð áhersla á að nýsköpunarverkefni þar sem konur eru leiðandi og

fái aukna athygli. Því fögnum við sérstaklega enda eru flestir frumkvöðlanna sem sækja okkur heim konur sem hafa lítið aðgengi að fjármagni en eru að tileinka sér nýja tækni við hönnun og framleiðslu textíls.

Þessi umsögn er unnin af stjórn og starfsfólki Textílmiðstöðvar Íslands.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd Textílmiðstöðvar Íslands,

Elsa Arnardóttir, forstöðumaður

Afrita slóð á umsögn

#19 Luca Aceto - 17.03.2023

To whom it may concern,

On behalf of the Department of Computer Science, I take liberty of sharing some comments on the document "Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra." dated 1 March 2023.

While we think that the document contains proposals that can help in the development of the knowledge society in Iceland, it also raises concerns that we believe should be addressed. We list a few key ones below.

Section II

1. To our mind, the present text gives only a partial view of the role of universities. In our opinion, the main goal of university and scientific work is to develop new knowledge and to foster a research-based learning environment that increases the quality of the students' learning, hones their creativity and prepares them to invent the future. That type of scientific and learning environment will also help Icelandic universities in attracting talented scientists and students in the increasingly competitive academic market.

In general, we are concerned that the document does not address the importance of fundamental or basic research, on whose results much of today's knowledge society rests. By way of example,

- Logic gave us computers.

- Number theory gave us the cryptography and secure digital communication on which the digital economy is based.

- The internet is based on network theory.

- Work on models of neural networks underlies modern machine learning.

It is fair to assume that a future knowledge society will not thrive without a proper investment in the basic research carried out at universities and in attracting to Iceland the scientists who have the potential to advance the state of the art in their own disciplines.

Section III, item 1.3, states, amongst other things, "Útilokað er að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema veruleg breyting verði á stjórnskipulagi þeirra." In our, admittedly biased opinion, this is a rather bold statement and it should be substantiated. As a counter-example, we limit ourselves to mentioning that several of the degree courses offered at Reykjavik University have been accredited by international agencies. Those accreditations vouch for the quality of those degrees according to international standards.

Section III, item 1.4: We point out that any application system must be easily accessible to foreign students who do not have the "rafræn skilríki" yet. Technology should support and ease applications to Icelandic universities from foreign students. This is in line with item 1.7.

Section III, item 1.5: While we share the view that some of the funding to universities be "performance related", we must point out that, based on our collective academic experience, the effects of such performance-based funding schemes depend crucially on the quality of the way in which performance is measured. The chosen metrics will strongly affect the way in which academics and their institution carry out their work, and should not discourage scientists from attempting high risk, high gain projects.

Section III, item 1.8: The first-hand experience of the Department of Computer Science at Reykjavik University indicates that high-quality, "pure" distance education requires resources that we do not have. On the other hand, we are very much in favour of the kind of set-up we have with the University of Akureyri, where we provide lectures (recording or stream) and then there are local problem sessions that create a learning environment for the students in Akureyri.

Section III, item 2.3: We strongly support this goal.

Section III, items 3.1-3.8: These are all worthwhile goals. However, they cannot be achieved without committing to a substantial investment in supporting the work of local scientists and in attracting talented students and academics. Every major country in the world is devoting resources to develop and attract expertise in topics such as artificial intelligence, data science, networks, security and software science, to name but five. Iceland will only be able to compete if it can offer comparable working conditions and support to scientists and students working in those fields at all levels.

Prof. Luca Aceto

Chair of the Department of Computer Science, Reykjavik University

Member of Academia Europaea, The Academy of Europe

Afrita slóð á umsögn

#20 Bjarni Kristófer Kristjánsson - 17.03.2023

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Umsögnin sem hér fer á eftir fjallar eingöngu um fyrsta meginsvið stefnunnar, um háskóla og vísindastarf.

Því ber að fagna að Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið leggi vinnu í slíka stefnu og horfi til framtíðar til þess að efla þekkingarsamfélagið. Háskólar eru ein af meginstoðunum og mikilvægt er að starfsemi þeirra og rekstrargrundvöllur verði efldur; þannig getur meginmarkmið tillögunnar náð fram.

Tillagan virðist þó ekki ræða megin vanda íslenska háskólakerfisins, en það er undirfjármögnun, sem sérstaklega á við opinberu háskólana. Undirfjármögnun, sem hefur haft verulega neikvæð áhrif á starfsemi þessara skóla. Það er fagnaðarefni að áfram verði unnið að þróun nýs reiknilíkans fyrir dreifingu fjármagns til háskóla, þar var farin af stað góð vinna og ágæt grænbók setti grunninn að henni. Þó er mikilvægt að hafa í huga að reiknilíkan lagar ekki undirfjármögnun.

Á síðustu áratugum hefur umræða um starfsemi háskóla í vaxandi mæli einkennst af orðræðu nýfrjálshyggju og iðnaðarvæðingar og þetta einkennir tillöguna og greinargerðina sem henni fylgir. Ítarlegri umræðu um þessa þróun má finna í nýlegri grein - Bjarni K. Kristjánsson og Skúli Skúlason 2020 Iðnvæðing háskóla – Hvernig markaðs- og nýfrjálshyggja mótar starfsemi háskóla á 21. öld. Skírnir 194: 177-196. Í greininni og heimildum sem hún byggði á komu fram ákveðnir þættir sem varða þá tillögu sem lögð er fram.

Í tillögunni er mikið rætt um mikilvægi þess að auka gæði í starfsemi háskóla. Þar er meðal annars rætt um mikilvægi stærðar skólanna og nauðsynlegt sé að sameina skóla til að ná stærðarhagræðingu, sem þannig geti tryggt aukin gæði. Hér verður að taka fram að stærð háskóla er ekki endilega merki um gæði skólans. Þannig eru til mjög litlir háskólar erlendis (með jafn marga eða færri nemendur en smæstu skólarnir hér á landi) sem taldir eru veita afburðamenntun og hafa náð mjög langt í rannsóknum. Á sama tíma eru til mjög stórir háskólar sem eiga nokkuð í langt í land hvað varðar gæði kennslu og/eða rannsókna. Fjármögnun háskóla er afar mikilvæg fyrir gæði þeirra, þar sem horft er til þess grunnkostnaðar sem þarf að vera til staðar til að styðja við öfluga kennslu og rannsóknir. Kostnaðar sem finna má í innviðum og stoðkerfi skólanna. Vegna fjársveltis opinberu háskólanna á Íslandi þá munu sameiningar þeirra ekki leysa þann vanda sem til staðar er, án þess að veruleg innspýting komi inn.

Gæði í starfsemi háskóla ráðast fyrst og fremst af starfsfólkinu. Það er starfsfólkið sem mótar kennsluna, uppbyggingu námsbrauta og stundar rannsóknirnar. Til þess að fólk fáist til starfa við háskóla þarf starfsumhverfið að vera hvetjandi og mannvænt. Nú á tímum iðnvæðingar háskóla hefur orðið töluverður viðsnúningur á því. Að miklu leyti er það vegna þess sem mikið er rætt um í skjalinu, en það er samkeppni. Hugmyndafræði nýfrjálshyggju um samkeppni hefur þannig sífellt meira einkennt háskólakerfið, til dæmis hafa verið sett upp kerfi samkeppni á öllum stjórnstigum skólanna. Einnig keppa háskólarnir um fjármagn sín á milli og „spila“ eftir reiknikerfum til að auka fjárveitingar til síns skóla. Þetta mátti sérstaklega sjá eftir að nýir háskólar komu fram hér á landi og allir kepptust að því að laða að sér sem flesta nemendur. Slík samkeppni milli háskóla er ekki líkleg, t.d. þegar horft er til jákvæðs árangurs samstarfsnets opinberra háskóla, til þess að auka samvinnu þeirra þegar kemur að kennslu. Innan háskólanna, t.d. í Háskóla Íslands, keppa svið og deildir um fjármögnun innan skólanna og starfsfólk þeirra keppir sömuleiðis sín á milli um fjármögnun rannsókna, laun og aðstöðu. Á sama tíma er háskólakerfið fjársvelt, eins og kemur fram í tillögunni, sem leitt hefur til fækkunar starfsfólks, lakari endurnýjunar á tækjabúnaði, færra aðstoðarfólks við rannsóknir og kennslu og aukins álags. Allt þetta letur fólk til þess að koma til starfa við háskóla, njóti sín þar og ílengist í störfum. Mikilvægt er að horfið verði frá ofuráherslu á samkeppni og frekar ýtt undir samstarf, samvinnu og fjölbreytileika starfsfólks háskóla, þar sem það geti nálgast fræðistörf og stoðþjónustu á sínum eigin forsendum.

Gæði við háskóla á Íslandi eru tryggð af Gæðaráði íslenskra háskóla og því kerfi sem það hefur komið á laggirnar. Gæðaráðið hefur unnið góða vinnu á síðustu árum og má telja ljóst að í kjölfarið hafa gæði í starfsemi skólanna aukist verulega. Til að efla þátt háskólanna í þekkingarsamfélaginu hvað varðar gæði kennslu og rannsókna er mikilvægt að styrkja enn frekar Gæðaráð íslenskra háskóla.

Í tillögunni er mikið rætt um alþjóðavæðingu háskóla og að þeir séu m.a. í harðri alþjóðlegri samkeppni. Alþjóðleg tengsl og samstarf háskóla er mikilvægt og rétt er að efla það og styrkja. Þó er mikilvægt að það verði ekki meginstef í starfsemi skólanna. Hlutverk háskóla er fyrst og fremst að byggja upp og styðja við það samfélag sem þeir starfa í. Þannig eiga íslenskir háskólar að keppast við uppbyggingu og eflingu íslensks samfélags. Ofuráhersla á alþjóðavæðingu og jafnvel trú á að háskólarnir séu í einhverri alþjóðlegri keppni um að ná sætum á listum matsfyrirtækja úti í heimi getur haft neikvæð áhrif á starfsemi þeirra þegar kemur að því markmiði að efla íslenskt samfélag.

Í tillögunni eru fjölmargar fullyrðingar settar fram um starfsemi háskóla, hvernig hún hefur þróast og hvernig þeir hafa ekki fylgt eftir breytingum í samfélaginu, t.d. með tilkomu samfélagsmiðla og þróun fjölmenningarsamfélags. Óljóst er hvort þessar fullyrðingar séu byggðar á heimildum og rökum, eða skoðun höfunda tillögunnar. Mikilvægt er að efla fræðilegar rannsóknir á starfsemi háskóla og hvernig breytingar í þjóðfélaginu og starfsemi þeirra hafa áhrif á þá. Sem dæmi má nefna að fræðileg rannsókn hefur ekki verið gerð á áhrifum Gæðaráðs íslenskra háskóla á starfsemi skólanna. Annað dæmi úr skólakerfinu tengt þessu er að engar skipulegar rannsóknir hafa farið fram á áhrifum styttingu framhaldsskólans.

Í tillögunni kemur skýrt fram að efla þurfi samtal og tengsl háskóla og atvinnulífs. Slíkt er mikilvægt en þarf að vinna að á jafnræðisgrundvelli og mikilvægt er að háskólar haldi sjálfstæði sínu og akademísku frelsi. Öflugt samtal er mikilvægt er mikilvægt svo háskólar viti hvað atvinnulíf telur vera þörf sína fyrir menntun, en mikilvægt er að hafa í huga að oft er þá um að ræða hver þörfin er í dag, en ekki endilega eftir 3 – 5 ár þegar nemendur hafa lokið námi sínu. Því er mikilvægt að háskólar undirbúi fólk þannig að það geti tekið við þjálfun og aflað sér nýrrar þekkingar, sem er nauðsynleg hæfni í hröðu nútímasamfélagi.

Megintillögunni er fylgt eftir með áætlun um aðgerðir. Þó svo að þær séu flestar mjög góðar, er óljóst hvort öllum markmiðum sé fylgt eftir með aðgerðum. Þannig er ekki ljóst hvernig eftirfarandi markmið munu nást með aðgerðum: Að virkja metnað og hugvit nemenda; að efla rannsóknarhlutverk háskóla í því skyni að skapa tækifæri fyrir ungt vísindafólk til að starfa innan þeirra; og að efla hlutverk háskóla- og vísindafólks í lýðræðislegri umræðu. Á sama tíma er óljóst hvernig sum þeirra markmiða sem sett eru fram tengjast meginmarkmiðinu.

Eins og áður sagði þá er það fagnaðarefni að gerð sé tillaga um stefnumótun varðandi eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi. Í tillögunum sem hér eru settar fram eru margar góðar hugmyndir, sem vonandi eiga bara eftir að batna í áframhaldandi vinnu.

Bjarni K. Kristjánsson, Prófessor, Háskólinn á Hólum

Afrita slóð á umsögn

#21 Veðurstofa Íslands - 17.03.2023

Vinsamlegst sjáið meðfylgjandi skjal

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir - 17.03.2023

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Það er mjög ánægjulegt að sjá lagðar fram metnaðarfullar aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagsins á Íslandi.

Tæknisetur er fyrirtæki sem byggir á áratuga reynslu á sviði efnistækni og mannvirkja. Tæknisetur nýtir sérþekkingu og sérhæfða innviði til þess styðja við nýsköpunar og frumkvöðlaumhverfið en stundar jafnframt öflugar rannsóknir og þróunarvinnu í samstarfi við háskóla og atvinnulíf. Þannig eru á Tæknisetri á þriðja tug tæknisprota og fyrirtækja auk þess sem sérfræðingar Tækniseturs koma að fjölda rannsóknarverkefna styrktum af innlendum og alþjóðlegum rannsóknarsjóðum. Þessi ólíka starfsemi styrkir hver aðra, öflugar rannsóknir og sérþekking starfsfólks, styður við þjónustu, markvissa innviðauppbyggingu og rekstur sérhæfðra tækja sem aftur nýtist í tækniþróun og nýsköpun tæknisprota og atvinnulífs almennt.

Í þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram er lagt upp með aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagsins. Það eru mikil tækifæri fólgin í því að horfa á þekkingarsamfélagið heildstætt. Það mætti því gjarnan samhliða umræðu um aukið samstarf milli háskólanna huga að því að efla enn samlegð við öflugar rannsóknastofnanir hér á landi. Sjálfstæðar rannsóknastofnanir eru órjúfanlegur hluti af virðiskeðju þekkingarsamfélaga í nágrannalöndum okkar og þar eins og hér vinna þær gjarnan mjög náið með háskólasamfélaginu. Gott dæmi um vel heppnaða samlegð af þessu tagi má finna í Noregi milli Sintef og NTNU, en sjálfseignarstofnunin Sintef sprettur út úr NTH (nú NTNU) háskólanum árið 1950. Í dag starfa hjá Sintef um 2000 sérfræðingar frá 75 þjóðernum, en áfram er mikil tenging við NTNU háskólann, starfsfólk NTNU vinnur í SINTEF verkefnum og starfsfólk Sintef hefur kennsluskyldu hjá NTNU. Þetta eykur breidd og fjölbreytni beggja og eykur tækifæri norsks atvinnulífs til að byggja upp og sækja sér sérhæft vinnuafl, sjá nánar hér: (https://www.sintef.no/en/sintef-group/this-is-sintef/)

Áhersla á kröftugt og gott samstarf háskóla og rannsóknastofnanna er líklegt til að skila mælanlegum árangri varðandi öll þrjú meginmarkmiðin sem tiltekin eru í tillögunni.

Virðingarfyllst,

Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir

Framkvæmdastjóri Tækniseturs

Afrita slóð á umsögn

#23 Vera Sveinbjörnsdóttir - 17.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn Myndstefs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Helmut Wolfram Neukirchen - 17.03.2023

Umsögn frá starfsfólki námsbrautar í tölvunarfræði Háskóla Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Við fögnum því að lögð sé áhersla á mikilvægi stafrænnar umbreytingar í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Í þessu samhengi er nokkrum sinnum bent á Digital Europe-áætlun Evrópusambandsins og hvernig Ísland getur notað Digital Europe til að byggja upp stafræna innviði og færni, s. s. þróun stafrænnar hæfni og gervigreindar, þróun ofurtölva og uppbyggingu netöryggis: bls. 4/5: kafli 2.9, bls. 5: kafli 3.1. bls. 15., bls. 22, bls. 27.

Hins vegar viljum við benda á að öfugt við t.d. Horizon Europe-áætlun er Digital Europe-áætlun aðeins 50% fjármögnun frá ESB og gerir ráð fyrir 50% samfjármögnun frá umsækjendum. Það er takmarkandi þáttur fyrir íslenska háskóla.

Í öðrum Evrópulöndum er þessi samfjármögnun veitt af stjórnvöldum, en svo er ekki á Íslandi. Í dag er mótframlag starfsfólks eina leiðin fyrir háskóla til að veita þessa 50% samfjármögnun.

Tölvunarfræðingar Háskóla Íslands taka nú þegar þátt í svo mörgum verkefnum sem styrkt eru af ESB sem krefjast 50% samfjármögnunar (t. d. miðstöð stafrænnar nýsköpunar EDIH-IS, hæfnisetur á sviði ofurtölvu EuroCC/EuroCC2, hæfnisetur á sviði ofurtölvu og gervigreindar NCC Iceland for HPC & AI) að við getum ekki tekið þátt í fleiri verkefnum sem styrkt eru af Digital Europe vegna þess að við höfum þegar klárað vinnutíma okkar sem við getum notað í samfjármögnun. Fyrir hæfnisetur á sviði netöryggis (NCC-IS) og aðrar Digital Europe umsóknir gátum við ekki sótt um fullan styrk vegna skorts á tiltækum vinnutíma sem við hefðum þurft til að leggja fram sem mótframlag.

Það væri hægt að leysa þennan vanda ef samfjármögnun frá hinu opinbera væri í boði. Þetta myndi gera vísindafólki á Íslandi kleift að sækja um fullan styrk frá Digital Europe. Veiting slíks styrks gæti byggst á mati Rannís – það væri jafnvel nóg að gera þetta mat eftir að umsókn fengi Evrópustyrk: í tillögustiginu er hægt að nota tiltækan vinnutíma sem mótframlag í fjármálaáætlun umsóknarinnar. En til að gera þennan vinnutíma aftur tiltæka (þegar styrkur yrði veittur) fengi verkefnið, miðað við úttekt Rannís, þessa samfjármögnun frá ríkinu.

Þess vegna er tillaga okkar að bæta við á bls. 22, á eftir annarri setningu (þ. e. á eftir „Ný, viðamikil samstarfsverkefni sem styrkt eru af samstarfsáætlun ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar (Horizon Europe) og stafrænna mála (Digital Europe) kalla m. a. á enn nánara og skipulegra samstarf milli HVÍN og annarra ráðuneyta þar sem Rannís leikur lykilhlutverk.“) :

„Þetta felur í sér framlag stjórnvalda til samfjármögnunar sem þarf til samstarfsáætlana ESB (t. d. Digital Europe), byggt á mati Rannís.”

Þessi íslenska fjármögnun skilar sér aftur í ESB-fjármagni inn í landið.

Reykjavík, 17. mars 2023

Esa Hyytiä, prófessor í tölvunarfræði, Háskóla Íslands

Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði, Háskóla Íslands

Helmut Neukirchen, prófessor í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði og varadeildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, Háskóla Íslands

Matthias Book, prófessor í hugbúnaðarverkfræði og námsbrautarstjóri í tölvunarfræði, Háskóla Íslands

Morris Riedel, prófessor í tölvunarfræði, Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#25 Pétur Henry Petersen - 17.03.2023

Í Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 kemur fram í 1. tölulið að meginmarkið í háskóla- og vísindastarfi sé að auka gæði náms og námsumhverfis í samkeppnishæfum háskólum. Lykilatriði svo það markmið náist er að öflugt fólk ráðist til starfa í háskólum landsins en til þess að svo geti orðið þurfa háskólar að verða samkeppnishæfir í launum en það eru þeir alls ekki eins og staðan er í dag. Félag prófessora við ríkisháskóla, Félag háskólakennara og Félag háskólakennara á Akureyri leggja því til að aukin samkeppnishæfni launa innan háskóla verði ein af fyrstu aðgerðum sem ráðist verður í til að styðja við markmið í háskóla og vísindastarfi - allt starf háskóla er fall af starfsfólki þeirra. Að öðru leyti vísast í grein formanna fyrrgreindra félaga um stöðuna í launamálum akademískra starfsmanna sem birt var á Vísi 16. mars 2023 sem fylgir hér í heild sinni:

Er engin arð­semi af menntun há­skóla­kennara?

Háskólar eru hreyfiafl framfara í nútíma samfélagi og uppspretta nýjunga og nýsköpunar. Þeir afla einnig og varðveita margvíslega þekkingu og móta skilning á heiminum á grundvelli bestu fáanlegrar þekkingar. Í háskólum eru nýjar kynslóðir þjálfaðar til fjölbreyttra starfa. Hlutverk háskóla er einnig að veita stjórnvöldum málefnalegt aðhald. Allt eru þetta forsendur hagsældar í víðasta skilningi þess orðs, hvort heldur sem horft er til efnahags, menningar eða stöðu lýðræðisins. Mikilvægi þess þarfnast ekki frekari útskýringa. Störf háskólakennara og annara sem þar starfa eru þýðingarmikil og þeim fylgja fjölbreyttar áskoranir. Áríðandi er því að hæfasta fólkið sækist eftir því að starfa í háskólum. Háskólakennarar þurfa að leggja að baki langt og strangt nám áður en þeir hefja störf. Þeir sinna auk kennslu, rannsóknum og stjórnun, hérlendis eru háskólar fáliðaðri en víðast gerist og því verður vinnuvika þeirra gjarnan löng – enda gerðar til þeirra miklar kröfur. Hingað til hafa þessi störf þó verið eftirsóknarverð enda krefjandi og skemmtileg og unnin í frjóu og lifandi umhverfi. En er þetta að breytast?

Starfsferill háskólakennara er um margt óvenjulegur. Almennt eru þeir um 5-10 ár í langskólanámi eftir grunnnám í háskóla og starfa oft erlendis um tíma að því loknu. Algengt er því að háskólakennarar hefji starfsferil sinn um eða eftir þrítugt. Oftast er framhaldsnámið stundað erlendis og oft fjármagnað með námslánum. Nýjar greiningar sýna að almenn háskólamenntun er ekki sérlega arðsöm á Íslandi, arðsemin jafnvel neikvæð. Með því er átt við að sá frestur sem verður á fyrstu launagreiðslum verður ekki unninn upp með hærri launum síðar á ævinni. Meðallaun háskólakennara við ríkisháskólana eru það lág að þau ná ekki meðallaunum háskólamenntaðra starfsmanna á almennum markaði! Þeir ná því sjaldnast að vinna upp það launatap sem þeir urðu fyrir við að afla sér menntunarinnar sem er þó skilyrði fyrir starfinu - forsenda ráðningar.

Háskólakennarar eru því í þeirri stöðu að starfsævi þeirra er um 5-10 árum styttri en annara háskólamenntaðra, en þeir eru á lægri launum. Þeir safna námslánaskuldum sem eru borgaðar til dánardags. Þeir kaupa sína fyrstu fasteign síðar á ævinni en aðrir. Reglur um lífeyrisgreiðslur miðast við að fyrstu greiðslur vegi meira en þær sem seinna koma. Það þýðir að sá sem byrjar að greiða 10 árum síðar, nær ekki að safna lífeyrisréttindum á við aðra (nema viðkomandi sé á hærri launum sem því nemur). Árið 2016 voru lífeyrisréttindi háskólakennara, eins og annars opinbers starfsfólks, jöfnuð við réttindi á almenna markaðinum og samið um að laun á opinberum markaði yrðu jöfnuð við almenna markaðinn. Það hefur enn ekki gengið eftir, nú sjö árum síðar! Æviráðningar hafa fyrir löngu verið afnumdar og starfsöryggi háskólakennara er því eins og annara opinberra starfsmanna. Við þetta bætast mjög krefjandi starfskilyrði, háskólarnir eru alvarlega vanfjármagnaðir og undirmannaðir í samanburði við nágrannalöndin. Slíkt veldur álagi og getur haft mjög neikvæðar afleiðingar á heilsu.

Lausnir við mörgum áskorunum nútímans munu verða til í háskólum, gæði og fjölbreytni menntunar eru forsenda nútímasamfélags og þar gegna öflugir háskólar lykilhlutverki. Til að þetta geti orðið að veruleika þarf að tryggja að háskólar verði áfram eftirsóknarverðir vinnustaðir. Til þess þarf að leiðrétta launa- og starfskjör háskólakennara, sem eru fjarri því að vera samkeppnishæf.

Afrita slóð á umsögn

#26 Stefán Hrafn Jónsson - 17.03.2023

Umsögn forseta Félagsvísindasiðs Háskóla Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Það er fagnaðarefni að háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggur áherslu á þekkingarsamfélag og hlutverk ríkisvaldsins í að styðja við framfarir á því sviði. Í tillögunni má sjá skýr merki um metnað fyrir málaflokknum, metnaður sem leiðir vonandi til framfara fyrir íslenskt samfélag á næstu árum. Margar af þeim tillögum sem settar eru þar fram eru áhugaverðar og ná mögulega fram jákvæðum áhrifum á þekkingarsamfélagið næstu árin. Þar má meðal annars nefna umfjöllun um öldrun þjóðarinnar og þær áskoranir sem það felur í sér og um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Ég er sérstaklega ánægður með að það standi til að koma fram með réttlátara og skilvirkara reiknilíkan við fjármögnun háskólakerfisins þar sem komið verði betur til móts við þann raunveruleika sem greinar hug-, félags og menntavísinda starfa í. Eins ber að fagna að tillagan tilgreinir mikilvægi þess að auka fjármagn til rannsókna á innlendum og erlendum vettvangi. Það fer vel á því að tillagan er send inn i samráðsgátt þar sem kallað er eftir umsögnum sem gefa færi á umbótum og auka möguleika á að hún skili tilætluðum árangri.

Nú þegar hafa nokkrar umsagnir borist um tillöguna þar sem bent er á ýmislegt sem betur má fara. Ég tek undir margar af þessum ábendingum en í stað þess að endurtaka það sem þar kemur fram vil ég með minni umsögn leggja áherslu á mikilvægi þess að líta til fleiri fræðigreina en gert í tillögunni. Ég tel það forsendu þess að tillagan skili árangri.

Það vekur athygli að þegar rætt er um þekkingarsköpun í þágu samfélagsins í tillögunni er einblínt á STEAM greinar en ekkert vísað í margar af þeim fræðigreinum sem hafa áratugum og jafnvel öldum saman fjallað einmitt um þetta þekkingasamfélagið, grunnstef tillögunnar. Það er ekki að ástæðulausu að þessar fræðigreinar hafa verið kenndar öll þessi ár í háskólum víða um heim. Það er ekki aðeins mikilvægt, heldur bráðnauðsynlegt að nýta þá auðlind sem fellst í þeirri þekkingu sem þessar fræðigreinar búa yfir til að ná fram þeim árangri og þeirri arðsemi sem stefnt er að.

Hér er átt við fræðigreinar eins og heimspeki, lögfræði, stjórnmálafræði, félagsfræði, mannfræði, hagfræði, viðskiptafræði, þjóðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði, boðskiptafræði, fötlunarfræði, tungumál, kennslufræði, hnattræn fræði, hugmyndasögu, guðfræði, málfræði, uppeldisfræði, kennslufræði og fjölmargar aðrar greinar. Á sama tíma og ég fagna aukinni áherslu á STEAM greinar á öllum skólastigum þá er það varhugavert að einblína um of á þessar greinar úr samhengi við aðrar. Það er í raun úr takt við þá þróun sem orðið hefur innan háskólasamfélagsins á síðustu árum sem miðar að því að nálgast þekkingarsköpun í samtímanum á þverfaglegan hátt. Þetta sést til dæmis vel á því að innlendir, erlendir og alþjóðlegir styrkveitendur leggja sífellt meiri áherslu á þverfræðilegt rannsóknarsamstarf, m.a. að raunvísindi sæki um og vinni með félags- og hugvísindum, því þannig rannsóknarverkefni veita okkur þekkingu sem fyrr er unnt að nýta til hagsbóta fyrir samfélagið. Styrkveitendur virðast skilja nokkuð vel að samfélagið er sjaldnast skipt í sömu deildir og háskólasamfélagið eða ráðuneyti.

Með hröðum framförum tækninnar bætast sífellt við siðferðilegar spurningar og álitamál sem stjórnvöld, háskólasamfélagið og aðrir þurfa að glíma við. Heimspeki hefur, og mun áfram gegna lykilhlutverki í því að hjálpa okkur að finna verkfæri til að greina og meta siðferðisleg áhrif þeirra miklu breytinga sem við höfum orðið vitni af síðustu misseri. Þannig hefur þekkingarfræði heimspekinnar fjallað um hvernig við öðlumst þekkingu og hvernig við getum greint á milli sannra og rangra upplýsinga. Heimspekin veitir okkur gagnrýna sýn á hlutverk tækninnar í samfélaginu og hjálpar okkur að þróa betri nálgun við notkun tækninnar. Því er mikilvægt að styðja enn betur við heimspeki við Háskóla Íslands en nú ert gert til við getum glímt við áskoranir sem þekkingarsamfélagið mun færa okkur.

Aðkoma lögfræðinnar að þróun þekkingarsamfélagsins er að sama skapi afar mikilvæg þar sem framþróun tækninnar vekur sífellt upp nýjar lagalegar spurningar og álitamál sem STEAM fræðigreinarnar ná ekki að svara einar og sér. Lögfræðin er mikilvæg til að við getum skilið og staðið vörð um hugverkarétt, einkaleyfi, höfundarrétt og vörumerki. Þar sem miklu magni persónuupplýsinga er safnað og deilt í þekkingarsamfélagi er mikilvægt að hafa traustan lagalegan ramma sem verndar friðhelgi einkalífsins. Eftir því sem tækninotkun eykst þá eykst einnig hættan á netglæpum. Lögfræðin hjálpar okkur að skilja þetta flókna samspil upplýsinga og glæpa og leggur grunn að því að lagasetning og reglur sem sporna gegn netglæpum verði markvissari. Í þekkingarsamfélagi eru einnig flóknar lagalegar spurningar um ábyrgð t.d. sem snertir sjálfvirkni, svo sem ábyrgð þegar sjálfkeyrandi bíll veldur tjóni. Lögfræðin er einnig mikilvæg til að við getum gert milliríkjasamninga fyrir markaðsetningu og útflutnings afurða nýsköpunar.

Mannfræði getur hjálpað okkur að skilja hvernig tækni og menning hafa áhrif hvert á annað. Allar tækniframfarir og öll nýsköpun er afsprengi ákveðinnar menningar en einnig mótandi afl og þarf að skoðast í því samhengi. Mannfræði er svo mikilvæg fyrir þekkingarsamfélagið vegna þess að hún veitir einstaka sýn á flókið samspil samskipta milli einstaklinga í mismunandi aðstæðum og breyttrar tækni og hvernig þetta samspil mótar félagslegt og menningarlegt landslag upplýsingaaldarinnar. Hún hjálpar okkur einnig að skilja menningarlegan fjölbreytileika og það hvernig fólk frá ólíkum menningarheimum og með ólíkan bakgrunn notar upplýsingar og hefur samskipti, miðlar upplýsingum og skiptist á skoðunum, auk þess að gefa innsýn í það hvernig gildi og venjur hafa haft áhrif á hvernig fólk notar ákveðna tækni og í hvað það notar hana.

Félagsfræði fæst við samfélag og félagslega hegðun. Hún hjálpar okkur að skilja hvernig fólk hefur samskipti sín á milli og við þær stofnanir sem móta líf okkar, svo sem fjölskyldur, skóla og stjórnvöld. Félagsfræðin er mikilvæg í þekkingarsamfélaginu því hún veitir okkur innsýn í það hvernig tækniframfarir breyta samskiptamynstri fólks og hvernig félagslegt misrétti hefur áhrif á aðgang að upplýsingum og þekkingu. Í þekkingarsamfélaginu er þekking talin verðmæt auðlind sem knýr áfram hagvöxt og félagslegar framfarir. Félagsfræðin veitir innsýn í hvernig þekking er framleidd, miðlað og notuð í mismunandi samhengi. Til dæmis geta félagsfræðingar greint hvernig tengslanet , stofnanir og menningarleg viðmið hafa áhrif á sköpun og miðlun þekkingar. Jafnframt getur félagsfræði hjálpað okkur að skilja félagsleg áhrif þekkingar á einstaklinga og samfélagið í heild. Þetta felur í sér að kanna hvernig aðgengi að þekkingu er breytileg eftir þjóðfélagshópum, hvernig þekking mótar félagslegar sjálfsmyndir og tengsl og hvernig þekking hefur áhrif á félagslegar breytingar og nýsköpun.

Þjóðfræðin beinir ekki síst sjónum að daglegu lífi almennings í sögu og samtíð, þessum óformlegu þáttum sem skapa inntak og umgjörð tilveru fólks frá degi til dags. Hún hjálpar okkur að skilja hvernig breytingar í tækni, þekkingu og samfélagslegum viðhorfum mótar menningu og hversdagslíf fólks. Hún greinir hvernig arfleifð fortíðar skapar menningarlega innviði samfélagsins og um leið hvernig sú arfleifð getur staðið í vegi umbóta og nýsköpunar. Verkfæri þjóðfræðinnar geta veitt okkur mikilvæga innsýn og skilning á innleiðingu samfélagsumbóta á sviði tækni og þekkingar meðal þjóðarinnar. Eins og þjóðfræðin er stunduð hér á landi með megináherslu á birtingarmyndir og hreyfiafl hversdagsmenningar í íslensku samfélagi gegna þjóðfræðingar mikilvægu hlutverki í að greina staðbundin blæbrigði þekkingarsamfélagsins og setja það í þverþjóðlegt samhengi.

Ýmis viðfangsefni stjórnmálafræðinnar eru algerlega nauðsynleg til að við skiljum og beinum þróun þekkingarsamfélagsins í réttar áttir. Stjórnmálafræðin hjálpar okkur að skilja hvernig stjórnvöld starfa og hvernig ákvarðanatökuferlið virkar í stofnunum samfélagsins. Í þekkingarsamfélagi, þar sem ákvarðanatökuferli eru sífellt flóknari og krefjast þverfaglegrar nálgunar, veitir stjórnmálafræðin dýrmæta innsýn í störf stjórnvalda og stefnumótun.

Stjórnmálafræði leggur margt til við opinbera stefnumótun, hvernig best er að framkvæma stefnu og meta árangur. Aukinn skilningur er grundvöllur þess að stefnumótun verði markvissari. Í þekkingarsamfélagi, þar sem gagnreynd stefnumótun verður sífellt mikilvægari er óhugsandi að efla ekki stjórnmálafræðina sem fræðigrein. Stjórnmálafræði, rétt eins og félagsfræðin hjálpa okkur einnig að skilja flókin alþjóðasamskipti, þar með talið málefni hnattvæðingar og lausn ágreiningsefna. Í þekkingarsamfélagi, þar sem samstarf og samvinna yfir landamæri er nauðsynleg, veitir stjórnmálafræði dýrmæta innsýn í tækifæri og áskoranir í alþjóðasamskiptum. Auk þess er stjórnmálafræðin mikilvæg til að skilja hlutverk borgaranna í lýðræðislegri þátttöku, svo sem í kosningum, hagsmunagæslu og almennri þátttöku í samfélaginu.

Viðskiptafræði fjallar m.a. um stjórnun skipulagsheilda þar með talið stofnana og fyrirtækja. Þegar upplýsingar og þekking gegna æ stærra hlutverki í nútíma fyrirtækjum og stofunum þá hefur mikilvægi viðskiptafræðinnar aukist í nútíma þekkingarsamfélagi ekki síst þegar kemur að nýsköpun.

Viðskiptafræðin hefur byggt upp þekkingu og aðferðir fyrir fyrirtæki í áætlunargerð og að koma auga á tækifæri til nýsköpunar. Viðskiptafræðin fæst við leiðir til að stýra fjármagni á áhrifaríkan hátt og búa til vegvísi til að fyrirtæki nái markmiðum sínum. Með því að setja skýr markmið og samræma nýtingu fjármagns við stefnumótandi forgangsröðun geta stofnanir og fyrirtæki skapað umhverfi sem ýtir undir nýsköpun og sköpunargáfu. Nýsköpun krefst skilvirkrar stjórnunnar auðlinda, þar með talið mannauðs, fjármagns og tækni, þ.e. helstu viðfangsefna viðskiptafræðinnar. Nýsköpun er í eðli sínu áhættusöm og fyrirtæki þurfa að stjórna þeirri áhættu á áhrifaríkan hátt. Viðskiptafræðin fæst m.a. við að þróa leiðir fyrir skipulagsheildir að bera kennsl á hugsanlega áhættu og þróa aðferðir til að draga úr henni. Nýsköpun ein og sér dugir skammt ef ekki tekst að markaðssetja afurðirnar til að skapa verðmæti. Viðskiptafræðin fæst m.a. við að greina markaði fyrir afurðir nýsköpunar, þróa aðferðir sem ná til þessara markaða á áhrifaríkan hátt og byggja upp samstarf sem styðja við markaðssetningu á nýjum afurðum.

Að sama skapi er mikilvægt að leita í smiðju hagfræðinnar þegar huga á að framþróun þekkingarsamfélagsins. Hagfræði varpar ljósi á hvernig upplýsingatækni hefur áhrif á hagkerfið, þar á meðal áhrif hennar á framleiðni, nýsköpun og atvinnu. Hagfræðin dregur fram og greinir tækifæri til vaxtar og þróunar í upplýsingahagkerfinu, þar með talið nýja markaði fyrir nýjar vörur og þjónustu auk þess að vera grundvöllur skilvirkrar hagstjórnar í nútíma samfélagi.

Auk þessara fræðigreina sem minnst hefur verið á þá skipta fræðigreinar eins og t.d. sagnfræði, bókmenntafræði, boðskiptafræði, tungumál, hnattræn fræði, náms- og starfsráðgjöf, upplýsingafræði, hugmyndasaga, guðfræði, málfræði, uppeldisfræði, kennslufræði og fjölmargar aðrar greinar máli í að efla framþróun þekkingarsamfélagsins.

Þegar hugað er að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífinu þá er forsenda þess að ná árangri að leitað sé meira í smiðju þeirra fræðigreina sem flokkast sem félags-, hug- og menntavísindi.

Öflugt rannsóknarfólk í Háskóla Íslands hefur áratugum saman verið í miklu samtali og samvinnu við samfélagið utan veggja háskólanna. Þau hafa miðlað þeirri þekkingu sem aflað er með rannsóknum og mörg hver verið í framlínu baráttufólks fyrir bættu samfélagi, bættu lífi fólks og öruggara samfélagi fyrir okkur öll að búa í. Sem dæmi má nefna baráttu fólks í kynjafræðum, hinseginfræðum og fötlunarfræðum sem hafa með mikilli vinnu og ötulli baráttu náð góðum árangri í að bæta réttindi og líf ekki aðeins kvenna, hinsegin fólks og fatlaðra, heldur líf allra Íslendinga. Mögulega tekur það nokkur ár fyrir árangurinn að mælast í hagtölum þegar vel menntaðra, víðsýnna, frjálsara og hamingjusamara fólk nær meiri árangri í vinnu og eykur framleiðni og hagvöxt. Auk þess er mikilvægt að halda til haga að öflugt og árangursríkt forvarnarstarf á Íslandi byggir m.a. á íslenskum rannsóknum í félagsfræði við Háskóla Íslands. Íslenska forvarnarmódelið svokallaða sem spratt upp úr þessum rannsóknum ogþróaðist síðar við Háskólann í Reykjavík hefur verið flutt út og er í dag fyrirmynd forvarna víða erlendis. Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu margfalt bætt líðan íslenskra unglinga eftir síðustu aldamót hefur hefur skilað sér í betra samfélagi.

Í lið 1.5 er fjallað um breytingar á reiknilíkani sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til háskóla. Reiknilíkanið er grunnur að líkani til útdeilingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands. Núverandi reiknilíkan er meingallað og vinnur beinlínis gegn ákvæði í lið 1.3 um aukið samstarf m.a. vegna þess að það hefur ekki tekið tillit til breytinga síðustu áratuga í kennsluháttum í félags- og hugvísindum.

Eins og kemur fram í grænbók Mennta- og menningarráðuneytis um fjárveitingar frá 2019 þá fá félags- og hugvísindi lægstu framlög þar sem gert er ráð fyrir “að meginhluti kennslu fari fram í fyrirlestrum. Hæstu framlögin renna til náms þar sem verklegar æfingar og sérhæfður búnaður vegur þungt.” Þessar forsendur standast ekki kröfur um nútíma kennsluhætti í háskólum sem raðast hátt á alþjóðlegum matskvörðum. Í verklegri vinnu í meistaranámi í félags- og hugvísindum er unnið er með hugmyndir, kenningar, viðfangsefni og gögn í sérhæfðum búnaði, í náinni samvinnu við og undir handleiðslu leiðbeinanda. Í ljósi vanfjármagnaðs háskólastigs, meingallaðs reiknilíkans og verulegra sveiflna í nemendafjölda í félagsvísindum sem torvelda alla áætlunargerð og stefnumótun þá er ljóst að þörfin fyrir endurskoðun reiknilíkansins vel tímabær.

Nýlega var haldið uppá að rúm 50 ár eru liðin frá stofnun námsbrautar í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands. Þá hófst kennsla í stjórnmálafræði, félagsfræði og mannfræði í viðskiptafræðideild. Síðar bættust við fleiri fræðigreinar og áður hafði verið kennd lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði við Háskóla Íslands en þessar þrjár greinar eru nú vistaðar á Félagsvísindasviði. Samþykkt var að hefja kennslu í þjóðfélagsfræðum, m.a. vegna þess að kennslukostnaður var lægri en í mörgum öðrum deildum háskólans. Á þessari rúmu hálfu öld hafa félagsvísindin þroskast og kennsluhættir tekið stórum framförum. Prófgráður nemenda bera vott um góða menntun og öfluga kennslu. Félags- og hugvísindafólki hefur hins vegar mistekist að fræða stjórnvöld um að kennsluhættir frá því fyrir tíma prenttækninnar, þar sem kennari heldur fyrirlestur og segir hundruðum nemenda frá því hvað stendur í bókinni, eru hvorki ráðandi né æskilegir kennsluhættir.

Fjárfesting í STEAM greinum án þess að styðja og efla fræðigreinar félags- og hugvísinda er eins og að fjárfesta í öflugri flugvél en sniðganga þörfina fyrir flugvelli og flugvirkja. Við komumst mögulega á loft en óvíst hversu oft.

Stefán Hrafn Jónsson

Forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands

Ég þakka Þórunni Hafstað og öðru samstarfsfólki á Félagsvísindasviði fyrir aðstoðina.

Afrita slóð á umsögn

#27 Páll Rafnar Þorsteinsson - 17.03.2023

Til Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis

Arnarhvoli við Lindargötu,

101 Reykjavík.

Efni: Umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Siðfræðistofnun fagnar því að stjórnvöld leggi til stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi. Óumdeilt er að örar tækniframfarir feli í sér tækifæri og miklar áskoranir í senn. Tillagan snýst um þá sýn að hugvit verði stærsta útflutningsgrein Íslands og að það muni efla lífsgæði og tækifæri í atvinnulífinu og er fjallað um markmið á þremur meginsviðum: háskóla- og vísindastarfi; nýsköpun, hugverki og sjálfbærum þekkingariðnaði; fjarskiptum, upplýsingatækni og netöryggi. Tilgreindar eru aðgerðir eins og áhersla á svokallaðar STEAM-greinar, fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum, iðngreinum, raunvísindum og tæknigreinum, samstarf háskóla, uppbygging upplýsingasamfélags og ýmislegt fleira. Við tökum sérstaklega undir áherslu á jafnari stöðu/áhrif kynja í vísindum og tæknigeira sem og sjónarmið um jafnrétti óháð búsetu.

Siðfræðistofnun vekur hins vegar athygli á því að þær stefnumótandi aðgerðir, sem lýst er í tillögunni, endurspegla ekki þau víðtæku og djúpstæðu siðferðilegu og félagslegu álitaefni sem tæknframfarir hafa í för með sér. Reyndar er ekki minnst einu orði á siðferðilega þáttinn, sem þó snýr að öllum grundvallargildum íslensks samfélags. Í greinargerð með tillögunni er lögð áhersla á mikilvægi þess „að nýsköpun sé höfð að leiðarljósi gagnvart stærstu áskorunum samfélagsins, svo sem í heilbrigðismálum, loftslagsmálum og stafrænni umbreytingu.“ Hins vegar virðist horft fram hjá því að margar af stærstu samfélagslegu áskorununum á okkar dögum eru fylgifiskar hraðrar tækniþróunar og framfara í vísindum. Nauðsynlegt er að horfast í augu við þær nýju siðferðilegu áskoranir sem fylgja nýsköpun og framförum á þessum sviðum.

Ör framþróun og útbreiðsla gervigreindartækni hefur vakið ýmsar siðferðilegar spurningar sem nauðsynlegt er að takast á við. Þar má nefna áskoranir sem varða m.a. mismunun, sjálfræði og einstaklingsfrelsi, friðhelgi einkalífs, ógnir við lýðræði, valdaójafnvægi og efnahagslega misskiptingu. Margar þessara spurninga kalla á viðbrögð löggjafans enda eru vandamálin af áður óþekktum toga og viðunandi lagarammi ekki fyrir hendi. Nauðsynlegt er að tryggja að stjórnvöld hafi greiðan aðgang að viðeigandi sérfræðiþekkingu og reynslu. Þá er ekki hægt að horfa framhjá því að iðlulega eru það flókin siðferðileg álitaefni sem eru í húfi. Mikilægt er að taka tillit til þýðingar siðferðilegrar umræðu og gera grein fyrir því hvernig tryggð verði umgjörð um þekkingu og reynslu á þessu sviði, sem einni af grunnstoðum íslensks þekkingarsamfélags.

Í þessu sambandi má benda á að gagnlegt væri að tengja aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags með skýrum hætti t.d. við stefnu og aðgerðir stjórnvalda sem lúta að Tilmælum UNESCO um siðfræði og gervigreind (UNESCO 2021).

Í tillögunni er lögð áhersla á heilbrigðisvísindi, en á þeim vettvangi eru þýðing og gildi markvissrar siðferðisumræðu óumdeild. Ýmiss konar framfarir og þróun í rannsóknum og lækningaaðferðum kalla á siðfræðilega greiningu. Þá má nefna samskipti heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinga, hvers konar þjónusta og umönnun sé mikilvæg fyrir sjúklinga og ýmsar erfiðar ákvarðanir sem heilbrigðisstarfsfólk stendur oft frammi fyrir í störfum sínum.

Aukin notkun upplýsingatækni og annarra tæknilausna í samskiptum og öðrum athöfnum mannlegs lífs hefur einnig vakið áleitnar spurningar um áhrifin á samfélag og líðan einstaklinga. Nauðsynlegt er að skoða siðferðilegar hliðar þeirra kosta, galla og möguleika sem birtast í þessum efnum og þegar mótuð er stefna um hvert skal haldið.

Á tímum þegar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra ógna jafnt mannlegu samfélagi sem öllu lífríki jarðar verður ekki hjá því komist að taka í allri stefnumótun mið af umhverfismálum. Í því sambandi er hlutverk líf-, loftslags- og umhverfisvísinda óumdeilt og vissulega er rétt að nýsköpun verði höfð að leiðarljósi í viðleitni til að mæta slíkum áskorunum. En það er ekki síður mikilvægt að leggja umhverfissiðfræðileg sjónarhorn til grundvallar.

Í tillögunni kemur fram áhersla á jafnari stöðu og áhrif kynja í vísindum og tæknigeira sem og sjónarmið um jafnrétti óháð búsetu. Hugsjónin um jafnrétti er í grunninn siðferðishugsjón sem felur m.a. í sér hugmyndir um gildi manneskjunnar og jafnan rétt og í siðfræði er tekið á hinum ýmsu jafnréttistengdu áskorunum. Við stefnumótun sem varðar jafnréttismál í þekkingarsamfélagi er því miklvægt að tryggja forsendur upplýstrar umræðu um siðferðileg gildi og þýðingu þeirra í nútímasamfélagi.

Loks skal bent á að eitt af yfirlýstum meginmarkmiðum áætlunarinnar felst í að efla hlutverk háskóla- og vísindafólks í lýðræðislegri umræðu. Mikilvægt er að gera skýrari grein fyrir því hvernig aðgerðaáætlunin styður þetta markmið. Sérstaklega er mikilvægt að gera grein fyrir því hvernig megi efla og nýta þekkingu á þeim fræðasviðum sem helst láta sig varða grundvöll og gildi lýðræðis. Vaknar t.a.m. sú spurning hvernig samsetning nýs Vísinda- og nýsköpunarráðs endurspegli best þetta meginmarkmið.

Þau atriði sem nefnd eru hér að framan sýna mikilvægi virkrar og upplýstrar umræðu um siðferðileg álitaefni í samhengi við þekkingarsamfélag og stefnumótun þar að lútandi. Vísindastarf, nýsköpun og tækniþróun vekja óhjákvæmilega fjölmargar áleitnar siðferðilegar spurningar. Eins eru siðferðileg sjónarmið í húfi þegar þekkingarsamfélag er sett í samhengi við lífsgæði og forgangsröðun gæða, enda verður spurningum um tilgang, mikilvægi og notkun þekkingar, hvað geti talist til lífsgæða eða hvaða gæði séu mikilvæg í mannlegu samfélagi ekki svarað án aðkomu siðfræðinnar auk ýmissa greina hug- og félagsvísinda. Áhersla á þessi atriði ætti því að vera órjúfanlegur þáttur í stefnumótun fyrir íslenskt þekkingarsamfélag.

Fyrir hönd Siðfræðistofnunar

Eyja Margrét Jóhönnu Brynjarsdóttir, stjórnarformaður

Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnastjóri

Afrita slóð á umsögn

#28 ReykjavíkurAkademían ses. - 17.03.2023

Samráðsgátt, 17. mars, 2023

Meðfylgjandi er umsögn ReykjavíkurAkademíunnar um „Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025“

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Hólmar Erlu Svansson - 17.03.2023

Meðfylgjandi eru persónulegar hugleiðingar mínar við fram komna þingsályktunartillögu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Helmut Wolfram Neukirchen - 17.03.2023

Comment on cybersecurity by a group working on cybersecurity education at the University of Iceland and Reykjavik University on the proposal for a parliamentary decision on policy building measures to strengthen the knowledge society in Iceland till 2025 (tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025):

We welcome that the importance of cybersecurity is emphasised. In this context, page 28 mentions as key measure an increased offer of study programmes in cybersecurity on the university level (“Námsframboð. Að námsframboð í netöryggisfræðum á háskólastigi verði aukið.”). However, we want to make aware that this needs to be supported by matching funding.

Using the funding that we were granted from the collaboration fund of the Ministry of Higher Education, Science and Innovation, we will be able to offer for two years a cybersecurity specialisation/emphasis line in the M.Sc. in computer science programmes at Reykjavik University and University of Iceland. This will be based on a collaboration so that courses of either university complement each other and additional courses will be imported as online courses from abroad. The grant from the collaboration fund allows us to hire one extra professor at each of the two universities for two years. After that, we cannot guarantee that we will be able to continue to offer this programme. Also in order to establish cybersecurity education on a broader level than just a specialisation/emphasis within the two universities’ M.Sc. programmes in computer science, more and permanent professor positions are needed to build up national competence, as well as teaching and research capacity.

This broader level will be needed because the new European NIS2 (Network and Information Security) directive will require to add a cybersecurity perspective in almost any course dealing with cyber-physical systems (i.e. systems involving soft- or hardware), i.e. this applies to many other disciplines than just computer science.

We therefore want to point out that strengthened cybersecurity education requires strengthened funding. We would be offering a strong cybersecurity education already right now if we were able to do so (because we are concerned about cybersecurity in Iceland), but the lack of funding does not allow this.

Reykjavik, 17.3.2023

Esa Hyytiä, full professor of computer science, University of Iceland.

Helmut Neukirchen, full professor of computer science and software engineering and vice head of the faculty of industrial engineering, mechanical engineering and computer science, University of Iceland

Hemanadhan Myneni, research specialist in the faculty of industrial engineering, mechanical engineering and computer science, University of Iceland

Afrita slóð á umsögn

#31 Húnabyggð - 18.03.2023

Húnabyggð leggur áherslu á að í nýjum drögum að tillögu til þingsályktunar um þekkingarsamfélagið verði tryggt að nýsköpun á landsbyggðinni verði ekki raskað. Sá jarðvegur sem þessi nýsköpun hefur sprottið úr er t.d. í gegnum þekkingarsetur og í Húnabyggð eru mjög fá dæmi um eiginlega nýsköpun. Eitt af fáum dæmum er Textílmiðstöð Íslands sem hefur mikla þýðingu fyrir nýsköpun á svæðinu og sú starfsemi hefur búið til grundvöll fyrir því að ýmiskonar sprotastarfsemi geti skotið rótum. Textílmiðstöðin hefur útbúið umsögn um drögin sem send er með í viðhengi. Húnabyggð tekur undir athugasemdir Textílmiðstöðvarinnar og undirstrikar mikilvægi þess að fjármögnun nýsköpunar á landsbyggðinni, sem er mjög viðkvæm í brothættum byggðum, verði tryggð við gerð nýrrar þingsályktunar um þekkingarsamfélagið.

Með góðum kveðjum,

Pétur Arason

Sveitarstjóri Húnabyggðar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Sigurður M Garðarsson - 19.03.2023

Umsögn forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og stjórnarformanns Vísindagarða Háskóla Íslands um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025

Það er fagnaðarefni að sjá skýra stefnu stjórnvalda í tillögunni og þá áherslu sem lögð er á háskólana og það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna við menntun og rannsóknir til að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar. Sérstaklega ber að fagna áherslunni á STEM greinar sem fram kemur í tillögunni en eins og fram kemur í fjölda greininga sem gerðar hafa verið undanfarin ár þá stendur Ísland höllum fæti hvað varðar fjölda nemenda í þessum greinum.

Nýsköpun

Efling STEM greina er mikilvægt fyrir nýsköpunarumhverfið á íslandi enda undirbyggir þekking á þeim sviðum oft þeir lausnir sem fram koma. Þetta má skýrt sjá með þeirri eftirspurn sem er eftir einstaklingum á þessum fagsviðum, ekki bara hér á landi, heldur víðsvegar um heiminn. Ísland er í einstakri stöðu til að blanda saman fólki sem menntað er í íslenskum háskólum og erlendum sérfræðingum sem koma til vinnu við þau fyrirtæki sem hafa erlendar tengingar. Þarna skipta nemendur sem koma erlendis frá til náms við íslenska háskóla verulegu máli. Þetta endurspeglast í þeirri fjölbreyttu flóru sprotafyrirtækja sem hafa blómstrað síðustu ár og það er ljóst að mörg af þeim (sprota)fyrirtækjum sem eru í miklum vexti spretta einmitt frá STEM greinum og má þar til dæmis nefna Controlant og Carbfix sem bæði fást við mikilvægar áskoranir samtímans.

Vísindagarðar Háskóla Íslands hafa vaxið og eflst verulega á síðustu árum og hafa það að markmiði sínu að búa til suðupott nýsköpunar með aðkomu stórra og lítilla fyrirtækja, stofnanna, nemenda og akademísks starfsfólks. Þetta hefur gengið vel og nú síðast með að Gróska hefur opnað á svæði Vísindagarða og hefur náð að skapa einstaklega frjótt og öflugt umhverfi fyrir sprotafyrirtæki. Í þessu sambandi þá hafa endurgreiðslur til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar skipt verulegu máli eins og fram kemur í tillögunni.

STEAM áhersla

Margar af þeim STEAM greinum sem kenndar eru á Íslandi eru eingöngu kenndar við Háskóla Íslands og þá margar hverjar innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Lögð hefur verið áherslu á að reyna að fjölga nemendum í þessum greinum. Þetta hefur meðal annars verið gert með því að efla móttöku nýnema og veita þeim betri stuðning í upphafi náms til að auka líkur á að þau nái fótfestu í náminu. Það er þó ljóst að það þarf að setja meiri kraft í þetta og fjölga kennurum sem kenna stórum nemendahópum á fyrsta ári. Einnig þyrfti að efla verulega verklega kennslu í mörgum þessara greina, bæði til að auka gæði námsins, sem og til að gera það áhugaverðara fyrir nemendur. Það þarf einnig að huga að því að styrkja undirbúning nemenda á fyrri námsstigum en starfsfólk HÍ hefur komið að vinnu í því skyni í gegnum árin og nú síðast með verkefni styrkt af samstarfssjóði háskólanna.

Vegvísir um rannsóknarinnviði á Íslandi frá 2021 hefur markað stefnu í innviðamálum sem hefur verið farsæl og getur hjálpað til við eflingu STEM greina. Þar er meðal annars lögð mikil áhersla á samvinnu og opinn aðgang að innviðum. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem voru fjármögnuð í samstarfssjóði háskólanna og hafa Vísindagarðar HÍ unnið að hugmynd að Djúptæknikjarna sem styður við sýn Vegvísis um fjármögnun og opinn aðgang dýrra rannsóknainnviða.

Netöryggi og upplýsingatækni

Áherslan sem lögð er á upplýsingatækni og netöryggi er tímabær og nauðsynleg. Til að tryggja sjálfstæði og öryggi kerfa þjóðarinnar er mikilvægt að til staðar sé djúp þekking á þessum málum innanlands þannig að hægt sé að bregðast við þegar upp koma óvæntar aðstæður í heimsmálunum og/eða þegar þarf að greina þarfir Íslands í samstarfi við aðrar þjóðir. Til að þetta náist þá þarf að efla bæði menntun og rannsóknir á þessum sviðum innan háskólanna sem og samstarf akademíu við opinberra aðila sem bera ábyrgð á þessum málaflokkum. Styrkur úr samstarfssjóði háskólanna er mikilvægt fyrsta skref varðandi netöryggismálin en móta þarf stefnu í framhaldi af því á næstu tveim árum.

Það er ljóst að ef þær stefnumótandi aðgerðir sem lagðar eru fram í tillögunni nái fram að ganga þá muni þær efla íslenskt þekkingarsamfélag og því mikilvægt að þær fái brautargengi.

Sigurður Magnús Garðarsson

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og

Stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#33 Hrafnkell Viðar Gíslason - 20.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn Fjarskiptastofu vegna þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#34 Samtök atvinnulífsins - 20.03.2023

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#35 Anna Kristín Daníelsdóttir - 20.03.2023

Matís tekur fagnandi þingsályktunartillögu um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Umsögn Matís um aðgerðirnar eru í meðfylgjandi pdf skjali.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#36 Ingibjörg St Sverrisdóttir - 20.03.2023

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn lýsir ánægju með drög að tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#37 Halldór Sigurður Guðmundsson - 20.03.2023

Umsögn frá deildarforseta Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.

Í þessari umsögn er aðeins fjallað um nokkur atriði tillagnanna sem sérstaklega varða Félagsráðgjafardeild út frá sérstöðu deildarinnar og út frá köflum um meginmarkmið og stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

• Tilefni er til að fagna sérstaklega áherslu þekkingarsamfélagið og sókn STEAM greina, enda er félagsráðgjöf heilbrigðisvísindagrein og nám í félagsráðgjöf því háð nokkuð öðrum forsendum en annað nám við félagsvísindasvið HÍ. Með tillögunum og áformum um styrkingu og fjölgun nemenda aukast vonir um frekari uppbyggingu námsins, rannsókna og nýsköpunar í félagsráðgjöf.

• Það hefur lengi verið baráttumál frumkvöðla og stjórnenda Félagsráðgjafardeildar í samstarfi við fagfélagið og atvinnulífið að skerpa á skilningi varðandi umfang og mikilvægi þess að efla kennslu, verklegt nám og rannsóknir í félagsráðgjöf. Námið er klínískt nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf og það kallar á umgjörð, aðbúnað og mannafla sem erfiðlega hefur gengið að útvega eða skapa. Sú umgjörð sem þarf er ásamt fjölgun kennara, er nauðsynleg til hægt sé að viðhalda, bæta og efla námið og samhliða fjölga nemendum.

• Í dag stunda 80 nemendur í tveggja ára meistaranámi til starfsréttinda og árlega útskrifast að jafnaði um 40 nemendur úr starfsréttindanámi í félagsráðgjöf. Stjórnendur deildarinnar hafa ítrekað og í samráði við atvinnulífið og stéttarfélagið, bent á að þörf sé á verulegri aukningu í nemendafjölda í félagsráðgjöf til að mæta aukinni þörf á vettvangi velferðarþjónustunnar m.a. vegna aukinna og fjölbreyttari viðfangsefna í samfélaginu og líka vegna starfsaldurs og starfsloka starfsmanna.

• Félagsráðgjafardeild hefur lagt fram tillögur um að auka árlegan fjölda nemenda í meistaranámi til starfsréttinda upp í 60 í stað 40. Til að það geti gerst þarf að styrkja mönnun og kennarahóp deildarinnar. Núverandi fjöldi nemenda á hvern kennara er hærri en ásættanlegt er og er hærri en í öðrum greinum á félagsvísindasviði og líka langt umfram það sem tíðkast í öðrum heilbrigðisgreinum - STEAM greinum. Því er sérstaklega tilefni til að fagna framkominni tillögu um eflingu þekkingarsamfélagsins og félagsráðgjafar, og að nú megi vænta enn frekari stuðnings við að koma tillögum Félagsráðgjafardeildar til framkvæmda með markvissum aðgerðum samhliða aukinni og raunhæfri fjármögnun.

• Aukin áhersla á nýsköpun og tækni er af þeim forsendum og áherslum sem lagt er upp með í „Tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025“. Uppbygging á færnibúðum og hermisetri er mikilvægt þróunarverkefni sem Félagsráðgjafardeild vill sjá til að bæta innviði og aðstöðu í náminu, bæði nú og til framtíðar litið. Slík tækni-, færni- og hermisetur eru einn af lykilþáttum sem bæta þarf úr – til að nútímavæða kennslu og efla verklega þjálfun nemenda. Það er þess vegna afar mikilvægt að deildin fái sem allra fyrst virka aðild að mótun og uppbyggingu innviða ásamt öðrum STEAM greinum sem þurfa að reiða sig á aðgang að slíkum færnibúðum til að efla og tryggja gæði og aðgengi að fullnægjandi verklegri þjálfun, bæði núna og vegna aukins fjölda nemenda. Má í þessu sambandi vísa til umfjöllunar á málstofu Félagsráðgjafardeildar frá í desember 2022 þar sem fjallað var um valkosti og möguleika færnibúða og hermiseturs sem hluta af verklegri þjálfum almennt, en þar voru kynntar nýjungar og aðferðir við Riga Stradins Háskólann í Lettlandi sem stendur framarlega í þjálfun heilbrigðisstarfsfólks þar í landi. Sem þátt í undirbúningi í þessa átt, hefur Félagsráðgjafardeild fyrir nokkru hafið samtal með heilbrigðisvísindasviði og yfirstjórn Háskóla Íslands um þátttöku og aukna samvinnu um færnibúðir og hermisetur.

• Starfsfólk Félagsráðgjafardeildar hefur verið í forystu um kalla eftir opinberri stefnumörkun og aðgerðum á sviði velferðartækni – bæði í almennri félags- og heilbrigðisþjónustu sem einstökum þjónustuflokkum svo sem í öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðs fólks og stuðningi við langveika. Slíkar úrlausnir í velferðarmálum eru vel þekktar í norrænu samhengi, en eru minna nýttar eða þróaðar í velferðarþjónustunni hér á landi. Það sama á við um samþættingu fagsviða innan velferðarþjónustunnar eða milli þess sem við köllum og aðgreinum í félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu. Aukin áhersla á tækni, nýsköpun og samstarf og nýja starfshætti eru því styðjandi og ánægjuleg fyrirheit sem deildin mun heilshugar taka þátt í enda styður allt slíkt við heildstæða notendamiðaða og valdeflandi þjónustu sem byggir á heildarsýn.

• Frá 1994 ár hefur Félagsráðgjafardeild verið með sérstök námskeið um öldrun og málefni eldra fólks. Þetta hefur verið þverfaglegt námskeið í BA námi og frá árinu 2004 einnig diplóma og meistaranám. Þá hefur deildin annast hluta af norrænu meistaranámi – NordMag – í öldrunarfræði síðan 2007/8 . Það hefur verið í boði og kennt við 3-5 samstarfsháskóla á Norðurlöndunum. Síðastliðið haust hófst vinna við að undirbúa nýjan samstarfssamning háskólanna með nýjum skólum innanborðs og endurbættu námsframboði. Sú vinna er í gangi og gengur undir heitinu NordMag – útgáfa 2 og standa vonir til að gengið verði frá samningi um námið síðar á árinu og það verði að þessu sinni kennt með þátttöku frá öllum fimm Norðurlöndunum og líklega við enn fleiri háskóla í hverju landi. Jafnframt er unnið að tengingum milli þessa náms í öldrunarfræðum og námsframboðs í samstarfsneti nokkurra háskóla innan EU. Þessi áform hafa verið kynnt og eru í vinnslu með vitund og vilja yfirstjórnar Háskóla Íslands og liggur skýrt fyrir að þetta mun efla nám um öldrunmál og auka möguleika nemenda við Hí og aðra skóla til að sækja þverfræðileg nám og skiptinám milli landa.

• Samhliða þessum áformum er unnið með hugmyndir um aukið samstarfs milli fræðasviða HÍ um öldrunarfræðina, og kennslu og rannsóknir innan háskólans og þær áskoranir og tækifæri sem samfélagið þarf að takast á við á næstu áratugum.

• Félagsráðgjafardeild hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að efla starfsfólk á vettvangi með þekkingarsköpun. Öll slík vinna og þróun hefur verið unnin í miklu samstarfi við atvinnulífið og fagfélög og stjórnvöld. Nægir í því samhengi að benda á þróun náms í fjölskyldufræðum, handleiðslu og nú síðast með sérstöku diplómanámi um samþættingu þjónustu við börn „farsæld barna“, en þar eru 120 nemendur í þverfag- og fræðilegu námi til að undirbúa og styðja við innleiðingu á lagabreytingum um skipulag og framkvæmd þjónustu við börn. Allt þetta hefur verið unnið í nánu samstarfi við atvinnulíf og þarfir samfélagsins og jafnframt verið þróað og byggt á samstarfi við erlenda aðila og háskóla.

• Starfandi félagsráðgjafar, nemendur við deildina og starfsfólk Félagsráðgjafardeildar eru að miklum meirihluta til konur. Karlar í félagsráðgjafarnáminu hafa verið fáir, en nokkuð breytilegt hvert hlutfallið hefur verið t.d. í nemendahópum, eða að jafnaði milli 3- 6% eða 1-3 í hverjum 40 nemenda hópi. Það er því sérstakt ánægjuefni að áherslur í tillögunum ganga út á að auka jafnrétti í háskólum með áherslu á að auka hlutfall karla í námi. Það mun væntanlega nýtast deildinni til að hækka hlutfall karla í námi og starfi.

• Af hálfu Félagsráðgjafardeildar er ríkur vilji til nýsköpunar og þróunar og eflingar náms og kennsluhátta í félagsráðgjöf og deildin reiðubúin að taka þátt í frekari mótun þeirra tillagna og aðgerða sem framkoma í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025 frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og einnig að skýra eða fylgja eftir þeim fjölbreyttu þróunar, nýsköpunar og úrbótaverkefnum sem Félagsráðgjafardeild er að og vill vinna að til eflingar þekkingarsamfélagsins.

Eyjafjarðarsveit, 20. mars 2023

Halldór S. Guðmundsson

Starfandi deildarforseti Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands.

Afrita slóð á umsögn

#38 Bændasamtök Íslands - 20.03.2023

Sjá í viðhengi umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#39 Stúdentaráð Háskóla Íslands - 20.03.2023

Meðfylgjandi er umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands vegna þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025.

Rebekka Karlsdóttir,

Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#40 Kristinn Árni Lár Hróbjartsson - 20.03.2023

Umsögn Northstack er viðhengd.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#41 Eyjólfur Guðmundsson - 21.03.2023

Háskóinn á Akureyri fagnar þingsályktunartillögunni og telur að hér sé kominn góður grunnur um framtíðarstefnu fyrir þekkingarsamfélagið Íslands þar sem háskólar og þekkingarleit verða grunnurinn að frekari framförum.

Ályktunin er viðamikil en í meginatriðum nær hún til flestra þeirra þátta sem nauðsynlegt er að hið opinbera móti sér stefnu um. Þó er tvennt er Háskólinn á Akureyri vildi koma á framfæri sérstaklega.

Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að leggja ríka áherslu á stefnu í tengslum við gervigreind og hvernig hún verði nýtt í íslensku þekkingarsamfélagi. Sérstaklega mikilvægt verður að horfa til þess að allir nemendur fái menntun í siðfræði gervigreindar þannig að framtíðarsérfræðingar málaflokksins fái innsýn inní hið flókna samspil mannverunnar og gervigreindarinnar. Því verður að huga sérstaklega að heimspeki og siðfræði menntun þeirra er mennta sig á sviði STE(A)M greina.

Í öðru lagi vill Háskólinn á Akureyri undirstrika að iðjuþjálfun verði hluti af kjarnagreinum heilbrigðisvísinda líkt og kemur fram í áliti starfsmanna iðjuþjálfunardeildar Háskólans á Akureyri. Á siðustu árum hefur orðið mikil vakning í nauðsyn þess að styðja betur við þá aðila sem þurfa á geðrænni endurhæfingu að halda sem og færniþjálfun eftir erfið áföll. Þar eru iðjuþjálfunarfræðin lykill að bættum árangri og því nauðsynlegt að horft sé til þeirrar greinar við uppbyggingu heilbrigðiskerfis sem styður við nýja og betri nálgun í endurhæfingu einstaklinga.

Að lokum vill Háskólinn á Akureyri benda á nauðsyn þess að fundinn verði vettvangur til þess að ræða þessa stefnu í nánustu framtíð, þar sem unnt verði að ræða stefnuna í víðu samhengi. Stefna sem þessi er einungis grunnur að vegferð sem verður að vera í stöðugri endurskoðun og því er vettvangur umræðu um íslenskt þekkingarsamfélag nauðsynlegur hluti af þekkingarsamfélaginu sjálfu. Það væri því heillaskref ef ráðuneytið héldi slíkan samráðsfund amk. 1 - 2 á ári - mögulega í þjóðþingsformi.

Stefnumótandi aðgerðir eru grunnurinn að góðri vegferð séu þær fjármagnaðar að fullu frá fyrsta skrefi.

Með vinsemd og virðingu

Eyjólfur Guðmundsson, rektor

Háskólinn á Akureyri.

Afrita slóð á umsögn

#42 Iðjuþjálfafélag Íslands - 21.03.2023

Umsögn Iðjuþjálfafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#43 Félag íslenskra einkaleyfissérfræðinga - 21.03.2023

Umsögn Félags íslenskra einkaleyfissérfræðinga

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#44 Viðskiptaráð Íslands - 23.03.2023

Meðfylgjandi er uppfærð umsögn Viðskiptaráðs.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#45 Hugverkastofan - 30.03.2023

Viðhengi