Samráð fyrirhugað 06.03.2023—13.03.2023
Til umsagnar 06.03.2023—13.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 13.03.2023
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (eftirlitsheimildir Skattsins og ráðstöfun séreignarsparnaðar)

Mál nr. 55/2023 Birt: 06.03.2023
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (06.03.2023–13.03.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (eftirlitsheimildir Skattsins og ráðstöfun séreignarsparnaðar)

Annars vegar er um að ræða breytingar á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, í þeim tilgangi að efla heimildir Skattsins sem fer með yfirstjórn skatteftirlits og skattrannsókna til að geta brugðist við ef aukin hætta eða grunur er talin vera á skattsvikum í virðisaukaskatti.

Hins vegar er um að ræða framlengingu á heimild einstaklinga til skattfrjálsrar ráðstöfunar á viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar inn á höfuðstól lána sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði, til og með 31. desember 2024. Jafnframt er lagt til að heimild rétthafa til skattfrjálsrar úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði framlengd til og með 31. desember 2024, og taki til viðbótariðgjalda sem myndast hafa á tímabilinu 1. júlí 2014 til 31. desember 2024. Að óbreyttu hefðu bæði úrræðin fallið úr gildi 30. júní 2023. Til viðbótar við þau úrræði sem frumvarpið mun ná til eru einnig í gildi sérstakar heimildir til að nýta viðbótariðgjald til séreignarsparnaðar skattfrjálst til fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði skv. lögum nr. 111/2016, um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kristján Freyr Sigurbjörnsson - 12.03.2023

Hvet ég ykkur til að hækka einnig árs hámarkið. Lánagreiðslur hafa hækkað mikið síðan hámarkið var ákveðið sem 500.000 kr á einstakling og 750.000 kr á par.

Lángjafi minn tjáði mér einnig að ákveðin prósentulækkun verði því fleiri ár sem maður nýtir úrræðið. Úrræðið sem um ræðir er séreign inná greiðsluseðil láns. Ef svo er þá hvet ég ykkur einnig til að endurskoða það. Sömu rök nota ég að mánaðarlegar lánagreiðslur hafa hækkað og því ekki til bóta að séreignagreiðslurnar lækki.

Afrita slóð á umsögn

#2 Laurent Friðrik Arthur Somers - 12.03.2023

Frá því fyrsta ráðstöfun var leyfileg í júlí 2014 hefur þessi ráðstöfun ekki fylgt verðlagi, og í dag, miðað við verðlagsreiknivél Hagstofunnar, ætti þessi upphæð að hafa hækkað um tæp 37%, til þess að svo mætti vera. Í dag, leiðrétt fyrir verðbólgu, ætti þessi upphæð því að standa í tæpum 684.000 kr.

Með aukinni verðbólgu næstu ára má ætla að þessi ráðstöfun muni hægt og sígandi hafa hverfandi áhrif á ráðstöfun inn á lán.

Afrita slóð á umsögn

#3 Hjalti Þór Sveinsson - 12.03.2023

Vinsamlegast hækkið hámarkið sem einstaklingar og hjón mega greiða á ári inn á lán. Þessi upphæð hefur staðið í stað á meðan allt annað hefur hækkað, að óðru leyti er þessi framlenging hið besta mál.

Afrita slóð á umsögn

#4 Stefán Bragi Bjarnason - 12.03.2023

Það hlýtur að vera eðlilegt að hækka árlegar greiðslur að minnsta kosti í samræmi við launavísitölu frá því að umrætt úrræði var fyrst tekið upp.

Framlag í séreignarsjóð er % af launum og framlagið hefur þar af leiðandi hækkað í beinu samhengi við launavísitöluna.

Hvet alþingismenn til að hækka fjárhæðirnar því þetta er mjög gott og vinsælt sparnaðarúrræði sem margir nýta sér. Væri jákvætt inn í ört hækkandi gjalddaga af lánum vegna verðbólgu og vaxtahækkana.

Afrita slóð á umsögn

#5 Agnar Guðmundsson - 13.03.2023

Fagna þessu virkilega. Það hefði verið betri tími til að leggja svona hvetjandi þennsluþátt niður þegar tækifæri var til þess fyrir síðustu alþingiskostningar og gríðarleg eftirspurn á fasteignamarkaði, þá hefði þessi hvati dregið úr húsnæðiseftirspurn og dregið úr verðbólgu. Nú þegar kreppir að þá er þessi þáttur mikilvægur til að draga úr skellinum sem vaxtahækkanir leggja á skuldsetta íbúðareigendur.

Afrita slóð á umsögn

#6 Hagsmunasamtök heimilanna - 13.03.2023

Sjá viðhengi.

Viðhengi