Umsagnarfrestur er liðinn (09.03.2023–22.03.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Innviðaráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur.
Þann 16. desember síðastliðinn voru samþykkt á Alþingi ný lög um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, og munu þau taka gildi þann 1. apríl næstkomandi. Við gildistöku þeirra falla þá úr gildi lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001.
Ráðherra er með hinum nýju lögum falið að mæla nánar fyrir um ýmis atriði, auk þess sem honum er heimilt að mæla nánar fyrir um önnur. Í drögunum er meðal annars að finna ákvæði er varða:
• Auðkenni leigubifreiðar, sýnileika verðskrár og innihald hennar.
• Umsókn og útgáfu leyfis, námskeið og heimilar undanþágur frá gerðum kröfum.
• Sérstakar skyldur leigubifreiðastöðvar og rafræn kerfi.
Til einföldunar og til að koma í veg fyrir flækjur væri betra að orða 2.gr Auðkenni t.d. á þessa leið:
Leigubifreið skal auðkennd með leyfismiða útgefnum af Samgöngustofu í framrúðu bifreiðarinnar sem gefur til kynna að um leigubifreið sé að ræða og nægir það ef ekið er samkvæmt fyrirframumsömdu, áætluðu eða endanlegu heildargjaldi.
Sé ekið eftir gjaldmæli og þjónusta í boði fyrir gangandi og pantanir í gegnum stöð skal leigubifreið auðkennd með þakljósi líkt og kveðið er á um í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
Skýring:
Í dag er verið að flokka bíla undir "Eðalvagna" sem þurfa þá ekki að nota ljós eða stöðvarmerki, en eru í raun notaðir sem leigubílar. Listi yfir bíla sem falla undir þessa skráningu er mjög "íslenskur" t.d. þurfa sumir að hafa borð og getið er um snúningssæti, sem eru ekki til, en í mörgum stærri bílum er hægt að taka sætið úr og snúa því. Mercedes Benz E fær ekki skráningu en Skoda Superb fær skráningu. Sumir fara framhjá þessu og fá sér auka bíl og skrá hann með ferðaþjónustuleyfi, en eru þá ekki leigubílar þó séu notaðir sem slíkir.
Mikið er um að leigubílar séu í akstri fyrir fyrirtæki, hótel, ferðaskrifstofur, skipaafgreiðslur og ráðuneyti og oftast er verið að biðja um bíla sem eru ekki merktir og ekið eftir föstum verðum. T.d. er furðulegt að vera stoppaður af lögreglu í eftirliti í Gullhringnum (fast verð og fyrirfram pantað) og skyldaður að setja upp Taxa ljós en sami bíll er á öðrum tíma án allra merkinga í fyldgd með lögreglu í keyrslu fyrir ráðuneyti. Flokkaskiptingar bjóða bara upp á að farið sé fram hjá þeim og opna fyrir aðila sem eru að aka án leyfa.
Jón S. Loftsson
Leigubílstjóri
Ég, Sigurjón Þórsson, framkvæmdastjóri Bifreiðastöðvar Oddeyrar ehf., leigubílstjóri og hluthafi í BSO, skila hér inn umsögn í viðhengi fyrir hönd Bifreiðastöðvar Oddeyrar ehf. og Bílstjórafélags Akureyrar.
ViðhengiVarðandi kröfur sem gerðar eru til leyfishafa hefur maður ekkert séð um tungumálakunnáttu
Er sjálfur umsækjandi um leyfi og er islenskur og á namskeiðunum eru keyrðir gegn menn sem ekki eru talandi hvorki á Íslensku eða Ensku máli
Er gerð krafa um að erlendir aðilar sem sækja um leyfi þurfi að vera talandi a Íslensku eða Ensku eða eru engar kröfur gerðar varðandi það atriði...
Þar sem maður sér að reglugerðin er aðeins Drög og sé ekkert í reglugerðini um tungumálakunnáttu en tungumálið er ein forsenda þess að menn geti haft eðlileg samskifti við farþega sína
Það er afar dapurlegt að sjá stjórnmálamenn leggja heila starfsstétt í rúst með einu pennastriki sem þessi reglugerð er. Það er ekki með nokkru móti hægt að sjá hvernig þessi reglugerð muni vera til hagsbóta fyrir neytendur líkt og einhverjir ráðherrar hafa lýst yfir í viðtölum.
Í viðhengi er nánari útlistun á vandkvæðum reglugerðarinnar.
ViðhengiTil þeirra er málið varða.
Margt gott í þessum drögum en þær athugasemdir sem ég geri lúta að:
2. gr.
Leigubifreið sem ekur gegn gjaldmæli. Hér er hvergi minnst á þau vandamál sem geta skapast ef startgjald, kílómetragjald eða annað slíkt er verulega frábrugðið hinum hefðbundnu gjaldskrám. Núna er taxti leigubifreiðastöðva frjáls og víða erlendis fór samkeppni í öfuga átt. Svokallaðir okurbílar, með gjaldmæli, spruttu fram. Svarið víðast við þessu er að hafa límstafi á framhurðum sem tilgreina startgjald og kílómetragjald. Hvernig á viðskiptavinur annars að geta varað sig á gjaldmælabíl sem keyrir verð úr hófi fram? Hvað er úr hófi fram? Það er viðskiptavinar að ákveða með að lesa texta af framhurð.
3. gr.
Sakavottorði er ekki gert hátt undir höfði hér. Í lögunum er þetta útfært reyndar ágætlega en þar vantar samt ef viðkomandi umsækjandi hefur búið skemur en 5 ár á Íslandi. Hvað þá? Tillaga er því gerð að "Ef umsækjandi hefur haft heimilisfestu skemur en 5 ár á Íslandi, ber að framvísa sakavottirði frá því búsetulandi sem tímabilið á við ásamt íslensku. Það er töluvert traust á leigubifreiðum í dag sem keyra með merktu gulu ljósi. Börn og fatlaði ferðast í dag óhrædd með leigubifreiðum. Því trausti má ekki bregðast og erfitt til þess að hugsa að illa geti farið. Víða í atvinnulífinu er gerð í dag krafa um sakavottorð erlendis frá ef viðkomandi hefur ekki full 5 ár í búsetu á Ísland. Hér mætti gera ítarkröfur en ekki mitt að útfæra það nánar.
5. gr.
Varðandi fjárhagsstöðu þá eru gerðar kröfur á ferðaþjónustubíla að 900 þús kr eigið fé sé fyrir fyrstu bifreið og 600 þús fyrir hverja eftir það. Þær tölur hafa ekki verið framreiknaðar nýlega og skýtur því skökku við að mun minni kröfur séu gerðar til rekstur leigubifreiða, sem ættu í hlutarins eðli, að vera ábyrgðarmeira starf. Hið minnsta væri að gera sömu fjárhagskröfu svo jafnræðisreglu sé gætt. Ef ekki frekari kröfur. 100 þús í eigið fé fyrir auka bíl dugar ekki fyrir dekkjagangi ef illa fer. Öryggi farþega skal ætíð vera í fyrirrúmi og vandséð hvernig 100 þús fyrir viðbótarbifreið tryggir slíkt. Þetta þarf að vera alvöru rekstur. Ekki druslubílaútgerð glæframanna.
Virðingarfyllst,
Fh. ÞS ehf - Minibus.is
Þorvaldur Steinþórsson
Góðan dag,
Í viðhengi er umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur.
Kær kveðja
F.h. SAF
Gunnar Valur Sveinsson
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn um málið
Viðhengi ViðhengiUMSÖGN
Drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur.
Mál nr.60/2023 í samráðsgátt.
Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra B.Í.L.S. og Bifreiðastjórafélagið Frami veita hér umsögn sína um drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur í samráðsgátt, mál nr.60/2023.
Bandalagið hefur frá upphafi lagabreytinga um leigubifreiðaakstur veitt umsagnir sínar og lagt megináherslu á öryggi almennings í leigubifreiðum. Í gerð lagafrumvarpsins og afgreiðslu laga, virðast þingmenn hafa algerlega sneitt framhjá þeirri þekkingu sem leigubifreiðastjórar hafa miðlað í umsögnum sínum, er snúa að eðli starfseminnar og reynslu annarra landa af samskonar lagabreytingum. Eftir að lögin voru samþykkt á Alþingi með hraðri afgreiðslu, hefur stétt leigubifreiðastjóra bundið vonir sínar við að ný reglugerð tæki frekar tillit til öryggis farþega og starfsumhverfis leigubifreiðastjóra í framkvæmd laganna. Þau drög að reglugerð sem nú eru til samráðs, bera þess ekki merki og virða að vettugi ráðagerð og reynslu starfandi stéttar. Þá er heldur ekki tekið tillit til þess, að nú starfandi stétt leigubifreiðastjóra hefur leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu. Með lagabreytingunni er sannarlega gengið á atvinnufrelsi starfandi leigubifreiðastjóra, þá ekki aðeins með afnámi vinnuskyldu, svæða og fjöldatakmörkunar, heldur er boðið upp á ójafna samkeppni með mismunandi skráningaskyldu leigubifreiðanna, sem við andmælum algerlega.
Til að lágmarka hraðar breytingar og jafnvel hnignun þjónustunnar í núgildandi öruggu lagaumhverfi viðskiptavina og starfstéttarinnar, verður hér mælt með sex meginatriðum í reglugerð:
I. Sérmerkt bílnúmer.
11.grein laganna um Auðkenni segir meðal annars: Leigubifreið skal ávallt auðkennd skilmerkilega þannig að ekki sé vafi á að um leigubifreið sé að ræða.
Sérstakar númeraplötur ættu að uppfylla kröfu laganna með sóma. Sérlitaðar númeraplöur skulu settar á allar bifreiðar til leiguaaksturs áður en starfsemi hefst, að engin undanþága verði frá þeirri skráningu, sama hvort leiguaksturinn skal heita leigubifreið með gjaldmæli eða án gjaldmælis. Þá duga ekki límmiðar til þess að greina leigubifreiðar frá öðrum bifreiðum. Sérstakar plötur snúa að réttri skráningu á starfseminni, bifreiðatryggingum, jafnri samkeppni, öryggi farþega með sýnilegu vali á löglegri starfsemi auk þess að bæta aðgengi og hagkvæmni eftirlits með leigubifreiðum. Þessi skráningarmerki verða til þess fallin að draga loksins úr svartri starfsemi leiguaaksturs sem stjórnvöld hafa staðið vanmáttug frammi fyrir og sem hefur grafið hömlulaust undan löglegri leigubifreiðaþjónustu í meira en áratug og dregið þannig úr hvatanum til að sinna þjónstunni.
Fyrir sérmerktum og sérlituðum númeraplötum á leigubifreiðar, er fordæmi annarra Evrópulanda, til að nefna Belgíu, Holland, Lettland, Grikkland, Albaníu, Svíþjóð og Spán. Frá því síðarnefnda, vitnum við í fréttaflutning stjórnvalda Spánar dagsettum júlí 2018 í Boletin Oficial del Estado um innleiðinguna í reglugerð, sjá þýðingu þar fyrir neðan:
„El objetivo principal de la medida es evitar que se efectúe este tipo de transporte público de viajeros por entidades no autorizadas facilitando, además, la identificación de los citados vehículos por parte de sus potenciales clientes. Se pretenden solucionar los problemas actuales que esta situación está generando en el sector. Algunos Estados de la Unión Europea tales como los Países Bajos, Bélgica y Grecia ya disponen de este tipo de placas de matrícula diferenciadas.“
Þýtt: „ Meginmarkmið úrræðisins er að koma í veg fyrir að þessi gerð almenningssamgangna verði framkvæmd af ólöglegum aðilum, með því að auðvelda viðskiptavinum að greina skráðar leigubifreiðar. Þess er vænst að leysa yfirstandandi vandamál sem ástandið veldur starfsgreininni. Nokkur ríki Evrópusambandsins eins og Holland, Belgía og Grikkland, búa nú þegar yfir þess konar sérgreindum númeraplötum.“
II. Íslenskukunnátta.
Eftir afregluvæðinguna á leigubifreiðaakstri í Danmörku, verða þeir sem ætla að tileinka sér akstur leigubifreiða þar í landi, að hafa staðist dönskupróf að vissu marki, til að tryggja að bílstjórar geti átt í samskiptum við farþegana. Þannig ætti að setja sömu kröfur í reglugerð um leigubifreiðaakstur hér á landi, að bílstjórar geti talað, skilið, lesið og skrifað á íslensku að þeim mörkum sem þykja nauðsynleg varðandi rötun og þjónustu við farþega. Vakin er athygli á því að málkunnátta getur skipt sköpum í neyðartilvikum. Að hafa íslenskukunnáttu að ákveðnu marki sem skilyrði fyrir atvinnuleyfi til leiguaksturs, bætir stöðu einstaklinga á vinnumarkaði svo þeir einangrist síður innan samfélagsins og ráði vel við samskiptin í starfinu.
III. Gjaldmælar.
Samkvæmt 9.gr. laganna, skulu gjaldmælar vera í öllum leigubifreiðum.
Þeir sem kjósa að veita þjónustu án gjaldmælis, er það vel mögulegt með gjaldmæli um borð og er sú hefð nú þegar til staðar, að slá inn fast verð á galdmælinn þegar óskað er eftir því. Þannig er það ekki nýjung í leigubifreiðaakstri og óþarfi að leyfa skráningu á leigubifreiðum án gjaldmælis. Með föstu verði á gjaldmæli, stendur verðið í stað á meðan ekið er samkvæmt samkomulagi. Hins vegar, er sú reynsla úr starfinu, að oftar en ekki er fyrifram ákveðið fast verð hærra en gjaldmælir hefði sýnt. Gjaldmælir er öryggi fyrir báða aðila, seljanda og neytanda að um rétta mælingu og verðlagningu sé að ræða. Að leyfa misjafna skráningu leigubifreiða með eða án merkja og tækja, verður til þess að egna saman leyfishöfum sem fyrir eru og nýjum aðilum á markaðnum. Það ætti ekki að vera vilji stjórnvalda að stofna til aðstæðna fyrir ójafna samkeppni og ófrið á markaði þar sem annar hópurinn fengi að starfa á huldu. Ef leigubifreiðar verða leyfðar í umferð án viðeigandi tækja, geta aðilar komist upp með að flytja starfsemi sína á óskráð ökutæki eftir hentisemi og spara sér kostnað á tryggingum og öðrum skráningarskyldum. Slíkt yrði aukin áhætta fyrir farþega, þar sem ekki liggur fyrir leyfisskoðun ökutækis ásamt öðru eftirliti. Því mælum við með gjaldmæli í allar leigubifreiðar sem einnig er merki um traust viðskipti gagnvart neytendum.
IV. Akstursheimildir.
Félög leigubifreiðastjóra hafa séð um útgáfu akstursheimilda, miðlun afleysingabílstjóra ásamt annarri umsjón og hagsmunagæslu leyfishafa í gegnum gagnagrunn Samgöngustofu, gagnagrunnur sem upphaflega kemur frá Bifreiðastjórafélaginu Frama. Verði leyfishöfum sjálfum falið að skrá akstursheimildir á eigin rekstur, má búast við því að slíkt detti uppfyrir og komi niður á öryggi viðskiptavina og rekjanleika útgerðarinnar. Leigubifreiðastöðvar þurfa einnig að geta fylgst vel með hverjir aki bifreiðunum hverju sinni og gengið úr skugga um að bílstjórar og leyfishafar séu með leyfin í gildi á meðan þjónustan er veitt.
Verði félög leigubifreiðastjóra ekki með aðgang og umsjá akstursheimilda, má draga líkur að því að þau missi hlutverk sitt, félagsgjöld og tekjur af útgáfu akstursheimilda eru áunnin réttindi stéttarfélaga leigubifreiðastjóra til að standa saman og gæta hagsmuna sinna á vinnumarkaði þar sem kjarasamningar eru ekki til staðar.
Þannig er það lágmarkskrafa að félög leigubifreiðastjóra haldi útgáfu akstursheimilda og gagnagrunni bifreiðstjóra. Útgerðarreglur þarf að útfæra vandlega til að eftirlit og rekjanleiki sé jafn aðgengilegur og með núverandi kerfi.
V. Sakavottorð.
Hver sá sem ætlar að reka leigubifreiðaþjónustu eða stunda leigubifreiðaakstur, skal geta sýnt fram á hreinan sakaferil allan sakhæfisaldur. Bandalagið hefur verið minnt á þetta atriði af bandalögum leigubifreiðastjóra á Norðurlöndum, að ekki megi slaka á kröfum um hreinan sakaferil. Að gefnu tilefni er gild ástæða til að vara við öllum slökunum á þeim kröfum.
VI. Takmörkunarsvæði.
Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra tekur heilshugar undir umsögn Bifreiðastjórafélags Akureyrar og Bifreiðastöðvar Oddeyrar og óskum eftir að haldin verði fjöldatakmörkun leyfa á svæðum með íbúatölu undir 30.000 manns. Nauðsynlegt er að tryggja að þeir sem fyrir eru í þjónustunni að aðalatvinnu, haldi atvinnufrelsi sínu og þarafleiðandi hverfi ekki frá þjónustunni í önnur störf vegna samdráttar. Þegar leigubifreiðastjórar fara í önnur störf, þá fellur niður þjónustan hlutfallslega og sem bitnar á grunnþjónustu viðkvæmra hópa, eins og þjóðin varð vitni að eftir heimsfaraldurinn þegar bifreiðastjórum hafði fækkað vegna samdráttar. Norska samband leigubifreiðastjóra lét gera lagalega könnun á samningum EFTA sem eru svipaðir þeim sem Ísland hefur skuldbundist og þykir sýnt fram á að samningarnir hafi svigrúm fyrir fjöldatakmörkun leyfa. Bandalagið hefur vísað áður á þennan þátt í fyrri umsögnum áður en frumvarpið varð að lögum.
Að gera allt landið að einu svæði, myndi leiða til þess að leigubifreiðar vanti á tiltekin svæði, þar sem of langt þætti að sækja farþega sem ættu jafnvel stutt erindi. Enginn fengist til að sinna slíkum verkefnum öðruvísi en að hækka verðið á þjónustunni. Þetta er nákvæmlega sú breyting sem veldur mestum vonbrigðum í Finnlandi.
Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórfélagið Frami, minna á fyrri umsagnir sínar um áður yfirstandandi frumvörp, til fróðleiks um þjónustu leigubifreiða.
Reykjavík 22. mars 2023
Fyrir hönd stjórnar B.Í.L.S. og Frama
Daníel O. Einarsson formaður
UMSÖGN
Drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur.
Mál nr.60/2023 í samráðsgátt.
Bifreiðastöðin Hreyfill veitir umsögn sína um drög að reglugerð um leigubifreiðaakstur í samráðsgátt, mál nr.60/2023.
2. gr.
Auðkenni
Allar bifreiðar sem notaðar eru sem leigubifreiðar skulu vera búnar eins og reglur um gerð og búnað bifreiða segja til um. Leigubifreiðar skulu skráðar sem slíkar í bifreiðaskrá, vera útbúnar gjaldmæli og ljósmerki á toppi bifreiðar.
Stöðvarmerki í framrúðu skal vera í öllum leigubifreiðum svo ekki fari milli mála hvað neytendur varðar með hvaða fyrirtæki er ekið. Leyfisskírteini rekstrarleyfishafa skal ávallt vera sýnilegt í bifreiðinni. Einnig skal eftir atvikum leyfisskírteini atvinnuleyfishafa vera sýnilegt á meðan viðkomandi er að störfum.
Verðskrár skulu vera sýnilegar í öllum leigubifreiðum þar sem tilgreint er verð tíma og vegalengdar og ættu verðin sem þar koma fram að vera ófrávíkjanleg. Verðskrá skal vera sýnileg þegar komið er inn í bifreið. Alger óþarfi er að verð sé skráð þannig að það sjáist utan á bifreið.
Gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum, en ekki á að heimila tvær tegundir af leigubifreiðum, aðra útbúna gjaldmælum og hina ekki. Það á að vera ófrávíkjanleg regla að þegar ekið er gegn gjaldi, hvort sem það er mælt í tíma, vegalengd eða gegn föstu verði að upphæð ferðarinnar komi fram á gjaldmælinum frá upphafi ferðar til enda. Það að samið sé um verð fyrirfram mun eingöngu leiða til ágreinings milli ökumanns og farþega.
Til að koma að einhverju leyti í veg fyrir að aðilar sem hafa ekki rekstrarleyfi séu að stunda sjóræningjaakstur er til að mynda skynsamlegt að setja sérlitaðar númeraplötur á þær bifreiðar sem skráðar eru sem leigubifreiðar, þannig geta neytendur gengið að því vísu að um löglegan leigubíl sé að ræða.
3. gr.
Umsókn og útgáfa leyfis
Mjög mikilvægt er að bakgrunnur þeirra sem ætla að gerast rekstrarleyfishafar eða atvinnuleyfishafar sé kannaður í þaula og kallað eftir ítarlegu sakavottorði allt að 10 ár aftur í tímann. Þeir sem hafa gerst sekir um að hafa brotið gegn XXII. kafla eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga eiga ekki að geta fengið leyfi til þess að aka leigubifreið.
Gera skal kröfu um lágmarks íslenskukunnáttu bílstjóra. Ferðum fylgja oft flókin skilaboð sem bílstjóra þarf að skilja þar sem farþegar geta ekki í öllum tilvikum komið þeim upplýsingum á framfæri við bílstjóra.
Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að bílstjórar afli sér starfsreynslu með því að leysa leyfishafa af þegar þeir taka sér frí frá akstri af einhverjum ástæðum. Mikilvægt er að áfram sé gerð sé krafa um reynslutíma, eins og tíðkast hefur í áratugi til þess að gerast leigubílstjóri. Það hefur komið í ljós að ekki eiga allir erindi í akstur á leigubifreiðum og hefur reynslutíminn verið ágæt leið til þess að skera úr um með það.
Nauðsynlegt er að rekstrarleyfishafar hafi leiguakstur sem aðalstarf til þess að tryggja megi að bílar séu til taks allan sólarhringinn, alla daga ársins. Hvergi er getið til um hámarksaldur og heilsufarsskylyrði þeirra sem aka leigubifreiðum en slíkt er nauðsynlegt til að tryggja megi öryggi farþega.
4. gr.
Namskeið
Mikilvægt að ekki verði slegið af kröfum varðandi ökuréttindi né námskeið frá því sem nú er og ættu allir sem vilja gerast atvinnuleyfishafar eða rekstrarleyfishafar þurfa að sækja námskeið til að öðlast aukin ökuréttindi og námskeið í farþegaflutningum. Námskeiðin eins og þau eru sett upp í dag eru ekki aðgangshindrandi eins og margir vilja halda fram. Þau hafa þjónað sínum tilgangi vel hingað en vissulega má gera megi ríkari kröfur um að auka það efni sem farið yfir á námskeiðunum.
5. gr.
Sérstakar skyldur leigubifreiðastöðvar
Allar leigubifreiðastöðvar eiga að bjóða upp á símsvörun á milli kl. 06:00 til 01:00 að lágmarki, alla daga vikunnar, allt árið.
Ákvæði um sjóðstöðu sem miðast við fjölda bíla á stöðinni á hverjum tíma er úr öllum takti við það sem eðlilegt getur talist. Sé leigubifreiðastöðin ekki eigandi að viðkomandi bifreið þá er það óskiljanlegt og verulega íþyngjandi fyrir leigubifreiðastöð að leggja í sjóð fé fyrir bifreið í rekstri sem tilheyrir öðrum. Eðlilegast er að sá rekstrarleyfishafi sem á leigubifreiðina reiði fram þessa upphæð.
Þeim aðilum sem fara með málefni stéttarinnar á Íslandi ber skylda til að horfa til þess sem gerst hefur á hinum Norðurlöndunum við afregluvæðingu. Því miður hefur það ekki verið reyndin og blasir nú við eyðilegging á leigubílamarkaðinum á Íslandi, neytendum og leigubílstjórum til óheilla.
Hreyfill áskilur sér rétt til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum. Forráðamenn Hreyfils árétta að félagið vill vinna með stjórnvöldum í þessu máli með það að markmiði að breytingar sem kunni að vera gerðar, þjóni í reynd íslensku samfélagi.
Reykjavík 22. mars 2023
Haraldur Axel Gunnarsson
Framkvæmdastjóri Hreyfils.svf
ViðhengiSjá meðfylgjandi umsögn.
Viðhengi