Samráð fyrirhugað 13.03.2023—31.03.2023
Til umsagnar 13.03.2023—31.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 31.03.2023
Niðurstöður birtar

Stefna um nýtt námsmat grunnskóla - Matsferill

Mál nr. 61/2023 Birt: 13.03.2023 Síðast uppfært: 13.03.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 13.03.2023–31.03.2023. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneytið áformar að innleiða nýtt námsmat með það að markmiði að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara.

Tilgangur og nytsemi samræmdra prófa ásamt tengslum þeirra við nútíma skólastarf og núgildandi aðalnámskrá hafa reglulega verið til umræðu undanfarin ár og áratugi. Hlutverk þeirra hefur breyst verulega í gegnum tíðina m.a. með tilfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga, þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum á heildarstöðu skólakerfisins og með breytingu þeirra árið 2008 þar sem samræmd könnunarpróf lágu ekki lengur til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla.

Í apríl 2018 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp breiðs hóps hagsmunaaðila um framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Hópurinn skilaði niðurstöðum árið 2020 og lagði til verulegar breytingar sem byggðust m.a. á nýju námsmatskerfi sem kallað yrði matsferill.

Í framhaldi af skýrslunni var tekin ákvörðun árið 2022 að afnema tímabundið skyldu skóla til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf og hefja vinnu við þróun og innleiðingu sem byggðist á tillögum skýrslunnar.

Til að tryggja aðkomu sem flestra að þróun matsferils óskar mennta- og barnamálaráðuneytið eftir athugasemdum og afstöðu frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum haghöfum um þá framtíðarsýn á námsmat sem kynnt er hér að neðan svo vinna við matsferil sé skýr, í anda skýrslu starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag námsmats sem og fagfólks á vettvangi.

Hugmyndafræði nýs skipulags námsmats snýst um að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara. Vinnuheiti mælitækisins er matsferill. Honum er ætlað að auka við verkfærakistu skóla landsins með heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja til stuðnings leiðsagnarmats í skólum. Matsferill skal kanna kunnáttu, leikni og hæfni út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hverju sinni.

Matsferli er ætlað að valdefla nemendur og kennara enda er vandað námsmat ein af grunnforsendum þess að hægt sé að styðja við fjölbreytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat.

Matsferli er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir annað námsmat heldur verða viðbót við endurgjöf um stöðu nemenda og framfarir í námi. Því þarf námsmat að veita endurgjöf með þeim sveigjanleika sem hentar hverjum nemanda eða því sem kalla má einstaklingsmiðað námsmat. Matstækin skulu alltaf vera aðgengileg kennurum og skólum til afnota og forsjáraðilum og nemendum eftir fyrirlögn á mati svo verkfærin nýtist til þess leiðsagnarmats sem þeim er ætlað.

Að auki inniheldur matsferill skimunarpróf sem eru gagnleg hjálpartæki til að greina erfiðleika snemma á skólagöngunni og veita mikilvægar upplýsingar um það hvort nemandi hafi forsendur til að ná tiltekinni færni. Til að tryggja að matið verði sem áreiðanlegast og réttmætast skal fylgja hverju mælitæki handbók um notkun og túlkun niðurstaðna ásamt námskeiði fyrir starfsfólk um það hvernig best sé að leggja þau fyrir, fyrir hverja, sem og hvernig eigi að greina og kynna niðurstöður.

Verkefni matsferils eru ekki miðuð við árganga heldur hæfniviðmið aðalnámskrár. Skólum er í sjálfsvald sett að setja nánari viðmið fyrir námshópa eða einstaklinga og eiga verkfæri Matsferils að styðja við fjölbreyttar útfærslur á tilhögun náms og mats. Nemendur á sama aldursári geta þá nýtt sér ólík verkfæri allt eftir færni og skipulagi námsferils þeirra. Þá á kennari að geta notað sama eða sambærilegt verkfæri matsferils fyrir hóp eða einstaka nemendur oftar en einu sinni, til þess að fylgjast með framförum nemenda og til að meta hvort náms-, kennsluaðferðir og inngrip hafi borið árangur.

Kennarar og skólar njóta trausts til að taka ákvörðun um hvaða verkfæri Matferils þau nota, fyrir hvaða nemendur, hvenær þau eru lögð fyrir og hve oft. Allir grunnskólar skulu þó meta námsárangur nemenda sinna í stærðfræði og íslensku, eða íslensku sem öðru tungumáli.

Samhliða notkun matsferils er mikilvægt að ríki og sveitarfélög leggi ríka áherslu á umbætur, m.a. með viðeigandi íhlutun í þágu nemenda, námsefni, stuðningsefni, námskeiðum sem og kennsluráðgjöf til kennara og skóla. Þannig má styrkja skólakerfið til að vinna að framförum á grundvelli mats.

Kennarar og skólarnir sjálfir bera ábyrgð á fyrirlögn matstækjanna ásamt því að sjá um að skrá og halda utan um niðurstöður í námsmatskerfi skólans og gera þær aðgengilegar forsjáraðilum og nemendum samkvæmt lögum. Skólar geri grein fyrir notkun sinni á matsferli, eins og öðru námsmati, í skólanámskrá og innra og ytra mati skólans. Óheimilt er þó að birta niðurstöður einstakra nemenda, námshópa, skóla eða sveitarfélaga opinberlega eða að vera með samanburð þar á milli.

Unnið verður að gerð fyrstu verkfæra Matsferil árin 2023-2024 og verða þau tilbúin til notkunar í janúar 2025. Mennta-og barnamálaráðuneytið lítur á matsferil sem langtímaverkefni til stuðnings íslensku skólakerfi.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.