Samráð fyrirhugað 13.03.2023—31.03.2023
Til umsagnar 13.03.2023—31.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 31.03.2023
Niðurstöður birtar

Stefna um nýtt námsmat grunnskóla - Matsferill

Mál nr. 61/2023 Birt: 13.03.2023 Síðast uppfært: 13.03.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (13.03.2023–31.03.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneytið áformar að innleiða nýtt námsmat með það að markmiði að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara.

Tilgangur og nytsemi samræmdra prófa ásamt tengslum þeirra við nútíma skólastarf og núgildandi aðalnámskrá hafa reglulega verið til umræðu undanfarin ár og áratugi. Hlutverk þeirra hefur breyst verulega í gegnum tíðina m.a. með tilfærslu grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga, þátttöku Íslands í alþjóðlegum könnunum á heildarstöðu skólakerfisins og með breytingu þeirra árið 2008 þar sem samræmd könnunarpróf lágu ekki lengur til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla.

Í apríl 2018 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp breiðs hóps hagsmunaaðila um framtíðarstefnu um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Hópurinn skilaði niðurstöðum árið 2020 og lagði til verulegar breytingar sem byggðust m.a. á nýju námsmatskerfi sem kallað yrði matsferill.

Í framhaldi af skýrslunni var tekin ákvörðun árið 2022 að afnema tímabundið skyldu skóla til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf og hefja vinnu við þróun og innleiðingu sem byggðist á tillögum skýrslunnar.

Til að tryggja aðkomu sem flestra að þróun matsferils óskar mennta- og barnamálaráðuneytið eftir athugasemdum og afstöðu frá kennurum, skólastjórnendum og öðrum haghöfum um þá framtíðarsýn á námsmat sem kynnt er hér að neðan svo vinna við matsferil sé skýr, í anda skýrslu starfshóps um markmið, hlutverk, framkvæmd og fyrirkomulag námsmats sem og fagfólks á vettvangi.

Hugmyndafræði nýs skipulags námsmats snýst um að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara. Vinnuheiti mælitækisins er matsferill. Honum er ætlað að auka við verkfærakistu skóla landsins með heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja til stuðnings leiðsagnarmats í skólum. Matsferill skal kanna kunnáttu, leikni og hæfni út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla hverju sinni.

Matsferli er ætlað að valdefla nemendur og kennara enda er vandað námsmat ein af grunnforsendum þess að hægt sé að styðja við fjölbreytta kennsluhætti, einstaklingsmiðað nám og leiðsagnarmat.

Matsferli er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir annað námsmat heldur verða viðbót við endurgjöf um stöðu nemenda og framfarir í námi. Því þarf námsmat að veita endurgjöf með þeim sveigjanleika sem hentar hverjum nemanda eða því sem kalla má einstaklingsmiðað námsmat. Matstækin skulu alltaf vera aðgengileg kennurum og skólum til afnota og forsjáraðilum og nemendum eftir fyrirlögn á mati svo verkfærin nýtist til þess leiðsagnarmats sem þeim er ætlað.

Að auki inniheldur matsferill skimunarpróf sem eru gagnleg hjálpartæki til að greina erfiðleika snemma á skólagöngunni og veita mikilvægar upplýsingar um það hvort nemandi hafi forsendur til að ná tiltekinni færni. Til að tryggja að matið verði sem áreiðanlegast og réttmætast skal fylgja hverju mælitæki handbók um notkun og túlkun niðurstaðna ásamt námskeiði fyrir starfsfólk um það hvernig best sé að leggja þau fyrir, fyrir hverja, sem og hvernig eigi að greina og kynna niðurstöður.

Verkefni matsferils eru ekki miðuð við árganga heldur hæfniviðmið aðalnámskrár. Skólum er í sjálfsvald sett að setja nánari viðmið fyrir námshópa eða einstaklinga og eiga verkfæri Matsferils að styðja við fjölbreyttar útfærslur á tilhögun náms og mats. Nemendur á sama aldursári geta þá nýtt sér ólík verkfæri allt eftir færni og skipulagi námsferils þeirra. Þá á kennari að geta notað sama eða sambærilegt verkfæri matsferils fyrir hóp eða einstaka nemendur oftar en einu sinni, til þess að fylgjast með framförum nemenda og til að meta hvort náms-, kennsluaðferðir og inngrip hafi borið árangur.

Kennarar og skólar njóta trausts til að taka ákvörðun um hvaða verkfæri Matferils þau nota, fyrir hvaða nemendur, hvenær þau eru lögð fyrir og hve oft. Allir grunnskólar skulu þó meta námsárangur nemenda sinna í stærðfræði og íslensku, eða íslensku sem öðru tungumáli.

Samhliða notkun matsferils er mikilvægt að ríki og sveitarfélög leggi ríka áherslu á umbætur, m.a. með viðeigandi íhlutun í þágu nemenda, námsefni, stuðningsefni, námskeiðum sem og kennsluráðgjöf til kennara og skóla. Þannig má styrkja skólakerfið til að vinna að framförum á grundvelli mats.

Kennarar og skólarnir sjálfir bera ábyrgð á fyrirlögn matstækjanna ásamt því að sjá um að skrá og halda utan um niðurstöður í námsmatskerfi skólans og gera þær aðgengilegar forsjáraðilum og nemendum samkvæmt lögum. Skólar geri grein fyrir notkun sinni á matsferli, eins og öðru námsmati, í skólanámskrá og innra og ytra mati skólans. Óheimilt er þó að birta niðurstöður einstakra nemenda, námshópa, skóla eða sveitarfélaga opinberlega eða að vera með samanburð þar á milli.

Unnið verður að gerð fyrstu verkfæra Matsferil árin 2023-2024 og verða þau tilbúin til notkunar í janúar 2025. Mennta-og barnamálaráðuneytið lítur á matsferil sem langtímaverkefni til stuðnings íslensku skólakerfi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ragnar Þór Pétursson - 25.03.2023

25. mars 2023

Umsögn um mál nr. 61/2023: Stefnu um nýtt námsmat grunnskóla - Matsferil

Í drögum að stefnu um námsmat kemur réttilega fram að hlutverk samræmdra prófa hafi tekið breytingum á síðustu árum og áratugum. Gildir þar mestu sú umbylting að tiltekin niðurstaða úr samræmdu námsmati er ekki lengur forsenda fyrir inngöngu í framhaldsskóla. Fræðsluskylda til átján ára aldurs kallar enda á að að á mörkum skólastiga sé nám (eins og innan hvers skólastigs) nægilega sveigjanlegt til þess að nemendur geti blómstrað á ólíkum sviðum út frá eigin styrkleikum og áhugasviði. Stýrandi samræmd próf eða Landspróf geta beinlínis haldið aftur af færum nemendum, tafið þá í námi og stýrt stórum hópum í skaðlega miklum mæli í sömu rásirnar á sama hraða.

Ég fagna að fram komi í framlagðri stefnu að „[h]ugmyndafræði nýs skipulags námsmats [snúist] um að færa matið nær nemendum og kennurum sem verkfæri til umbóta, skólaþróunar og framfara.“

Eins fagna ég því sem fram kemur þar sem segir að „[h]onum sé ætlað að auka við verkfærakistu skóla landsins með heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja til stuðnings leiðsagnarmats í skólum.“

Hér þarf að sýna trúmennsku

Það er hvorki sjálfgefið né auðvelt að efna til víðs samráðs um mats í skólum. Flestir haghafar sem að skólakerfinu standa (eða hafa á því sterkar skoðanir) hafa rótgróin viðhorf eða hagsmuni. Að fylkja skólasamfélaginu öllu um sömu stefnu ef heillaráð og gæta þarf þess sérstaklega þegar komið er að framkvæmdahluta verksins að þau sem þar halda á verkfærum sýni samferðafólki sínu þá tryggð að vinna af trúnaði við hinn sameiginlega málstað. Yrði útfærsla verkefnsins í ósamræmi eða jafnvel andstöðu við þá stefnumörkun sem unnin hefur verið er verra af stað farið en heima setið.

Þess vegna er gott að fá stefnumörkunarskjal í samráðsgátt stjórnvalda og sýna þar fram á hvert stefnt er.

Námsmat má ekki verða fjallabaksleið að stýringu náms

Stjórnvöld stýra skólakerfum með því að setja fram opinberar námskrár og stefnu. Gerðar eru miklar kröfur til slíkrar stefnumörkunar enda er menntun ekki aðeins faglegt heldur líka pólitískt og persónulegt viðfangsefni.

Námsmat er mikilvægt en það er flókið og viðkvæmt. Það getur hæglega orðið of stýrandi og heftandi og þar með staðið menntun fyrir þrifum. Beiting þess getur einnig opnað leið samfélagslegra átakalína inn í skólakerfið.

Á síðustu árum hafa skólar heimsins í auknum mæli orðið vígvöllur í samfélögum aukinnar skautunar. Íslenskt samfélag ber þess skýr merki að hér er samfélagsleg spenna að aukast sem og skautun á milli hópa. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir gríðarstórum áskorunum, félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum. Við slíkar aðstæður þarf að járnspengja hin lýðræðislegu gildi utan um allar kerfisbreytingar á menntakerfinu og tryggja að skólar séu, óháð ríkjandi valdhöfum hverju sinni, sjálfstæðir til starfa sinna innan ramma gildandi laga.

Ég vek máls á þessu að gefnu tilefni. Við höfum orðið vitni að nýlegum tilraunum hluta löggjafarvaldsins til að stýra í smáatriðum starfsemi skóla. Við þekkjum einnig mýmörg dæmi þess á sveitarstjórnarstigi að þar hlutist pólitískir fulltrúar til um skólamál, jafnvel með háværum fullyrðingum um stórkostlegan árangur af slíkri stýringu.

Um leið og það er sjálfsagt að metnaðarfull sveitarfélög geri sitt besta til að stofna og viðhalda lærdómssamfélögum í skólum sínum þá er mikilvægt að muna að menntastefnur einstakra sveitarfélaga eiga sér hvorki stoð í lögum né öðrum reglum og hafa þá aðeins gildi séu þær raunsönn lýsing á þeim viðhorfum sem einkenna skólastarf í viðkomandi sveitarfélagi. Hlutverk fræðslunefnda er skýrt í lögum. Í einstaka sveitarfélögum hafa slíkar nefndir tekið sér mun víðtækara hlutverk en þar er kveðið á um - og þá stundum á kostnað sjálfræðis skólanna og kennaranna sem þar starfa. Blessunarlega eru hin dæmin fleiri, um sveitarfélög sem gerast bakhjarlar sinna og fylkja sér með skólafólkinu sínu undir gunnfána faglegs starfs skóla.

Sveitarstjórnarstigið er viðkvæmara fyrir pólitískum þrýstingi en ríkið. Þess vegna þarf að gæta þess sérstaklega að kjörnir fulltrúar eða starfsmenn sem vinna í skjóli þeirra hafi hvorki val um né geti fyrirskipað hvort og hvernig matsferli er beitt.

Það er lykilatriði að matsferill sé settur upp með þannig hætti að honum sé ekki hægt að beita til þess að ná stjórn á námi og kennslu. Sjái kennarar ekki not fyrir þau hjálpartæki sem liggja fyrir í þeirri „verkfærakistu“ sem matsferill er er ástæðulaust að nota þau.

Matsferill á að byggja á vönduðum verkfærum sem fólk vill nota

Verkfæri matsferils verða notuð ef þau eru góð, aðgengileg og hjálpleg. Orka stjórnvalda á að fara að tryggja að svo sé. Þau verða hvorki endanleg né tæmandi. Innreið gervigreindar og miklar samfélagsbreytingar gera það að verkum að fráleitt er að hugsa sér að á næstu árum komi fram mælitæki sem staðið geti óhögguð um langa hríð. Þess vegna má ekki fjárfesta um of í endanlegu kerfi sem skólastarf þarf síðan að reyna að passa í áratugum saman Ég minni á að forveri Menntamálastofnunar framleiddi gríðarmikið magn af ágætu námsefni upp úr aldamótum sem varð ónothæft nánast á einni nóttu þegar skipt var um staðal í vefmiðlun á snjalltækjum.

Það þarf raunsæi í þróun verkfærakistu matsferils. Engin stofnun mun fá ótakmarkað fjármagn til að viðhalda og efla slíkt tæki. Höfum í huga að við búum við innviði þar sem við höfum ítrekað lent í því að matstæki stjórnvalda hafa hrunið við notkun.

Námsmati er hvorki auðvelt að þróa né breyta. Landspróf stóðu yfir í þrjá áratugi og samræmd próf í hálfan fimmta áratug. Matsferil þarf að hugsa öðruvísi.

Verkfærin í verkfærakistu matsferils geta auðveldlega breyst ef málið er rétt hugsað frá upphafi. Sum munu úreldast, önnur þróast. Sum verða vinsæl, önnur ekki. Þannig mun matið sjálft breytast með tímanum, batna og vera í takt við námskrá, stefnu og strauma.

Um hlutverk gagna

Öll gagnaöflun úr matsferli er viðkvæm. Ég hvet starfsfólk ráðuneytisins til að kynna sér sérstaklega þá umræðu sem Jón Torfi Jónasson, fyrrverandi forseti Menntavísindasviðs HÍ, hefur haldið á lofti um gagnaöflun í skólastarfi.

Það er lykilatriði að matsferill sé ekki oftúlkaður eða misnotaður í þeim tilgangi að afla gagna.

Það væru fullkomin svik við þá hugmyndafræði sem lagt var upp með ef matsferill yrði notaður til að stórauka eftirlit stjórnvalda með námi nemenda. Ég tek þetta fram vegna þess að öll nýsköpun sem nýtir hugbúnað skapar slíkan freistnivanda. Skólinn hefur lent í stórkostlegum vanda við innleiðingu tækni í skólastarfs vegna ásælni eigenda tækni í að safna gögnum um notendur sína.

Sem kennari er ég meira en tilbúinn að nota góð verkfæri og víkka lærdómssamfélag það sem ég tilheyri svo að það innihaldi fagfólk sem starfar í menntamálaráðuneytinu og hjá undirstofnunum þess. Ég væri líka tilbúinn að standa að afmörkuðum skólaþróunarverkefnum með þessum aðilum, háskólum og öðrum, í því skyni að ástunda faglegt og nútímalegt skólastarf.

Ef svo færi að matsferill yrði þannig úr garði gerður að stjórnvöld eða stofnanir á vegum þess söfnuðu kerfisbundið öllum upplýsingum sem til yrðu við beitingu hans myndi ég aldrei nota verkfærin og ég myndi hvetja aðra kennara til þess sama.

Valdefling og traust

Ég hef á síðustu árum fengið dálitla innsýn í íslenskt menntakerfi og samanburð þess við menntakerfi annarra landa. Fulltrúar OECD hafa bent á að einn af styrkleikum íslensks menntakerfis sé vilji haghafa til samvinnu. Einn veikleiki þess sé að hér sé of mikið stuðst við stefnumörkun án vandlegrar framkvæmdar.

Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum styrkleika okkar og leiðum þetta mál til lykta þannig að það geirnegli það traust sem svona vegferð krefst af þátttakendum. Ef matsferill er rétt hugsaður og gerður verður hann brú á milli akademíu, skólastarfs og stjórnvalda þar sem aðilar standa saman að því að þróa skólastarf með fjölbreyttum hætti og miðla góðum hlutum. Ef matsferill er rangt framkvæmdur verður hann verri en bæði landspróf og samræmd próf - bautasteinn um vanhæfni íslenskra stjórnvalda til að fylgja stefnum sínum eftir.

Um traust

Mjög víða í stefnuskjali því, sem hér er til umræðu, eru undirsstrikaðir þeir þættir sem ég hef rætt hér að ofan. Margt er samt enn óljóst og þess vegna sendi ég þessa löngu umsögn. Í framkvæmd verður hið óskýra því miður gjarnan að einhverju vondu.

Ég treysti menntamálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins til að fylgja þessu máli eftir til enda þannig að það verði að uppbyggilegu afli í íslenskri skólaþróun. Slík traustsyfirlýsing frá kennara (og fyrrum fulltrúa kennara) til ráðuneytis og ráðherra er hvorki sjálfsögð né algeng. Það traust grundvallast á þeirri vinnu sem fram hefur farið hingað til í þessu máli - og það traust styrkist vonandi við frekari afgreiðslu þessa máls.

Traust er leyniefnið í menntasósunni. Þegar nemendur treysta kennurum og kennarar treysta nemendum virkar kennslustofan. Þegar stjórnendur treysta kennurum og öfugt virkar skólinn. Þegar skólafólk treystir stjórnvöldum og öfugt virkar skólakerfið.

Að lokum óska ég þess að matsferill fái að þróast í samstarfi fólks, breytast og verða að tæki til framfara.

Ragnar Þór Pétursson

kennari

Afrita slóð á umsögn

#2 AIS ehf. - 30.03.2023

Athugasemdir vegna stefnu um nýtt námsmat grunnskóla

Birt 30. mars 2023

***Umsögnin er betri aflestrar með því að opna viðhengið

Matsferill

Það er sannarlega fagnaðarefni að samræmdum prófum hafi verið hætt í þeirri mynd sem þau voru. Á sama tíma má fagna því að það eigi að taka upp annars konar samræmdar mælingar sem vonandi ná utan um skrásetningu á nauðsynlegri grunnfærni nemenda.

Við hjá Skólaráðgjafaþjónustunni Ásgarði höfum átt í löngu og góðu sambandi við kennara í 50 grunnskólum á síðustu sex árum. Við höfum tekið eftir hrópandi þörf á stuðningi við skráningu á grunnfærni nemenda og leiðarvísi sem sýnir til hvers er ætlast af kennurum og í hverju starfsháttabreyting þeirra í samræmi við nýja menntastefnu á að felast.

Það er einnig fagnaðarefni að verið sé að finna leiðir til þess að samræma og bæta námsmat í grunnskólum. Hins vegar eru það ákveðin vonbrigði að eftir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í samráð og undirbúning slíkrar stefnu, birtist plagg sem gefur óljósa mynd af verkefninu og kemur upp um takmarkaðan skilning á því hvað mismunandi tegundir námsmats fela í sér. Stefnuskjalið sjálft er ruglingsleg samantekt á óskum þeirra sem komið hafa að samráðinu frekar en skýr stefna yfirvalda um samræmt námsmat. Þar að auki eru hugtök um námsmat ekki notuð rétt í skjalinu.

Leiðsagnarnám verður ekki metið með prófum. Grunnfærni nemenda má meta með samræmdum prófum sem þurfa ekki endilega að fara fram á sama tíma um land allt. Prófin mega og eiga að vera stigskipt og ættu fyrst og fremst að gefa mynd af persónumiðuðum framförum hvers og eins. Verkefnabanki er annað en samræmd próf og metur ekki leiðsagnarnám, en getur stutt við mat á stöðu nemenda gagnvart samræmdum matsviðmiðum. Auðvitað má gefa út leiðsagnarnáms kennsluáætlanir en leiðsagnarnám fer fram með nemendum. Ytra námsmat þýðir samræmd próf og það er villandi að láta að því liggja að það þýði eitthvað annað. Skimunarpróf sem ætluð eru til þess að koma auga á og grípa sértæk vandamál verða aldrei annað en samræmd próf og mjög sérhæfðar staðlaðar mælingar.

Í viðauka skýrslunnar um Framtíðarstefnu námsmats á Íslandi. Tillögur starfshóps um markmið, hlutverk og fyrirkomulag samræmdra prófa. (MRN: 2020 bls. 42) er í viðauka 8 dregin upp mynd af námsmatsramma Cambridge Assessment og lagt til að hannaður verði sambærilegur námsmatsrammi hér á landi. Cambridge Assessment selur samræmd próf um víða veröld og er sennilega stærsta einstaka hindrun þess að skólastarf um heim allan beri ekki skýrari einkenni leiðsagnarnáms og hugarfars vaxtar en raun ber vitni. Þessi tiltekni námsmatsrammi sem myndin er af er heimsþekktur skaðvaldur sem til dæmis er lagður ofan á bestu hæfnimiðuðu námskrár heimsins (IMYC, IB). Þegar að prófunum kemur umturnast allt skólastarf og snýst ekki um annað en SATS próf og undirbúning fyrir kapphlaupið um bestu útkomuna úr prófum. Þó það sé góð hugmynd að skipuleggja matsferil þá verður að styðja við þá hæfnimiðuðu námskrá sem við byggjum okkar skólastarf á og styðja jafnframt við leiðsagnarnám, samþættingu, lykilhæfni og persónumiðun.

Nokkrar athugasemdir og skýringar:

Verkefni matsferils og próf. Það er erfitt að lesa úr skjalinu hvort fyrirhugað sé að búa til verkefnabanka eða prófabanka. Próf eru próf en verkefni eru verkefni. Samræmd próf og skimunarpróf eru próf en ekki verkefnabanki.

Leiðsagnarnám í prófabanka stenst ekki skoðun. Eins og Shirley Clark, einn helsti sérfræðingur heimsins í leiðsagnarmati, hefur ítrekað bent á þá snýst leiðsagnarnám/leiðsagnarmat ekki um námsmat. Stefnuskjalið virðist snúast um að einhvers konar endurgjöf fylgi niðurstöðum úr þeim prófum sem eiga að vera í námsferlinum. Endurgjöf er lítill hluti af leiðsagnarnámi og snýst oftast um að nemandi hafi tækifæri til að bæta hæfni sína og það er ekki í tengt við próf sem námsferillinn mun innihalda. Shirley Clark hefur varað við því að nota þetta hugtak þegar það er ekki í anda leiðsagnarnáms (sjá https://www.tes.com/magazine/teaching-learning/general/shirley-clarke-interview-formative-assessment).

Matsferill sem kortleggur kerfisbundið framfarir nemenda þarf að byggja á stigskiptu ferli og getur ekki byggt á hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Hæfniviðmið aðalnámskrár er í þremur þrepum og það gerir lítið gagn að byggja matsferilinn á þeim þrepum. Hér er mikilvægt að rugla ekki saman hæfniviðmiðum (sem samanstanda af þekkingu, leikni og hæfni) og mikilvægi þess að kortleggja grunnfærni nemenda og leikni til dæmis með því að skoða læsi og grunnfærni í stærðfræði sérstaklega. Það má finna góð þrep í Læsi er lykillinn sem gott væri að tengja við lesferilinn sem nú þegar er í gildi. Með 6 þrepum Læsi er lykilinn væri hægt að tengja saman framfarir nemenda á mörkum skólastiga og kortleggja framfarir með verkefnabanka og samræmdri skráningu.

Samræmd matsviðmið og starfsþróun kennara til að nota þau. Mikilvægt er að nýta þau samræmdu matsviðmið sem til eru og beita þeim.

Námsgögn þurfa að vera útbúin samhliða og gerð þannig að auðvelt sé fyrir kennara að nýta sér þau til að meta framfarir nemenda út frá þrepaskiptum matsviðmiðum, til dæmis í 10-20 þrepum.

Samræmdu matsviðmiðin eru til, en allt of sjaldan notuð til að meta verkefni nemenda á samræmdan máta. Flestir grunnskólar hafa sullað matsviðmiðunum saman við hæfniviðmið inn í óskilgreinda súpu af mats- og hæfniviðmiðum sem nýtt eru jöfnum höndum. Mikilvægt er að aðgreina verkefni þar sem mat er lagt á stöðu nemenda út frá matsviðmiðum. Slík verkefni eru í raun ekki leiðsagnarmatsverkefni heldur prófverkefni þar sem geta nemenda er metin á ákveðnum A-D skala.

Fyrirlögn matsferilsins (eða nýju samræmdu prófanna) eins og henni er lýst í stefnuskjalinu virðist lýsa samræmdu prófi í stærðfræði, íslensku eða íslensku sem öðru máli. Þetta er ekkert annað en samræmt próf og ætti að bera það nafn. Eðli mælinganna og inntak verður þó vonandi til þess gert að kortleggja vel grunnfærni og framfarir nemenda í stærðfræði og íslensku. Best væri ef matsferillinn myndi stinga upp á verkefnum fyrir kennara til að vinna með nemendum sem sýna ekki framfarir á milli mælinga.

Óljóst er hvernig matsferillinn á að virka sem tæki til umbóta, skólaþróunar og framfara. Á matsferillinn með einhverju móti að styðja við skólaþróunarverkefni? Honum virðist bæði ætlað að vera framfarastigi nemandans og byggja á leiðsagnarnámi og að vera tæki til að meta gæði skólastarfs. Matsferillinn ætti að vera leiðbeinandi um stöðu nemandans en líka um næstu skref. Ef nemandi kann það sem honum er ætlað, ætti að fylgja með hvaða markmiðum hann getur stefnt að næst. Þetta gæti hjálpað kennurum að efla hæfni nemenda sem eru bráðgerir eða hafa mikinn metnað og getu til að verða framúrskarandi nemendur. Við erum með fáa nemendur sem skora hátt í Pisa könnunum og ferillinn gæti verið tækifæri til að laga þá stöðu. Við værum þá líka komin með mun betra einstaklingsmiðað nám inn í skólana en ytra mat Menntamálastofnunar gefur til kynna að sé raunin.

Samræmd próf er það sama og ytra mat á námi! Tilgangur vel skipulagðra samræmdra prófa verður að vera að styðja nemendur í að átta sig á því hvar þeir standa í framfarastiga ákveðinnar grunnfærni í t.d. tungumálum og stærðfræði, fyrst og fremst til að nemendur sjái hvar þeir standa og hvert þeir stefna. Niðurstöður prófanna ættu þannig ekki að vera á A-D kvarða eða 1-10 kvarða, heldur kortlagning á persónumiðuðum framförum. Það er, leiðbeinandi námsmat sem hjálpar nemendum að fóta sig í náminu og að setja eigin markmið. Námsmatið verður þannig smám saman að framfarastiga sem nýtist nemandanum beint. Framfarastiginn á líka að vera þess eðlis að sumir ætli alla leið upp á efsta þrep á meðan aðrir ætla sér upp 70% af stiganum sem verður þá fullnaðarsigur þeirra eigin framfara.

Í drögunum er nefnt að námsgögn eigi að styðja við ferlana. Nú, eru samkvæmt ytra mati Menntamálastofnunar, um 75% kennslustunda á Íslandi fræðandi. Það þýðir að annað hvort eru nemendur að hlusta á kennara eða svara verkefnum sem innihalda eitt rétt svar. Þetta þarf að breytast og það er ekki gert með því að gefa út fleiri bækur sem þjálfa grunnatriði í ákveðnum faggreinum. Það þarf aftur á móti að gefa kennurum aðgang að gæðastýrðu efni sem styður við hæfnimiðað nám og er þannig samþætt mörgum faggreinum. Matsferillinn getur hjálpað hér. Nemendur kvarta undan því að þurfa að læra grunninn í málfræði á hverju ári frá yngsta stigi og upp í gegnum grunnskólann. Þeir þekkja sagnorð þegar þeir eru komnir á 3. stig en samt eru þeir að eyða tímanum í að gera óteljandi æfingar til að sýna að þeir þekki þau. Að eyða tímanum er einmitt vandamálið. Þegar kennari stýrir allri kennslustundinni, verða nemendur aldrei annað en viðtakendur náms, í stað þess að vera gerendur í eigin námi. Matsferillinn gæti sýnt kennurum og nemendum að þetta sé orðið gott og að næsta skref sé að gera eitthvað annað.

Í stefnuskjalinu og skýrslunni eru hugtökin innra- og ytra mat notuð á ruglingslegan hátt. Afar mikilvægt er að efla innra mat í grunnskólum og að það beinist að starfsháttum kennara og hvernig persónumiðaðar framfarir nemenda séu tryggðar. Einfaldara og mikilvægara verkefni er að skólar fái aðgang að góðum matslistum og gæðaviðmiðum um framkvæmd fyrirmyndar starfshátta. Það er óþarfi að leggja mikla orku í endurmenntun kennara til að styðja við prófin. Árangursríkara væri að skólar fengju betri leiðbeiningar hvað varðar innra mat og hvernig þeir geti nýtt niðurstöður ytra mats til að bæta skólastarfið og þar með talið árangur hvers nemanda. Þar liggur lykillinn að árangursríkara skólastarfi.

Virðingarfyllst,

Anna María K. Þorkelsdóttir

Kennsluráðgjafi

Kristrún Birgisdóttir

Eigandi og framkvæmdastjóri Ásgarðs

Akureyri

30.03.2023

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Landssamtökin Þroskahjálp - 30.03.2023

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um stefnu um nýtt námsmat grunnskóla – Matsferill

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Reykjavíkurborg - 30.03.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn Reykjavíkurborgar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Amalía Björnsdóttir - 30.03.2023

Umsögn frá Amalíu Björnsdóttur og Elsu Eiríksdóttur sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Þorsteinn Sæberg Sigurðsson - 30.03.2023

Umsögn Skólastjórafélags Íslands um mál nr. 61/2023: Stefnu um nýtt námsmat grunnskóla – Matsferil

Skólastjórafélag Íslands fagnar „Stefnu um nýtt námsmat grunnskóla – Matsferill“ þar sem áherslan verður á fjölbreytt, stutt, hnitmiðuð, rafræn próf, verkefni og valfrelsi skóla til að nýta sér þau. Þá er það mikilvægt framfaraskref að matsferill miði við hæfniviðmið en ekki aldur nemenda.

Mikilvægt að nýtt námsmat verði einfalt og þægilegt í fyrirlögn og úrvinnslu, þannig það verði ekki hamlandi og flókið fyrir kennara að nýta sér það. Fram kemur að það eigi að treysta kennurum og skólum til að taka ákvörðun um hvaða verkfæri Matferlis þau nota, hvenær og fyrir hverja og hversu oft en samt kemur fram í sömu málsgrein að þó skuli allir skólar meta námsárangur í stærðfræði, íslensku og íslensku sem öðru tungumáli. Spurning er hvort það mat á að vera í öðru formi en í öðrum námsgreinum.

Ekkert kemur fram um hvernig framkvæmd prófa í íslensku og stærðfræði eru hugsuð í samanburði við annað nýtt námsmat hversu oft skuli leggja þau próf fyrir og í hverju munurinn felist.

Mikilvægt er að ríkið setji fjármagn í innleiðinguna auk þess sem nauðsynlegt er að útfæra námskeið fyrir kennara til að gera þeim kleift að nýta sér hinn nýja matsferil til að hann gagnist sem best í námi nemenda. Skilgreina þarf hverjir eigi að bera kostnað af þeim námskeiðum. Þá skiptir miklu máli að því verði fylgt markvisst eftir að öll sveitarfélög mennti kennarana sína í nýjum vinnubrögðum.

Þá leggur starfshópurinn til stuðning til að auka námsmatslæsi kennara og stjórnenda og að stuðningur við ytra og innra mat skólanna verði efldur með samvinnu ríkis, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og sérfræðinga. Þetta teljum við mjög jákvætt þar sem skýr viðmið um gæði skólastarfs hljóta alltaf að vera grunnur að mati á skólastarfi.

Nauðsynlegt er að haft verði virkt samráð við aðila á vettvangi, bæði við hönnun og þróun hins nýja Matsferils til framtíðar.

Mikilvægt er einnig að ekki eigi að birta niðurstöður einstakra skóla eða sveitarfélaga opinberlega en jákvætt að skólar geti borið eigin niðurstöður saman við landsmeðaltal.

Miðað við umfjöllun um lagalegt hlutverk Menntamálastofnunar varðandi umbætur og framþróun í skólastarfi og hlutverk sveitarfélaga varðandi skólaþjónustu þarf að skerpa í lögum á hlutverki nýrrar stofnunar X varðandi kennslufræðilega ráðgjöf og handleiðslu við þróun skólastarfs.

Mikilvæg er að heildræn gögn um námsgetu nemenda á landsvísu séu aðgengileg og nýtileg til menntarannsókna.

Framtíðarstefna um samræmt námsmat er prýðilega unnið plagg og í heild jákvætt innlegg í þróun námsmats, framkvæmd og fyrirkomulag sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun á komandi árum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Bjarnheiður Kristinsdóttir - 31.03.2023

Í meðfylgjandi skjali er umsögn frá Félagi um rannsóknir á stærðfræðimenntun á Íslandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Álfheiður Guðmundsdóttir - 31.03.2023

Umsögn fagdeildar sálfræðinga við skóla innan Sálfræðingafélags Íslands (FSS) um stefnu um nýtt námsmat grunnskóla - Matsferill

Viðhengi