Samráð fyrirhugað 10.03.2023—24.03.2023
Til umsagnar 10.03.2023—24.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 24.03.2023
Niðurstöður birtar

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði (hnúðlax)

Mál nr. 62/2023 Birt: 10.03.2023
  • Matvælaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (10.03.2023–24.03.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu er áformað að lögfesta tímabundið ákvæði til bráðabirgða til að bregðast við hnúðlaxi sem kann að koma í íslenskar ár og vötn á gildistíma ákvæðisins.

Síðustu ár hefur orðið vart mikillar aukningar hnúðlaxa í íslenskum ám. Hnúðlax/bleiklax (Oncorhynchus gorbuscha) er ein tegund Kyrrahafslaxa. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru við norðanvert Kyrrahaf og Norður-Íshaf. Hnúðlax var fyrst fluttur til ræktunar í ám á Kólaskaga (Rússlandi) á sjötta áratugnumum 1960. Aðskildir stofnar eru á oddaári og jöfnu ári, og er oddaársstofninn mun stærri. Hér á landi varð fyrst vart við hnúðlax 1960.

Tilvist hnúðlaxa hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni hér á landi og getur haft veruleg áhrif á lífríkið. Líkur eru til að hnúðlax og framandi tegundir er koma í íslenskt ferskvatn geti haft neikvæð vistfræðileg áhrif á aðra stofna laxfiska í íslenskum ám. Nánast er talið útilokað að hægt verði að fjarlægja hnúðlax alfarið og er þetta nýr veruleiki í ám og vötnum landsins.

Frá árinu 2015 hefur fjöldi hnúðlaxa aukist verulega og er tilvist hans og hrygning nú staðfest í mörgum ám hér á landi samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun. Búast má við að stofnstærð hnúðlaxa komi til með að aukast hér á landi á komandi árum. Í kjölfar fjölgunar hnúðlaxa tóku veiðifélög að sækja um leyfi til að stemma stigu við fjölda hnúðlaxa. Í ljós kom að ekki var til staðar lagaheimild til þess að veita leyfi til veiða í ádráttarnet þar sem slík veiðarfæri eru ekki leyfileg til laxveiða.

Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði við lög um lax- og silungsveiði nýju bráðabirgðaákvæði um að veiðifélögum og veiðiréttarhöfum þar sem ekki eru starfandi veiðifélög sé heimilt að veiða hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha) árin 2023, 2024 og 2025. Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um veiðar á hnúðlaxi, m.a. um leyfisveitingar, skráningu, sýnatökur og aðra framkvæmd veiða.

Með bráðabirgðaákvæði til þriggja ára gefst tækifæri til að rannsaka hvernig og hvort hægt er að eyða eða fækka hnúðlaxi í ám.

Tengd mál