Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Mál nr. 64/2023Birt: 10.03.2023Síðast uppfært: 23.03.2023
Innviðaráðuneytið
Drög að frumvarpi til laga
Málefnasvið:
Sveitarfélög og byggðamál
Til umsagnar
Umsagnarfrestur er 10.03.2023–30.03.2023.
Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast. Senda inn umsögn
Málsefni
Markmið með endurskoðuninni er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Kynnt eru til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga. Síðustu ár hafa framlög úr Jöfnunarsjóði vegið u.þ.b. 13% af samanlögðum heildartekjum sveitarfélaga.
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 1990 og segja má að þá hafi sjóðurinn orðið til í núverandi mynd. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á sveitarfélagaskipan og hefur þeim fækkað úr 204 niður í 64. Á sama tíma hefur sjóðnum verið falin veigamikil hlutverk t.d. í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og málefni fatlaðs fólks. Sjóðurinn starfar því í gerbreyttu umhverfi og þarf umgjörð hans að endurspegla það.
Tillaga að breytingum á jöfnunarkerfinu
Í starfshópnum voru teknar til umfjöllunar ýmsar tillögur að breytingum á jöfnunarkerfinu. Tillaga starfshópsins er nýtt líkan sem leysir núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag. Starfshópurinn var jafnframt sammála um eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:
1. Nýtt jöfnunarframlag verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
a. Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
b. Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.
2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál
Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum
Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.
Svo stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaganna leggur starfshópurinn til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili
Á 40. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 22. mars 2023 var tekið fyrir mál til samráðs nr 64/2023, Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og þannig bókað.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sem miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skattekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum en aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar, t.d. hvað varðar landstærð, fjölda þéttbýliskjarna, tekjugrundvöll o.fl. Með hliðsjón af nýju framlagi vegna höfuðstaðaálags vill byggðarráð minna á að nokkur sveitarfélög á landsbyggðinni eru í dag að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem einnig mætti taka tillit til.
Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt frá 10. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögnum um drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.
Á 783. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar 21. mars 2023, var tekið fyrir neðangreint erindi:
2303042 - Gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Innviðaráðuneytið vekur athygli á því að í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið kynntar gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Breytingarnar miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins. Þá er það markmið að umgjörð sjóðsins endurspegli og fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Eftirfarandi var bókað:
„Bæjarráð Fjallabyggðar mótmælir harðlega drögum að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshóps um endurskoðun á regluverki sjóðsins.
Verði drögin samþykkt óbreytt þá munu framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Fjallabyggðar minnka um 34.600.000 kr. og vandséð hvernig því yrði mætt án þess að til kæmi skerðing á þjónustu. Bæjarráð gerir því verulegar athugasemdir við tillögur að breytingum á regluverki sjóðsins og gagnrýnir harðlega knöpp tímamörk umsagnarfrests í svona mikilvægu máli. Bæjarstjóra er falið að koma sjónarmiðum Fjallabyggðar á framfæri.“
Ofangreind afgreiðsla bæjarráðs Fjallabyggðar tilkynnist hér með.
Bæjarráð Reykjanesbæjar bókaði eftirfarandi á fundi sínum nr. 1411 þann 23. mars 2023:
Unnið hefur verið um nokkurt skeið að endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með það að markmiði að bæta gæði jöfnunar og auka gagnsæi með einfaldari útreikningum og aðlögun að sveitafélagagerðum í dag. Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar ásamt skýrslu um vinnuna og þær forsendur sem lágu til grundvallar breytingartillögunum.
Bæjarráð Reykjanesbæjar fagnar þessari breytingu á regluverkinu og telur að þær stuðli að sanngjarnari og einfaldari útreikningi á jöfnunarframlögum.
Á 330. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn var 27. mars 2023 var samþykkt umsögn þar sem Bláskógabyggð gerir verulegar athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Framlög til sveitarfélagsins lækka um 145,9 millj.kr., eða um 96,3% verði frumvarpið að lögum. Lækkunin stafar af niðurfellingu fasteignaskattsframlags. Helstu athugasemdir Bláskógabyggðar við breytingarnar og þau markmið (megináherslur) sem tilgreind eru í frumvarpsdrögunum eru raktar í umsögninni sem er meðfylgjandi.
#9 Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi - 27.03.2023
Umsögn WOMEN In Iceland, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fagna tillögu að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Mikil þekking og faglegt starf er í skólakerfi Reykjavíkurborgar varðandi móttöku barna af erlendu uppruna. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu sem fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði vegna kennslu í íslensku í grunnskólum. Það er mikilvægt jafnréttismál fyrir þessi börn, og hagsmunamál fyrir samfélagið, að ríkisvaldið tryggi nægjanlegt fjármagn að veita þeim nauðsynlega þjónustu og stuðning varðar félagslega inngildingu sem tungumálakunátta er hluti af.