Umsagnarfrestur er liðinn (10.03.2023–30.03.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Markmið með endurskoðuninni er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Kynnt eru til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga. Síðustu ár hafa framlög úr Jöfnunarsjóði vegið u.þ.b. 13% af samanlögðum heildartekjum sveitarfélaga.
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 1990 og segja má að þá hafi sjóðurinn orðið til í núverandi mynd. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á sveitarfélagaskipan og hefur þeim fækkað úr 204 niður í 64. Á sama tíma hefur sjóðnum verið falin veigamikil hlutverk t.d. í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og málefni fatlaðs fólks. Sjóðurinn starfar því í gerbreyttu umhverfi og þarf umgjörð hans að endurspegla það.
Tillaga að breytingum á jöfnunarkerfinu
Í starfshópnum voru teknar til umfjöllunar ýmsar tillögur að breytingum á jöfnunarkerfinu. Tillaga starfshópsins er nýtt líkan sem leysir núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög af hólmi. Um er að ræða gagnsætt líkan sem sameinar ofangreind framlög í eitt framlag. Starfshópurinn var jafnframt sammála um eftirfarandi breytingar á jöfnunarkerfinu:
1. Nýtt jöfnunarframlag verði veitt vegna sérstakra áskorana sem skiptist í:
a. Framlag vegna sérstaks byggðastuðnings.
b. Framlag til sveitarfélaga með sérstakt höfuðstaðarálag.
2. Breytingar á framlögum vegna íslensku sem annað tungumál
Lagt er til að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál.
3. Vannýting útsvars dregin frá framlögum
Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.
Svo stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaganna leggur starfshópurinn til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili
Meðfylgjandi er umsögn Sveitarfélagsins Árborgar um gagngerar breytingar á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiÁ 40. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 22. mars 2023 var tekið fyrir mál til samráðs nr 64/2023, Endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og þannig bókað.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sem miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skattekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum en aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar, t.d. hvað varðar landstærð, fjölda þéttbýliskjarna, tekjugrundvöll o.fl. Með hliðsjón af nýju framlagi vegna höfuðstaðaálags vill byggðarráð minna á að nokkur sveitarfélög á landsbyggðinni eru í dag að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem einnig mætti taka tillit til.
F.h. byggðarráðs
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
Vísað er til tilkynningar í samráðsgátt frá 10. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögnum um drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.
Á 783. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar 21. mars 2023, var tekið fyrir neðangreint erindi:
2303042 - Gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Innviðaráðuneytið vekur athygli á því að í samráðsgátt stjórnvalda hafa verið kynntar gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Breytingarnar miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins. Þá er það markmið að umgjörð sjóðsins endurspegli og fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Eftirfarandi var bókað:
„Bæjarráð Fjallabyggðar mótmælir harðlega drögum að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshóps um endurskoðun á regluverki sjóðsins.
Verði drögin samþykkt óbreytt þá munu framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Fjallabyggðar minnka um 34.600.000 kr. og vandséð hvernig því yrði mætt án þess að til kæmi skerðing á þjónustu. Bæjarráð gerir því verulegar athugasemdir við tillögur að breytingum á regluverki sjóðsins og gagnrýnir harðlega knöpp tímamörk umsagnarfrests í svona mikilvægu máli. Bæjarstjóra er falið að koma sjónarmiðum Fjallabyggðar á framfæri.“
Ofangreind afgreiðsla bæjarráðs Fjallabyggðar tilkynnist hér með.
ViðhengiBæjarráð Reykjanesbæjar bókaði eftirfarandi á fundi sínum nr. 1411 þann 23. mars 2023:
Unnið hefur verið um nokkurt skeið að endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með það að markmiði að bæta gæði jöfnunar og auka gagnsæi með einfaldari útreikningum og aðlögun að sveitafélagagerðum í dag. Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar ásamt skýrslu um vinnuna og þær forsendur sem lágu til grundvallar breytingartillögunum.
Bæjarráð Reykjanesbæjar fagnar þessari breytingu á regluverkinu og telur að þær stuðli að sanngjarnari og einfaldari útreikningi á jöfnunarframlögum.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Akureyrarbæjar um tillögur um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiUmsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands um drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiÁ 330. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn var 27. mars 2023 var samþykkt umsögn þar sem Bláskógabyggð gerir verulegar athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Framlög til sveitarfélagsins lækka um 145,9 millj.kr., eða um 96,3% verði frumvarpið að lögum. Lækkunin stafar af niðurfellingu fasteignaskattsframlags. Helstu athugasemdir Bláskógabyggðar við breytingarnar og þau markmið (megináherslur) sem tilgreind eru í frumvarpsdrögunum eru raktar í umsögninni sem er meðfylgjandi.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Ísafjarðarbæjar um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, mál nr. 34/2023.
ViðhengiUmsögn WOMEN In Iceland, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fagna tillögu að Reykjavíkurborg fá greidd framlög vegna kennslu nemenda með íslensku sem annað tungumál. Mikil þekking og faglegt starf er í skólakerfi Reykjavíkurborgar varðandi móttöku barna af erlendu uppruna. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið á landinu sem fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði vegna kennslu í íslensku í grunnskólum. Það er mikilvægt jafnréttismál fyrir þessi börn, og hagsmunamál fyrir samfélagið, að ríkisvaldið tryggi nægjanlegt fjármagn að veita þeim nauðsynlega þjónustu og stuðning varðar félagslega inngildingu sem tungumálakunátta er hluti af.
Umsögn um breytt regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í viðhengi. Lagt fram í nafni Súðavíkurhrepps.
ViðhengiUmsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er í viðhengi.
ViðhengiÁ fundi byggðaráðs Múlaþings, 28. mars 2023, var gerð eftirfarandi umsögn og bókun um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga:
Fyrir liggja í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar gagngerar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er miða að því að bæta gæði jöfnunar og einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins auk þess að umgjörð sjóðsins endurspegli og fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Eftirfarandi tillaga að bókun lögð fram:
Byggðaráð Múlaþings fagnar því að unnið sé að bætingu gæða jöfnunar, einföldun útreikninga og skipulags sem og að Jöfnunarsjóðnum skuli ætlað að fylgja þróun sveitarfélagagerðarinnar. Byggðaráð Múlaþings styður þær áherslur er fram koma í drögum að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarstjóra falið að koma bókun byggðaráðs á framfæri í samráðsgátt stjórnvalda.
ViðhengiUmsögn Vestmannaeyjabæjar
Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja nr. 3192, sem haldinn var þann 23. mars sl., samþykkti bæjarráð drög þar sem Vestmannaeyjabær gerir athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Með frumvarpinu munu framlög til Vestmannaeyjabæar lækka um 180 m.kr., verði það að lögum. Lækkunin stafar að mestu leyti af niðurfellingu fasteignaskattsframlags. Vestmannaeyjabær leggst gegn tillögu innviðaráðherra um endurskoðun regluverks á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eins og hún liggur fyrir í Samráðsgátt stjórnvalda og telur þörf á að hún þurfi að breytast í grundvallaratriðum áður en hún verðu lögð fram. Helstu athugasemdir Vestmannaeyjabæar eru raktar í meðfylgjandi umsögn.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Eyja- og Miklaholtshrepps um drög að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps.
ViðhengiEndurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
– frumvarp til laga – þingskjal 64/2023 153. löggjafarþing 2022-2023.
Umsögn Strandabyggðar.
Með þeirri ákvörðun að falla frá kröfu um lágmarksstærð sveitarfélaga í 1000 íbúa, má ætla að löggjafinn líti þá þannig á, að til séu og verði sveitarfélög undir þeirri stærð. Þar með má líka líta svo á, að löggjafanum sé skylt að virða tilvistar- og ákvörðunartökurétt þeirra er varðar sjálfstæði þeirra og farsæld. Hluti af því sjálfstæði ætti að vera réttur sveitarfélaga til sameininga sveitarfélaga á eigin forsendum og hraða. Ef ekki, ætti löggjafinn að kveða fastar að orði og draga skýrar línur hvað óskir eða kröfur um lágmarksstærð og sameiningar varðar. Öll umræða nú um þessar breytingar á lagaumhverfinu, fela í sér leynda lausn á vanda minni sveitarfélaga; sameiningar.
Sveitarstjórn Strandabyggðar telur sjálfsagt og eðlilegt að endurskoða lög sem komin eru til ára sinna og sem eru ekki lengur talin sinna upprunalegu hlutverki sínu. Í skýrslu starfshóps kemur fram, að verulegar breytingar voru gerðar á regluverki sjóðsins árið 1990 og þá varð hann í raun til í þeirri mynd sem birtist í dag. Það er því rökrétt að endurskoðunar er þörf, en sú endurskoðun má þó ekki vera til þess fallin að skapa ný vandamál, skerða frekar tilvistargrunn sveitarfélaga og draga úr þeirra sjálfstæði og getu til ákvörðunartöku. Í skýrslu starfshópsins koma fram markmið endurskoðunarinnar. Markmiðin eru hér undirstrikuð, annar texti er umsögn Strandabyggðar:
1. Að sjóðurinn fylgi þróun sveitarstjórnarstigsins. Þar má sjá að sveitarfélögum hefur fækkað á tímabilinu frá 1990 úr 204 í 64
2. Að sjóðurinn styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum sem eru með flóknar útgjaldaþarfir. Skilgreiningar um hvað teljist til meðalstórra sveitarfélaga og hvað eru flóknar útgjaldaþarfir, fylgja ekki með
3. Að í regluverki sjóðsins séu innbyggðir hvatar til sameininga sveitarfélaga. Ætla má að helsti hvatinn sé sá, að sveitarfélög sem fá skerðingu á framlögum sjái engan annan kost en að sameinast öðrum í sömu sporum. Sé það hvatinn, þá er hann tilkominn vegna ósjálfstæðis, og ósjálfbærni, sem geta vart talist heppilegar forsendur til sameiniga og er beinlínis á skjön við markmið 4. um sjálfbærni sveitarfélaga
4. Að regluverkið stuðli enn frekar að sjálfbærni sveitarfélaga. Strandabyggð telur, að með þessum nýju reglum minnki líkur á sjálfbærni minni sveitarfélaga. Líkur á að hægt sé að veita lögbundna þjónustu þegar tekjur skerðast, aukast ekki heldur minnka
5. Að sjóðurinn styðji við veikari byggðir með sérstökum framlögum. Hér er sjálfsagt átt við þann byggðapott sem nefndur er til sögunnar og á að vera á forræði Byggðastofnunar. Er gert ráð fyrir að sjóðurinn telji 160 milljónir í byrjun en vaxi í 500 milljónir á næstu 3-4 árum, ef rétt er skilið. Ekki stendur til að breyta eða endurskilgreina hlutverk Byggðastofnunar hvað þetta hlutverk varðar. Ekki er talin ástæða til að skapa Byggðastofnun þann fjárhagslega grundvöll sem þarf til að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Og ekki er sett fram með skýrum hætti, hvað felst í því að vera „veikburða byggð“, né hvers konar útgjaldaþörf á rétt á framlögum úr pottinum
6. Að sjóðurinn styðji við sveitarfélög sem talin eru sinna höfuðstaðahlutverki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Var sjóðnum ekki upphaflega ætlað það hlutverk að jafna stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu?
7. Að framlög vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál taki mið af þróun málaflokksins og að sveitarfélög njóti sama réttar til framlaga. Sjálfsagt mál. Ætti þó hugsanlega að vera hluti af almennri kennslu sem fjámögnuð er af sveitarfélögunum
8. Að leiðarljós breytinganna verði einföldun regluverks og aukið gagnsæi. Í skýrslunni kemur fram að einföldunin felist m.a. í fækkun þeirra breyta sem stuðst er við þegar framlög eru ákvörðun. Það er vissulega einföldun að fækka breytum, en þá þurfa þær breytur sem stuðst er við, að ná utan um raunveruleikann eins og hann er á hverjum tíma.
Sé litið á þær breytingar sem verða á breytum sjóðsins, þá detta nú út eftirtaldar breytur: tekjujöfnunarframlag, fasteignaskattsframlag og útgjaldajöfnunarframlag og í staðin koma eða standa eftir breytur varðandi: jöfnun vegna ólíkra tekjumöguleika og jöfnun vegna ólíkrar útgjaldaþarfar.
Í seinni breytunni, fer aldursskipting íbúa að skipta meira máli en raunverulegur kostnaður við hvern aldurshóp. Í Strandabyggð eru t.d. nú 24 nemendur í leikskóla og þeim gæti fækkað í um 20 á næsta skólaári. Það mætti því ætla að útgjaldaþörf minnki við þessa fækkun, en það er þó ekki endilega þannig, sé horft á rekstur leikskólans í heild. Framundan eru verulegar fjárfestingar í nýrri leikskólalóð, leiktækjum og búnaði, sem kominn er tími á að endurnýja. Þessi kostnaður er staðreynd, óháð fjölda nemenda. Það er óskandi að hið nýja líkan taki mið af þessum raunveruleika, en vandséð er þó að svo verði.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt markmiði 5. á að styðja veikari byggðir sérstsaklega. Það kemur þó ekki fram neitt er snýr að skilgreiningum á hugtökum, flokkun þessa styrks eða umfang. Á kynningarfundi fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum nýlega, kom þó fram að þessum byggðapotti er ætlað það hlutverk að bæta kostnað eða útgjöld sem líkanið nær ekki yfir. Engin nákvæm útlistun er þó til hvað varðar þennan stuðning, umfram það að kostnaður vegna mygluvanda, t.d. í skólabyggingum, fellur ekki undir útgjaldaliði sem potturinn á að dekka. Grunnskólinn í Strandabyggð hefur verið ónothæfur síðan í lok nóvember 2022 vegna myglu og framundan er hundruð milljóna uppbygging. Nú er ljóst að þessi pottur á ekki að veita fjármagni í slíka uppbyggingu.
Lokaorð
Hvert sveitarfélag þarf að horfa á sinn raunveruleika og sína aðstöðu og meta tillögur um breytingar á lagaramma Jöfnunarsjóðs út frá því. Strandabyggð er sveitarfélag sem hefur þurft að gera samning við innviðaráðherra um fjárhagslegan stuðning frá árinu 2020 vegna slæmrar fjárhagsstöðu. Sá samningur rennur að öllu óbreyttu út á þessu ári. Við blasir mikil innviðaskuld í sveitarfélaginu frá fyrri tíð. Var því lagt upp með framkvæmdaáætlun upp á um 170 milljónir á árinu 2023. Þá upphæð átti að nýta í gatnagerð, viðhald á eignum, tækjakaup ofl. Í öðru samhengi er þetta verð á raðhúsi á höfuðborgarsvæðinu. Upphæðirnar eru sannarlega afstæðar í lífinu.
Við blasir síðan hundruð milljóna kostnaður við uppbyggingu grunnskólans, sem leggst ofan á framkvæmdir vegna innviðaskuldar. Skerðingin á framlögum til Strandabyggðar nemur 73 milljónum á næstu 3 árum. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá, að þessi staða er óyfirstíganleg og engin lausn sjáanleg í fyrstu. Nema þá hin leynda lausn, sem þó er ekki svo leynd í allri umfjöllun um þessar breytingar; sameining sveitarfélaga.
Eins og kemur fram hér framar varðandi markmið 3., þá eiga að vera í regluverkinu, innbyggðir hvatar til sameininga sveitarfélaga. Það er hins vegar vandséð, að sveitarfélög sem glíma við fjárhagsvanda, séu í raun álitlegur sameiningarkostur. Með þrýstingi til sameininga er verið að ýta sveitarfélögum út í vegferð sem þau hafa ekki endilega forsendur í. Hvað Strandabyggð varðar, þá er ljóst að í næsta nágrenni eru sveitarfélög sem öll glíma við miklar áskoranir í sömu málaflokkum eins og skólarekstri, félagsþjónustu, fráveitumálum, samgöngumálum ofl. Vandi þessara sveitarfélaga til lengri tíma væri því óleystur, þó til kæmu greiðslur úr sameiningarsjóðum stjórnvalda til skemmri tíma. Innviðavandi sameinaðs sveitarfélags væri eftir sem áður staðreynd og vandanum þannig ýtt áfram inn í framtíðina.
30.3.23
Fyrir hönd sveitarstjórnar Strandabyggðar,
Þorgeir Pálsson
Oddviti/sveitarstjóri.
Meðfylgjandi er umsögn Fjarðabyggðar um gagngerar breytingar á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Bæjarráð Fjarðabyggðar telur tillögurnar tímabærar og telur þær bæði nauðsynlegar og sanngjarnar.
ViðhengiKæra Innviðaráðuneyti,
Í viðhengi eru ábendingar Félags fornleifafræðinga um endurskoðun á jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Virðingafyllst,
Gylfi Helgason, f.h. stjórnar Félags fornleifafr.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Suðurnesjabæjar um gagngerar breytingar á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á fundi borgarráðs 30. mars 2023.
ViðhengiUmsögn Garðabæjar vegna tillagna að breytingum á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Viðhengi Viðhengi ViðhengiHjálögð er umsögn frá Hafnarfjarðarkaupstað vegna tillagna að breytingum á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn byggðarráðs Norðurþings sem samþykkt var á fundi þann 30. mars 2023.
ViðhengiSveitarstjórn Kjósarhrepps leggst eindregið gegn drögum að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem nú liggja í samráðgátt.
Verði drögin samþykkt óbreytt þá munu framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Kjósarhrepps nánast þurrkast út. Sveitarfélagið er fámennt og dreifbýlt en þarf þó að veita sambærilega þjónustu við sína íbúa og stærri sveitarfélög sem og að vinna þau verkefni sem hið opinbera leggur þeim á herðar í síauknum mæli.
Dreifbýli fylgir aukinn kostnaður sem taka þarf tillit til, svo sem við snjómokstur og sorphirðu. Verði þetta frumvarp að lögum er ljóst að sveitarfélagið neyðist til að draga úr þjónustu við íbúa og er vandséð hvernig því yrði komið við. Lækkunin til Kjósarhrepps stafar að mestu leyti af niðurfellingu fasteignaskattsframlags.
ViðhengiUmsögn Kópavogsbæjar í fylgiskjali
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Landsvirkjunar.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Dalabyggðar vegna tillagna að breytingum á regluverki um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
ViðhengiSjá meðfylgjandi skjöl.
Virðingarfyllst,
F.h. Akraneskaupstaðar
Steinar Adolfsson, sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs.
Viðhengi ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
ViðhengiEfni: Umsögn Þingeyjarsveitar um tillögur um breytingu á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
Í samráðsgátt stjórnvalda er að finna mál nr. 64/2023 um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og umsagnarfrestur veittur til 30. mars nk. Í samráðsgátt kemur fram að markmiðið með endurskoðuninni sé að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.
Áherslur stjórnvalda hafa verið að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta enn frekar þjónustu við íbúa, m.a. með sameiningu sveitarfélaga.
Þingeyjarsveit varð til við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar í maí 2022. Við sameininguna varð til landmesta sveitarfélag á Íslandi með rúmlega 1400 íbúa og flókna útgjaldaþörf. Vegalengdir innan sveitarfélagsins eru miklar og því verður útgjaldaþörfin mun flóknari en í þéttbýlli sveitarfélögum af sambærilegri stærð. Vegna mikilla vegalengda innan sveitarfélagsins er ekki
möguleiki á að færa tilteknar rekstrareiningar undir eitt þak. Þingeyjarsveit rekur þrjá skóla, fjórar leikskóladeildir, tónlistardeildir á þrem stöðum, tvær íþróttamiðstöðvar og tvær slökkvistöðvar. Í sveitarfélaginu eru tveir byggðakjarnar í Reykjahlíð og á Laugum. Smærri íbúakjarnar eru við Þingeyjarskóla í Aðaldal og Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði auk víðfeðmra dreifðra byggða, frá fjöru til fjalla. Ef frumvarpið verður að lögum lækka framlög til Þingeyjarsveitar um 27,7% eða um tæpa 61 milljón króna á ári. Þingeyjarsveit gerir þónokkrar athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Samkvæmt fyrirliggjandi drögum er gert ráð fyrir að stuðull vegna snjómoksturs byggi á kílómetrum innan þéttbýlis. Ekki er gert ráð víðfeðmum sveitarfélögum með stóran hluta vegakerfis í helmingamokstri á móts við Vegagerðina, líkt og er í Þingeyjarsveit.
Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að skerðing vegna sértekna sveitarfélaga sé 0,8 á móti hverri krónu í sjálfsaflatekjur. Þingeyjarsveit telur skerðingu vegna sjálfsaflatekna vera of mikla á skömmum tíma og þurfa sveitarfélögin lengri aðlögunartíma ef áform um breytingar ganga eftir.
Í frumvarpsdrögunum þar sem fjallað er um mat á áhrifum frumvarpsins kemur fram að með þessari breytingu á regluverki Jöfnunarsjóðs muni sjóðurinn styðja betur við bakið á millistórum sveitarfélögum sem eru með flóknar útgjaldaþarfir. Jafnframt segir að í regluverki sjóðsins verði innbyggðir hvatar til sameiningar sveitarfélaga. Ef markmiðið með frumvarpsdrögunum er að hvetja til frekari sameininga sveitarfélaga þá skýtur skökku við að framlög til nýsameinaðs sveitarfélags skerðist um 27,7%, en leiða mætti líkur að því að sveitarfélögin hefðu ekki fengið jafn miklar skerðingar ein og sér.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs er að gera ráð fyrir mismunandi gerð sveitarfélaga .s.s. hvað varðar landfræðilega stærð þeirra. Í umræddum frumvarpsdrögum virðist ekki vera nóg gert til að koma til móts við flóknar útgjaldaþarfir í víðfeðmum sveitarfélögum.
F.h. Þingeyjarsveitar.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins
ViðhengiUmsögn um frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn frá Bæjarstjóra Seltjarnarness.
ViðhengiEndurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga - frumvarp til laga – þingskjal 64/2023
Umsögn hreppsnefndar Skorradalshrepps um tillögu um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hreppsnefnd Skorradalshrepps mótmælir harðlega tillögum um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Skorradalshreppur er einn fárra sveitarfélaga á landinu sem hefur ekki fengið greiðslur úr Jöfnunarsjóði og verður svo áfram samkvæmt tillögum. Í því fellst engin Jöfnuður. Við hvetjum því til að tillagan verði endurskoðuð með það að markmiðið að tryggja jöfnuð allra sveitarfélaga landsins óháð stærð og staðsetningu.
Öll sveitarfélög þurfa að hafa slökkvilið, skóla, leikskóla o.s.frv. hvort sem þau reka það sjálf eða kaupa þjónustuna.
f.h. hreppsnefndar Skorradalshrepps
Jón Einarsson, oddviti.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps.
ViðhengiSjá meðfylgjandi skjal.
bkv. stjórn Móðurmáls - samtaka um tvítyngi
ViðhengiByggðarráð Rangárþings eystra fagnar þessari breytingu á regluverkinu og telur að þær stuðli að sanngjarnari og einfaldari útreikningi á jöfnunarframlögum. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum en aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar.
Sjá umsögn Hrunamannahrepps í viðhengi.
Viðhengi