Umsagnarfrestur er 14.03.2023–04.04.2023.
Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn
Drög að nýrri reglugerð um vinnslu fjárhagsupplýsingastofa á upplýsingum um fjárhagsmálefni og lánstraust í því skyni að miðla þeim til annarra.
Í persónuverndarlögum er áskilið að ráðherra setji reglugerð þar sem nánar er mælt fyrir um vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila, þ.m.t. vanskilaskráningu og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra. Um vinnslu þessara upplýsinga gilda nú persónuverndarlög og gildandi reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Gildandi reglugerð var sett á grundvelli eldri persónuverndarlaga og þykir um margt úrelt enda endurspeglar hún ekki ríkari ábyrgðarskyldur ábyrgðaraðila í samræmi við nýja persónuverndarlöggjöf auk þess sem ákvæði hennar setja umfangsmikilli vinnslu persónuupplýsinga hjá fjárhagsupplýsingastofum ekki nægilega skýran ramma. Hefur það m.a. leitt til þess að Persónuvernd hefur sett ítarlega skilmála í starfsleyfi sín, m.a. um hvaða vinnsla er heimil á vegum fjárhagsupplýsingastofa. Þykir betur fara á því að mælt sé fyrir um slík atriði með almennum ákvæðum í reglugerð.
Í drögum að nýrri reglugerð er leitast við að setja skýran ramma um vinnslu umræddra upplýsinga, sem tekur mið af meginreglum persónuverndarlöggjafarinnar. Þær kveða á um að við alla vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnu og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, að þær séu ekki varðveittar lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar og að viðeigandi öryggi þeirra sé tryggt. Í drögunum er einnig lögð áhersla á ábyrgðarskyldur fjárhagsupplýsingastofa, m.a. áréttað að þær þurfi, á hverjum tíma, að geta sýnt fram á að framangreindum meginreglum sé fylgt í hvívetna.
Þá er í drögunum byggt á því að ekki eigi að setja fjárhagsupplýsingastofum of þröngar skorður við vinnsluna, umfram það sem leiða má af framangreindum meginreglum og öðrum ákvæðum persónuverndarlöggjafarinnar, heldur leitast fremur við að tryggja eftirfylgni við löggjöfina með áherslu á ábyrgðarskyldur fjárhagsupplýsingastofa og eftirlitshlutverk Persónuverndar.
Reglugerðinni er skipt í sex kafla:
I. Markmið, gildissvið og skilgreiningar
II. Starfsskilyrði fjárhagsupplýsingastofu (starfsleyfi fjárhagsupplýsingastofu, samningur hennar við áskrifanda, almennar reglur um heimila vinnslu)
III. Skrár fjárhagsupplýsingastofu (skrá um opinberar gjörðir og vanskilaskrá)
IV. Skýrsla um lánshæfi
V. Réttindi skráðra einstaklinga og lögaðila
VI. Lagastoð og gildistaka
Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.
Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.