Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.–20.3.2023

2

Í vinnslu

  • 21.3.2023–

Samráði lokið

Mál nr. S-67/2023

Birt: 13.3.2023

Fjöldi umsagna: 44

Drög að frumvarpi til laga

Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegur og fiskeldi

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu)

Málsefni

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til breytinga á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða ásamt mati á áhrifum lagasetningarinnar.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu en fram til þessa hefur stjórn veiða á grásleppu verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu. Stjórn grásleppuveiða hefur á undanförnum árum sætt gagnrýni fyrir að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg fyrir þá sem stunda veiðarnar. Með frumvarpinu er því lagt til úthluta skipum aflahlutdeild í grásleppu. Megintilgangur frumvarpsins er að auka fyrirsjáanleika við veiðarnar og tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Sambærilegt mál var flutt á 151. þingi (2020-2021), þingskjal 626 – 419. mál, en þá einnig með veiðistjórn sandkola og hryggleysingja.

Í drögum frumvarpsins er lagt til að lögfesta staðbundin veiðisvæði grásleppu og er gert ráð fyrir að afmarka svæðin í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Afmörkun svæðanna og lega þeirra er sú sama og mælt er fyrir um í núgildandi reglugerð um hrognkelsaveiðar. Þá er mælt fyrir um að hlutdeildarsetja grásleppu og að aflahlutdeild einstakra skipa skuli ákveðin með tilliti til veiðireynslu á afmörkuðu tímabili. Í ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða er lagt til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða, þar sem við úthlutun aflahlutdeildar skuli litið til veiðireynslu þriggja síðustu veiðitímabila. Þess í stað er lagt til að veiðireynsla báta sem hafa stundað grásleppuveiðar verði metin út frá þremur bestu veiðitímabilum af sex, frá og með árinu 2014 til og með árinu 2019. Ástæða þess að lagt er til að miða við þrjú bestu veiðitímabilin á þessum sex árum eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár. Þá eru aflabrögð misjöfn á milli ára og eftir svæðum. Sá mismunur jafnast út með lengra viðmiðunartímabili. Því er í frumvarpinu litið til lengri viðmiðunartíma og málefnalegra sjónarmiða við úthlutun aflahlutdeildar í grásleppu.

Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að framsal aflahlutdeilda í grásleppu og flutningur aflamarks í grásleppu á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimilt. Í undantekningartilvikum getur Fiskistofa heimilað flutning aflamarks milli staðbundinna svæða en aðeins ef náttúrulegar aðstæður breytast verulega á einu staðbundnu veiðisvæði, svo sem ef aflabrestur verður. Þar með verði tryggt að aflaheimildir hverfi ekki af tilteknum svæðum en samt sem áður verði möguleiki til hagkvæmari veiða innan staðbundinna veiðisvæða.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um að samanlögð aflahlutdeild fiskiskipa í grásleppu, í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila, nemi aldrei hærra hlutfalli af heildaflahlutdeild í grásleppu en 2%.

Bent hefur verið á að ekki hefur orðið mikil nýliðun í grásleppuveiðum síðast liðin 10 ár þrátt fyrir að kostnaður við að hefja veiðar sé ekki hár. Ef hlutdeildarsetning leiðir til aukinnar hagkvæmni í greininni er hugsanlegt að verðmæti aflaheimilda muni aukast og því verði kostnaðarsamara að hefja grásleppuveiðar, verði frumvarpið að lögum. Í frumvarpinu er því lagt til að ráðherra verði verði heimilt að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem eru að hefja grásleppuveiðar í fyrsta skipti. Gert er ráð fyrir að úthlutun á aflamarki til nýliða verði til eins árs í senn en unnt að fá úthlutað í nokkur ár í röð og að þeim tíma liðnum hafi viðkomandi útgerð/sjómanni tekist að kaupa sér aflahlutdeild til grásleppuveiða. Þá er mælt fyrir um að úthlutun til nýliða verði gjaldfrjáls að undanskildu greiðslu veiðigjalda og þjónustugjalda. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra skuli mæla nánar fyrir um úthlutun aflamarks til nýliða í reglugerð, þar sem sett verði frekari skilyrði um úthlutunina, skilgreint hverjir geti talist nýliðar, ákvæði um hámarksafla og ráðstöfun aflamarks sem ekki er úthlutað. Lagt er til að Fiskistofa haldi utan um framkvæmd úthlutunar á aflamarki til nýliða.

Málið er á þingmálaskrá og áætlað er að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi í lok mars 2023. Lagt er til í frumvarpinu að gildistaka laganna verði 1. september 2023, verði það að lögum og þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu miðast við veiðitímabil grásleppu vorið 2024. Þá gefst svigrúm til að undirbúa hlutdeildarsetninguna, setja reglugerðir og innleiða breytingarnar með góðum fyrirvara fyrir þá sem stunda grásleppuveiðar sem og Fiskistofu.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa sjávarútvegs

mar@mar.is