Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.–23.3.2023

2

Í vinnslu

  • 24.3.2023–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-68/2023

Birt: 13.3.2023

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Afnám banns við framleiðslu áfengis til einkaneyslu (heimabruggun)

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á áfengislögum þannig að heimilt verði að framleiða áfengi til einkaneyslu með ákveðnum takmörkunum.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið felur í sér afnám við banni á framleiðslu áfengis til einkaneyslu á áfengi sem inniheldur ekki meira en 21% af hreinum vínanda að rúmmáli. Samkvæmt framangreindu er lagt til að ekki verði lengur refsivert fyrir einstaklinga að framleiða áfengi, að því gefnu að framleiðslan sé einungis til einkaneyslu og að ekki sé um að ræða framleiðslu á sterku áfengi. Þá verði framleiðsla á áfengi til einkaneyslu, með framangreindum hætti, ekki heldur leyfisskyld ólíkt framleiðslu í atvinnuskyni sem ætluð er til sölu og dreifingar.

Við gerð frumvarpsins var meðal annars horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum þar sem almennt er heimilt að framleiða áfengi til einkaneyslu ef áfengið inniheldur ekki meira en 22% af hreinum vínanda að rúmmáli.

Á undanförnum árum hefur orðið til rík menning heimabruggunar, þá sérstaklega á bjór, samhliða vexti handverksbrugghúsa, sem starfa um land allt. Félög hafa verið stofnuð utan um heimabruggun áfengis til einkaneyslu, námskeið um slíka bruggun hafa verið auglýst opinberlega og almenn umræða átt sér stað fyrir opnum tjöldum um athæfið. Almenningur virðist lítt upplýstur um að heimabruggun áfengis til einkaneyslu feli í sér refsiverðan verknað, sem bendir til þess að réttarvitund almennings kunni að vera á skjön við hið lögfesta og fortakslausa bann í 4. gr. áfengislaga. Með vísan til framangreinds er talið tímabært að aflétta banni við framleiðslu áfengis til einkaneyslu og heimila slíka framleiðslu upp að ákveðnu marki.

Frumvarpið er ekki talið vera andstætt þeirri stefnu sem ríkt hefur um áfengismálefni hér á landi. Sem fyrr segir þá er framleiðsla áfengis til einkaneyslu víða stunduð á Íslandi þrátt fyrir gildandi bann og því ófyrirséð hvort slík framleiðsla muni aukast verði bannið afnumið. Umrætt bann virðist hafa takmörkuð varnaðaráhrif í dag.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa almanna- og réttaröryggis

dmr@dmr.is