Samráð fyrirhugað 13.03.2023—23.03.2023
Til umsagnar 13.03.2023—23.03.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 23.03.2023
Niðurstöður birtar

Afnám banns við framleiðslu áfengis til einkaneyslu (heimabruggun)

Mál nr. 68/2023 Birt: 13.03.2023 Síðast uppfært: 14.03.2023
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (13.03.2023–23.03.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Lagðar eru til breytingar á áfengislögum þannig að heimilt verði að framleiða áfengi til einkaneyslu með ákveðnum takmörkunum.

Frumvarpið felur í sér afnám við banni á framleiðslu áfengis til einkaneyslu á áfengi sem inniheldur ekki meira en 21% af hreinum vínanda að rúmmáli. Samkvæmt framangreindu er lagt til að ekki verði lengur refsivert fyrir einstaklinga að framleiða áfengi, að því gefnu að framleiðslan sé einungis til einkaneyslu og að ekki sé um að ræða framleiðslu á sterku áfengi. Þá verði framleiðsla á áfengi til einkaneyslu, með framangreindum hætti, ekki heldur leyfisskyld ólíkt framleiðslu í atvinnuskyni sem ætluð er til sölu og dreifingar.

Við gerð frumvarpsins var meðal annars horft til lagasetningar annars staðar á Norðurlöndunum þar sem almennt er heimilt að framleiða áfengi til einkaneyslu ef áfengið inniheldur ekki meira en 22% af hreinum vínanda að rúmmáli.

Á undanförnum árum hefur orðið til rík menning heimabruggunar, þá sérstaklega á bjór, samhliða vexti handverksbrugghúsa, sem starfa um land allt. Félög hafa verið stofnuð utan um heimabruggun áfengis til einkaneyslu, námskeið um slíka bruggun hafa verið auglýst opinberlega og almenn umræða átt sér stað fyrir opnum tjöldum um athæfið. Almenningur virðist lítt upplýstur um að heimabruggun áfengis til einkaneyslu feli í sér refsiverðan verknað, sem bendir til þess að réttarvitund almennings kunni að vera á skjön við hið lögfesta og fortakslausa bann í 4. gr. áfengislaga. Með vísan til framangreinds er talið tímabært að aflétta banni við framleiðslu áfengis til einkaneyslu og heimila slíka framleiðslu upp að ákveðnu marki.

Frumvarpið er ekki talið vera andstætt þeirri stefnu sem ríkt hefur um áfengismálefni hér á landi. Sem fyrr segir þá er framleiðsla áfengis til einkaneyslu víða stunduð á Íslandi þrátt fyrir gildandi bann og því ófyrirséð hvort slík framleiðsla muni aukast verði bannið afnumið. Umrætt bann virðist hafa takmörkuð varnaðaráhrif í dag.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Andri Eiríksson - 14.03.2023

Afnám á refsingu við framleiðslu á vægu fíkniefni í heimahúsi til einkaneyslu er skynsamlegt og eðlilegt.

Það er ánægjulegt að vita að sú forræðishyggja sem hefur mengað allar ákvarðanir stjórnvalda hvað varðar ávanabindandi efni verði ef til vill beisluð, þessi sama forræðishyggja og olli bjórbanninu sem er í hávegum höfð af þeim sem fara með völd hér á landi. Yfirstéttin vill enn hafa vit fyrir almenningi og taka ákveðnar ákvarðanir okkar hönd. Ég afþakka það pent og bið um valdið til að hafna af eigin sjálfsdáðun, sem ég geri.

Þótt ég myndi hvorki kaupa né brugga áfengi sjálfur óska ég þeim sem kjósa þann lífstíl góðs gengis.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hrafnkell Freyr Magnússon - 15.03.2023

Undirritaður rekur verslun þar sem ég sel hráefni og búnað til framleiðslu á bjór. Stór hluti viðskiptavina minna eru heimabruggarar. Verslun mín og þekking er sérsniðin að heimagerðum bjór og því læt ég duga að ræða aðeins heimagerðan bjór en ekki annað heimagert áfengi.

Heimabruggun á bjór er áhugamál sem hundruðir stunda hér á landi, sumir í leynd af ótta við þá staðreynd að heimabrugg er ólöglegt á Íslandi með ríflegum refsiramma. Bjórgerð í heimahúsum snýst ekki um framleiðslu á ódýru áfengi. Bjórgerð er margslungið áhugamál þar sjálfráða einstaklingar leggja alúð og metnað í eigin handverk þar sem saman kemur hugmyndaauðgi, þekking og reynsla. Mikill metnaður er lagður í gæði umfram magn og hafa

keppnir um besta heimagerða bjórinn verið haldnar undanfarin ár af fágun, félagi áhugamanna um gerjun.

Því hefur oft verið borið fyrir að það hafi enginn haft áhuga á að breyta lögunum því þetta virki ágætlega eins og er; lögunum sé ekki framfylgt og því taki því ekki að breyta þeim. Núna finnst mér kominn tími til að gera áhugamál margra íslendinga löglegt og því styð ég þetta frumvarp heilshugar.

Fyrir hönd Hlekkir sf / Brew.is

Hrafnkell Freyr Magnússon

Eigandi

Afrita slóð á umsögn

#3 Dagur Helgason - 23.03.2023

Undirritaður er heimabruggari.

Heimur bruggsins er heillandi, spennandi, flókinn og fallegur. Það að umbreyta korni, ávöxtum, hunangi eða öðru slíku í sætan vökva sem svo er færður örsmáum verum sem útbúa gómsætar veigar fyrir okkur er upplifun sem er töfrum líkust. Það að upplifa þetta krefst ákveðins aga, nákvæmni, þolinmæði og síðast en ekki síst meiri hreinlætisvitundar en nokkurn hefði órað fyrir.

Líkt og annar útbúnaður á mat og drykk er fólk mistilbúið til þess að gera þetta sjálft. Það hafa ekki allir þolinmæði í að rækta upp súr til að setja í brauð eða til þess að fara út í berjamó til þess að tína ber í sultu. Fólk sem ekki hefur þolinmæði í að gera þessa hluti einfaldlega kaupir þá í verslunum landsins. Sumir vilja baka súkkulaði köku á sunnudögum en aðrir vöfflur eða jafnvel kleinur og allir eru með sína útfærslu á þessu, sem gerir heimagerðu vöruna einstaka (og að sjálfsögðu betri í huga þess sem gerir hana). Heimabrugg er ekkert frábrugðið þessu, sumir vilja útbúa létta lager bjóra, aðrir bragðmeiri IPA bjór og enn aðrir kolsvarta, tunnuþroskaða stout bjóra, en í öllum tilfellum eru þessir bjórar lagaðir að bragðlaukum bruggara og því að sjálfsögðu betri en nokkur vara sem hægt væri að kaupa (a.m.k. í huga bruggaranna).

Ólíklegt verður að teljast að þátttaka í áhugamálinu hafi í för með sér óhóflega drykkju en stærsta vandamál flestra heimabruggara er að þeir vilja helst brugga meira en þeir vilja drekka og eiga þeir flestir því oftast til bjór. Þeir sem þekkja til alkóhólisma vita það að á heimilum þar sem einstaklingur hefur ekki stjórn á sinni drykkju er allt áfengi drukkið jafn óðum og það kemur inn og er þetta þver öfugt við mína upplifun af heimabruggurum.

Eins verður að teljast ólíklegt að lögleiðing hafi í för með sér aukna unglingadrykkju en þeir sem hafa eytt vikum eða mánuðum í að útbúa dýrindis veigar eru harla ólíklegir til að afhenda þær unglingum sem hafa lítið vit á veigunum og eru eingöngu að sækjast eftir áhrifum vínandans. Ef aðili ætlar að framleiða áfengi fyrir þann markhóp sem unglingar, sem í flestum tilfellum væru bara að sækjast eftir vínanda, eru þá er eingöngu ein vara sem er rökrétt að framleiða, en það er landi. Landi er ódýr, fljótlegur og einfaldur í framleiðslu. En með áframhaldandi banni á eimingu er hætta á slíkri framleiðslu lágmörkuð.

Heimabrugg snýst fyrst og fremst um að fá frelsi til að skapa þá upplifun sem hverjum og einum hugnast. Það að banna slíkt á meðan áfengi er löglegt er í besta falli kjánalegt, því ég fagna því verið sé skoða það að breyta þessum hluta laganna án þess að blanda öðrum, og mögulega umdeildari, breytingum saman við.

Dagur Helgason

Heimabruggari, ríkisstarfsmaður, verkfræðingur og nörd.