Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 4.4.–2.5.2023

2

Í vinnslu

  • 3.5.2023–7.2.2024

3

Samráði lokið

  • 8.2.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-77/2023

Birt: 4.4.2023

Fjöldi umsagna: 20

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi

Niðurstöður

Ný reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi nr. 856/2023, hlaut gildistöku 17. ágúst 2023.

Málsefni

Kynnt eru drög að nýrri reglugerð þar sem reglur um sérnám lækna hafa verið endurskoðaðar og skilgreindar nánar hvað varðar umgjörð og skipulag.

Nánari upplýsingar

Í framhaldi af skýrslu starfshóps um sérnám lækna og framtíðarmönnum skipaði heilbrigðisráðherra vinnuhóp sem falið var að endurskoða reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Hlutverk vinnuhópsins var að endurskoða og skilgreina nánar umgjörð og stjórnskipulag sérnáms í læknisfræði hér á landi. Hópurinn hafði Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 til hliðsjónar og kallaði til sín sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum, t.d. Mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna.

Vinnuhópinn skipuðu:

Tómas Þór Ágústsson, læknir og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, formaður hópsins

Runólfur Pálsson, læknir og forstjóri Landspítala

Gunnar Thorarensen, læknir, tiln. af Læknafélagi Íslands, yfirlæknir sérnáms á Landspítala

Elínborg Bárðardóttir, læknir, kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, læknir, kennslustjóri læknadeildar Háskóla Íslands

Lilja Rún Sigurðardóttir, lögfræðingur, tiln. af embætti landlæknis

Þá sátu einnig tímabundið í hópnum:

Guðrún Ása Björnsdóttir, læknir, tiln. af Félagi almennra lækna

Sigrún Jónsdóttir, læknir, tiln. af Félagi almennra lækna

Guðrún W. Jensdóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu

Þórunn Steinsdóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu

Starfsmaður hópsins var Ester Petra Gunnarsdóttir, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.

Vinnuhópurinn var skipaður af heilbrigðiráðherra 23. október 2020 og var falið að byrja á að vinna að breytingum á kandídatsári sem var breytt í sérnámsgrunn með reglugerð nr. 411/2021 um (2.) breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Í meðfylgjandi skjali má sjá drög að nýrri reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Ákveðið var að breyta reglugerðinni með nýrri heildarútgáfu vegna þess að breytingarnar eru miklar. Með nýrri reglugerð er stórt skref tekið varðandi faglega umgjörð með sérnámi í læknisfræði hér á landi og er það gert til þess að bregðast við þeirri miklu þróun sem orðið hefur á sérnámi í læknisfræði hér á landi frá gildistöku núgildandi reglugerðar, nr. 467/2015, sem fellur úr gildi hljóti reglugerðardrög þessi gildistöku.

Með nýrri reglugerð verða gerðar skýrar kröfur um að allt sérnám sem fram fer hér á landi í læknisfræði fari alfarið fram samkvæmt marklýsingu samþykktri af Mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna og á heilbrigðisstofnunum sem fengið hafa viðurkenningu sömu nefndar sem kennslustofnanir sérnáms. Þá mun framvindumatsnefnd meta árlega hvort hæfni- og færniviðmiðum marklýsingar sé náð. Kennsluráð í tiltekinni sérgrein staðfestir loks að sérnámslæknir hafi lokið sérnámi skv. marklýsingu með fullnægjandi hætti. Sérnámslæknir leggur slíkt námslokavottorð fram hjá embætti landlæknis við umsókn um sérfræðileyfi.

Í stuttu máli eru helstu breytingar í meðfylgjandi reglugerðardrögum eftirfarandi:

- Komið verður á fót kennsluráðum í öllum sérgreinum sem kenndar eru hér á landi.

- Komið verður á fót kennsluráði sérnámsgrunns sem tekur við hlutverkum nefndar sem skipuleggur sérnámsgrunn.

- Komið verður á fót framhaldsmenntunarráði lækninga sem mun saman standa af kennslustjórum hverrar sérgreinar sem kennd er hér á landi.

- Komið verður á fót framvindumatsnefndum sem meta árlega framvindu sérnámslæknis í sérnámi og námslok.

- Mats- og hæfisnefnd verður styrkt og aðsetur hennar fært til heilbrigðisráðuneytisins. Hlutverk hennar er betur skilgreint.

- Skipulag, ábyrgð og umsjón með sérnámsgrunni og sérnámi í sérgreinum er betur skilgreint.

- Umsagnaraðilar um umsóknir um sérfræðileyfi verða kennsluráð viðkomandi sérgreinar eða framhaldsmenntunarráð lækninga.

- Námslokavottorð verða gefin út til að votta að sérnámslæknir hafi lokið sérnámi skv. marklýsingu.

Vakin er athygli á reglugerð sem er í vinnslu í heilbrigðisráðuneytinu og mun fjalla með nánari hætti um meðferð umsókna umsækjenda frá ríkjum utan EES og Sviss, þ.e. drög að reglugerð um meðferð umsókna um starfsleyfi og sérfræðileyfi skv. lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn frá umsækjendum frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is