Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 5.–16.4.2023

2

Í vinnslu

  • 17.4.–18.5.2023

3

Samráði lokið

  • 19.5.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-80/2023

Birt: 5.4.2023

Fjöldi umsagna: 20

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Ný reglugerð um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara um starfsleyfi og sérfræðileyfi skv. lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn

Niðurstöður

Reglugerð nr. 483/2023 var birt í Stjórnartíðindum 19. maí 2023 og hlaut þegar gildi. Uppsetningu var breytt í kjölfar samráðs. Efnislega eru 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 483/2023 nýjar og kveða á um einfaldara umsóknarferli fyrir þriðjaríkisborgara með menntun frá EES ríki og sambærilegar kröfur um framlagningu gagna vegna EES menntunar eins og gerðar eru til EES ríkisborgara. Heimilt verður að forgangsraða umsóknum um starfsleyfi í stéttum sem mikill skortur er á heilbrigðisstarfsfólki í hér á landi. Þá var starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna bætt inn í 2. gr.

Málsefni

Kynnt eru til samráðs drög að reglugerð um meðferð embættis landlæknis á umsóknum ríkisborgara utan EES og Sviss um starfsleyfi og sérfræðileyfi til að starfa hér á landi.

Nánari upplýsingar

Heilbrigðisráðuneytið hefur unnið drög að nýrri reglugerð um meðferð umsókna þriðjaríkisborgara á starfsleyfum og sérfræðileyfum hjá embætti landlæknis. Með þriðjaríkisborgurum er átt við ríkisborgara ríkja utan EES og Sviss sem jafnframt þurfa að hafa fengið útgefið atvinnu- og dvalarleyfi til þess að mega starfa hér á landi. Við undirbúning reglugerðardraganna fundaði heilbrigðisráðuneytið með embætti landlæknis, Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, Landspítala o.fl.

Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 er í 5. gr. fjallað um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi, setja reglugerðir um skilyrði starfsleyfis, sbr. nánar í lögunum. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skal kveða á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til umsækjenda frá ríkjum sem íslenska ríkið hefur ekki samið við um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Hvað þennan hóp umsækjanda varðar er heimilt skv. ákvæðinu að gera kröfu um að umsækjandi búi yfir kunnáttu í íslensku og hafi þekkingu á íslenskri heilbrigðislöggjöf eftir því sem við á hverju sinni, enda sé slík kunnátta nauðsynleg í starfi og þá einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga. Enn fremur er heimilt skv. ákvæðinu að gera kröfu um að áður en umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar skuli liggja fyrir staðfest afrit umsóknar um atvinnu- og dvalarleyfi ásamt undirrituðum ráðningarsamningi.

Framangreindar reglugerðarheimildir hafa verið nýttar í reglugerðum um menntun, réttindi og skyldur hverrar löggiltrar heilbrigðisstéttar og skilyrði fyrir starfsleyfi og sérfræðileyfi. Í meðfylgjandi reglugerðardrögum eru reglur fyrir umsækjendur settar í eina reglugerð sem gildir framar ákvæðum um sama efni í reglugerðum hverrar stéttar. Gert er ráð fyrir að ákvæði þeirra reglugerða (34 talsins) verði tekin út samhliða breytingum á þeim á næstunni.

Í meðfylgjandi reglugerðardrögum er að finna reglur sem eru ólíkar gildandi reglum í reglugerðum hverrar heilbrigðisstéttar fyrir sig á eftirfarandi hátt:

• Í upphafi umsóknarferlis verður nóg að leggja fram ráðningarsamning, sem má hafa fyrirvara um veitingu starfsleyfis. Atvinnu- og dvalarleyfis verður ekki krafist fyrr en undir lok umsóknarferlis, áður en leyfi er gefið út.

• Heimilt verður fyrir embætti landlæknis að leggja fyrir umsækjanda að standast hæfnispróf eða að ljúka aðlögunartíma. Sambærilegar heimildir eru þegar í gildi varðandi ríkisborgara EES og Sviss og breytingin stuðlar því að auknu jafnræði milli erlendra umsækjenda.

• Ekki verður gerð krafa um íslenskukunnáttu til að geta fengið starfsleyfi. Það verður á ábyrgð vinnuveitanda að gera kröfur um tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er vegna samskipta við sjúklinga og til að tryggja öryggi þeirra. Þessi breyting verður til samræmis við það sem gildir um umsækjendur frá ríkjum innan EES og Sviss og kemur því einnig til með að auka jafnræði milli erlendra umsækjenda.

• Heilbrigðisstofnanir munu geta sótt um starfs- og sérfræðileyfi fyrir hönd sérfræðinga sem brýn þörf er á að fá til starfa á stofnunni.

• Embætti landlæknis verður heimilt að forgangsraða umsóknum þeirra sem þegar komnir til landsins, umfram þá sem enn eru erlendis.

• Nóg verður í sumum tilvikum að framvísa gildu og ótakmörkuðu starfsleyfi frá ríki þar sem heilbrigðisstarfsmaður hefur starfað, í stað þess að gera kröfu um starfsleyfi frá námslandi eða því ríki þar sem umsækjandi er ríkisborgari.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is