Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.4.–29.5.2023

2

Í vinnslu

  • 30.5.–2.7.2023

3

Samráði lokið

  • 3.7.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-82/2023

Birt: 17.4.2023

Fjöldi umsagna: 18

Stöðumat og valkostir

Forsætisráðuneytið

Æðsta stjórnsýsla

Grænbók um sjálfbært Ísland

Niðurstöður

Alls bárust 17 umsagnir um grænbókina. Í flestum umsögnum kom fram ánægja með þá vinnu sem hafin er við mótun stefnu um sjálfbæra þróun á Íslandi. Ítrekaður var vilji umsagnaraðila til að taka þátt í þeirri vinnu. Hins vegar var bent á margt sem betur má fara í grænbókinni og verða þær ábendingar nýttar í áframhaldandi vinnu og við mótun stefnu til áranna 2024-2030.

Málsefni

Forsætisráðuneytið birtir drög að grænbók um sjálfbært Ísland sem eiga að leggja grunn að stefnu um sjálfbæra þróun á Íslandi til næstu ára og óskar eftir umsögnum.

Nánari upplýsingar

Forsætisráðuneytið birtir drög að grænbók um sjálfbært Ísland. Drögin eru afurð af víðtæku samráði sem fram hefur farið á vettvangi Sjálfbærniráðs síðustu vikur og mánuði, en þar eiga sæti fulltrúar Alþingis, ríkisstjórnar, sveitarfélaga, atvinnulífs, samtaka launafólks og félagasamtaka, alls um áttatíu manns.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar um jafnvægi á milli samfélags-, umhverfis- og efnahagslegra þátta, réttlátra umskipta og aukinnar samkeppnishæfni verði leiðarstef í yfirstandandi umbreytingum vegna loftslagsvárinnar og örra tæknibreytinga sem hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Þessum markmiðum er fylgt eftir í samvinnu forsætisráðherra og annarra ráðherra til þess að auka samhæfingu, samvinnu og slagkraft innan Stjórnarráðsins. Málefni sjálfbærrar þróunar varða öll svið samfélagsins, málefnasvið allra ráðuneyta, verkefni sveitarfélaga, almenning, atvinnulíf og aðra hagaðila með beinum og óbeinum hætti. Öflug samvinna og reglulegt samráð um sjálfbæra þróun er því forsenda árangurs til framtíðar.

Drög að grænbók, sem hér eru kynnt, leggja grunn að mótun stefnu um sjálfbæra þróun á Íslandi til næstu ára. Í upphafi er leitast við að afmarka viðfangsefnið og skýra út hvað felst í sjálfbærri þróun og hvers vegna er mikilvægt að vinna að henni á öllum sviðum samfélagsins. Þá fer fram stöðumat og lýsing á allri þeirri vinnu sem unnið er að á sviði sjálfbærrar þróunar hér á landi. Í því sambandi er fjallað um alþjóðlega samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar sem Ísland er aðili að, en heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru þar efst á blaði. Greint er frá vinnu og verkefnum allra ráðuneyta á þessu sviði og jafnframt farið yfir framlag Sambands íslenskra sveitarfélaga og ýmissa sveitarfélaga í þessum efnum. Þá er fjallað um áherslur atvinnulífsins, samtaka launafólks, lífeyrissjóða og félagasamtaka og helstu áskoranir í þeim efnum að þeirra mati. Í lok grænbókar eru kynnt drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum við gerð stefnunnar.

Mikilvægt er að fá fram skoðanir sem flestra á þeim atriðum sem fjallað er um í grænbókinni og eru öll hvött til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Eftir að unnið hefur verið úr umsögnunum verður endanleg útgáfa grænbókarinnar gefin út. Á grundvelli hennar verður unnið stefnuskjal eða svokölluð hvítbók og í framhaldinu þingsályktunartillaga um stefnu og aðgerðaáætlun um sjálfbært Ísland.

Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um sjálfbært Ísland verði lögð fram á Alþingi í byrjun næsta árs.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa stefnumála

eggert.benedikt.gudmundsson@for.is