Samráð fyrirhugað 24.04.2023—08.05.2023
Til umsagnar 24.04.2023—08.05.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 08.05.2023
Niðurstöður birtar

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

Mál nr. 85/2023 Birt: 24.04.2023
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (24.04.2023–08.05.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023-2027.

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023-2027. Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar er lögð fyrir Alþingi skv. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Í drögunum er lögð áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun. Þá byggir áætlunin á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Við undirbúning áætlunarinnar hefur verið viðhaft virkt og víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna.

Hinn 26. janúar 2023 skipaði mennta- og barnamálaráðherra starfshóp sem var falið að semja drög að nýrri framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Í starfshópnum sátu fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagsráðgjafafélagi Íslands, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og velferðarsviði Akureyrarbæjar. Einnig skipaði mennta- og barnamálaráðherra sérstakan ráðgjafarhóp sem starfaði með starfshópnum og samanstóð af fulltrúum helstu hagsmunaaðila. Þá var í fyrsta sinn haft samráð við börn við undirbúning framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar.

Lagt er til að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar sem og meginábyrgð á tilteknum aðgerðum. Þá er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála einnig falin ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Allar aðgerðir hafa verið kostnaðarmetnar og er gerð grein fyrir kostnaði við hverja þeirra í drögunum.

Við undirbúning áætlunarinnar var sérstaklega litið til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og gildissviðs þeirra. Í drögunum er lögð áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna og að hver og ein aðgerð í áætluninni taki mið af öllum börnum óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Lagt er til að áhersla verði lögð á eftirfarandi aðgerðir:

a. Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.

b. Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.

c. Meðferðarfóstur.

d. Efla þjónustu í barnavernd og bæta verklag.

e. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.

f. Endurskoða verklag fyrir fylgdarlaus börn.

g. Könnun alvarlegra atvika.

h. Rannsóknir á sviði barnaverndar.

i. Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.

j. Eftirfylgni og innleiðing verkefna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Reykjavíkurborg - 08.05.2023

Umsögn Barnaverndar Reykjavíkur um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Öryrkjabandalag Íslands - 08.05.2023

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Steinunn Jóhanna Bergmann - 08.05.2023

Meðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Barnaheill - Save the Children á Íslandi - 08.05.2023

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

Barnaheill þakka fyrir tækifærið að fá að senda umsögn um ofangreint mál.

Framkvæmdaáætlun sú á sviði barnaverndar sem hér er kynnt fyrir árin 2023-2027 nýtur stuðnings Barnaheilla og virðist stefna stjórnvalda í barnaverndarmálum vera í rétta átt að mati samtakanna.

Samtökin vilja þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri. Barnaheillum er afar brýnt að viðhorf til barna byggist ávallt á virðingu og mannréttindum þeirra sem tryggð eru í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Að mati Barnaheilla er erfið hegðun barns í langflestum tilfellum viðbrögð við neikvæðri upplifun þess í umhverfi sínu eða óraunhæfar kröfur lagðar á barnið sem það ræður einhverra hluta ekki við. Því þarf virðing gagnvart barninu alltaf að vera í forgrunni og hún ástunduð af heilindum. Hlusta þarf eftir því hvað það er sem barnið er að tjá þegar það festist í erfiðri, jafnvel hættulegri hegðun.

Það er vissulega mikilvægt að stöðva hættulega hegðun hjá barni en barnið þarf að fá stuðning til að breyta hegðun sinni, með því að leiðrétta sig og fá djúpa hlustun og skilning á undirliggjandi ástæðum „hegðunarinnar“.

Barnaheill vilja benda á að hugtakið „hegðunarvandi“ er neikvætt hlaðið og hætta er á ákveðinni stimplun að nota það. Hegðun barnsins er í flestum tilfellum ákall um aðstoð og því skipta viðbrögð þeirra fullorðnu sem eru í umhverfi barnsins öllu máli. Ekki er víst að barnið fái aðgengi að hlustun því fólk getur verið hrætt við „hegðunina“, en barn þarf aldrei eins mikið á þeim fullorðnu að halda, stuðningi og skilningi og þegar það sýnir þessa neikvæðu hegðun. Og þegar rætt er um hegðunarvanda barns, eins og þegar mál hafa þróast svo langt að upp er kominn „hegðunarvandi“ barns, þá er það líklega og oft vegna þess að aðstæður í lífi þess barns buðu ekki upp á nægilegan stuðning við barnið fyrr. Því er það fyrst og fremst ábyrgð hinna fullorðnu að snúa því við, barninu til hagsbóta. Vitanlega eru dæmi þess að barnið hefur orðið fyrir svo miklum skaða og því orðið sjálfu sér og öðrum svo hættulegt, að það þarf að ráðast í mjög takmarkandi aðgerðir. En það þarf alltaf að minna á að það þarf að sýna barninu virðingu.

Heildarsýn Barnasáttmálans um rétt barns til að lifa og þroskast á besta mögulega hátt, rétt þess til tjáningar og um aðgengi að stuðningi ef það hefur orðið fyrir áföllum, þarf alltaf að liggja öllum ákvörðunum til grundvallar.

Barnaheill vinna að bættum mannréttindum allra barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í störfum sínum. Samtökin leggja áherslu á að koma í veg fyrir ofbeldi gegn börnum og að komið sé fram af virðingu við öll börn, óháð stöðu þeirra og án mismununar.

Verkefni Barnaheilla, Vinátta, Verndarar barna og Skoh! Hvað er ofbeldi? eru forvarnarverkefni sem geta gagnast til að sporna gegn því að afdrif barna verði með þeim hætti sem hér að ofan hefur verið lýst.

Viðhengi