Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 24.4.–8.5.2023

2

Í vinnslu

  • 9.5.–17.10.2023

3

Samráði lokið

  • 18.10.2023

Mál nr. S-85/2023

Birt: 24.4.2023

Fjöldi umsagna: 4

Annað

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölskyldumál

Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2027

Málsefni

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023-2027.

Nánari upplýsingar

Mennta- og barnamálaráðuneyti kynnir drög að tillögu til þingsályktunar um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023-2027. Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar er lögð fyrir Alþingi skv. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Í drögunum er lögð áhersla á að framkvæmdir í málefnum barna miði að því að börn verði sett í öndvegi í allri nálgun. Þá byggir áætlunin á meginmarkmiðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Við undirbúning áætlunarinnar hefur verið viðhaft virkt og víðtækt samráð við helstu hagsmunaaðila um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna.

Hinn 26. janúar 2023 skipaði mennta- og barnamálaráðherra starfshóp sem var falið að semja drög að nýrri framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar. Í starfshópnum sátu fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagsráðgjafafélagi Íslands, velferðarsviði Reykjavíkurborgar og velferðarsviði Akureyrarbæjar. Einnig skipaði mennta- og barnamálaráðherra sérstakan ráðgjafarhóp sem starfaði með starfshópnum og samanstóð af fulltrúum helstu hagsmunaaðila. Þá var í fyrsta sinn haft samráð við börn við undirbúning framkvæmdaáætlunar á sviði barnaverndar.

Lagt er til að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi yfirumsjón með framkvæmd áætlunarinnar sem og meginábyrgð á tilteknum aðgerðum. Þá er Barna- og fjölskyldustofu og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála einnig falin ábyrgð á tilteknum aðgerðum. Allar aðgerðir hafa verið kostnaðarmetnar og er gerð grein fyrir kostnaði við hverja þeirra í drögunum.

Við undirbúning áætlunarinnar var sérstaklega litið til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og gildissviðs þeirra. Í drögunum er lögð áhersla á mannréttindi og samfélagsþátttöku barna og að hver og ein aðgerð í áætluninni taki mið af öllum börnum óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu.

Lagt er til að áhersla verði lögð á eftirfarandi aðgerðir:

a. Heildarendurskoðun á barnaverndarlögum.

b. Meðferðarúrræði utan meðferðarheimila.

c. Meðferðarfóstur.

d. Efla þjónustu í barnavernd og bæta verklag.

e. Gæðaviðmið fyrir barnaverndarþjónustu.

f. Endurskoða verklag fyrir fylgdarlaus börn.

g. Könnun alvarlegra atvika.

h. Rannsóknir á sviði barnaverndar.

i. Húsnæði fyrir þjónustu í þágu farsældar barna.

j. Eftirfylgni og innleiðing verkefna.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stefnumótunar og innleiðingar

mrn@mrn.is