Alls bárust fjórar umsagnir um reglugerðardrögin. Við frágang reglugerðarinnar var höfð hliðsjón af framkomnum umsögnum.
Reglugerð hefur verið birt í Stjórnartíðindum sem reglugerð nr. 707/2023.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.04.2023–12.05.2023.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 10.07.2023.
Kynnt eru til umsagnar drög að reglugerð um lista yfir störf sem falla undir 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
Með lögum nr. 17/2023, um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, sem samþykkt voru á Alþingi 28. mars 2023, var nýrri málsgrein bætt við 8. gr. laganna þar sem kveðið er á um heimild ráðherra til að birta í reglugerð lista yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Er í því sambandi við það miðað að þau störf sem um ræðir falli undir ÍSTARF21 sem er viðurkennt flokkunarkerfi byggt á alþjóðlegri starfaflokkun. Vinnumálastofnun er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli ákvæðisins vegna starfs sem krefst sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi og birt hefur verið í reglugerð að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Er þannig gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að birta í reglugerð lista yfir tiltekin störf sem við eiga hverju sinni og að Vinnumálastofnun meti í hverju tilviki fyrir sig hvort tiltekið starf sem sótt er um tímabundið atvinnuleyfi vegna falli þar undir með tilliti til verkefna og skyldna þess sem starfinu á að gegna. Gert er ráð fyrir að ráðherra skuli á að minnsta kosti tólf mánaða fresti óska eftir tillögum að breytingum á framangreindri reglugerð frá hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunasamtökum. Er því gert ráð fyrir að mat á störfum sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi komi til endurskoðunar með reglulegum hætti, ekki síst í því skyni að tryggja megi að undir reglugerð falli aðeins þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi á hverjum tíma.
Birt eru drög að reglugerð til samræmis við framangreint. Í viðauka má sjá drög að lista yfir störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi og falla undir starfaflokkun ÍSTARF21.
Umsögn fyrir lista yfir störf sem falla undir 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002
Hvað varðar faglega þekkingu í ferðaþjónustu, þá hvað varðar gistingu, matvæli, afþreyingu, uppstillingu, og markaðsmálum, þá hefur stundum reynist erfitt að fá fólk með sérfræðiþekkingu sem getur haldið uppi góðri fagmennsku og tekið tillit til þarfa markaðarins og ólíkrar menningar framandi ferðamanna. Við neyðumst stundum til að mann með starfsfólki sem ekki hefur sérþekkingu og það hefur verið að bitna á gæðum þjónustunnar hjá mörgum þjónustuveitendum og er ekki gott fyrir orðspor landsins.
Ég vil því benda á að bæta á þennan lista stöfum með eftirfarandi ÍSTARF21 númerum:
1411 Störf stjórnenda í hótelrekstri
1412 Störf stjórnenda í veitingarekstri
2163 Sérfræðistörf í vöru- og fatahönnun
2431 Sérfræðistörf við auglýsinga- og markaðsmál
2659 Sérfræðistörf í listum og skapandi greinum ót.a.s.
3122 Störf við verkstjórn í framleiðslu
3142 Tæknistörf í landbúnaði
3412 Störf við ráðgjöf í félags-, tómstunda- og æskulýðsmálum
3423 Störf við leiðsögn tengdri hreyfingu
3432 Störf við hönnun og útstillingu
3434 Störf við hönnun rétta og samsetningu matseðla
3435 Önnur sérhæfð störf innan lista, menningar og matreiðslu
Inn á þennan lista gæti einnig verið hægt að bæta við starfanúmerum sem erfitt hefur verið að manna hjá þjónustuveitendum í heilsu tengdri ferðaþjónustu. En það hefur verið fyrir utan mitt starfssvið að vera með ráðgjöf hvað varðar þá áherslu hingað til. Ef ég les löggjöfina rétt, þá er eingöngu ætlast til að stungið sé upp á starfanúmerum úr fyrstu þrem flokkum ÍSTARF21: 1. Störf stjórnenda, 2. Sérfræðistörf, og 3. Störf tækna og sérhæfðs starfsfólks, listinn hér að framan miðast við þann skilning.
Góðan dag,
meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.
ViðhengiSjá í viðhengi umsögn Bændasamtaka Íslands.
Viðhengi