Umsagnarfrestur er liðinn (04.05.2023–26.05.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Fjármála- og efnahagsráðherra áformar að gera breytingar á reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ).
Áformaðar breytingar byggja á tillögum stjórnar stofnunarinnar, sbr. áskilnað í lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, nr. 55/1992. Er þeim fyrst og fremst ætlað að auka skýrleika reglugerðarinnar og tryggja jafnræði og skilvirkni í meðferð bótamála hjá stofnuninni. Breytingarnar miða ekki að því að draga úr eða skerða bótarétt þeirra sem verða fyrir beinu tjóni í atburðum sem NTÍ vátryggir gegn frá því sem nú er, heldur er verið að reglufesta framkvæmd sem viðurkennd er og viðhöfð hefur verið í langan tíma.
Þrjár megináherslur hafa verið hafðar í huga. Í fyrsta lagi snúa breytingarnar að því að bæta skilgreiningu á því hversu mikil áhrif þurfa að verða af þeim atburðum sem teljast geta valdið tjóni á vátryggðum eignum. Í öðru lagi endurspegla þær þá staðreynd að reglugerðin er ígildi vátryggingaskilmála fyrir náttúruhamfaratrygginguna og var því talin ástæða til að skýra betur ákvörðun tjónabóta og afmörkun tjóns. Í þriðja lagi er ætlunin að tryggja jafnræði og samræmi á milli innheimtuaðila iðgjalda NTÍ þegar kemur að skilum iðgjalda til stofnunarinnar og stuðla að umbótum í afstemmingu iðgjalda og bættri yfirsýn NTÍ yfir innheimt iðgjöld.
Sjá nánar í greinargerð í fylgiskjali.
Á 47. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 10. maí 2023 var tekið fyrir mál til samráðs nr. 92/2023 og þannig bókað.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar áformum um að skýra betur ákvörðun tjónabóta og afmörkun tjóns sem Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir. Byggðarráð bendir þó á að útvíkka þyrfti grundvöll bóta úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands þannig að bætur nái ekki eingöngu yfir húsnæði og innbú þeirra sem eru með sérstakar innbústryggingar hjá tryggingarfélögum, heldur einnig tjón sem t.d. aurskriður eða snjóflóð geta valdið á t.a.m. görðum og eigum fólks utan þess húsnæðis sem verður fyrir tjóninu, bílum sem ekki eru kaskótryggðir o.s.frv. Hafa ber í huga að verði fólk fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara þarf það sjálft að bera fyrstu 600 þúsund krónurnar af tjóninu og 2% af tjóni umfram það. Í mörgum tilfellum getur fólk átt í erfiðleikum með að glíma við slíkt fjárhagslegt högg, í kjölfar enn stærra áfalls vegna sjálfs tjónsins af völdum náttúruhamfara.
F.h. byggðarráðs
Sigfús Ingi Sigfússon
sveitarstjóri
Umsögn um drög að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands
Eins og kemur fram í greinargerð varða breytingar einkum þrennt.
1. Skilgreining tjónsatburða.
2. Ákvörðun tjónabóta og afmörkun tjóns
3. Iðgjaldaskil til NTÍ
Varðandi lið 1. er greinilega verið að þrengja svæði tjónsatburða varðandi jarðskjálfta og eldgos. Þannig verður hreinsun á ösku ekki talin falla undir tjón. Þá stendur til að þrengja svæði frá upptökum jarðskjálfta, til að koma í veg fyrir bótagreiðslur þar sem einstakar eignir (e.t.v. í lélegu ástandi) skemmast, en aðrar eignir skemmast ekki. Þessi ákvæði hafa e.t.v. óverulega þýðingu á Austurlandi.
Varðandi lið 2 er byggt á þeirri grunnhugsun að reglugerðin er í grunninn ígildi vátryggingarskilmála. Í raun er rökrétt að samræma framkvæmdina við framkvæmd vátryggingarfélaga. Vegna þess er þó bent á tvennt:
Orðlag 2. mgr. 4. gr. er samkvæmt drögunum.:
Vátryggingin nær til tjóns, sem verður á þeim vátryggingarstað sem tilgreindur er í vátryggingarskírteini. Vátryggingin getur þó einnig tekið til tjóns á lausafé sem er tímabundið staðsett á tjónsstað ef unnt er að sýna fram á með óyggjandi hætti að vátryggingartaki sé raunverulegur eigandi þess lausafjár. Vátryggingabætur skv. 2. málsl. takmarkast við 15% af vátryggingarfjárhæð eins og hún er tilgreind í vátryggingarskírteini.
Vegna þessa er bent á að rétt er að náttúruhamfaratrygging bæti að fullu verðmæti lausafjár sem er tímabundið staðsett á tjónsstað, enda sé skilyrðið um sönnun á eignarhaldi uppfyllt. Ef viðmið um 15% er ætlað að eiga við um þá stöðu þegar lausafé er hluti af heimilistryggingu í annarri fasteign, er rétt að slíkt komi skýrt fram. Engu að síður er eðlilegt að lausaféð sé bætt að fullu.
Vegna liðar 5 í 11. gr. er lagt til að við stafliði a og b bætist þessi setning.
Afskriftir geta aldrei orðið meiri en 70%
Sambærilegt ákvæði má finna í innbústryggingum.
Ekki er tilefni til að gera athugasemdir vegna 3. þáttar breytinga reglugerðarinnar, sem varða iðgjaldaskil til NTÍ.
Gunnar Jónsson
Bæjarritari
Góðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Hafnasambands Íslands um drög að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
f.h. Hafnasambandsins
Flosi H. Sigurðsson, lögfræðingur
ViðhengiUmsögn við drögum að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Varðandi fyrirliggjandi drög að reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands er hér með eftirfarandi komið á framfæri fyrir hönd sveitarfélagsins Múlaþings:
Eins og kemur fram í greinargerð varða breytingar einkum þrennt.
1. Skilgreining tjónsatburða.
2. Ákvörðun tjónabóta og afmörkun tjóns
3. Iðgjaldaskil til NTÍ
Varðandi lið 1. gerir Múlaþing ekki athugasemdir við fyrirliggjandi drög.
Varðandi lið 2 er byggt á þeirri grunnhugsun að reglugerðin er í grunninn ígildi vátryggingarskilmála. Í raun er rökrétt að samræma framkvæmdina við framkvæmd vátryggingarfélaga. Vegna þess er þó bent á tvennt:
Orðlag 2. mgr. 4. gr. er samkvæmt drögunum.:
Vátryggingin nær til tjóns, sem verður á þeim vátryggingarstað sem tilgreindur er í vátryggingarskírteini. Vátryggingin getur þó einnig tekið til tjóns á lausafé sem er tímabundið staðsett á tjónsstað ef unnt er að sýna fram á með óyggjandi hætti að vátryggingartaki sé raunverulegur eigandi þess lausafjár. Vátryggingabætur skv. 2. málsl. takmarkast við 15% af vátryggingarfjárhæð eins og hún er tilgreind í vátryggingaskírteini.
Vegna þessa er bent á að rétt er að náttúruhamfaratrygging bæti að fullu verðmæti lausafjár sem er tímabundið staðsett á tjónsstað, enda sé skilyrðið um sönnun á eignarhaldi uppfyllt. Ef viðmið um 15% er ætlað að eiga við um þá stöðu þegar lausafé er hluti af heimilistryggingu í annarri fasteign, er rétt að slíkt komi skýrt fram. Engu að síður er eðlilegt að lausaféð sé bætt að fullu.
Vegna liðar 5 í 11. gr. er lagt til að við stafliði a og b. bætist þessi setning.
Afskriftir geta aldrei orðið meiri en 70%
Sambærilegt ákvæði má finna í innbústryggingum.
Að mati Múlaþings er ekki tilefni til að gera athugasemdir vegna 3. þáttar breytinga reglugerðarinnar, sem varða iðgjaldaskil til NTÍ.
Með bestu kveðjum.
Björn Ingimarsson
Sveitarstjóri Múlaþings
ViðhengiGóðan dag
Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að reglugerð um náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Kv. Flosi H. Sigurðsson
Viðhengi