Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–23.5.2023

2

Í vinnslu

  • 24.5.2023–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-93/2023

Birt: 9.5.2023

Fjöldi umsagna: 0

Drög að reglugerð

Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Drög að reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr.144/2009 um tæknifrjóvgun

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið áformar að gera breytingar á hámarksgeymslutíma kynfrumna og fósturvísa og kveða á um skyldu þjónustuveitanda að tilkynna áður en fósturvísum og kynfrumum í geymslu er eytt.

Nánari upplýsingar

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996 skal ráðherra setja reglur um hve lengi má geyma kynfrumur og fósturvísa í samræmi við bestu læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma. Í reglugerð um tæknifrjóvgun, nr. 144/2009, ásamt síðari breytingum, er kveðið á um hámarksgeymslutíma fósturvísa og kynfrumna. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er hámarksgeymslutími fósturvísa 10 ár og samkvæmt 2. mgr. er hámarksgeymslutími kynfrumna 20 ár en að hámarksgeymslutíma liðnum skal, óháð vilja geymsluhafa, fósturvísum og kynfrumum eytt.

Tæknifrjóvgun má aðeins framkvæma á konu sé hún á eðlilegum barneignaaldri, sbr. c. lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Livio er sem stendur eini þjónustuveitandi tæknifrjóvgunar á landinum og miðar við að barneignaaldur konu sé fram að 49 ára aldri.

Ráðuneytinu hafa borist erindi þar sem óskað er eftir að framangreindur hámarksgeymslutími sé hækkaður umtalsvert, jafnvel felldur niður. Er til stuðnings þeirri kröfu bent á að einstaklingar sem þurfa ungir að geyma kynfrumur, t.d. vegna krabbameinsmeðferðar, kunni enn að vera á barneignaraldri þegar hámarksgeymslutími kynfrumna sé liðinn. Sama á við þegar par geymir fósturvísa. Með ákvæði reglugerðarinnar um hámarksgeymslutíma sé með ósanngjörnum hætti verið að þrýsta á fólk að nýta kynfrumur eða fósturvísa í geymslu innan ákveðins tíma óháð aldri, efnahag og aðstöðu.

Líkt og að framan greinir segir í lögunum að ráðherra skuli setja reglur um hámarksgeymslutíma fósturvísa og kynfrumna í samræmi við bestu læknisfræðilegu þekkingu á hverjum tíma. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að gæði fósturvísa dvíni eftir 10 ár eða gæði kynfrumna eftir 20 ár. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt fram á að gæðin dvíni almennt ekki með lengdum geymslutíma heldur séu gæðin háð geymslunni sem slíkri. Með nútíma tækni hefur þróunin verið sú að geymslutími fósturvísa og kynfrumna er lengdur eða hámarksgeymslutími miðaður við barneignaaldur viðkomandi konu eða jafnvel felldur niður. Geymslutími fósturvísa í Svíþjóð er 10 ár en unnt er að sækja um framlengingu þar til konan hefur náð skilgreindum hámarks barneignaraldri en ekkert hámark er á geymslutíma kynfrumna. Í Noregi er geymslutími fósturvísa miðaður við hámarks barneignaraldur viðkomandi konu, sem er 46 ár, en engin takmörk eru á geymslutíma kynfrumna. Í Bretlandi var geymslutími kynfrumna nýlega hækkaður í 55 ár.

Lagt er til að hámarksgeymslutími fósturvísa verði hækkaður í 35 ár og hámarksgeymslutími kynfrumna hækkaður í 50 ár. Með þessari hækkun er komið til móts við framangreind sjónarmið en hækkaður hámarksgeymslutími fósturvísa ætti að duga einstaklingum sem geyma fósturvísa ungir, hvort sem er með kynfrumu maka eða gjafakynfrumu. Að sama skapi ætti hækkaður hámarksgeymslutími kynfrumna að duga þeim einstaklingum sem geyma kynfrumur ungir til að varðveita frjósemi. Þrátt fyrir að sá þjónustuaðili sem starfar hér á landi miði við að barneignaraldur kvenna sé fram að 49 ára aldri ber að hafa í huga að meðferð þjónustuaðila takmarkast ekki við barneignaraldur karlmanna. Karlmaður gæti því haft hag af því að geyma kynfrumu sína mun lengur. Að sama skapi stendur ekkert því í veg að einstaklingar færi kynfrumur eða fósturvísa milli þjónustuveitanda, hvort sem er milli landa eða hér á landi ef þjónustuaðilum fjölgar, en viðmið þjónustuveitanda um ,,barneignaraldur" kann að vera breytilegur. Gjöf kynfruma er jafnframt heimil milli samkynja para. Því gæti kona sem er komin fram yfir barneignaraldur en á eggfrumu í geymslu gefið konu sinni eggfrumuna í tæknifrjóvgunarferli. Sama á við um fósturvísi.

Vakin er athygli á að ekki er lögð til breyting á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði sjúkratryggðra vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar en um greiðsluþátttökuna gildir reglugerð nr. 1239/2018. Í dag er 65% greiðsluþátttaka í geymslu kynfruma í 10 ár, þ.e. vegna kynfruma sem teknar eru vegna yfirvofandi ófrjósemisvandamála vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflunings. Til upplýsingar mun ráðuneytið kostnaðarmeta aukna greiðsluþátttöku vegna geymslu á kynfrumum í 20 ár á meðan hjálögð reglugerðardrög eru í samráði.

Í 3. mgr. 14. gr. er kveðið á um að eigendum geymdra fósturvísa og eigendum kynfrumna skuli í upphafi geymslutíma gerð grein fyrir reglum um hámarksgeymslutíma munnlega og skriflega. Mikilvægt er að eigendum fósturvísa og kynfrumna í geymslu sé einnig tilkynnt með hæfilegum fyrirvara áður en fósturvísum og kynfrumum er eytt. Því er lagt til að nýr málsliður bætist við 3. mgr. þar sem kveðið er á um að þjónustuveitanda sé skylt að tilkynna að til standi að eyða fósturvíum og kynfrumum í geymslu. Tilkynningin skal vera skrifleg og send með hæfilegum fyrirvara en þó eigi síðar en 6 mánuðum fyrir áætlaða eyðingu.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa heilsueflingar og vísinda

kristin.gudmundsdottir@hrn.is