Samráð fyrirhugað 06.06.2023—10.07.2023
Til umsagnar 06.06.2023—10.07.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 10.07.2023
Niðurstöður birtar 29.11.2023

Drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026

Mál nr. 107/2023 Birt: 06.06.2023 Síðast uppfært: 29.11.2023
 • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
 • Annað
 • Málefnasvið:
 • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál
 • Framhaldsskólastig
 • Æðsta stjórnsýsla
 • Ferðaþjónusta
 • Fjölmiðlun
 • Háskólastig
 • Leikskólar, grunnskólar, framhaldsfræðsla og stjórnsýsla mennta- og menningarmála
 • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar
 • Vinnumarkaður og atvinnuleysi
 • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Sjá má niðurstöður samráðs í meðfylgjandi skjali. Fylgjast má með frekari framvindu málsins á vef Alþingis.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.06.2023–10.07.2023. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2023.

Málsefni

Áætlunin inniheldur 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta en markmið þeirra er forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að að verndun og þróun tungumálsins.

Í stjórnarsáttmála er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. Þar er lögð sérstök áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og á stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra. Íslenskan sé dýrmæt auðlind sem á að vera skapandi og frjór hluti af umhverfinu. Tekið er sérstaklega fram að huga þurfi að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.

Ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni. Samhliða fundum nefndarinnar hefur verið unnið að mótun aðgerða sem tengjast málefnum íslenskrar tungu, með hliðsjón af endurskoðun íslenskrar málstefnu sem fram fór á vettvangi íslenskrar málnefndar 2020-2021 og framvindu aðgerða í þingsályktun nr. 36/149, um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, sem samþykkt var í júní 2019.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Eiríkur Rögnvaldsson - 06.06.2023

1. Almennt um aðgerðaáætlunina

Því ber að fagna sérstaklega að megináherslan í aðgerðaáætluninni, níu aðgerðir af 18, er á íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda, enda fátt mikilvægara fyrir framtíð íslenskunnar. Það er gífurleg aukning í notkun annarra tungumála í landinu, einkum ensku. Þessi aukning stafar annars vegar af sprengingu í ferðaþjónustu þar sem enska er aðaltungumálið, og hins vegar af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál sem kemur hingað til að setjast að eða til að vinna hér tímabundið. Enska er aðalsamskiptamál milli innfæddra og þess fólks, og einnig innbyrðis milli fólks af mismunandi þjóðernum. Nú eru farin að verða til hér á landi afmörkuð málsamfélög þar sem íslenska er ekki notuð og þar sem fæstir kunna íslensku.

Það er nokkuð ljóst að fólki með annað móðurmál en íslensku mun enn fara fjölgandi á næstu áratugum, og enskunotkun aukast. Ekkert bendir til annars en ferðafólki haldi áfram að fjölga. Atvinnurekendur kalla eftir meira vinnuafli og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verði allt að helmingur fólks á vinnumarkaði af erlendum uppruna. Á sama tíma er fæðingartíðni í sögulegu lágmarki. Allt þetta leiðir til þess að hlutfall enskunotkunar á móti íslenskunotkun hefur farið og fer hækkandi, og ef svo fer fram sem horfir er alls ekki óhugsandi, og jafnvel líklegt, að um miðja þessa öld muni enska hafa tekið við af íslensku sem aðalsamskiptamálið í landinu. Þessi aðgerðaáætlun þarf að geta snúið þeirri þróun við og er því gífurlega mikilvæg.

Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd. En þessar aðgerðir kosta fé – mismikið vissulega, en verulegar upphæðir þegar allt er talið. Það er megingalli aðgerðaáætluninnar að henni fylgja engar fjárveitingar, og fjármálaáætlun næstu fimm ára gefur litlar vísbendingar um að ríkisstjórnin áformi að verja verulegu fé til eflingar íslenskunnar á næstu árum. Auðvitað er ljóst að fé er ekki veitt með þingsályktun og allar fjárveitingar þurfa að vera á fjárlögum, en það hefði verið mikill kostur ef einstökum liðum áætlunarinnar hefði fylgt kostnaðarmat þótt slíkt mat geti aldrei orðið annað en vísbending.

Það er auðvelt að samþykkja tillögu um eflingu íslenskunnar ef hvergi kemur fram að henni fylgi einhver kostnaður, en kostnaðarmat auðveldar alþingismönnum að taka upplýsta afstöðu til tillögunnar og meta hvort þeim finnist væntanlegur ávinningur réttlæta kostnaðinn við aðgerðirnar. Það er mikilvægt að samþykkt þingsályktunartillögunnar feli í sér siðferðilega skuldbindingu um að styðja fjárveitingar til að framfylgja henni og hugmynd um líklegan kostnað er forsenda þess. Þess vegna er nauðsynlegt að áður en tillagan verður lögð fyrir Alþingi verði reiknaður út líklegur kostnaður á hvern lið, líkt og gert var við aðgerðaáætlun stjórnvalda í íslenskri máltækni sem unnið var eftir á árunum 2019-2022 og gafst mjög vel.

2. Athugasemdir við einstaka liði

2. grein: „Gerðar verða úttektir á vegum stofnana háskóla um hvernig tryggja megi gæði í íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur […].“ Í upptalningu samstarfsaðila eru nefndir „háskólar“. Það er mikilvægt að í þessum úttektum sé byggt á reynslu og þekkingu á kennslu íslensku sem annars máls og annarsmálsfræðum. Slík reynsla og þekking er langmest innan Háskóla Íslands þar sem m.a. starfa nokkrir doktorar á þessu sviði. Þess vegna væri eðlilegt að tilgreina Háskóla Íslands sérstaklega þarna.

4. grein: „Aðgengi að námi í íslensku á háskólastigi verði bætt með því að bjóða upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs.“ Sem hugsanlegir samstarfsaðilar eru tilgreindir hér Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík. Það er sérkennilegt þar sem engin íslenskukennsla fer fram við Háskólann í Reykjavík og við Háskólann á Akureyri er íslenska ekki kennd sem sjálfstæð grein heldur aðeins sem hluti af kennaranámi. Háskóli Íslands er eina menntastofnunin þar sem íslenska er kennd til BA-prófs. Þar er líka mikil reynsla af fjarkennslu – íslenska var í boði í fjarnámi á árunum 1999-2008, þegar námið lagðist af vegna fjárskorts. Einnig verður að benda á að tímaáætlunin 2023-2024 er óraunhæf – sómasamleg fjarkennsla krefst meiri undirbúnings.

6. grein: „Háskólabrú fyrir innflytjendur.“ Sem hugsanlegir samstarfsaðilar eru tilgreindir hér Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands. Eðlilegt væri að bæta Háskólanum á Bifröst við, því að þar hefur nám af þessu tagi verið í boði.

7. grein: „Aflað verði reglubundinna upplýsinga um viðhorf landsmanna til tungumálsins til að meta árangur og þörf fyrir frekari þróun aðgerða í þágu tungumálsins.“ Í greinargerð segir: „Eins og fræðimenn og fulltrúar í Íslenskri málnefnd hafa bent á skiptir viðhorf málnotenda sköpun við þróun og afdrif tungumála, ekki síst í nánu sambýli tveggja eða fleiri mála.“ Á þetta var fyrst bent – og hefur margsinnis verið ítrekað – í skrifum stjórnenda verkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“. Það er líka sérkennilegt og raunar fráleitt að eini samstarfsaðilinn sem hér er tilgreindur er Íslensk málnefnd. Íslensk málnefnd er ekki rannsóknastofnun og hefur hvorki fagþekkingu, mannafla né fjármagn til að gera rannsóknir af þessu tagi. Aftur á móti er mikil reynsla af slíkum rannsóknum við Háskóla Íslands og má vísa til verkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ en viðhorfskönnun var einn hluti þess, sbr. t.d. grein í Netlu 2018. Því er einboðið að tilgreina Háskóla Íslands hér sem samstarfsaðila – einkum Málvísindastofnun en einnig Félagsvísindastofnun.

8. grein: „Mikilvægi tungumálsins verði ávallt haldið á lofti í samhengi listsköpunar og miðlunar menningar, ekki síst fyrir börn og ungmenni.“ Hér væri eðlilegt að nefna Listaháskóla Íslands sem einn samstarfsaðila. Einnig mætti nefna nýstofnað Rannsóknasetur skapandi greina sem Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Listaháskóli Íslands standa að.

9. grein: „Greining verði gerð á umfangi og möguleikum fyrir aukna talsetningu og textun myndefnis á íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og heyrnar- og sjónskerta […].“ Hér væri eðlilegt að tilgreina Samstarf um íslenska máltækni meðal samstarfsaðila. Möguleikar á aukinni textun og talsetningu fara mjög eftir því hvernig hægt verður að nýta máltækni og gervigreind á þessu sviði.

12. grein: „Þróaðir verði innviðir fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig sem bæti aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum á íslensku og stuðli að hraðari þróun þess og uppfærslum.“ Hér er einungis Menntamálastofnun tilgreind sem mögulegur samstarfsaðili, en vitaskuld gefa ýmsir fleiri aðilar út margs konar námsefni, einkum fyrir framhaldsskóla. Nauðsynlegt er að tilgreina einnig Félag íslenskra bókaútgefenda sem samstarfsaðila, sem og Hagþenki.

17. grein: „Gerðar verði kröfur, og hvatar til þess efldir, að innflytjendur nái tökum á grunn-færni í íslensku.“ Hér þarf að huga vel að orðalagi. Hvar verða slíkar kröfur gerðar, hvernig verður þeim framfylgt, og hvernig verður fólki gert kleift að uppfylla þær? Það er líka dálítið hæpið að tala um að „ná tökum á færni“ – fólk nær færni í málinu og nær tökum á málinu. Í stað þess að tala um kröfur mætti segja: „Lögð verði áhersla á að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku og þróaðir jákvæðir hvatar til að stuðla að því.“

3. Nauðsynlegar aðgerðir sem ekki eru í áætluninni

Vitanlega er ekki hægt að gera allt í einu, en það verður samt að nefna að í áætlunina vantar þrjár mjög mikilvægar og brýnar aðgerðir sem ég hefði kosið að hefðu verið hafðar með og mega a.m.k. alls ekki bíða fram yfir gildistíma áætlunarinnar. Þær eru þessar:

1. Mjög mikilvægt er að efla rannsóknir á íslensku máli og stöðu þess. Hér verður að benda á að eftir sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans fyrir 15 árum voru samtals 12 akademísk störf í íslenskri málfræði í sameinuðum skóla en núna eru þau aðeins sjö – hefur fækkað um fimm. Vegna þess að nemendum í íslensku hefur fækkað verulega að undanförnu, bæði á Menntavísindasviði og sérstaklega Hugvísindasviði, er ljóst að reiknilíkan háskólastigsins mun ekki leyfa fjölgun kennara á næstunni, og hætta er á enn frekari fækkun þegar kennarar fara á eftirlaun. Rannsóknir eru 40% af vinnuskyldu háskólakennara í akademískum störfum og því gefur augaleið að fækkun kennara leiðir til minni rannsókna.

Við vitum að miklar hræringar eru í málinu og málsamfélaginu um þessar mundir og gífurlega mikilvægt að fylgjast vel með því sem er að gerast til að unnt sé að grípa til aðgerða ef ástæða er til. Vissulega eru stærri rannsóknarverkefni að miklu leyti fjármögnuð af styrkjum úr samkeppnissjóðum, en eftir sem áður er nauðsynlegt að hafa fræðimenn í föstum störfum til að skipuleggja verkefnin, stjórna þeim, og tryggja samfellu í starfinu. Það er því mjög alvarlegt að á sama tíma og þörfin fyrir rannsóknir er meiri og brýnni en nokkru sinni fyrr skuli hafa dregið stórlega úr rannsóknargetu á þessu sviði. Við því verður að bregðast með fjölgun kennara í íslenskri málfræði sem fyrst, og æskilegt hefði verið að taka á því máli í aðgerðaáætluninni.

2. Í framhaldi af þessu verður að nefna að ekki eru í áætluninni neinar aðgerðir til að fjölga háskólanemum í íslensku, að því undanskildu að lagt er til að boðið verði upp á fjarnám í íslensku til BA-prófs. Það er góðra gjalda vert en ræðst ekki að rótum vandans, sem er sá að íslenskunám virðist af einhverjum ástæðum ekki höfða til ungs fólks – e.t.v. vegna þess að það óttast að lenda í blindgötu og áttar sig ekki á því að íslenskunám gefur marga og fjölbreytta möguleika á framhaldsnámi og störfum. Nýnemum í íslensku til BA-prófs við Háskóla Íslands hefur farið ört fækkandi undanfarin ár og voru ekki nema svolítið á annan tug í vetur, og nemendum sem velja íslensku sem kjörsvið á Menntavísindasviði hefur einnig farið fækkandi.

Þessi fækkun hefur keðjuverkandi áhrif – leiðir miðað við fjárhagslíkan Háskólans til minnkaðra fjárveitinga sem aftur leiðir til minnkaðs námsframboðs sem leiðir svo til þess að námið verður ekki eins áhugavert og áður í augum nemenda og aðsókn minnkar enn. Ef svo fer fram sem horfir mun þetta ástand leiða til skorts á íslenskukennurum eftir nokkur ár. Það er brýnt að kanna hvers vegna íslenskunám höfðar ekki til ungs fólks og nýta niðurstöður úr þeirri könnun til að reyna að snúa þessari þróun við og vekja áhuga ungs fólks á íslenskunámi. Í því skyni er nauðsynlegt að skipuleggja öfluga kynningu í framhaldsskólum, en einnig getur þurft að breyta íslenskukennslu í framhaldsskólum og Háskólanum og grípa til ýmissa fleiri aðgerða.

3. Þótt vísað sé til Íslenskrar málnefndar á nokkrum stöðum í aðgerðaáætluninni er ekki fjallað sérstaklega um málefni nefndarinnar, en nauðsynlegt er að efla hana og hugsa upp á nýtt. Tíu af 16 fulltrúum í nefndinni eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt, og langflest þeirra sem nú sitja í nefndinni eru með einhverja háskólamenntun í íslensku. Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Þessu er nauðsynlegt að breyta.

Það mætti hugsa sér að í nefndina bættust t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Öryrkjabandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Landssamtaka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pólverja á Íslandi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skilvirkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjölbreytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. En auk þessa er mikilvægt að styrkja nefndina fjárhagslega og sjá henni fyrir skrifstofu og starfsfólki.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Jón Þórhallsson - 07.06.2023

Það er ekkert mikilvægara en að RÚV -NETMIÐILL komi sér upp

sínu eigin BLOGG-UMSJÓNARSVÆÐI með sama hætti og mogginn er með.

Fleiri myndu stinga niður penna ef að svæðið væri algerlega

HLUTLAUST OG STARFAÐI Í ALMANNA ÞÁGU.

(Hægrimennirnir sem að stjórn mogga-blogginu þeir áskilja sér rétt til að loka á þá einstaklinga

& á þau blogg sem að vilja ekki ganga í takt með ritstjórnarstefnu blaðsins).

Í staðinn fyrir að vera með bloggflokka eins og formúlukappakstur, pepsideild og enskan bolta;

að þá myndi RÚV BÚA TIL NÝJA BLOGG-FLOKKA SEM AÐ GÆTU HEITIÐ;

VELFERÐ, FERÐAÞJÓNUSTA, FISKELDI, SJÁVARÚTVEGUR, LANDBÚNAÐUR og IÐNAÐUR.

Bloggið er sérstaklega hentugt til að halda utan fræðaskrif

og kostur að hafa alla málaflokka samfélagsins á einum og sama staðnum.

Þar ættu forsetinn, biskupinn, allir stjórnmálamenn, Háskólafræðimenn, almannavarnir

og allir aðrir landsmenn að skrifa sína LEIÐARA INN Í FRAMTÍÐINA.

Afrita slóð á umsögn

#3 Sigríður Huld Jónsdóttir - 07.06.2023

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með þess aðgerðaráætlun um málefni íslenskunnar og hér sérstaklega með áherslu á íslensku fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku. Áherslan hér virðist vera aðallega út frá þörfum þeirra sem eru á vinnumarkaði og hafa annað móðurmál en íslensku. Af nógu er að taka og margar góðar tillögur í aðgerðaráætluninni - sem ég sé ekki að sé fjármögnuð en verður það vonandi.

Ég sé mjög lítið um hlutverk framhaldsskóla í þessum aðgerðum og mjög litla áherslu á starfsþróun kennara á öllum skólastigum (líka í háskóla) hvað varðar hæfni þeirra til að kenna fólki með annað móðurmál en íslensku. Það hlýtur að auka farsæld allra að horfa á íslenskuna og íslenskukennslu til þeirra er hafa annað móðurmál en íslensku, í samhengi óháð aldri og bakgrunni þeirra sem málið varðar.

Ég fagna því að Evrópski tungumálaramminn er inni í áætluninni. En hef efasemdir um það að það sé ekki hægt að ráða kennara/starfsfólk í framhaldsskóla sem uppfylla ekki skilyrði tungumálarammanns við ráðningu. Í þeim framhaldsskóla sem ég starfa við er afar góð reynsla af því að ráða kennara og starfsfólk sem hefur annað móðurmál en íslensku. Þessir kennarar eru í dag betri í íslensku en margur annar með íslensku sem móðurmál. Það er erfitt að fá kennara inn í iðn- og starfsnám og í kröfunni um hæfi kennara og starfsfólks í skólum í aðgerð 14 þarf að taka mið af því skólastigi sem viðkomandi vinnur á og þeim þörfum sem skólinn metur. Það væri frábært að geta ráðið kennara/starfsfólk með t.d. pólsku sem móðurmál inn í framhaldsskólana og við getum ekki horft fram hjá því að nemendur á öllum skólastigum verða líka að geta tjáð sig við einhvern inni í skólunum á sínu móðurmáli sé þess kostur, allavega ættum við að vera að horfa til þess móðurmáls sem flestir hafa í samfélaginu núna fyrir utan íslenskuna. Fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku lærir íslenskuna betur ef þau hafa gott vald á sínu eigin móðurmáli. Allt of oft eru nemendur í framhaldsskólum sem eru tvítyngd, hvorki góð í íslensku né sínu eigin móðurmáli. Það sama á við um íslenska nemendur sem hafa búið næstum alla grunnskólagönguna erlendis og hafa ekki verið í íslensku skólakerfi, þeir nemendur eiga oft erfitt með námið í íslenskum framhaldsskólum þar sem þeim skortir orðaforða og skilning á ýmsum fagtengdum orðum sem ekki eru oft notuð í daglegu tali. En það getur reyndar verið líka hjá þeim sem hafa alltaf verið á íslandi en fá ekki þjálfun í tungumálinu t.d. að læra orð um ýmis störf, verkfæri, náttúruna og hugtök í t.d. sálfræði eða heimspeki.

Þær aðgerðir sem snúa að aukinni máltækni og auknu aðgengi allra hvað varðar tungumálið ná vonandi fram að ganga t.d. 10,12, 16 og 17.

Það er til lítils að efla skólasöfn ef starfsþróun þeirra sem starfa í skólunum verður ekki efld á svið kennslu nemenda sem hafa annan menningarlegan bakgrunn en við sem fæðumst á Íslandi og eigum íslensku að móðurmáli. Ég myndi vilja sjá meira um starfsþróun og stuðning við þá sem eiga að kenna fólki íslensku og skiptir þá engu hvort er verið að kenna fólki á vinnustað eða í skólakerfum.

Áfram íslenskan!

Afrita slóð á umsögn

#4 Ingibjörg St Sverrisdóttir - 08.06.2023

Efni: Til umsagnar í Samráðsgátt - Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn lýsir ánægju með drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 frá menningar- og viðskiptaráðherra. Hér er sérstaklega fjallað um gr. 11. Öflug skólasöfn og það sem stendur í greinargerð um hana.

Tekið er heilshugar undir mikilvægi þess að kortleggja safnkost og starfsemi skólasafna í landinu, en afar litlar upplýsingar liggja fyrir um þau, síðustu tvo áratugina, eftir að starf bókafulltrúa ríkisins í mennta- og menningarmálaráðuneytinu var lagt niður.

Stefnumörkun í málefnum skólasafna er brotakennd, engin lágmarks viðmið um fjárveitingar, starfsfólk, húsnæði eða safnkost eru til, og kröfur um sérmenntað starfsfólk, búnað og húsnæði eru afar mismunandi milli sveitarfélaga og einstakra skóla. Víða er rekið metnaðarfullt starf, en annars staðar er öll aðstaða mun lakari og jafnvel engin. Margar erlendar þjóðir hafa sett sér staðla eða viðmið um fjárveitingar, búnað, starfsemi og mönnun skólasafna og mætti hafa slíkt sem fyrirmyndir. Í nýlegri stefnu Sambands islenskra sveitarfélaga er því miður ekki minnst einu orði á bókasöfn eða skólasöfn sem sveitarfélögin þó reka.

Enginn opinber stofnun sér um að fylgjast reglulega með starfsemi skólasafna, eða bókasafna yfirhöfuð, og þeirri þjónustu sem þar er veitt. Bókasafnaráð sem starfar skv. bókasafnalögum nr. 150/2012 vinnur nú að stefnumótun fyrir starfsemi bókasafna, en á enn fremur að setja reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn á Íslandi. Það er því mikilvægt að ráðið komi að vinnu við kortlagningu á safnkosti og starfsemi skólasafna, og sérstaklega að mótun viðmiða um gæði og starf safnanna, til að efla þjónustu við fjölbreyttan nemendahóp, eins og segir í tillögunni.

Þá er bent á að Landskerfi bókasafna, sem rekur bókasafnakerfið Gegnir.is og leitargáttina Leitir.is býr yfir upplýsingum um safnkost bókasafnanna. Ennfremur er vakin athygli á bókasafni samtakanna Móðurmáls, sem býr yfir bókakosti á erlendum tungumálum fyrir börn og unglinga, en einstaklingar eða bókasöfn geta fengið efnið að láni: https://www.modurmal.com/library/.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

landsbókavörður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Tálknafjarðarhreppur - 13.06.2023

Fræðslunefnd Tálknafjarðarhrepps fagnar að unnið sé á vegum ríkisins að aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu og leggur áherslu á að horft sé til skólastarfs í dreifðari byggðum í því verkefni.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Jónella Sigurjónsdóttir - 13.06.2023

Varðandi lið 11, Öflug skólasöfn. Ég fagna þessum lið og legg til að Félag fagfólks á skólasöfnum verði haft með í ráðum. Innan þess félags er mikil þekking á starfsemi og ólíkum aðstæðum skólasafna á Íslandi. Það er orðin mikil þörf á að jafna aðstöðu skólasafnanna með þarfir nemenda og stöðu læsis á Íslandi í huga.

Afrita slóð á umsögn

#7 Pálína Magnúsdóttir - 14.06.2023

Afar ánægjulegt er að sjá þessa aðgerðaráætlun líta dagsins ljós. Aðgerð nr 11 er afar mikilvæg, enda áhyggjuefni að ekki skuli vera til viðmið hvað safnkost, starfsfólk, húsnæði né fjárveitingar varðar, hvorki fyrir skólasöfn né almenningsbókasöfn. Skólasöfn ásamt almenningsbókasöfnum í landinu heyra undir sveitarfélög og víða er pottur brotinn í rekstri þessara safna. Engin opinber stofnun virðist fylgjast með starfsemi þeirra og það er til að mynda afar sérkennilegt að í nýlegri stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga er hvergi minnst einu orði á starfsemi þeirra bókasafna sem heyra undir sveitarfélög í landinu.

Bókasöfn, hvort sem það eru almennings- eða skólasöfn, gegna afar mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að viðhalda og efla íslenska tungu. Þar skiptir miklu máli að aðgengi að efni á íslensku sé óheft og ókeypis fyrir alla. Bæta mætti því inn viðmiðum vegna almenningsbókasafna inn í aðgerðaráætlunina. Víða um land eru samrekin almennings- og skólasöfn og almenningsbókasöfn gegna ekki síður mikilvægu hlutverki í þessu samhengi.

Því ber einnig að fagna að bókasafnaráð sem starfar skv lögum nr 150/2012 er loks orðið virkt og er að móta stefnu fyrir bókasöfn í landinu. Ráðið er einnig að vinna að reglum um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn og því mikilvægt að það komi að vinnu við þá kortlagningu og setningu þeirra viðmiða sem boðuð eru í aðgerðaráætluninni auk þeirra sem nefndir eru sem samstarfsaðilar.

Pálína Magnúsdóttir

borgarbókavörður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Helga Ágústsdóttir - 15.06.2023

Kennsluráðgjafar grunnskóla hjá Miðju máls og læsis lýsa yfir ánægju með að unnið sé að aðgerðaáætlun um málefni íslenskrar tungu. Þessar tillögur að aðgerðum virðast stefna að því að aðföng til íslenskunáms verði til staðar og því ber að fagna. En aðgerðirnar verða seint til nokkurs ef nýjar kynslóðir Íslendinga sjá ekki tilgang í því að nota íslensku. Það eru ekki innflytjendur sem virðast fráhverfir íslensku, heldur börn og ungmenni sem hér alast upp og nota í síauknum mæli ensku í samskiptum sín á milli. Enska heyrist töluð á öllum skólagöngum þvert á uppruna og leikskólakennarar tala um að mjög ung börn grípi til ensku í leik, sem endurspeglar auðvitað málumhverfi barna á Íslandi.

Af hverju ættu börn og ungmenni að sjá tilgang með því að nota íslenskt talmál þegar önnur tungumál virðast mun gagnlegri í hnattrænum heimi. Talsetning og markaðssetning íslensku í gegnum menningartengt efni er skref í rétta átt. Næstu skref snúa þá vonandi að því að fjármagna ritlaun barnabókahöfunda, barnaleikritahöfunda, kvikmyndasjóð barnamenningar o.s.frv. Þau eru fólkið sem blæs lífi í tungumálið. En þó allt heimsins efni væri til á íslensku þá væri það gagnslaust ef enginn myndi sjá sér hag í að stilla sjónvarpið á íslenskt tal.

Í tillögurnar skortir sárlega aðgerðir sem ávarpa viðhorf til íslensku í skólakerfunum okkar. En eins og lesa má í Íslenskri málstefnu 2021-2030 virðist tilgangur íslensku í huga íslenskra ungmenna aðallega vera sá að íslenska sé skólatungumál, notað til leiðréttinga og af gömlu fólki. Því þarf að breyta svo öll íslensk ungmenni líti á íslensku sem sína eign. Til þess þarf hugarfarsbreytingu heillar þjóðar og þau sem mestu geta breytt er fólkið sem starfar á vettvangi leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og félagasamtaka. Fólkið sem eyðir tíma með börnum í leik og starfi. Fólkið sem talar við börn og ungmenni.

Fræðimaður að nafni Spolsky hefur skrifað mikið um málstefnur. Hann talar um að málstefna samfélags samanstandi af þrennu.

1. Viðhorfum og hugmyndum

2. Málnotkun

3. Málstýringu (aðgerðir til þess að hafa áhrif á viðhorf til tungumála og hvernig þau eru notuð)

Þessi þingsályktunartillaga er dæmi um málstýringaraðgerðir til þess að auka aðgengi að íslensku. En til þess að málstýringaraðgerðir hafi raunveruleg áhrif þurfa þær að vera í takt við raunverulega tungumálanotkun samfélagsins og viðhorfum þess til tungumála. Aðgengi eitt og sér dugar ekki til. Raunverulegt aðgengi að tungumáli felst í því að það sé markvisst notað á öllum sviðum samfélagsins. Öllum þarf ávallt að vera boðið upp á íslensku. Skilti, auglýsingar, háskólakúrsar, öll þjónusta og ekki síst samtöl þurfa alltaf að byrja á íslensku. Íslenska þarf að vera notuð, hún þarf að sjást og heyrast. Að öðrum kosti verður íslenskan að auka tungumáli sem smám saman glatar tilgangi sínum. Árangursríkasta leiðin til þess að tryggja raunverulegt aðgengi að íslensku er að snúa viðhorfum samfélagsins til íslensku og íslenskunotkunar.

Stærsta aðgengisbyltingin væri sú að íslenska væri notuð af þeim sem hana kunna á öllum sviðum samfélagsins en tillögu um það vantar enn í aðgerðaáætlunina.

Kennsluráðgjafar grunnskóla hjá Miðju máls og læsis

Helga Ágústsdóttir, Ragnheiður V. Sigtryggsdóttir og Sigrún J. Baldursdóttir

Afrita slóð á umsögn

#9 Landskerfi bókasafna hf. - 16.06.2023

Landskerfi bókasafna hf. fagnar aðgerðaáætluninni, einkanlega aðgerð 11 um málefni skólasafna og tekur undir að tímabært og mikilvægt sé að setja „viðmið um gæði og starf safnanna til að efla þjónustu við fjölbreyttan nemendahóp“.

Hlutverk Landskerfis bókasafna er að reka bókasafnakerfið Gegni á landsvísu auk leitargáttarinnar leitir.is og veita söfnum sérfræðiþjónustu. Félagið hefur unnið greinargerð fyrir mennta- og barnamálaráðuneyti um safnkost, útlán og lánþega í Gegni á einstökum grunnskólasöfnum.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er fjallað á mjög almennan hátt um þjónustu sem skólasöfn skuli veita nemendum. Þar kemur fram að tryggja skuli aðgang nemenda að þjónustu og að safnið skuli vera „búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla“. Af þessu almenna orðalagi leiðir að í dag er lítið um samræmt verklag í skólasöfnum landsins og hjá starfsfólki skólasafna. Þetta vinnulag endurspeglast í tölfræði úr Gegni þar sem sést vel að skólasöfn nota kerfið með ólíkum hætti. Sum söfn lána út námsefni, kennslubækur og bekkjarsett gegnum bókasafnskerfið Gegni en önnur ekki. Einhver skólasöfn skrá ekki safnkost sinn og því eru engar upplýsingar fyrir hendi um hann eða notkun hans. Þetta gerir tölulegan samanburð á starfseminni á milli safna erfiðan og jafnvel ekki mögulegan.

Færst hefur í vöxt að almennings- og grunnskólabókasöfn séu rekin saman sem ein eining og viðmið um gæði og starf þurfa að taka til slíks rekstrar.

Landskerfið hefur orðið þess áskynja að starfsfólk grunnskólasafna á oft í erfiðleikum með að koma safnkosti sínum í umferð í Gegni. Söfnin eru einatt einmenningssöfn og starfsfólk er gjarnan í hlutastarfi á skólasafninu oft samhliða kennslu. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að allnokkur umsýsla fylgir því að kaupa inn safnkost og skrá hann með réttum hætti, plasta bækur og útbúa lánþegaskírteini. Allt þarf þetta að gerast svo hægt sé að lána efnið út til lánþega þ.e. nemenda og kennara. Tímaskortur starfsfólks og stundum skortur á skilningi stjórnenda á mikilvægi þekkingar á faglegu vinnulagi kemur niður á þessum mikilvægu bakvinnsluverkefnum grunnskólasafna og þar með þjónustunni sem skólasöfnum er ætlað að veita. Skoða ætti möguleika á að bjóða upp á miðlæga skráningarþjónustu fyrir skólasöfnin innan sveitarfélags eða á landsvísu og létta þannig verkefnum af þeim.

Vönduð skráning auðveldar samnýtingu og utanumhald á safnkosti og leiðir þannig til betri nýtingar á aðföngum safnanna. Vert er að hafa í huga að enn flóknara er að skrá inn safnkost á erlendum tungumálum en á íslensku en þar er skráningu mjög ábótavant. Hér eru nokkur dæmi um fjölda eintaka í Gegni á lykiltungumálum í grunnskólunum 12/6/2023 (hreinir grunnskólar, þ.e.a.s. söfn sem ekki eru samnýtt með almenningssöfnum)

• Íslenska – 1.406.059 eintök

• Pólska - 3.864 eintök

• Úkraínska – 109 eintök

• Arabíska – 236 eintök

• Rúmenska – 45 eintök

• Litháíska – 266 eintök

Nemendur af erlendum uppruna stoppa oft stutt við og flytjast á milli grunnskóla og því eru skólasöfnin treg til að fjárfesta í kaupum á safnkosti fyrir fáa nemendur. Skilgreina þarf fjárheimildir til bókakaupa og annars reksturs hjá skólasöfnum til þess að starfsfólk safnanna geti skipulagt starfsemina. Grunnskólar landsins gætu grætt á miðlægu safni sem sæi um skráningu og utanumhald á erlendum bókum. Safnkostur á erlendum tungumálum þyrfti að geta flætt betur á milli grunnskólabókasafna á landsvísu. Ein möguleg lausn væri að setja á stofn miðlægt bókasafn sem sæi um aðföng og umsýslu á erlendum safnkosti og miðlaði bókakössum til skóla fyrir þá nemendur sem þess þurfa. Þegar skólar þyrftu ekki lengur á þessu efni að halda þá myndu þeir skila kössunum svo önnur söfn geti notað safnkostinn.

Mikilvægt er að starfsfólk grunnskólasafna viti til hvers er ætlast af þeim svo það geti sinnt störfum sínum með sem bestum hætti. Jafnframt þyrfti að skerpa á viðmiðum um nauðsynlega hæfni starfsmanna sem vinna á skólasöfnum, bæði varðandi menntun og almenna tölvufærni og tryggja möguleika á símenntun. Þekking á upplýsingafræði styður mjög við viðeigandi miðlun á kennslu- og hjálpargögnum svo sem um íslensk og erlend gagnasöfn á borð við timarit.is og Landsaðgang að erlendum áskriftum, hvar.is og gerir hana markvissari.

Vönduð kortlagning á stöðunni nú, markmiðssetning og val á viðmiðum fyrir skólasöfn sem og útvegun bjarga til að ná markmiðunum er lykilatriði. Einnig þarf að huga að eftirfylgni. Takist vel til þá mun það ekki eingöngu skila nemendum á mismunandi aldri og úr fjölbreyttum heimi tungumála og menningar markvissari þjónustu heldur mun slík leiðsögn auðvelda og kjarna betur störf starfsfólks skólasafna og skólastjórnenda í þágu bókasafnaþjónustu en nú er. Mikilvægt er að þjónusta skólasafnanna sé í stöðugri þróun og staðni ekki.

Afrita slóð á umsögn

#10 Símennt, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva - 19.06.2023

Þúsundir innflytjenda sækja á hverju ári þjónustu hjá símenntunarmiðstöðvum innan Símenntar en þær eru ellefu talsins og starfa á landsvísu. Þær starfa eftir samningi við félags-og vinnumarkaðsráðuneytið, eru viðurkenndir fræðsluaðilar samkvæmt Menntamálastofnun og starfa samkvæmt lögum nr.27/2010 um framhaldsfræðslu 27/2010: Lög um framhaldsfræðslu | Lög | Alþingi (althingi.is). Hjá símenntunarmiðstöðvunum liggur dýrmæt þekking og reynsla af kennslu og ráðgjöf fyrir innflytjendur, sem og þátttöku í ýmsum þróunarverkefnum sem varða aðlögun og færni innflytjenda. Símenntunarmiðstöðvarnar sjá um mat á raunfærni einstaklinga til styttingar á námi eða ýmiss konar starfsréttinda. Síðast en ekki síst sjá símenntunarmiðstöðvarnar um íslenskukennslu fyrir innflytjendur og ýmiss konar samfélagsfræðslu, oft í samstarfi við vinnumarkaðinn. Auk samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk (Landnemann) fyrir Vinnumálastofnun. Ljóst er að símenntunarmiðstöðvarnar veita náms- og starfsráðgjöf, hópráðgjöf, rafræna ráðgjöf og ráðgjöf með túlkaþjónustu alla daga. Um allt land er þétt net ráðgjafa með mikla reynslu af þörfum markhópsins sem hægt er virkja enn betur og fjárfesta í. Nálægð þessa nets er mikil við markhóp, vinnumarkaðinn og þau úrræði sem eru í boði eða þörf á. Eftirfarandi eru ábendingar Símenntar hvað varðar íslenskukennslu fyrir útlendinga:

1. Miðlæg ráðgjöf og þróun málaflokksins. Til að tryggja mikilvæga þróun fagsins væri æskilegt að kennarar og símenntunarmiðstöðvar geti leitað sér faglegrar ráðgjafar, t.d. hvað varðar þróun í málaflokknum, kennsluefni, kennsluaðferðir, gagnabanka, hvernig á að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp, ólæsa nemendur o.s.frv.

2. Fagnámskeið fyrir kennara á námskeiðum í íslensku fyrir útlendinga. Þeir sem kenna t.d. hjá símenntunarmiðstöðvum þurfi að sitja fagnámskeið svipað og þeir sem vilja kenna Samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk (Landnemann). Þar væri farið yfir gæðaviðmið við kennslu íslensku fyrir útlendinga, kennslufræði fullorðinna, kennslu ólíkra nemendahópa á mismunandi getustigi, menningarnæmi, kennsluefni og fjölbreyttar aðferðir við kennslu í samræmi við hæfniramma um kennslu íslensku fyrir útlendinga.

3. Stefna um skilgreinda hæfni aðfluttra í íslensku og kostnaðarþátttöku hins opinbera. Nauðsynlegt er að kveða á um námskrá og rétt innflytjenda til íslenskukennslu í lögum til þess að gera hóp innflytjenda sýnilegan í menntakerfinu og tryggja rétt þeirra til íslenskukennslu. Námskrár í íslensku fyrir útlendinga eru frá 2008 og 2010. Þörf er á endurskoðun þeirra og jafnframt að huga að lagalegri stöðu þeirra. Íslenskukennsla útlendinga er hluti af vernd íslenskrar tungu og því mjög mikilvægt að metnaður sé lagður í að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Skilgreina þarf íslenskukennslu fyrir útlendinga í lögum um framhaldsfræðslu og hlutverk símenntunarmiðstöðva, sem og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í málaflokknum.

4. Skilgreina hæfniramma fyrir málaflokkinn. Mikilvægt er að skilgreina hæfni fyrir íslenskunám innflytjenda með sérstökum hæfniramma þess efnis. Með því má auka samræmi hjá fræðsluaðilum í framboði námskeiða og mat á árangri. Þá þykir nauðsynlegt að fræðsluaðilar skrái helstu upplýsingar um námsstöðu og námsárangur í samræmdan gagnagrunn til að auðvelda úrvinnslu, tölfræði og mat á námi milli skóla. Einnig þurfa nemendur að geta nálgast námsferil sinn í gegnum island.is.

5. Samræmt stöðumat og hæfnimat. Æskilegt er að innflytjendur geti leitað til sérstakra þjónustumiðstöðva sem liðsinna þeim við að fá mat á raunfærni og/eða viðurkenningu á menntun sinni frá heimalandinu. Þar væru símenntunarmiðstöðvarnar heppilegur valkostur.

Símennt bindur miklar vonir við stefnumörkun í málaflokknum. Það er von Símenntar að símenntunarmiðstöðvar fái víðtækara hlutverk við að mæta ákalli um aukinn stuðning til handa innflytjendum á Íslandi, ekki síst hvað íslenskukennslu varðar. Það felast fjölmörg tækifæri í því kerfi sem símenntunarmiðstöðvar innan Símenntar mynda. Kerfið hefur nýst vel og er notkun þess mikil. Brýnt er að nýta það betur og í fleiri áttir enda mikil samfélagsleg auðlind sem ákveðin sátt ríkir um. Það er því fagnaðarefni að ríkisstjórnin horfi til þessa í stjórnarsáttmála sínum.

Frekari útfærslur er að finna í minnisblaði Símenntar: Tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga

Afrita slóð á umsögn

#11 Anna Sigríður Bragadóttir - 27.06.2023

Ég fagna því að þessi aðgerðaáætlun hafi litið dagsins ljós. Hún er brýn og löngu tímabær og þar er margt metnaðarfullt að finna. Tvær greinar áætlunarinnar snúa sérstaklega að starfi háskólanna, greinar 4 og 6. Ég sakna þess að Háskólans í Reykjavík skulu ekki vera getið sem mögulegs samstarfsaðila í 6. grein og rökin eru þessi:

Innan Háskólans í Reykjavík hefur um árabil verið aðfaranám fyrir nemendur sem ekki hafa tilskilinn undirbúning fyrir háskólanám, þ.e. Háskólagrunnur HR. Við deildina hafa allnokkrir nemendur stundað nám sem hafa annað móðurmál en íslensku en í öllum tilfellum hafa þeir haft grunn í íslensku máli. Tekið hefur verið tillit til þeirra og þeim veittur stuðningur eftir því sem unnt er. Þess ber að geta að allt nám við deildina fer fram á íslensku og íslenska er veigamikil kennslugrein innan hennar. Í 6. grein aðgerðaáætlunarinnar er vissulega talað um nýja námsleið en fyrir ákveðinn hóp gæti aðfaranám með sérstökum stuðningi verið góður, og jafnvel betri, kostur. Nemendur við Háskólagrunn HR eru hluti af öflugu samfélagi skólans, kynnast vinnubrögðum sem tíðkast í háskóla og koma vel undirbúnir inn í háskólanám.

Sem forstöðumaður Háskólagrunns HR lýsi ég yfir vilja til að skoða möguleika á þátttöku okkar í þessari aðgerðaáætlun í málum íslenskrar tungu.

Afrita slóð á umsögn

#12 Kolbrún Þorbjörg Pálsdóttir - 28.06.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Sigríður Sigurjónsdóttir - 28.06.2023

Málnefnd Háskóla Íslands fagnar drögum að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026. Sérstaka ánægju vekur hversu margar aðgerðir í áætluninni varða íslensku sem annað mál og íslenskunám innflytjenda. Nefndin tekur þó undir margar þeirra athugasemda sem koma fram í umsögn Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeritus við Háskóla Íslands, m.a. þá meginathugasemd hans að aðgerðaáætluninni fylgir hvorki kostnaðarmat né fjárveitingar. Þetta er ólíkt því sem finna má í nýsamþykktri áætlun um eflingu barnamenningar (sjá hér: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3381). Sú áætlun er miklu minni í sniðum, en einmitt vegna þess að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu er býsna metnaðarfull þá er mikilvægt að fjármagn sé tryggt til að hún nái fram að ganga.

Athugasemdir við einstaka liði áætluninnar:

1. grein: „Áhersla verði lögð á starfstengdan orðaforða á einstaklingsmiðaðan og sveigjanlegan hátt.“ Hér er rétt að benda á að bæta þarf ferli við þýðingu íðorða á mörgum sviðum en þau eru grundvöllur starfstengds orðaforða sérstaklega í tæknigeiranum. Innan námsbrautar í tölvunarfræði við Háskóla Íslands er verkefni í gangi sem gengur út á lýðvistun slíkra þýðinga en fjármagna þarf slíkt verkefni til lengri tíma.

2. grein: Nefndin tekur undir þá athugasemd Eiríks Rögnvaldssonar að í úttektum á því hvernig tryggja megi gæði íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur „sé byggt á reynslu og þekkingu á kennslu íslensku sem annars máls og annarsmálsfræðum. Slík reynsla og þekking er langmest innan Háskóla Íslands [...]. Þess vegna væri eðlilegt að tilgreina Háskóla Íslands sérstaklega þarna“ í upptalningu samstarfsaðila.

7. grein: „Aflað verði reglubundinna upplýsinga um viðhorf landsmanna til tungumálsins til að meta árangur og þörf fyrir frekari þróun aðgerða í þágu tungumálsins.“ Málnefnd Háskóla Íslands tekur undir mikilvægi þessarar greinar aðgerðaáætlunarinnar því eins og segir í greinargerð: „Eins og fræðimenn og fulltrúar í Íslenskri málnefnd hafa bent á skiptir viðhorf málnotenda sköpun við þróun og afdrif tungumála, ekki síst í nánu sambýli tveggja eða fleiri mála.“ Nefndin tekur undir þá ábendingu Eiríks Rögnvaldssonar að leitað verði eftir samstarfi við kennara/fræðafólk við Háskóla Íslands sem nýlega hefur staðið að viðamiklum rannsóknum á viðhorfum landsmanna til íslensku og ensku.

Í sambandi við þessa grein áætlunarinnar má einnig benda á að vanda þarf íslenskar þýðingar á ensku efni, því lélegar og enskuskotnar þýðingar geta haft neikvæð áhrif á viðhorf fólks til íslenskunnar. Málnefnd Háskóla Íslands hefur t.a.m. áhyggjur af íslenskri þýðingu stafræna námsumsjónarkerfisins Canvas sem notað er í öllum háskólum landsins. Öll námskeið í Háskóla Íslands og á háskólastigi á Íslandi eiga kennsluvef í Canvas þar sem m.a. námsefni námskeiðs, verkefnaskil, endurgjöf og umræður nemenda og kennara fara fram. Námsumsjónarkerfið Canvas er því samskiptagátt nemenda og kennara þar sem t.d. er hægt að ræða viðfangsefni námskeiðs í umræðuþráðum. Hér er því um gríðarlega öflugt verkfæri að ræða sem allir háskólanemar á landinu nota dags daglega yfir háskólaárið. Það er því afar mikilvægt fyrir vöxt og viðgang íslenskunnar, sem býr nú í nánu sambýli við alþjóðamálið ensku, að viðmót námsumsjónarkerfisins sé á vandaðri íslensku. Þetta er enn mikilvægara þegar haft er í huga að flestir notendur kerfisins, háskólanemar á Íslandi, eru ungt fólk en nýlegar rannsóknir, m.a. innan öndvegisverkefnisins „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ (www.molicodilaco.hi.is), sýna að enskunotkun unglinga og ungs fólks undir þrítugu er meiri en eldra fólks. Óþjál þýðing Canvas, og það að sumar nýjungar og viðbætur við kerfið á síðustu árum eru enn á ensku, eykur enskunotkun háskólanema og hefur neikvæð áhrif á notkunarsvið og málfærni ungs fólks á íslensku og viðhorf þess til móðurmálsins. Málnefnd Háskóla Íslands telur því brýna þörf á því að íslensk þýðing Canvas sé endurskoðuð og viðbætur við kerfið, sem enn hafa ekki verið íslenskaðar og birtast notendum á ensku, séu þýddar og yfirfarnar af íslenskumælandi notendum.

9. grein: „Greining verði gerð á umfangi og möguleikum fyrir aukna talsetningu og textun myndefnis á íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og heyrnar- og sjónskerta […].“ Í þessu sambandi má benda á að í dag eru til góð opin talgreiningarforrit eins og t.d. „Whisper“ frá OpenAI (https://github.com/openai/whisper). Fjármagna þarf umfangsmikla gagnasöfnun til að þjálfa slík mállíkön í íslensku svo góð talgreiningarþjónusta verði aðgengileg fyrir sem flesta. Nefna mætti háskólana hér sem samstarfsaðila.

10. grein: „Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þrói og viðhaldi upplýsingagátt með aðgengi að orðabókum og aðgengilegum máltæknilausnum. Gáttin sé sérstaklega miðuð að notkun yngri málnotenda og/eða málnotenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.“ Nefndin tekur undir að rétt sé að hafa þennan hóp sérstaklega í huga við hönnun upplýsingagáttarinnar en hún nýtist einnig miklu stærri hópi, t.d. til að laga málfræði- og innsláttarvillur í texta.

12. grein: „Þróaðir verði innviðir fyrir miðlun rafræns námsefnis fyrir öll skólastig sem bæti aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum á íslensku og stuðli að hraðari þróun þess og uppfærslum.“ Málnefnd Háskóla Íslands bendir á að ekki er nóg að byggja upp innviði, það verður einnig að tryggja að námsefnishöfundar og útgefendur hafi aðstöðu til að semja nýtt námsefni fyrir hina stafrænu innviði. Þetta á ekki síst við um framhaldsskólastigið. Sérstaklega þarf að gæta þess að námsgögn séu þróuð þannig að auðvelt sé að koma þeim á rafrænt form með máltæknilausnum og að leyfi séu fyrir slíku.

14. grein: „Mótuð verði viðmið um íslenskuhæfni starfsfólks sem vinnur við uppeldi og menntun sem hvorki er með íslensku að móðurmáli né með leyfisbréf til kennslu í leik- og grunnskólum.“ Hér er um gríðarlega mikilvægt atriði að ræða hvað varðar framtíð íslenskunnar. Á leikskólaárunum og fyrstu árum grunnskólans eru börn á aðalmáltökuskeiði og samskipti og málörvun heima og í skólanum á þessum árum er lykilatriði fyrir málþroska þeirra og námsgengi síðar meir. Starfsfólk leik- og grunnskóla gegnir því mikilvægu hlutverki sem málfyrirmyndir barna á þeim árum sem þau eru móttækilegust fyrir máli. Mikilvægt er að efla íslenskufærni ein-, tví- og fleirtyngdra barna á þessum árum á markvissan hátt um leið og stuðlað er að því að barnið viðhaldi heimamáli sínu og að skólinn stuðli að jákvæðum viðhorfum til íslensku og heimamála barnanna.

Hvað varðar íslenskukennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum þá þarf að efla hæfni kennara og annars starfsfólks til að kenna nemendum með annað heimamál en íslensku. Einnig er mikilvægt að gerðar séu skýrar kröfur um hæfni kennara til að kenna íslensku almennt. Sú hæfni verður ekki eingöngu mæld eftir evrópska tungumálarammanum heldur þurfa kennarar að búa yfir færni til að fjalla um helstu þætti íslenskunnar: málfræði, málnotkun, lestur, ritun, bókmenntir, talað mál og áhorf. Þetta er sérlega mikilvægt í ljósi nýlegra laga um eitt leyfisbréf kennara á öllum skólastigum. Þeim lögum þarf að fylgja eftir með því að tryggja að kennarar sem ljúka kennaranámi hafi grunnþekkingu á íslensku máli auk hæfni til að nota málið sjálf.

16. grein: „Unnið verði að mótun nýrrar máltækniáætlunar sem miðli forgangsröðun stjórnvalda um áframhaldandi þróun, viðhald og innleiðingu máltæknilausna.“ Hér ætti að nefna háskólana sem samstarfsaðila.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Rithöfundasamband Íslands - 29.06.2023

Umsögn frá Rithöfundasambandi Íslands

Rithöfundasamband Íslands fagnar því að til standi að leggja fram frumvarp um aðgerðaráætlun um íslenska tungu, telur það brýnt og tekur undir allt sem þar er að finna. Við viljum þó nota tækifærið og benda á tvennt sem mætti vega þyngra í frumvarpinu:

Liður 8:

Við teljum rétt að draga sérstaklega fram bókmenntir og skrif þegar fjallað er um listir og menningu. Íslenskar bókmenntir byggja í langflestum tilfellum á íslenskri tungu. Við teljum skrif á íslensku, hvort heldur sem er ritun bóka, handrita að leikverkum, sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum eða annarra verka, eina af frumforsendum þess að íslenskt mál lifi áfram á tímum alþjóðavæðingar. Til þess að svo geti orðið áfram þarf fólk að geta lifað af því að skapa og skrifa á íslensku fyrir þann örmarkað sem hér er. Það gerist ekki án opinbers stuðnings við hinar skrifandi stéttir.

Liður 11:

Við fögnum því að skoða eigi hvort grunn- og framhaldsskólar uppfylli það lögbundna hlutverk sitt að reka skólabókasöfn enda hafa höfundar sem heimsækja skóla um land allt löngum bent á að gríðarlegur munur er á skólasöfnum á milli skólastofnanna og í því fellst bein mismunun því góð skólasöfn, með ríkulegan bókakost þar sem fagfólk leiðir börn og ungt fólk inn í heim bókmenntanna er oft á tíðum eini snertiflötur barna og unglinga við bækur, yndislestur og bókmenningu. Eins og ástandið er núna hafa börn ákaflega ójöfn tækifæri til þess að kynnast bókmenntum og lesmenningu í gegnum skólana sína. Við viljum líka benda á að brýnt er að skylda leikskóla til þess að hlúa vel að bókakostinum þar. Það er ekki síst nauðsynlegt þar sem, ríflega fjórða hvert barn á leikskóla á Íslandi er með erlendan bakgrunn (sjá nánar: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-06-28-fjorda-hvert-leikskolabarn-med-erlendan-bakgrunn-386524). Þá er einnig algengt að starfsfólk leikskóla sé af erlendum uppruna og hafi ekki endilega gott vald á íslensku. Því skiptir miklu máli að starfsfólk leikskóla geti lesið vandaðar og fjölbreyttar bækur á íslensku fyrir nemendur sína. Það er ekki sjálfgefið að börnin hafi aðgang að bókum á íslensku á heimilum sínum eða einhvern þar sem getur lesið á íslensku.

Afrita slóð á umsögn

#15 Alþýðusamband Íslands - 30.06.2023

Meðfylgjandi er umsögn Alþýðusambands Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Lina Elisabet Hallberg - 01.07.2023

Efni: Til umsagnar í Samráðsgátt − Drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026

Það er ánægjulegt að sjá þessa aðgerðaáætlun.

Athugasemd við 3. aðgerð:

Evrópski tungumálaramminn gefur hæfniviðmið sem sýna hvar tungumálanemi er staddur í FIMM mismunandi færniþáttum, þ.e. hlustun, lestri, samskiptum, talmáli og ritun (Council of Europe 2001).

Tryggja þarf íslenskukennslu fyrir innflytjendur óháð menntun og aldri. A.m.k. nokkrir tungumálaskólar þurfa að bjóða upp á áfanga sem tengjast með stigvaxandi hætti öllum hæfniviðmiðum í nýrri námskrá. Framboð tungumálaskólanna nær í dag engan veginn yfir öll hæfniviðmiðin. Ég er búin að hafa samband við ALLA 18 aðila sem fengu styrk fyrir íslenskukennslu frá Rannís 2022 og ENGINN kennir alla áfanga. Allir skólar nefndu sem ástæðu að það skorti fjármagn og að ekkert kennsluefni fyrir lengra komna væri til. Háskóli Íslands á að taka þarna leiðandi hlutverk og þróa kennsluefni í samræmi við hæfniviðmið nýju námskrárinnar. Námskránni þarf að fylgja eftir með stöðuprófum eftir hvern áfanga til að tryggja og sýna að hæfniviðmiðum hafi verið náð. Niðurstöður stöðuprófanna er gagnlegt að sýna þegar sótt er um ríkisborgararétt, atvinnu eða/og áframhaldandi nám.

Athugasemd við 13. aðgerð:

Tryggja þarf að börn og ungmenni læri íslensku á þann hátt að þau eigi möguleika á farsælu námi í íslenskum grunn-, framhalds- og háskólum. Samkvæmt rannsóknum er staðan að engu leyti ásættanleg, og þá sérstaklega varðandi nemendur sem eiga annað móðurmál en íslensku, bæði þau sem hafa flutt til landsins á ýmsum aldri og þau sem hafa fæðst á Íslandi en eiga foreldra af erlendum uppruna. Til þess að ná viðunandi árangri þarf stuðning ríkisins. Vandamálið er of stórt og áríðandi til að hvert sveitarfélag sjái um þjónustuna sem börnin fá. Æskilegt er að börn sem eru nýflutt til landsins séu sett í móttökubekki þar sem íslenska er kennd á samræmdan hátt. Móttökudeildir eiga að vera til í hverju sveitarfélagi og í flestum hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar börn hafa náð ákveðinni grunnfærni í íslensku séu þau færð í bekki með jafnöldrum en með áframhaldandi stuðningi og íslenskukennslu eftir þörfum, sem tekur mið af hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í aðalnámskrá grunnskóla. Íslensku þarf að kenna með markvissum og samræmdum hætti, en ekki einhvern veginn og alls konar eins og hefur tíðkast hingað til. Breyta þarf viðhorfi samfélagsins og skólayfirvalda: Börn læra ekki íslensku bara af því að dvelja allan daginn alla virka daga í íslensku skólastarfi, það hafa rannsóknir ítrekað leitt í ljós. Börn þurfa gæðamálörvun í íslensku í gagnkvæmum tjáskiptum við jafnaldra og starfsfólk í leikskólastarfi og markvissa gæðakennslu í íslensku þegar í grunnskóla er komið. Markmið með íslenskunámi eiga að vera skýr: Börnin nái færni í íslensku sem leggur grunn að farsælli skólagöngu þeirra í íslenskum skólum; börnin nái tökum á grunnþáttum íslenskunnar og einnig í stigvaxandi mæli námstengdri íslenskufærni.

Fagleg aðstoð við grunnskólabörn af erlendum uppruna við heimanám þarf að vera í boði í öllum skólum til að jafna tækifæri þeirra sem best. Auk þess þarf að efla stuðning við foreldrana svo þau geti aðstoðað við heimavinnu barna sinna.

Það er ekki nóg að kenna grunnskólabörnum íslensku heldur þurfa leikskólabörnin líka markvissa íslenskukennslu, en samkvæmt íslenskum rannsóknum er knýjandi þörf fyrir mun betri málörvun með þessum barnahópum í íslenskum leikskólum. Það er nokkur sérstaða hér á landi hversu lengi ung börn dvelja í leikskólum frá mjög ungum aldri og hversu almennt það á við um öll börn, líka þau sem eru af erlendum uppruna. Í því felst mikil ábyrgð en líka góð tækifæri. Ég ólst upp í Sviss en foreldrarnir mínir eru Svíar. Á níunda áratugnum í Sviss fór maður bara eitt ár í leikskóla. En við krakkar af erlendum uppruna fórum einu ári á undan hinum til að læra tungumálið. Svo það er ekki nýtt af nálinni og löngu ljóst hversu mikilvægt það er fyrir börn að ná góðri færni í tungumáli skólans áður en þau byrja í grunnskóla.

Tillögur:

■ Í stað þess að hafa einn menntamálaráðherra, höfum við núna fjóra. Og hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gera. Í dag vísar hvert ráðuneyti á annað og enginn telur sig eiga að svara fyrirspurnum, hvað þá leysa mál er varða íslenskukennslu fyrir börn, unglinga og fullorðna. Nauðsynlegt er að hafa einungis eitt öflugt ráðuneyti sem sér um kennslu íslensku sem annað mál.

■ Auka þarf enn meira fjármagn fyrir þennan málaflokk og breyta úthlutun styrkja:

1) opinberir styrkir til námsefnisgerðar fyrir fullorðinsfræðslu (eins og hjá þróunarsjóði námsgagna)

2) veita einstaklingum ekki bara styrki til rannsókna heldur t.d. líka til kennsluefnisgerðar

3) einkakennarar − aðlagaðar reglur til að leyfa nemendum að fá endurgreiðslu frá VMST

■ Það vantar skýrar reglur um úthlutun styrkja til þeirra aðila sem sjá um íslenskukennslu fyrir fullorðna. Í dag er það meira geðþóttaákvörðun en fagleg nálgun við að úthluta opinberum fjármunum. Ég er alls ekki á því að nemendafjöldi einn eigi að ráða för, heldur eigi að gera ríkari kröfur til skólanna sem kenna íslensku og úthluta í samræmi við það − menntun, rekstur, ráðning kennara, taka tillit til staðsetningar og þyngdarstig námskeiða (smærri hópa fyrir landsbyggðina og lengra komna) o.s.frv. Umfram allt að kennt sé samkvæmt hæfniviðmiðum námskrár á faglegan hátt. Ég myndi vilja að styrkir væri veittir í markvissa kennsluhætti, ekki ýmsum aðilum sem ekki vinna á markvissan og samræmdan hátt. Það má ekki setja peninga í alls konar kennslu, heldur þarf kennslan að taka mið af hæfniviðmiðum í námskrá.

■ Menntun ÍSAT-kennara á háskólastigi. Háskóli Íslands þarf að bjóða almennum kennurum upp á viðbótarnám í því að kenna íslensku sem annað tungumál og aðstoða þá hvernig þeir eiga að haga skólastarfi með fjöltyngdum nemendahópum á árangursríkan hátt.

■ Uppfæra þarf Reglugerð um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt. Það vantar m.a. skýra efnisþætti, kröfur og kennsluefni. Auk þess stigpróf eins og ég nefni hér á undan sem taka mið af hæfniviðmiðum.

■ Bjóða þarf fleiri áfanga sem kenna vestræna/latneska letrið og íslenska ritkerfið.

■ Einnig mætti búa til námsefni í íslensku fyrir íslensk börn sem búa erlendis og gera efni sem til er aðgengilegra.

Eins og Eiríkur Rögnvaldsson nefnir þurfi að kostnaðarmeta aðgerðirnar og tryggja fjármagn til að hægt sé að hrinda stefnunni í framkvæmd.

Afrita slóð á umsögn

#17 Max Darryl Naylor - 02.07.2023

Ath. við 18. gr.

Setja þarf skýr viðmið um hönnun skilta og merkinga þannig að íslenska sé ávallt meira áberandi en önnur tungumál. Hún á alltaf að koma á undan öðrum tungumálum, auk þess vera í stærra eða feitra letri eða meira áberandi lit en önnur tungumál. Þar sem hægt er að nota tákn sem þekkjast um allan heim á að nota þau, t.d. á öryggisskiltum. Svo þarf að meta hvort þörf sé á að hafa fleiri tungumál en íslensku á tilteknu skilti. Þar sem önnur tungumál eru höfð á skiltum þarf að bæta gæði þýðinga og staðla þær eins og hægt er.

Afrita slóð á umsögn

#18 Austurbrú ses. - 03.07.2023

Austurbru ses. fagnar að unnin sé aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu. Austurbrú ses. minnir á mikilvægi þess að horft sé til alls landsins í þessum efnum, þeirrar reynslu sem til staðar er og til þeirra viðurkenndu fræðsluaðila sem eru í viðkomandi landsbyggðum. Nærþjónusta við markhópinn er mikilvæg þó fjarþjónusta á ákveðnum sviðum geti verið góð. Tryggja þarf fjármagn í þróunarvinnu við gerð námsgagna og að ákveðnu leiti samræma efnið enn frekar í anda Evrópska tungumálarammans. Velvild atvinnurekenda gagnvart því að veita aðilum rými til íslenskunáms á vinnutíma er hagur allra.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Sigríður Ólafsdóttir - 04.07.2023

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sem á að hrinda í framkvæmd strax á næstu þremur árum ber að fagna, ásamt því að þar eru settar fram aðgerðir sem beinast að börnum og fullorðnum sem læra íslensku sem annað tungumál. Við tökum undir umsagnir annarra að aðgerðum þarf að fylgja fjármagn.

Í ljósi þess að framtíð íslenskrar tungu er best tryggð með því að komandi kynslóðir noti íslensku í ríkulegum mæli beinist umsögn okkar um aðgerðaáætlunina að skólastarfi í leik- og grunnskólum, og sérstaklega að fjöltyngdum nemendahópum.

Þar sem íslensk málnotkun í skólastarfi í hinum ýmsu námsgreinum er margfalt ríkulegri en málnotkun utan skólans þarf að leggja áherslu á aðgerðir til að hlúa að og efla skólastarf. Mikilvægt er að virkja alla nemendur þannig að hver einasti nemandi auki reglulega skilning sinn og tjáningarfærni á íslenskri tungu í gegnum máleflandi náms- og kennsluhætti á öllum sviðum og öllum skólastigum. Skólastarf þarf að ná til allra nemenda og líka þeirra sem nota ekki íslensku með fjölskyldu sinni, en þá liggja tækifærin fyrst og fremst í skólanum og þar hvílir ábyrgðin á íslenskunáminu.

Varðandi nemendur sem læra íslensku sem annað tungumál er í lið 3 í aðgerðaáætlun kveðið á um að Samevrópski tungumálaramminn verði hafður til hliðsjónar hæfniviðmiðum og kennslu íslensku sem annars tungumáls á öllum skólastigum. Með þessu móti verður mögulegt að samræma náms- og kennsluhætti í íslensku sem öðru tungumáli með nemendum á ólíkum aldri. Hér ber að nefna að nýlega voru kaflar um íslensku sem annað tungumál í aðalnámskrá leik- og grunnskóla uppfærðir ásamt hæfniviðmiðum sem einmitt taka mið af Evrópska tungumálarammanum. Hæfniviðmiðin miða við fyrstu 2-4 árin í íslensku skólastarfi því stefnt er að því að síðan verði nemendur færir til þátttöku í skólastarfi með jafnöldrum, þó lögð sé áhersla á að fylgst sé með námsframvindu nemenda og þeim veittur stuðningur ef þörf er á.

Í lið 13 eru einmitt sett fram þau markmið að „Mótað verði samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn þar sem sérstök áhersla verði lögð á íslensku sem annað mál. Lögð verði áhersla á íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi sem allra fyrst eftir komu til landsins.“

Við fögnum því að lögð verði áhersla á íslenskukennslu, að fylgja hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli, og að samræma eigi verklag um móttöku barna og ungmenna sem eru nýkomin í íslenskt skólastarf. Við bendum á að hér er einnig stór hópur nemenda sem er búinn að dvelja lengi í landinu, jafnvel fæðst hér á landi en ekki fengið nægilega markvissa íslenskukennslu. Skoða þarf stöðu þessara nemendahópa sérstaklega og veita þeim viðeigandi stuðning og kennsluhætti.

Varðandi fyrrnefnda hópinn er ljóst að hæfniviðmið þarf að nýta markvisst og til þess þurfa kennarar og nemendur í leik- og grunnskólum stuðning og aðstæður til að tryggja faglegt skólastarf. Í lið 14 í aðgerðaáætlun er kveðið á um eflingu íslenskufærni starfsfólks í leik- og grunnskólum og í frístundastarfi. Hér er sérstaklega verk að vinna í leikskólum landsins, fjölga þarf menntuðum leikskólakennurum og tryggja íslenskufærni þeirra og annarra starfsmanna. Leggja þarf fram áætlun um að gera starf leikskólakennara eftirsóknarvert. Til þess að svo megi verða þarf að vekja samfélagið allt til vitundar um það hversu mikilvægt þetta fyrsta skólastig er, en þar er lagður grunnur að íslenskufærni barna sem undirbýr þau fyrir nám í íslenskum skólum um alla framtíð.

Því rannsóknir sýna ótvíræð og sterk tengsl á milli færni barna í tungumáli skólans og námsframvindu þeirra (Gröver o.fl., 2019; Jóhanna Thelma Einarsdóttir o.fl., 2016; Sigríður Ólafdsóttir o.fl., 2016). Til að hæfniviðmiðin í aðalnámskrá leik- og grunnskóla nýtist sem best verður að tryggja að í menntun og símenntun leik- og grunnskólakennara sé fjallað um mikilvægi málþroska og læsis á íslenskri tungu, helstu áhrifsþætti og hvers konar málörvun og kennsluhættir eru árangursríkastir fyrir námsframvindu nemenda.

En svo þarf fleiri aðgerðaliði fyrir nemendur af erlendum uppruna með langan dvalartíma á Íslandi. Í aðgerðaáætlun um íslenska tungu þarf að setja fram þau meginmarkmið að nám og kennsla í íslensku skólastarfi byggi upp sterka einstaklinga sem hafa getu til að takast á við nám í íslensku, og nám sem fer fram á íslensku í ýmsum námsgreinum og á öllum skólastigum. Með þetta markmið að leiðarljósi þarf að leggja megináherslu á aðgerðir sem beinast að þróun máleflandi kennsluhátta í íslenskum skólum, bæði með nemendum sem eiga íslensku sem annað tungumál og líka þeim sem eiga íslensku sem móðurmál, þ.e. í fjöltyngdum nemendahópum með mismikla íslenskufærni.

Sérstaklega þarf að setja fram áætlun um að kennarar í ýmsum námsgreinum grunnskólans hafi í kennaranámi og símenntun öðlast þekkingu og færni til að beita kennsluháttum sem fela í sér virka málnotkun nemenda á íslenskri tungu. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að efla reglulega færni sína í að nýta sér íslenska texta til þekkingarauka, meta og ígrunda frá ólíkum sjónarhornum og á ólíkum miðlum, en það er djúpur lesskilningur eins og lestrariðkun í samtímanum gerir kröfur um. Íslenskan lifir þó best ef nemendur auka ekki aðeins skilning sinn á íslenskri tungu heldur líka tjáningarfærni. Rannsóknir sýna að máleflandi skólastarf felur í sér ríkulegar umræður um viðfangsefni námsins og ritunarverkefni sem þeim tengjast. Síendurteknar rannsóknir og sífellt nákvæmari rannsóknir leiða í ljós að skólastarf af þessu tagi er öllum nemendum til heilla og er öflug leið til minnka mun á námsgetu nemenda (Gröver o.fl., 2019; Lawrence o.fl., 2016).

Þá þarf að setja fram áætlun um að styrkja rannsóknir sem fela í sér þróun kennsluhátta á íslenskri tungu, doktorsrannsóknir sem leiða til framþróunar á máleflandi skólastarfi og tryggja nýliðun háskólakennara fyrir áframhaldandi framboð af námskeiðum í kennaranámi, þar sem fjallað er um árangursríkar kennsluaðferðir í íslensku og á íslensku með fjöltyngdum nemendahópum.

Liður 17 í aðgerðaáætlun kveður á um að íslenska verði tungumál allra landsmanna til að koma í veg fyrir jaðarsetningu ákveðinna hópa. Hér ber að nefna að skortur á menntun er einn helsti áhrifsþáttur fátæktar víða um heim og grundvallarástæða atvinnuleysis á meðal ungs fólks (Barnaheill, e.d.; Save the children, 2016).

Í nýrri aðgerðaáætlun um málefni íslenskrar tungu felast því mikilvæg tækifæri til að byggja upp réttlátt þjóðfélag sem gefur öllum tækifæri til taka virkan þátt í námi og störfum. Það eru grundvallarmannréttindi að ná góðum tökum á íslensku, tungumáli samfélagsins.

Eftirfarandi viðbætur eru því lagðar til:

1. Sérstakar áætlanir varðandi börn og ungmenni sem eru nýkomin í íslenskt skólastarf og fylgja hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í aðalnámskrá leik- og grunnskóla.

• Efla færni starfsfólks leikskóla til að taka mið af hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í starfi sínu með börnum sem eiga annað heimamál en íslensku.

• Fjölga menntuðum leikskólakennurum með því að vekja vitund samfélagsins á mikilvægi skólastigsins og gera starfið eftirsóknarvert.

• Styðja nemendur og kennara og skapa þeim aðstæður í leik- og grunnskólum til að fylgja hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumál í skólastarfi.

• Tryggja að í menntun og símenntun leik- og grunnskólakennara sé fjallað um mikilvægi íslenskufærni fyrir fjöltyngda nemendur, helstu áhrifsþætti málþróunar fjöltyngdra barna og árangursríkt máleflandi skólastarf á íslensku.

2. Sérstakar áætlanir varðandi börn og ungmenni af erlendum uppruna sem eru með langan dvalartíma en slaka íslenskufærni og fjöltyngda nemendahópa með mismikla íslenskufærni.

a. Skoða stöðu ungra barna, sérstaklega barna sem tala annað tungumál en íslensku heima, með því að skima fyrir íslenskufærni þeirra með áreiðanlegum og réttmætum skimunartækjum.

b. Efla þekkingu og hæfni kennara í að beita árangursríkum máleflandi kennsluháttum í íslensku og á íslensku í öllum námsgreinum á öllum skólastigum, með sérstakri áherslu á djúpan lesskilning, umræðu- og ritunarfærni á íslenskri tungu.

c. Veita styrki í doktorsrannsóknir sem fela í sér þróun máleflandi náms- og kennsluhátta með virkri málnotkun nemenda á íslenskri tungu. Doktorsrannsóknir eru nauðsynlegar til að tryggja framboð af námskeiðum í kennaranámi og áframhaldandi rannsóknir á sviði málþroska og læsis á íslenskri tungu.

Gagnlegar heimildir:

Barnaheill. (e.d.). Fátækt. https://www.barnaheill.is/is/starfid-okkar/gaetum-rettinda-barna/fataekt

Grøver, V., Uccelli, P., Rowe, M. L. og Lieven, E. (2019). Learning through language. Í V. Grøver, P. Uccelli, M. L. Rowe og E. Lieven (ritstjórar), Learning through language: Towards an educationally informed theory of language learning (bls. 1–13). Cambridge University Press

Jóhanna T. Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir. (2016). The predictive value of preschool language assessments on academic achievement: A 10-year longitudinal study of Icelandic children. American Journal of Speech-Language Pathology, 25(1), 67–79. https://doi.org/10.1044/2015_AJSLP-14-0184

Lawrence, J. F., Francis, D., Paré-Blagoev, J. og Snow, C. E. (2016). The poor get richer: Heterogeneity in the efficacy of school-level intervention for academic language. Journal of Cognitive Neuroscience, 10(4), 767–793. https://doi.org/10.1080/19345747.2016.1237596

Save the children. (2016). Ending educational and child poverty in Europe. https://resourcecentre.savethechildren.net/pdf/ending_educational_and_child_poverty_in_europe_02-12-2016.pdf/

Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Íslenskur orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. . Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit um læsi. http://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/03_16_laesi.pdf

Sigríður Ólafsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#20 Magnús Þór Jónsson - 04.07.2023

Hér á eftir er drepið á þeim aðgerðarþáttum sem snerta starf leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla í umræddum drögum að aðgerðaráætlun í íslenskri tungu.

3. Rafræn próf í íslensku byggð á evrópska tungumálarammanum.

Hér er horft til að tveimur árum liðnum verði íslenskt skólakerfi tilbúið að innleiða slík próf ásamt uppfærði þrepaskiptri hæfnilýsingu. Til þess fallið að samræma þær kröfur sem gerðar eru til náms og kennslu íslensku sem annars tungumáls á öllum skólastigum. Um gríðarlegt verkefni er að ræða og horfa þarf vandlega til þess hvort að hér er verið að forgangsraða prófum og eftirliti umfram það að efla íslenskukennslu. Vissulega er í rammanum að finna mikilvægar upplýsingar um stöðu nemenda í umræddu tungumáli en þar má finna upplýsingar sem liggja nú þegar fyrir að einhverju leyti eða með einfaldari hætti. Um gríðarlega vinnu er að ræða og algerlega ljóst að samráð þarf að verða með fulltrúum kennara á öllum stigum auk þeirra stofnana sem um er rætt. Tímaramminn um verkefnið er óraunsær að mínu mati þar sem verkefnið er víðfeðmt og þarf að ná til allra skólastiga þar sem að stórir hópar nemenda eru nú þegar að glíma við verkefnið. Lengja þarf þann tímaramma ef að raunhæft er að slík próf muni nýtast skólum og fyrst og fremst börnum.

11. Öflug skólasöfn

Sérstaklega má þakka fyrir það að horft er til skólasafna sem upplýsingabrunna sem að geta aðstoðað við íslenskukennslu fyrir nemendur sem ekki eiga tungumálið að móðurmáli. Á undanförnum árum hafa skólasöfn átt undir nokkuð högg að sækja og að þeim heilt yfir verið þrengt. Skólasöfn sem upplýsingamiðstöðvar fyrir nemendur og upplifunaraðstaða hafa sýnt mikinn árangur til að auka áhuga nemenda á tungumálinu og mikilvægt að horft sé til aðgang allra barna að þeim í gegnum öll skólastigin.

12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn

Hér er horft til þriggja ára verkefnis þar sem þróa á innviði fyrir miðlun rafræns námsefnis sem bæti aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum og stuðli að þróun námsefnis. Verulega hugljúft markmið og til þess fallið að bæta aðgengi fyrir alla nemendur óháð bakgrunni. Þetta hefur verið í umræðu um námsefni nokkra stund og fagnaðarefni að það skuli orðað í aðgerðaráætluninni. Hér þarf rödd kennara að verða afar sterk.

13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu

Nú þegar eru sveitarfélög og einstaka skólar að vinna með móttökuáætlanir fyrir nemendur sína. Miklu máli skiptir að farið verði vel yfir þær áætlanir sem hluta að rýnivinnu byggða á reynslu þeirra. Það eru vissulega til ferlar erlendis frá sem horft hefur verið til að einhverju leyti en þar er mjög oft horft til stórra kerfa utan við skólana sem sinna því að vinna móttökuáætlanir og inna, s.s. í Svíþjóð. Íslenskur raunveruleiki er það kerfi sem áætlanirnar verða að tala inní og þá með sérstakri áherslu á snemmtæka íhlutun og því algert lykilatriði að rýna þau kerfi sem nú eru í vinnslu, finna þau sem virka best og styrkja þau. Hér eins og á mörgum öðrum stöðum í umræddri aðgerðaráætlun tel ég Kennarasamband Íslands vera mikilvægan samstarfsaðila.

14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks.

Hér er fagnaðarefni að horft er til Kennarasambands Íslands sem samstarfsaðila! Það er mjög þarft verkefni að styrkja íslenskuhæfni starfsfólk innan ALLRA skólastiga og gerða (ekki bara leik- og grunnskóla) og þá á þann hátt að komið sé til móts við aðstæður þeirra og ef að horft er til námskeiða fari þau fram á vinnutíma og á þann hátt sem hentar þeim og þeirra vinnustöðum.

17. Íslenska handa öllum.

Hér er þá sennilega kjarninn. Skilgreind grunnfærni er vissulega það sem þarf en þegar kemur að nemendum íslenskra skóla er grunnfærnin auðvitað á þeim stað að nemendur nái sömu færni út úr skólavist sinni algerlega óháð þeirra bakgrunni, íslenska skólakerfið er byggt á jafnræði og ekki má á nokkurn hátt leggja það þannig upp að jafnræðinu verði fórnað. Þetta kallar að sjálfsögðu á það að rýna kennslu til nemenda á ólíkum aldursstigum og misjöfnum hæfniþrepum og undirbúa þær leiðir sem þarf til að allir nái árangri. Börn eru fjárfesting samfélagsins og í aðgerðaráætlun þarf að vera sýnileg áhersla á að kröfur til skólakerfisins verði þær að jafnræði verði náð og þá finna leiðir til að styrkja þær leiðir sem þarf til þess.

Að lokum:

Samantekið í lokin þá er ljóst að hér er á ferðinni aðgerðaráætlun sem ætlað er að taka risaskref í málefnum einstaklinga sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Það er fagnaðarefni. Á undanförnum árum hefur fjöldi þeirra einstaklinga aukist mjög á Íslandi og löngu tímabært að leggja þá áherslu á að þeir fái þau tækifæri sem þeir þurfa til að ná valdi á tungumálinu og í kjölfarið ná enn betri árangri í lífi sínu og starfi á Íslandi.

Sérstaklega þarf að horfa til barna. Þau verða að fá öll þau tækifæri sem munu nýtast þeim til að verða virkir þjóðfélagsþegnar og fái alla þá þjónustu sem þeim ber. Víða um skólakerfin okkar er að finna öflug dæmi um skóla sem hafa náð að koma verulega vel til móts við þá sjálfsögðu jafnræðiskröfu. Það er mikill hafsjór af reynslu að finna í skólum sem hafa unnið að því verkefni nú um áratuga skeið og þar er að finna þær leiðir sem helst hafa virkað. Heildarsýn yfir málið hefur ekki verið áður að finna og það er mjög jákvætt að horft sé til þess að nú verði sú sýn fundin. Til þess þarf samhent átak ólíkra ráðuneyti og ekki síst með öflugri samfélagslegri umræðu sem verður til þess að virkja alla anga samfélagsins.

Heilt yfir er það mitt mat að skrefið sé jákvætt. Það er þó þannig að þessi 18 atriði eru alveg risastór og mjög mikilvægt að taka skref af yfirvegun með það að leiðarljósi að ná árangri. Þar má ekki festast í ferlum eða yfirlýsingum sem ekki fylgja verkefni til að vinna og leysa!¨

Að lokum lýsi ég vonbrigðum yfir því að lítið sem ekkert hefur verið leitað til Kennarasambands Íslands vegna aðgerðaráætlunarinnar og samkvæmt henni virðist lítil áhersla vera á samstarf við kennara. Staðreyndin er sú að íslenskir skólar hafa með fullri virðingu fyrir öðrum stofnunum eða þáttum samfélagsins verið snertiflötur langstærsta hóps þeirra sem að aðgerðaráætlunin mun snerta. Þar liggur reynsla um "bestu leiðir" og "verstu leiðir" og með öflugu samstarfi við þá skóla sem lengst eru komnir mun einfaldlega miklu meiri árangur nást. Kennarasamband Íslands er einstakt á þann hátt að undir þeirri regnhlíf er að finna ALLA kennara á ÖLLUM skólastigum auk stærri hluta íslenskra tónlistarkennara. Þar er að finna lykilfólk þar sem kemur að því að ná árangri fyrir börn...og í raun forráðamenn þeirra líka sökum þess snertiflatar sem íslenskir skólar eru milli forráðamanna og kennara. Vonandi mun í uppfærslu aðgerðaráætlunar í framhaldi af samráðsgátt koma í ljós að óskir eru um samstarf við Kennarasamband Íslands á fleiri sviðum en er að sjá hér í þessum drögum.

Magnús Þór Jónsson,

Formaður Kennarasambands Íslands.

Afrita slóð á umsögn

#21 Háskólinn á Bifröst ses. - 05.07.2023

Varðar: Umsögn Háskólans á Bifröst um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026

Mál nr. 107/2023, menningar- og viðskiptaráðuneytið

Háskólinn á Bifröst fagnar aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu og tekur undir

mikilvægi þess að huga að íslenskukennslu barna og ungmenna, fullorðinna innflytjenda og

íslenskunema til að mæta breyttum aðstæðum í samfélaginu. Ekki síst teljum við mikilvægt

að bæta aðgengi innflytjenda að almennu háskólanámi, auðvelda þeim þannig að aðlagast

samfélagslegri og akademískri menningu og auka menntun og atvinnutækifæri þeirra að

námi loknu.

Háskólinn á Bifröst hefur lagt áherslu á málefni íslenskunnar og leggjum við okkur fram um að

styðja við íslenska tungu. Teljum við hlutverk skólakerfisins mikilvægt í því sambandi. Við

tökum undir það markmið að áfram verði unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í

stafrænum heimi sem og að tryggja gott aðgengi að starfstengdu íslenskunámi samhliða

vinnu. Sú áhersla kemur vel heim og saman við þær áherslur sem Háskólinn á Bifröst hefur

lagt í sínum kennsluháttum og þróun fjarnáms, ekki síst varðandi íslenskukennslu fyrir

nemendur af erlendum uppruna. Háskólinn á Bifröst lýsir sig því reiðubúinn að koma að

útfærslu íslenskunáms fyrir ólíkar starfsstéttir og því mætti tilgreina Háskólann á Bifröst sem

samstarfsaðila í aðgerðaáætluninni, lið 1.

Liður 3 felur í sér að þróa eigi rafræn próf í íslensku sem byggja á samevrópska

tungumálarammanum. Við fögnum þessu en teljum óþarft að umrætt þróunarstarf

einskorðist við Háskóla Íslands einvörðungu eins og gert er ráð fyrir í aðgerðaáætlun, heldur

verði þar rými fyrir fleiri. Viljum við gjarnan koma að samstarfi um þennan lið. Skipulag náms

í íslensku sem öðru máli við Háskólann á Bifröst tekur nú þegar mið af tungumálarammanum

og kennarar okkar útbúa stöðupróf til að meta nemendur á milli getustiga. Teljum við að sú

vinna geti nýst í þessu samhengi.

Liður 6 felur í sér þróun á háskólabrú, þ.e. að aðgengi að almennu háskólanámi fyrir

innflytjendur verði bætt með þróun nýrrar námsleiðar fyrir nemendur sem hafa grunn í

íslensku máli en þurfa stuðning til þess að sækja frekara háskólanám á íslensku. Markmiðið sé

að auðvelda innflytjendum að aðlagast samfélagslegri og akademískri menningu og auka menntun og atvinnutækifæri þeirra með þróun nýrrar námsleiðar fyrir innflytjendur.

Hér er vert að vekja athygli á því að Háskólinn á Bifröst hefur á umliðnum árum hannað og

þróað sérstaka námsleið af þessum toga sem hefur verið í boði við skólann frá ársbyrjum

2021. Hér þarf að okkar mati ekki að finna upp hjólið á ný, heldur nýta þá þekkingu sem

þegar hefur aflast á þessu sviði. Námskrá námsins hefur verið í stöðugri þróun og veitir námið

innflytjendum heildstæðan undirbúning fyrir háskólanám á íslensku. Lýsum við okkur

reiðubúin til þess að miðla af reynslu okkar og þekkingu af rekstri námsleiðarinnar og erum

opin fyrir samstarfi um áframhaldandi þróun námsins.

Þá þykir Háskólanum á Bifröst rétt að hnykkja sérstaklega á mikilvægi þess, að íslenska sem

annað mál sé einnig í boði í stafrænu fjarnámi. Með því móti má tryggja aðgengi að náminu

hjá þeim útlendingum sem vegna t.a.m. atvinnuþátttöku eða búsetu eiga óhægt um vik með

staðbundið nám.

(sign)

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst

Ólína Þorvarðardóttir Kjærúlf, prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst

Anna Jóna Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólagáttar og Endurmenntunar Háskólans á Bifröst

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Samtök atvinnulífsins - 05.07.2023

Góðan daginn.

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Sólborg Jónsdóttir - 07.07.2023

UMSÖGN FRÁ MÍMI-SÍMENNTUN. Í viðhengi er umsögn frá Mími-símenntun,

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Philip Filippus Vogler - 07.07.2023

Mig langar að setja fram hugmynd vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026. Tillagan mín tengist helst 8. aðgerð því hún snertir listir og menningu.

Mér er annt um hefð sem samtvinnast tungunni og hrynjandi hennar þ.e. bragarhætti ljóðlistarinnar. Ég held að þeir styrki mjög tungumálið enda reiða vísur með ljóðstöfum (stuðlum og höfustöfum) sig oft á frjálsa orðaröð og fallbeygingar.

Beygingarmyndum hefur fækkað mjög í flestum germönskum málum (m.a. skandínövskum auk þýsku og ensku) en þessar myndir gagnast vel áfram í bundnu máli, sér í lagi skv. bragreglum. Oft eykur nautn vísnanna þegar beygingar nýta slíkar myndir til að fylgja bragreglum.

Því finnst mér (eins og núverandi drög orða það) að efling hefðbundinnar ljóðlistar geri margt til „að miðla menningararfi“.

E.t.v. mættu t.d. keppnar í grunn- og framhaldsskólum og styrkir til hagyrðingamóta vera nefnd sem dæmi til að hefja veg íslenskunnar út frá menningu málsins.

Virðingarfyllst,

Philip Vogler

Egilsstöðum

Afrita slóð á umsögn

#25 Ágústa Þorbergsdóttir - 08.07.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn frá Íslenskri málnefnd

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Ágústa Þorbergsdóttir - 09.07.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá Íðorðafélaginu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Samtök iðnaðarins - 10.07.2023

Meðfylgjand er umsögn Samtaka iðnaðarins um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Félag fagfólks á skólasöfnum - 10.07.2023

Félag fagfólks á skólasöfnum (FFÁS) er félag starfsfólks á skólasöfnum landsins. Hlutverk félagsins er að efla starf skólasafnanna og að stuðla að viðurkenningu starfsins sem sérhæfðrar starfsgreinar. Enn fremur hefur félagið það að markmiði að efla faglegt starf meðlima og vinna að því að að allir sem starfa á skólasöfnum hafi menntun við hæfi. Um leið og stjórn FFÁS fagnar að kastljósinu sé beint að skólasöfnum og starfsemi þeirra telur stjórnin mikilvægt að félagið eigi fulltrúa í þeirri vinnu sem snýr að skólasöfnum.

Mikilvægt er að styrkja störf allra skólasafna í landinu og að sett verði viðmið um gæði og starf þeirra. Fjármagn til skólasafna er hvergi tryggt, hvort sem um er að ræða fé til að greiða fyrir stöðugildi fagaðila á skólasafninu eða fé til bókakaupa. Þarna getur munað miklu á milli skóla, jafnvel innan sama sveitarfélags og innan hverfis. Sums staðar er ekki nægilega vel búið að starfsemi skólasafna, opnunartímar stopulir og skólasafnskennari eða umsjónaraðili skólasafns ekki til staðar. Því miður er staðan sú að úthlutanir fjármagns til bókakaupa ráðast af áhuga og skilningi á mikilvægi starfs skólasafna, ýmist hjá skólastjóra hvers skóla fyrir sig, fræðslunefnd eða sveitastjórn.

Nauðsynlegt er að jafna aðstöðu skólasafna og tryggja að þar starfi fagaðili, ásamt því að söfnin fái sérstakar úthlutanir fyrir bókakaup, nýsigögn og annan rekstur til þess að hægt sé að tryggja faglegt starf þeirra. Bækur eru dýrar og það segir sig sjálft að það þarf að leggja fjármagn til skólasafnanna ef þau eiga að bjóða upp á nýlegan, áhugaverðan og viðeigandi safnkost fyrir fjölbreyttan nemendahóp.

Safnkostur skólasafna verður aldrei betri en þær bækur sem eru skrifaðar hverju sinni. Til að styrkja safnkost skólasafna þarf líka að styrkja útgáfu barna- og ungmennabóka, hvort sem um er að ræða skáldsögur eða fræðirit. Þannig geta skólasöfnin boðið upp á góðan og fjölbreyttan safnkost sem höfðar til nemenda og gagnast þeim. Gefa þarf út fleiri bækur á íslensku fyrir þessa hópa, þá sérstaklega skemmtilegar bækur á léttu máli og bækur fyrir ungmenni sem ekki eru hrifin af vísindaskáldskap.

Fjölga þarf fagmenntuðu fólki í störfum á skólasöfnum. Í þeim tilgangi þarf að vekja athygli á námi í upplýsingafræði. Einnig er mikilvægt að huga að sí- og endurmenntun fagfólks á skólasöfnum. Enn fremur þarf að tryggja veru þess innan skólanna þannig að nemendur geti alltaf gengið að þjónustu þeirra vísri. Í framhaldi af því þarf að tryggja aðstöðu skólasafna innan skólanna. Þegar fjölgar í nemendahópum eða skólahúsnæðið verður of lítið er oft skorið niður í þeirri aðstöðu sem ætluð er skólasöfnum. Dæmi eru um að skólasöfn hafi verið færð fram á gang þar sem lítið næði er fyrir faglegt starf og jafnvel tekin alveg í sundur og dreift um skólann.

Stjórn FFÁS harmar að í nýlegri stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sé ekki minnst á starfsemi þeirra bókasafna sem sveitarfélögin reka. Vonar stjórn FFÁS að með viðmiðum um gæði og starf skólasafna geti sveitarfélögin ekki litið framhjá mikilvægi þess starfs sem fram fer á skólasöfnunum í þágu læsis, að góð samvinna takist og að aðstaða barna um land allt verði jöfnuð.

Afrita slóð á umsögn

#29 Renata Emilsson Pesková - 10.07.2023

Sjá meðfylgjandi skjal.

bkv. Renata Emilsson Peskova, f.h. Móðurmáls - samtaka um tvítyngi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Katrín Friðriksdóttir - 10.07.2023

Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 – umsögn starfsfólks á miðlunarsviði Menntamálastofnunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Þorbjörg Halldórsdóttir - 10.07.2023

Meðfylgjandi er umsögn frá stjórn Ísbrúar, félags kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Ólöf Garðarsdóttir - 10.07.2023

Í viðhengi er umsögn frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-26

Kær kveðja

Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#33 Guðrún Nordal - 10.07.2023

Sjá umsögn frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#34 Fræðslumiðstöð atvinnulífs ehf. - 10.07.2023

Umsögn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#35 Samtök iðnaðarins - 10.07.2023

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), aðildarsamtaka Samtaka iðnaðarins, um drög að aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#36 Tungumálaskólinn ehf - 10.07.2023

Umsögn frá Dósaverksmiðjunni (Tungumálaskólanum ehf.) má finna í viðhengi.

Viðhengi