Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 12.6.–21.7.2023

2

Í vinnslu

  • 22.7.2023–6.2.2024

3

Samráði lokið

  • 7.2.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-110/2023

Birt: 12.6.2023

Fjöldi umsagna: 12

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands

Niðurstöður

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í september 2023. Fjallað er um niðurstöður samráðs í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu.

Málsefni

Frumvarpið felur í sér að Mannréttindastofnun Íslands verði komið á fót. Stofnunin mun sinna hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar hér á landi.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir eða svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles). Hlutverk Mannréttindastofnunar Íslands verður að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins.

Ísland hefur ítrekað fengið tilmæli og athugasemdir frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum um að koma sjálfstæðri mannréttindastofnun á fót og í kjölfar allsherjarúttekta á stöðu mannréttinda sem fram fóru á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna árin 2016 og 2022 samþykkti íslenska ríkið fjölmörg tilmæli þess efnis. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, leggur jafnframt þá skyldu á íslenska ríkið að mannréttindastofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. Er tilvist slíkrar stofnunar forsenda þess að hægt sé að lögfesta samninginn hér á landi.

Frumvarpið byggir m.a. á niðurstöðum grænbókar um mannréttindi sem var birt á vef forsætisráðuneytisins 10. mars 2023 og haft var víðtækt samráð við almenning, félagasamtök, stofnanir og aðra hagsmunaaðila um. Með grænbókinni fylgdi fylgirit um sjálfstæðar innlendar mannréttindastofnanir þar sem m.a. er að finna umfjöllun um mismunandi gerðir mannréttindastofnana, mannréttindastofnanir á Norðurlöndum og alþjóðlega þróun mannréttindaeftirlits.

Sjálfstæðar innlendar mannréttindastofnanir þurfa sem fyrr segir að uppfylla Parísarviðmiðin, en þau eru m.a. eftirfarandi:

• Kveðið skal á um hlutverk stofnunarinnar í almennum lögum eða stjórnskipunarlögum.

• Fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði stofnunarinnar skal vera tryggt og skal hún m.a. hafa eigið starfslið og starfsstöð.

• Stofnunin skal hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda.

• Stofnunin skal hafa víðtækan rétt til upplýsinga sem varða mannréttindi.

• Almenningur þarf að geta leitað til stofnunarinnar til þess að fá leiðbeiningar eða ráðgjöf.

• Áhersla er lögð á fjölræði þ.e. dreifingu valds og að þau sem komi að ákvarðanatöku endurspegli borgaralegt samfélag.

Til að tryggja sjálfstæði Mannréttindastofnunar Íslands er lagt til að hún heyri undir Alþingi. Stofnunin mun að þessu leyti hafa sambærilega stöðu og umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Í samræmi við skilyrðið um dreifingu valds er lagt til að sérstök stjórn beri ábyrgð á rekstri stofnunarinnar en að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á daglegum rekstri hennar. Auk þess er gert ráð fyrir að á vegum stofnunarinnar starfi sérstök ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila.

Með frumvarpinu er Mannréttindastofnun Íslands falin víðtæk verkefni sem miða að því að efla og vernda mannréttindi á Íslandi. Henni er ætlað að vinna að því að opinberir aðilar jafnt sem einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins. Í frumvarpinu er kveðið nánar á um það hvernig stofnunin mun sinna þessu hlutverki, en meginverkefni stofnunarinnar eru einkum:

1. Mannréttindaeftirlit.

2. Ráðgjöf, rannsóknir og fræðsla.

3. Aðstoð og leiðbeiningar til almennings.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Skrifstofa jafnréttis- og mannréttindamála

for@for.is