Samráð fyrirhugað 12.06.2023—21.07.2023
Til umsagnar 12.06.2023—21.07.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 21.07.2023
Niðurstöður birtar

Frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands

Mál nr. 110/2023 Birt: 12.06.2023 Síðast uppfært: 19.06.2023
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (12.06.2023–21.07.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Frumvarpið felur í sér að Mannréttindastofnun Íslands verði komið á fót. Stofnunin mun sinna hlutverki sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar hér á landi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir eða svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles). Hlutverk Mannréttindastofnunar Íslands verður að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins.

Ísland hefur ítrekað fengið tilmæli og athugasemdir frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum um að koma sjálfstæðri mannréttindastofnun á fót og í kjölfar allsherjarúttekta á stöðu mannréttinda sem fram fóru á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna árin 2016 og 2022 samþykkti íslenska ríkið fjölmörg tilmæli þess efnis. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, leggur jafnframt þá skyldu á íslenska ríkið að mannréttindastofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. Er tilvist slíkrar stofnunar forsenda þess að hægt sé að lögfesta samninginn hér á landi.

Frumvarpið byggir m.a. á niðurstöðum grænbókar um mannréttindi sem var birt á vef forsætisráðuneytisins 10. mars 2023 og haft var víðtækt samráð við almenning, félagasamtök, stofnanir og aðra hagsmunaaðila um. Með grænbókinni fylgdi fylgirit um sjálfstæðar innlendar mannréttindastofnanir þar sem m.a. er að finna umfjöllun um mismunandi gerðir mannréttindastofnana, mannréttindastofnanir á Norðurlöndum og alþjóðlega þróun mannréttindaeftirlits.

Sjálfstæðar innlendar mannréttindastofnanir þurfa sem fyrr segir að uppfylla Parísarviðmiðin, en þau eru m.a. eftirfarandi:

• Kveðið skal á um hlutverk stofnunarinnar í almennum lögum eða stjórnskipunarlögum.

• Fjárhagslegt og stofnanabundið sjálfstæði stofnunarinnar skal vera tryggt og skal hún m.a. hafa eigið starfslið og starfsstöð.

• Stofnunin skal hafa víðtækt umboð til að vinna að eflingu og vernd mannréttinda.

• Stofnunin skal hafa víðtækan rétt til upplýsinga sem varða mannréttindi.

• Almenningur þarf að geta leitað til stofnunarinnar til þess að fá leiðbeiningar eða ráðgjöf.

• Áhersla er lögð á fjölræði þ.e. dreifingu valds og að þau sem komi að ákvarðanatöku endurspegli borgaralegt samfélag.

Til að tryggja sjálfstæði Mannréttindastofnunar Íslands er lagt til að hún heyri undir Alþingi. Stofnunin mun að þessu leyti hafa sambærilega stöðu og umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi. Í samræmi við skilyrðið um dreifingu valds er lagt til að sérstök stjórn beri ábyrgð á rekstri stofnunarinnar en að framkvæmdastjóri beri ábyrgð á daglegum rekstri hennar. Auk þess er gert ráð fyrir að á vegum stofnunarinnar starfi sérstök ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila.

Með frumvarpinu er Mannréttindastofnun Íslands falin víðtæk verkefni sem miða að því að efla og vernda mannréttindi á Íslandi. Henni er ætlað að vinna að því að opinberir aðilar jafnt sem einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins. Í frumvarpinu er kveðið nánar á um það hvernig stofnunin mun sinna þessu hlutverki, en meginverkefni stofnunarinnar eru einkum:

1. Mannréttindaeftirlit.

2. Ráðgjöf, rannsóknir og fræðsla.

3. Aðstoð og leiðbeiningar til almennings.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Rachael Lorna Johnstone - 21.06.2023

Sjá bréf í viðhengi,

kv,

Rachael

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Skagafjörður - 22.06.2023

Á 53. fundi byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 21. júní 2023 var tekið fyrir mál til samráðs nr 110/2023, Frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands, og þannig bókað.

Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir áherslur um að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins. Byggðarráð minnir á í tengslum við fyrirætlan um nýja stofnun á vegum ríkisins að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla á að til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Jafnframt að stutt verði við starfsaaðstöðu hins opinbera á landsbyggðinni. Byggðarráð telur því einboðið að ef ný Mannréttindastofnun verður sett á laggirnar verði hún staðsett fjarri höfuðborgarsvæðinu. Í þessu tilfelli er ekki um að ræða flutning stofnunar heldur nýja stofnun.

F.h. byggðarráðs

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#3 Landssamtökin Þroskahjálp - 27.06.2023

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Samtök atvinnulífsins - 28.06.2023

Góðan dag,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Stella Samúelsdóttir - 12.07.2023

Umsögn UN Women á Íslandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Mannréttindaskrifstofa Íslands - 12.07.2023

Sjá meðfylgjandi umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Íslandsdeild Amnesty International - 13.07.2023

Íslandsdeild Amnesty International fagnar drögum að frumvarpi til laga um Mannréttindastofnun Íslands. Í meðfylgjandi skjali er umsögn samtakanna.

Virðingarfyllst,

Anna Lúðvíksdóttir

Framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Hagsmunasamtök heimilanna - 14.07.2023

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Öryrkjabandalag Íslands - 21.07.2023

Meðfylgjandi er umsögn ÖBÍ réttindasamtaka.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Kvenréttindafélag Íslands - 21.07.2023

Hér í viðhengi er umsögn Kvenréttindafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Vala Karen Viðarsdóttir - 21.07.2023

Umsögn Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Þóra Jónsdóttir - 21.07.2023

Umsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um Mannréttindastofnun Íslands

Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna því að fram eru komin drög að frumvarpi til laga um Mannréttindastofnun Íslands og telja hér stigið mikilvægt og jákvætt skref í vernd mannréttinda á Íslandi.

Barnaheill eru frjáls félagasamtök sem vinna að bættum mannréttindum barna og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í allri starfsemi sinni.

Jákvæðir þættir

Frumvarpsdrögin sem nú eru kynnt eru að mestu leyti viðunandi og í samræmi við Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Það er jákvætt að stofnuninni skuli tryggt sjálfstæði frá stjórnvöldum og Alþingi með dreifingu valds og fjölræði, fyrirkomulagi vals á stjórnarfólki fyrir stofnunina, ráðningu og frávikningu framkvæmdastjóra og skipun ráðgjafarnefndar. Enn fremur er jákvætt að kveðið er á um rétt stofnunarinnar til upplýsinga með skýrum hætti og skyldu stofnana, félagasamtaka og annarra til að veita umbeðnar upplýsingar.

Barnaheill árétta fyrri umsagnir um fyrirhugaða stofnun mannréttindastofnunar og um stöðu mannréttinda á Íslandi og þau sjónarmið sem þar voru dregin fram. Sjá: Umsogn-barnaheilla-um-graenbok-um-mannrettindi.pdf og umsogn-barnaheilla-um-aform-um-sjalfstaeda-innlenda-mannrettindastofnun.pdf.

Sjálfsæður réttur barna til að kvarta

Sérstaklega árétta samtökin mikilvægi þess að börn hafi sjálfstæðan rétt til að leita til Mannréttindastofnunar Íslands og að þau hafi aðgang að fræðslu og upplýsingum um réttindi sín á barnvænu og aðgengilegu máli. Enn fremur þarf við alla málsmeðferð og þjónustu við börn að hafa það sem þeim er fyrir bestu að leiðarljósi. Rétt er að taka undir sjónarmið í greinargerð þeirri sem fylgir frumvarpsdrögunum að samstarf við umboðsmann barna er afar mikilvægt, m.a. við þróun núverandi tilraunaverkefnis um réttindagæslu barna sem umboðsmaður hefur starfrækt frá árinu 2022 í samræmi við stefnu Alþingis og stjórnvalda um Barnvænt Ísland. Barnaheill ítreka jafnframt í þessu sambandi, fyrri hvatningu til íslenskra stjórnvalda, um mikilvægi þess að fullgilda þriðju valfrjálsu bókun Barnasáttmálans um rétt barna til að kvarta til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna ef þau telja að mannréttindi þeirra hafi verið brotin.

Ólaunuð störf félagasamtaka?

Að síðustu gagnrýna Barnaheill að ekki sé gert ráð fyrir að störf ráðgjafarnefndar Mannréttindastofnunarinnar verði launuð sérstaklega. Samtökin lýsa þó yfir vilja til að tilnefna fulltrúa samtakanna til setu í ráðgjafarnefndinni og fagna því að frumvarpsdrögin kveði á um að Barnaheill skuli alltaf eiga fulltrúa í nefndinni, en lýsa jafnframt furðu sinni yfir að ekki sé gert ráð fyrir þóknun til samtakanna fyrir þá þjónustu og leggja til að úr því verði bætt við frekari vinnu frumvarpsins.

Hvatning til forsætisráðuneytis

Barnaheill hvetja forsætisráðuneytið eindregið til að ljúka vinnu við frumvarp þetta til laga um Mannréttindastofnun Íslands eins fljótt og auðið er svo hægt verði að leggja það fyrir Alþingi á komandi þingi.

Barnaheill eru áfram boðin og búin að taka þátt í undirbúningi og samráði við stofnun Mannréttindastofnunar Íslands.

Viðhengi