Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.6.–31.7.2023

2

Í vinnslu

  • 1.8.2023–3.1.2024

3

Samráði lokið

  • 4.1.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-112/2023

Birt: 13.6.2023

Fjöldi umsagna: 79

Drög að stefnu

Innviðaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038

Málsefni

Drög að samgönguáætlun 2024-2038 er nú kynnt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar og verður opið fyrir athugasemdir og ábendingar til og með mánudeginum 31. júlí 2023.

Nánari upplýsingar

Samgönguáætlun er lögð fram í einu lagi til 15 ára ólíkt því sem áður var, þ.e. stefnumótandi áætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun fyrir fyrstu fimm ár áætlunarinnar.

Samgönguáætlun er í fyrsta sinn lögð fram eftir að hafa verið unnin eftir sporbaug stefnumótunar Stjórnarráðsins. Stefnumótunarferlið hófst í byrjun árs 2021 með vinnslu grænbókar, stöðumats um málaflokkinn ásamt tillögum að valkostum til framtíðar. Í kjölfarið var unnin hvítbók, en í henni birtust drög að stefnu. Við vinnslu beggja bóka voru haldnir opnir fundir í hverjum landshluta, þar sem fram fóru umræður um áherslumál hvers þeirra. Samráðsfundirnir stóðu saman af framsöguerindum og samtali í smærri hópum þar sem þátttakendum gafst færi til að koma áherslum sínum og skoðunum á framfæri. Að endingu fór baði grænbókin og hvítbókin í opið samráð á Samráðsgátt stjórnvalda.

Samgönguáætlun er lögð fram með hliðsjón af nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028. Eitt meginverkefni gildandi fjármálaáætlunar er að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og þar með halda aftur af ríkisútgjöldum. Fjármálaáætlun er endurnýjuð árlega. Aukist svigrúm mun það hafa jákvæð áhrif á ramma samgönguáætlunar og forgangsröðun framkvæmda og/eða þjónustustig vetrarþjónustu, almennrar þjónustu og almenningssamgangna.

Tillagan tekur jafnframt tillit til:

a) Niðurstaðna verkefnishóps um árangursmat umferðaröryggisaðgerða.

b) Niðurstaðna verkefnishóps um áhrif loftslagsbreytinga á samgöngur og forsendur aðlögunar að þeim.

c) Niðurstaðna starfshóps um stöðu barna og ungmenna í samgöngum.

d) Niðurstaðna stöðugreiningar á samgöngum og jafnrétti.

e) Niðurstaðna starfshóps um öryggi lendingarstaða.

f) Niðurstaðna starfshóps um smáfarartæki.

g) Niðurstaðna starfshóps um stöðu fatlaðs fólks í samgöngum.

h) Niðurstaðna starfshóps um stöðu reiðvegamála.

Hluti tillagna í samgönguáætluninni er settur fram með fyrirvara um niðurstöðu starfshópa og nefnda. Þar má nefna:

a) Viðræðuhóp um samgöngusáttmála. Hópurinn vinnur að uppfærslu og á forsendum sáttmálans og mun vinna viðauka við hann. Viðbúið er að niðurstöður vinnunnar muni hafa áhrif á framkvæmdatöflu samgöngusáttmála.

b) Verkefnisstofu um tekjuöflun af farartækjum og umferð. Unnið er að heildstæðri endurskoðun á tekjuöflun ríkisins af farartækjum og umferð á vettvangi sameiginlegrar verkefnisstofu innviðaráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fjármögnun samgöngusáttmála, samvinnuverkefna og jarðgangaáætlunar mun taka mið af niðurstöðum verkefnisstofunnar.

Samgönguáætlunin skiptist í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn fjallar um framtíðarsýn og meginmarkmið áætlunarinnar. Í öðrum hluta eru sett fram markmiðin fimm, þ.e.a.s. um greiðar samgöngur, öruggar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og um samgöngur sem stuðla að jákvæðri byggðaþróun. Í þriðja hluta er grunnnet samgangna skilgreint og í fjórða hlutanum er sett fram áætlun um útgjöld og helstu framkvæmdir. Þá fylgir tillögunni jafnframt ítarleg greinargerð. Sú breyting er á greinargerð samgönguáætlunar frá því sem áður var að umfjöllun um stöðu einstaka samgöngugreina er að finna í grænbók samgönguáætlunar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa samgangna

irn@irn.is