Alls bárust 3 umsagnir, auk umsagnar frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Gerðar voru nokkrar breytingar frá því sem kynnt var í samráðsgátt t.d. er snýr að aldri umsækjenda. Einnig var tekið tillit til ábendinga varðandi námskeið fyrir umsækjendur. Þá var ákveðið að falla frá þeim áformum um að sýslumaður geti óskað eftir sálfræðimati vegna umsækjenda. Einnig var t.a.m. kveðið á um það hver veiti ráðgjöf til uppkominna ættleiddra. Sumar ábendingar voru víðtækar í eðli sínu og talið rétt að skoða þær síðar t.d. ef ákveðið verður að fara í heildarendurskoðun í málaflokknum.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 16.06.2023–30.06.2023.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.10.2023.
Dómsmálaráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um ættleiðingar. Tilgangurinn er að reglugerðin komi í stað núgildandi reglugerðar um ættleiðingar nr. 238/2005.
Helstu breytingar frá núgildandi reglugerð um ættleiðingar eru eftirfarandi:
Heilsufar
Í stað þess að telja upp tiltekna sjúkdóma eða líkamsástand er miðað við almennt mat á heilsufari.
Sambúðartími
Í stað þess að hjón þurfi að vera í samfelldri sambúð í 3 ár er miðað við 2 ár.
Aldur umsækjenda
Í stað þess að miða almennt við 45 ára hámarksaldur umsækjanda með undanþágu í þeim tilvikum þegar annar umsækjandi er nokkuð eldri en 45 ára og en hinn nokkuð yngri, ef umsækjendur hafa ættleitt barn á síðustu 2 árum, eða ef sérstakar ástæður mæla með því s.s. ef um sérstök tengsl er að ræða við væntanlegt kjörbarn eða systkini barns, þá er lagt til að miða einungis við það að aldursmunur þess umsækjenda sem yngri er og barns skuli ekki vera meiri en 45 ár.
Einhleypir umsækjendur
Lagðar eru til breytingar þess efnis að ekki er gerð krafa um að einhleypur umsækjandi sé „sérstaklega hæfur umfram aðra“ heldur að umsækjandi sé vel hæfur og einnig má líta til menntunar viðkomandi og þess hvort tengsl séu við heimaland barns og jafnframt hvort umsækjandi geti leitað stuðnings frá nákomnum vegna ættleiðingar.
Yfirfærsla verkefna frá Íslenskri ættleiðingu til sýslumanns
Lagt er til að kveðið verði á um hlutverk sýslumanns við það veita samþykki fyrir því að ættleiðing megi fara fram í samræmi við 17. gr. c Haagsamningsins, en slíkt hlutverk er í dag hjá löggiltu ættleiðingarfélagi. Einnig er lagt til að kveðið verði á um ábyrgð sýslumanns á eftirfylgniskýrslum í staðinn fyrir löggilt ættleiðingarfélag. Jafnframt er að finna ákvæði um ráðgjöf til uppkominna ættleiddra sem sýslumaður mun nú bjóða einstaklingum sem ættleiddir hafa verið og náð hafa 18 ára aldri. Lagt er til að sýslumaður geti boðið einstaklingum upp á 5 viðtöl að kostnaðarlausu.
Námskeið
Undanþága er til staðar í núgildandi reglugerð um að heimilt sé að gefa út forsamþykki áður en umsækjendur hafa sótt námskeið ef námskeið hefur ekki verið haldið frá því að umsókn um forsamþykki barst sýslumanni og gerð krafa um að umsækjendur lofi að sækja fyrsta mögulega námskeið. Lagt er til að undanþágan verði tekin úr reglugerðinni.
Alþjóðleg fjölskylduættleiðing
Áréttað er hlutverk sýslumanns að því er snýr að alþjóðlegum fjölskylduættleiðingum þar sem löggilt ættleiðingarfélag hefur ekki milligöngu um ættleiðingu.
Fylgigögn
Lagðar eru til breytingar sem snúa að kröfum um fylgigögn, s.s. um að fæðingarvottorð verði lögð fram af umsækjendum í stað þess að sýslumaður afli þeirra auk þess að sýslumaður geti óskað eftir vottorði um heilsufar og/eða sálfræðimati ef sýslumaður telur nauðsynlegt.
Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um reglugerð um ættleiðingar
ViðhengiEfni: Umsögn Íslenskrar ættleiðingar um drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar
Íslensk ættleiðing fagnar því að nú sé komið að breytingum á reglugerð um ættleiðingar. Þjónustusamningur milli Íslenskrar ættleiðingar og dómsmálaráðuneytis byggir á lögum og reglugerðum um málaflokkinn en litlar útfærslur á verkaskiptingu eða framkvæmd þjónustunnar er að finna í samningnum. Er því sérstaklega mikilvægt að lög og reglugerðir séu í takti við þá þekkingu sem býr í málaflokknum.
Tryggja þarf að heildaryfirsýn sé til í málaflokknum og það þjónustustig sem kjörbörnum og fjölskyldum þeirra er veitt í gegnum ættleiðingarferilinn sé skýrt. Þjónusta til kjörbarna og fjölskyldna þeirra hefst við umsókn um forsamþykki til sýslumanns, heldur áfram í gegnum umsóknarferli í upprunaríki þar til að ættleiðingu barns kemur og svo áfram eftir að barn og fjölskylda koma til Íslands. Miklu máli skiptir að þjónusta eftir ættleiðingu sé skilgreind og henni tryggður farvegur í lögum og reglugerðum.
Réttindi barna og hagsmunir þeirra byggja á að þjónustan sé eins og best verður á kosið, hún sé veitt þegar barnið þarf á þjónustunni að halda, s.s. við upphaf leikskólagöngu, í grunnskóla og þegar áleitnar spurningar vakna um uppruna.
Þegar uppruni er nefndur er ekki einungis átt við leit að líffræðilegum ættingjum heldur eru þær flóknu spurningar sem ættleiddir glíma við á lífsleiðinni sem snúa að flóknum aðstæðum sem lífið bauð þeim uppá í upphafi lífsins einnig stór þáttur.
Félagið leggur áherslu á að aldrei skuli veita afslátt af þeim kröfum sem gerðar eru til kjörforeldra, traust samfélagsins til fagsfólks byggir á sanngjarnri málsmeðferð sem er fyrirsjáanleg og veitt öllum með sama hætti.
Rannsóknir sýna að vandaður undirbúningur, fræðsla og stuðningur eftir ættleiðingu geta aukið líkurnar á að vel takist við aðlögun ættleidds barns. Ljóst er að ættleiðing er ekki einn einstakur viðburður í lífi barns, ættleiðingin fylgir því alla ævi og er þjónustuþörf þess mjög mismunandi eftir því hversu langt er liðið frá ættleiðingunni og hvaða áskoranir barnið glímir við hverju sinni.
Íslensk ættleiðing telur mikilvægt að ljúka við kerfisbreytingar með nýrri löggjöf og reglugerðarverki. Hér á eftir koma athugasemdir og ábendingar við drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar.
2. gr. Umsókn
Íslensk ættleiðing telur mikilvægt að kjörforeldar ættleiði ekki annað barn fyrr en að reynsla er komin á tengsl barns/barna og foreldra. Félagið treystir foreldrum til að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að hefja umsóknarferli um forsamþykki að nýju og leggur til að ákvæði um bið í sex mánuði verði tekið út úr reglugerð. Það er ábyrgð umsagnar- og ábyrgðaraðila að meta hvort fjölskylda sé í stakk búin að ættleiða að nýju.
Félagið telur rétt að tryggja jafnan rétt umsækjenda til að sækja um að nýju. Ekki skuli skipta máli hvaðan umsækjendur hafa ættleitt áður. Miða mætti við sameiningu fjölskyldunnar en ekki heimkomu en slíkt tryggir jafnræði milli aðila. Taka þarf tillit til þess að staðfesting réttaráhrifa eða útgáfa leyfis til ættleiðingar er ekki sambærileg í öllum upprunaríkjunum.
3. gr. Fylgigögn
a.liður - Lagt er til að umsækjendur skili inn fæðingarvottorði með umsókn sinni. Það eykur kostnað umsækjenda í umsóknarferlinu og telur félagið ekki þörf á slíku vottorði.
f.liður - Mikilvægt er að samræmi sé á milli reglugerðar og umsóknareyðublaða. Áeyðublaði sýslumannsembættisins er óskað eftir að með umsókn berist skattframtöl síðustu þriggja ára. Félagið getur vel tekið undir að yfirlit yfir fjármál þriggja ára sé betra en tveggja eins og kemur fram í reglugerðinni. Varðandi staðfestingu ljósrita skattframtala, væri við hæfi að breyta orðalagi frá ljósrit yfir í afrit. Nú er hægt að staðfesta eða sannreyna uppruna skattframtala á heimasíðu Skattsins. Í dag sér Íslensk ættleiðing um að sannreyna skattframtöl.
6. gr. Sakavottorð og önnur gögn
Í drögum að breytingu á reglugerð er sýslumannsembættinu veitt heimild til að kalla eftir frekari vottorðum eða gögnum sé talin þörf á þeim. Sérstaklega er bent á sálfræðimat umsækjenda. Félagið er fylgjandi því að allir umsækjendur þurfi að undirgangast sálfræðimat og telur eðlilegt að gera jafnarkröfur til allra umsækjenda sem hyggjast ættleiða barn. Slíkt myndi auk þess auðvelda embættinu að taka ákvörðun byggða á gögnum þegar kemur að mati umsækjenda. Með slíkri breytingu er þó enn og aftur verið að auka kostnað umsækjenda í ferlinu en sálfræðimat kostar á bilinu 150.000 – 250. 000 krónur. Ef þessi leið verður farin þarf að tryggja að það sálfræðimat sem skilað er inn sé í samræmi við þau gögn sem upprunaríki óska eftir svo ekki sé verið að auka enn frekar á kostnað umsækjenda.
9.gr. Heilsufar
Félagið fagnar því að úreldur listi yfir sjúkdóma og líkamsástand sé tekin út úr reglugerð. Félagið telur þó að ljóst þurfi að vera hvaða þættir leitt geti til synjunar á umsókn um ættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni í því skyni að tryggja fyrirsjáanleika. Jafnframt þurfi að gera kröfu til sýslumannsembættisins að ítarlegur rökstuðningur fylgi höfnun sem byggi á heilsufari og að litið sé til fyrirliggjandi læknisfræðilegra gagna og að byggt sé á þeim.
11.gr. Aldur umsækjenda
Félagið er sátt við að breyta eigi skilyrðum um aldur umsækjenda. Lögð hefur verið áhersla á að aldursviðmið taki mið af eðlilegu bili á milli aldurs umsækjenda og aldurs barns sem sótt er um.
Félagið telur þó skorta upplýsingar um hvað sé meint með þessum aldursmuni. Skilningur félagsins er að umsækjendur sem óska eftir forsamþykki fyrir barn á aldrinum 0-5 ára geti sótt um þar til umsækjendur eru 50 ára.
12.gr. Önnur skilyrði
Íslensk ættleiðing kallar eftir upplýsingum um hvað teljist fullnægjandi húsnæði í skilningi reglugerðarinnar. Mikilvægt er að þeir sem koma að málaflokknum geti komið sér saman um hvað sé fullnægjandi húsnæði og hvaða aðstæður geta leitt til þroska vænlegs uppeldis. Ljóst er að til að tryggja fyrirsjáanleika og gagnsæi þurfa ákveðin viðmið að liggja fyrir.
Þá kallar Íslensk ættleiðing jafnframt eftir að ráðuneytið leggi fram eðlilegt viðmið um traustan fjárhag, t.d. neysluviðmið félagsmálaráðuneytis eða framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.
15. gr. Annað - Efni umsagnar barnaverndarþjónustu
Í j.-liður er fjallað um fjölskylduættleiðingu og innanlandsættleiðingu. Það væri til fyrirmyndar að skipta reglugerðinni upp í mismunandi tegundir ættleiðinga til að tryggja skýrleika og koma í veg fyrir misskilning um eðli umsagna.
Í l.-lið er óskað eftir stuttri lýsingu á afstöðu nánustu skyldmenna til ættleiðingarinnar. Vitaskuld skiptir afstaða nánustu aðstandenda miklu máli þegar kemur að barnauppeldi, en það á ekki einungis við um skyldmenni þar sem vinátta, tengsl og traust byggist ekki einungis á fjölskylduböndum eða blóðtengslum. Leggur félagið því til að breyta skuli orðalaginu „skyldmenna“ í eitthvað almennara sem geti falið í sér vinatengsl þar sem blóðtengsl koma ekki við sögu. Hægt væri að nota orðalagið „nákominn“ eins og lagt er til á öðrum stað í sömu grein.
16.gr. Hæfni umsækjenda
Mikilvægt er að allir sem koma að málaflokknum hafi sameiginlegan skilning á því hvers er krafist af umsækjendum og hvort þeir séu hæfir eða ekki. Mat á hæfi umsækjenda er mjög huglægt og munurinn á því hvort umsækjendur séu vel hæfir eða hæfir óljós.
17.gr.Annað efni umsagnar
Íslensk ættleiðing hefur útbúið yfirlit yfir þau atriði sem koma þurfa fram í umsögn barnaverndarþjónustu. Góð lýsing þarf að vera á þeirri fræðslu og stuðningi sem umsækjendur fá áður en forsamþykki er gefið út og eins hvaða stuðningur og eftirlit er í boði eftir að ættleidd börn koma hingað til lands. Í þeim umsögnum sem félagið hefur nýlega skoðað skortir yfirleitt lýsingu á þeirri fræðslu sem umsækjendur fá frá félaginu á meðan á forsamþykkisferlinu stendur. Eins er ekki nægileg lýsing á þeim stuðningi og fræðslu sem í boði er eftir ættleiðingu. Ekki er nægilegt að vísa í ungbarnaeftirlit þar sem það á í fæstum tilfellum við vegna aldurs barnanna þegar þau eru ættleidd til Íslands.
19. gr. Samþykki fyrir því að ættleiðing megi fara fram
Hér vantar að tilgreina að löggilt ættleiðingarfélag þurfi einnig að gefa álit sitt á upplýsingum. Vitneskja um upprunaríkið er mest hjá því félagi og því hægt að tryggja að allar upplýsingar séu trúverðugar. Mikilvægt er að klára verklag vegna þessa samþykkis.
22. gr. Eftirfylgniskýrslur
Klára þarf verklag vegna eftirfylgniskýrslna. Þar sem löggilt ættleiðingarfélag sér að mestu um stuðning og fræðslu til kjörfjölskyldna þarf félagið að hafa vitneskju um efni skýrslunnar til að hægt sé að fylgja eftir og bjóða stuðning og fræðslu ef þörf er á.
23.gr. Skráning barns
Inni í þessari grein hefur eftirfarandisetningu verið bætt við: Innan sama frests skal leggja inn beiðni um leyfi til ættleiðingar, eða eftir atvikum staðfestingu sýslumanns á réttaráhrifum ættleiðingar barns erlends frá, sbr. 3. mgr. 3.gr.
Þetta er ekki í samræmi við reglur í öllum upprunaríkjum. Í Tékklandi getur tekið um 1 ár að fá seinni dómsúrskurð um að kjörfjölskylda megi ættleiða barnið. Tryggja þarf að nýr texti passi við reglur og lög í þeim upprunaríkjum sem Ísland er í samstarfi við.
24. gr. Þjónusta og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda
Félagið fagnar því að gert sé ráð fyrir sérstakri þjónustu og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda án endurgjalds. Félagið veltir þó fyrir sér hvers vegna sú þjónusta eigi ekki við um börn yngri en 18 ára og kjörforeldra sem þurfa þjónustu og ráðgjöf. Ljóst er að mikil þörf er á fræðslu inn í leik- og grunnskóla og hefur félagið sinnt þeirri fræðslu auk annarrar fræðslu og þjónustu fyrir alla eftir ættleiðingu.
Félagið kallar eftir að í greininni verði skilgreind mun viðtækari þjónusta eftir ættleiðingu, ekki einungis fyrir þá sem eru uppkomnir. Snemmtæk íhlutun kemur í veg fyrir þörf á eins mikilli þjónustu og ráðgjöf síðar á lífsleiðinni.
Íslensk ættleiðing telur breytingar á reglugerð um ættleiðingar löngu tímabærar. Bent er þó á að enn á eftir að taka lög um ættleiðingar til endurskoðunar sem og aðrar reglugerðir innan málaflokksins. Sem dæmi má nefna eftirfarandi atriði sem skerpa þarf á:
- Undirbúningsnámskeið og möguleikar til að standa vel að þeim.
- Eftirfylgd með fjölskyldum eftir ættleiðingu.
- Ábyrgð á varðveislu gagna.
- Vinnulag við afhendingu upprunagagna og þjónusta við ættleidda því tengt.
- Málsmeðferð þegar komið er með barn til landsins sem ættleitt hefur verið erlendis frá með hætti sem telst ólögmætur af þarlendum eða íslenskum stjórnvöldum.
- Leiðbeiningar varðandi fjölskylduættleiðingar.
- Reglur fyrir þá sem eru á biðlista og flytja tímabundið af landi brott.
- Ættleiðingarnefnd; tilvísanir, vinnulag og sérfræðiþekking.
ViðhengiUmsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að reglugerð um ættleiðingar
Viðhengi