Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.6.–3.7.2023

2

Í vinnslu

  • 4.7.2023–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-115/2023

Birt: 16.6.2023

Fjöldi umsagna: 6

Drög að reglugerð

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Breyting á reglugerð um söfnunarkassa

Málsefni

Dómsmálaráðuneytið hefur unnið drög að breytingum á reglugerð um söfnunarkassa, nr. 320/2008, sem miða m.a. að því að jafna stöðu aðila hérlendis á spilakassamarkaði.

Nánari upplýsingar

Núgildandi fyrirkomulag á markaði spilakassa og happdrættisvéla má í grundvallaratriðum rekja til lagasetningar frá árunum 1993 – 1994. Um starfsemi Íslandsspila gilda lög nr. 73/1994 um söfnunarkassa, auk reglugerðar nr. 320/2008, með síðari breytingum. Enn fremur eru í gildi lög um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 455/1993, með síðari breytingum, sem veita Happdrætti Háskóla Íslands m.a. heimild til reksturs happdrættisvéla. Um eðlislíka starfsemi er að ræða.

Mikil þróun og tækniframfarir hafa átt sér stað á happdrættis- og spilakassamarkaði frá því framangreindar reglur voru settar, m.a. varðandi tækjabúnað, möguleika á rafrænum greiðslumiðlum o.fl. Auk þess hefur staða þeirra aðila sem starfrækja söfnunarkassa og happdrættisvélar á innanlandsmarkaði skekkst frá því sem upphaflega var lagt upp með.

Eigendur Íslandsspila, sem eru almannaheillafélögin Rauði krossinn á Íslandi og Slysavarnafélagið Landsbjörg, reiða sig á tekjur af söfnunarkössum varðandi starfsemi sína. Þannig er Rauða krossinum á Íslandi kleift að halda uppi neyðarvörnum vegna áfalla og hamfara og vinna að hjálpar- og mannúðarstarfi á Íslandi sem og erlendis. Sömuleiðis eru þessar tekjur mikilvægar fyrir starfsemi Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna reksturs á tækjum og til þjálfunar björgunar- og slysavarnafólks.

Breytingar þær sem hér eru lagðar til á reglugerð um söfnunarkassa miða annars vegar að því að aðlaga reglugerðina að tækniframförum sem orðið hafa og hins vegar að því að jafna stöðu rekstraraðila hérlendis á spilakassamarkaði.

Helstu breytingar sem hér eru lagðar til eru í fyrsta lagi breytingar sem snúa að breyttu eignarhaldi Íslandsspila, sem nú er eingöngu í eigu Rauða krossins á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, eftir að Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann gengu úr félaginu.

Í öðru lagi er nú sérstaklega tilgreint að við rekstur söfnunarkassa skuli gæta að ábyrgri spilahegðun og heilsu almennings. Umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu um ábyrga spilahegðun og er því lagt til að gert verði skýrt að rekstraraðila söfnunarkassa beri að hafa ábyrga spilahegðun að leiðarljósi við starfsemi sína.

Í þriðja lagi er lagt til að það verði undir stjórn Íslandsspila komið hvar söfnunarkassar skuli staðsettir, en óbreyttur er sá áskilnaður að unnt skuli vera að koma við virku eftirliti með kössunum auk tilkynningar til lögreglu um staðsetningu.

Í fjórða lagi er lagt til sambærilegt hámark á einingu hvers leiks og gildir hjá Happdrætti Háskóla Íslands. Þá er tekið fram að heimilt sé að greiða fyrir þátttöku í leik og taka á móti vinningum með rafrænum hætti, t.a.m. í gegnum smáforrit eða með færslulausnum eða öðrum sambærilegum hætti, sem auðveldar einnig rekstraraðila söfnunarkassa að uppfylla kröfur um varnir gegn peningaþvætti.

Í fimmta lagi er lagt til að hámark vinninga í söfnunarkössum verði hækkað í 5 milljónir króna með hliðsjón af m.a. aðstöðumun félagsins gagnvart happdrættisvélum Happdrættis Háskóla Íslands, sem hafa ekkert hámark vinninga samkvæmt reglugerð um pappírslaust peningahappdrætti Háskóla Íslands. Í framkvæmd hefur happdrættið sett 17 milljóna króna hámark á vinninga happdrættisvéla.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is