Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 13.7.–7.8.2023

2

Í vinnslu

  • 8.8.–5.12.2023

3

Samráði lokið

  • 6.12.2023

Mál nr. S-131/2023

Birt: 13.7.2023

Fjöldi umsagna: 1

Áform um lagasetningu

Innviðaráðuneytið

Húsnæðis- og skipulagsmál

Áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brunavarna í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu

Niðurstöður

Ein umsögn barst um áformin frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Tekið var afstöðu til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram, sem og sjónarmiðum um breytingu á brunatryggingum og var þeim sjónarmiðum komið áfram til fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fer með brunatryggingar. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um mannvirki og lögum um brunavarnir var samið á haustþingi og birt í samráðsgátt.

Málsefni

Innviðaráðherra áformar að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brunavarna í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu.

Nánari upplýsingar

Í apríl 2022 skipaði innviðaráðherra starfshóp um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Verkefni hópsins var að fylgja eftir fjórum tillögum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að úrbótum á brunavörnum sem fram komu í skýrslu sem unnin var í kjölfar mannskæðs bruna við Bræðraborgarstíg 1. Hópurinn er skipaður fulltrúum HMS, innviðaráðuneytisins, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambands Íslands og Þjóðskrá. Tillögurnar sem hópurinn fékk til úrvinnslu og sem kalla á endurskoðun gildandi laga voru eftirfarandi:

a. Endurskoðaðar verða heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis/aðseturs í íbúðarhúsnæði.

b. Metið verði hvort og í hvaða mæli heimila skuli með lögum tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi. Einnig að teknar verði til endurskoðunar reglur um húsnæðisstuðning í formi húsnæðisbóta í þessu skyni sem mögulega hvata fyrir leigusala til þess að skrá búsetuna.

c. Endurskoðaðar verði heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum og til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits.

Í skýrslu starfshópsins, sem skilað var í júní 2023, eru lagðar til nánari útfærslur á framagreindum tillögum.

Opinberar upplýsingar um búsetu í íbúðarhúsnæði byggja á lögheimils- og aðsetursskráningu hjá Þjóðskrá. Engar takmarkanir eru þó á fjölda lögheimilisskráninga á hverja íbúð sem býður upp á að mun fleiri séu skráðir til heimilis í íbúð en búa þar í raun. Raunverulegt aðsetur þessa fólks er þá á huldu. Þá liggur fyrir að mikill fjöldi fólks, vel á 4 þúsund manns, er skráður óstaðsettur í hús í Þjóðskrá. Talið er að stór hluti þessa hóps hafi búsetu í svonefndu óleyfishúsnæði þar sem hvorki er heimilt að skrá lögheimili né aðsetur.

Afar mikilvægt er út frá öryggissjónarmiðum að sem réttastar upplýsingar um búsetu fólks liggi fyrir á hverjum tíma. Snýr það m.a. að því að tryggja rétt viðbragð ef upp kemur vá, s.s. við bruna, en einnig að því að hægt sé að tryggja fullnægjandi eftirlit með brunavörnum í húsnæði sem nýtt er til búsetu.

Einnig er mikilvægt að eftirlitsaðilar, þ.e. slökkvilið og byggingarfulltrúar, hafi skýrar heimildir til eftirlits með húsnæði sem nýtt er sem íbúðarhúsnæði og jafnframt að við brotum liggi skýr viðurlög sem hafi raunveruleg varnaðaráhrif.

Með áformuðu frumvarpi er því ætlunin að leggja til breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, lögum um mannvirki, nr. 160/2010, og lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, sem og eftir atvikum öðrum lögum, til að:

- tryggja nauðsynlegar lagaheimildir til að takmarka fjölda lögheimilisskráninga í íbúð,

- heimila tímabundnar aðsetursskráningar í annars konar húsnæði en íbúðarhúsnæði og eftir atvikum rýmka heimildir til veitingar húsnæðisbóta þannig að þær hvetji til réttrar skráningar aðseturs,

- og tryggja fullnægjandi lagaheimildir til aðgangs að húsnæði og beitingu viðurlaga ef um brot er að ræða.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála

irn@irn.is