Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 19.7.–21.8.2023

2

Í vinnslu

  • 22.8.2023–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-140/2023

Birt: 19.7.2023

Fjöldi umsagna: 18

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Húsnæðis- og skipulagsmál

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (tillögur starfshóps um endurskoðun húsaleigulaga)

Málsefni

Innviðaráðuneytið kynnir til umsagnar tillögur starfshóps innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. Umsagnarfrestur er til og með 21. ágúst.

Nánari upplýsingar

Þann 23. júní 2022 skipaði innviðaráðherra starfshóp um endurskoðun húsaleigulaga, Starfshópnum var falið að taka húsaleigulög, nr. 36/1994, til endurskoðunar með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 28. nóvember 2021. Þar skyldi m.a. horft til tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði frá janúar 2019 sem áréttaðar voru í skýrslu starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði frá maí 2022.

Lagt var til grundvallar að nánari greining á húsaleigulöggjöf nágrannaríkjanna og fleiri þjóða færi fram á vegum starfshópsins með tilliti til þess hvernig stuðla megi að auknu húsnæðisöryggi og langtímaleigu, meðal annars með ólíkum hvötum. Þá yrði sérstaklega tekið til skoðunar hvernig stuðla megi að auknum fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, jafnt á samningstíma sem og við framlengingu eða endurnýjun leigusamnings, og hvernig koma megi í veg fyrir að samningar séu gerðir til skamms tíma í því skyni að hækka leigufjárhæð við endurnýjun samnings umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist í skilningi húsaleigulaga.

Tillögur starfshópsins hafa það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda með því að stuðla að langtímaleigu og auknum fyrirsjáanleika um leigufjárhæð, jafnt á samningstíma sem á milli samninga. Jafnframt hafa tillögurnar að markmiði að bæta upplýsingar um leigumarkaðinn, m.a. um markaðsleigu, og að tryggja að aðilar leigusamninga hafi aðgang að skilvirku réttarúrræði til úrlausnar á ágreiningi sem upp kann að koma í lögskiptum þeirra.

Þannig leggur starfshópurinn til að:

1. Fyrirsjáanleiki um leigufjárhæð verði aukinn með skýrara regluverki um ákvörðun leigufjárhæðar á samningstíma og á milli samninga.

2. Upplýsingar um leigumarkaðinn verði bættar með almennri skráningarskyldu leigusamninga, breytinga á leigufjárhæð og skyldu til afskráningar samninga að leigutíma loknum. Þær skyldur taki framvegis til allra leigusala sem leigja út íbúðarhúsnæði eða annað húsnæði til íbúðar. Með því verði tryggður aðgangur aðila leigusamnings og kærunefndar húsamála að áreiðanlegum upplýsingum um markaðsleigu og lagður grundvöllur að upplýstari stefnumótun og ákvörðunartöku stjórnvalda í málaflokknum.

3. Stuðlað verði að langtímaleigu, m.a. með því annars vegar að styrkja forgangsrétt leigjenda til áframhaldandi leigu að loknum leigutíma samkvæmt tímabundnum leigusamningum og hins vegar með því að styrkja rétt til áframhaldandi leigu húsnæðis á grundvelli ótímabundinna samninga með því að skýra nánar heimildir leigusala til uppsagnar slíkra samninga.

4. Kærunefnd húsamála verði efld með því að kveðið verði á um flýtimeðferð mála sem varða ágreining um leigufjárhæð þannig að úrskurður um leiguverð liggi fyrir innan tveggja mánaða.

Samhliða ofangreindum breytingum á húsaleigulögum leggur starfshópurinn til að við framsetningu upplýsinga um markaðsleigu úr leiguskrá húsnæðisgrunns Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði þess gætt að samningar um félagslegt húsnæði og samningar á milli tengdra aðila valdi ekki skekkju við útreikning á markaðsleigu.

Jafnframt verði viðeigandi breytingar gerðar á regluverki um kærunefnd húsamála í því skyni að tryggja hún taki framvegis einnig við kærum á ensku. Er það mikilvægt til að bæta réttarvernd þeirra leigjenda sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, enda um að ræða viðkvæman hóp á leigumarkaði. Þá leggur starfshópurinn til að ráðist verði í fræðsluátak um réttindi á leigumarkaði og aðilum leigusamninga tryggð áframhaldandi lögfræðiráðgjöf um réttindi sín og skyldur þeim að kostnaðarlausu.

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra þann 14. júlí sl. í formi frumvarps til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda). Umsagnarfrestur um tillögurnar er til og með 21. ágúst nk.

Unnið verður úr athugasemdum umsagnaraðila og frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum í kjölfarið lagt fram á Alþingi á komandi haustþingi.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa húsnæðis- og skipulagsmála

irn@irn.is