Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.7.–25.8.2023

2

Í vinnslu

  • 26.8.–25.10.2023

3

Samráði lokið

  • 26.10.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-142/2023

Birt: 18.7.2023

Fjöldi umsagna: 7

Áform um lagasetningu

Dómsmálaráðuneytið

Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Áform um breytingar á persónuverndarlögum

Niðurstöður

Sjö umsagnir bárust vegna áforma um breytingu á persónuverndarlögum. Umsagnirnar verða teknar til skoðunar og hafðar til hliðsjónar við vinnslu frumvarps. Þegar drög að frumvarpinu liggja fyrir verða þau kynnt í samráðsgátt.

Málsefni

Áformað er að breyta tilteknum ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og laga nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Nánari upplýsingar

Lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga voru samþykkt á Alþingi 27. júní 2018 og lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi 25. júní 2019. Á þeim tíma sem er liðinn frá gildistöku laganna hefur komið í ljós að skýra þarf nokkur ákvæði þeirra nánar eða breyta, m.a. til þess að ákvæðin verði framkvæmanleg (4. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018) og til að gæta jafnræðis meðal ábyrgðar- og vinnsluaðila þegar kemur að gjaldtöku vegna eftirlits (40. gr. laga nr. 90/2018 og lög nr. 75/2019). Breytingar þar að lútandi voru lagðar til í frumvarpi, sem síðar varð að lögum nr. 16/2023 um breytingu laga nr. 90/2018, en með breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sem samþykkt var af þinginu, voru þær tillögur felldar brott. Í áliti nefndarinnar, dags. 23. mars 2023, beinir hún því til ráðherra að flýta vinnu við heildarendurskoðun á framkvæmd persónuverndarlaga nr. 90/2018 og undirstrikar mikilvægi þess að vinnunni verði framhaldið í samráði við helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Þá hafa dómsmálaráðuneytinu einnig borist ábendingar um að tilefni sé til að endurskoða gildissvið laga nr. 90/2018, hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga hjá dómstólum þegar þeir fara með dómsvald sitt, og ýmsar tillögur frá Samtökum atvinnulífsins, sem lúta m.a. að hugtakinu „vinnuskjöl“ í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, skýrari skilgreiningu hugtaksins „öryggisbrestur“ og refsiákvæði vegna brota á þagnarskyldu persónuverndarfulltrúa.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar þykir nú tímabært að fara í heildarendurskoðun laga nr. 90/2018 og er nú kallað eftir ábendingum um hvað í lögunum eða við framkvæmd þeirra kallar á endurskoðun. Að loknum umsagnartíma verður hafist handa við að greina hvaða ábendingar gefa tilefni til endurskoðunar og drög að frumvarpi samin út frá því. Drög að frumvarpi verða einnig kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda þegar þar að kemur.

Það skal að lokum áréttað að við endurskoðun laganna verður höfð hliðsjón af ákvæðum reglugerðar (ESB) 2016/679 og skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og á grundvelli annars alþjóðlegs samstarfs.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa réttinda einstaklinga

dmr@dmr.is