Umsagnarfrestur er liðinn (27.07.2023–24.08.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Í grænbók um skipulagsmál er lagður grunnur að umræðu um stöðu skipulagsmála, lykilviðfangsefni, framtíðarsýn og áherslur við gerð stefnu til komandi ára.
Innviðaráðherra hyggst á komandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.
Fyrsta landsskipulagsstefna Íslands var samþykkt á Alþingi árið 2016, með gildistíma til 2026. Í samræmi við ákvæði 10. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála er nú unnið að endurskoðun á stefnunni. Grænbók um skipulagsmál sem hér er lögð fram til umsagnar er liður í þeirri vinnu.
Endurskoðunin er unnin með hliðsjón af gildandi landsskipulagsstefnu, áherslum innviðaráðherra og samráði við sveitarfélög, íbúa sveitarfélaga þ.m.t. ungt fólk, ráðuneyti og aðra hagaðila. Þá er horft til stefna sem fyrirliggjandi eru í öðrum áætlunum stjórnvalda sem áhrif hafa á þróun byggðar og landnýtingu.
Grænbók um skipulagsmál er ætlað að veita upplýsingar um núverandi stöðu landsskipulagsstefnu. Leitast er við að svara því hvernig gildandi landsskipulagsstefna hefur reynst og hverjar eru helstu áskoranir til næstu fimmtán ára. Sett er fram tillaga að framtíðarsýn og drög að áherslum.
Grænbókin byggir meðal annars á fyrirliggjandi gögnum hjá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa og samráði sem farið hefur fram við almenning og aðra hagaðila, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.
Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára. Í henni er stöðumat ásamt drögum að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum við gerð stefnunnar, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum.
Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki. Greinargerðin verður unnin áfram samhliða endurskoðun landsskipulagsstefnu.
Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila á þessum þáttum og eru því öll hvött til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Á grundvelli hennar verður unnið stefnuskjal eða svokölluð hvítbók og í framhaldinu þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til 15 ára og fimm ára aðgerðaáætlun.
Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu verði lögð fram á haustþingi.
Í nýbirtri Grænbók innviðaráðuneytisins um skipulagsmál er leitast við að draga upp framtíðarmynd fyrir landið. Þar er fjallað um loftslagsmál, ferðamál og landbúnað og sérstaklega bent á að verja þurfi góð landbúnaðarhéruð fyrir ásókn þéttbýlis. Lítið er fjallað um þá þróun sem átt hefur sér stað á Suðvesturhorni landsins að fólk flytur í auknum mæli úr þéttbýli í dreifbýli, einkum á þau svæði sem náttúrufegurð er mikil og landbúnaður hefur dregist verulega saman. Ekki er orð að finna um það hvernig rétt sé að bregðast við þeirri þróun, ef frá er skilinn sá hluti sem fjallar um mikilvægi landbúnaðar. Í ljósi þess að nútímatækni hefur gert það kleift að inna mikinn hluta starfa af hendi hvar sem er, svo framarlega sem netsamband sé sæmilega virkt, er það staðreynd að sífellt fleiri íbúar í þéttbýli byggja stærri og íburðarmeiri hús á svæðum sem hafa verið skipulögð sem frístundabyggð. Þessi hús eru heilsárshús. Slík hús ganga svo kaupum og sölum sem heilsárshús. Sveitarfélög tregðast svo við að heimila íbúum skráningu í húsin í krafti þess að deiliskipulag geri ekki ráð fyrir búsetu á svæðinu. Þau koma hins vegar ekki í veg fyrir að svo stór hús séu byggð í sveitarfélaginu. Svo virðist sem stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að eftirfarandi staðreyndum:
• að fjöldi svokallaðra frístundahúsa er sums staðar margfaldur fjöldi skráðra íbúðarhúsa í sveitarfélaginu
• að eigendur umræddra húsa greiða fasteignagjöld til sveitarfélagsins samkvæmt fasteignamati eins og um íbúðarhús væri að ræða.
• að útsvar heimamanna er í einhverjum þeim sveitarfélögum sem um ræðir með því allra lægsta sem þekkist á landinu.
• að hefðbundinn landbúnaður á þessum svæðum er að mestu aflagður
Afleiðing þess að fólk fær ekki að flytja lögheimili sitt í heilsárshúsið sitt í sveitinni kemur oft í veg fyrir sölu fólks á íbúðum sínum á höfuðborgarsvæðinu, en stjórnvöld hafa einmitt verulegar áhyggjur af litlu framboði húsnæðis þar.
Vissulega er það rétt að sveitarfélög hafa með höndum skipulagsmál hvert á sínu svæði. Hins vegar hafa sveitarfélög skyldum að gegna og verða að haga ákvörðunum og gerðum sínum í samræmi við stjórnarskrárvarinn rétt íbúa landsins til búsetu og alþjóðlegar skuldbindingar varðandi mannréttindi og gæta jafnræðis svo sem sveitarstjórnarlög og stjórnsýslulög kveða á um. Eftirlitsskylda með framferði sveitarstjórna gagnvart íbúum sínum hvílir hins vegar á innviðaráðuneytinu
Einnig er skortur á samráði við mikilvægan hóp íbúa gagnrýniverður. Þessi framtíðarstefna yfirvalda er sögð byggja m.a. á víðtæku samráði við íbúa, sveitastjórnir og aðra hagaðila. Við bendum á að ekkert samráð var haft við þann hóp íbúa sem hefur fasta búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggðum landsins. Ekkert samráð var þannig haft við samtökin Búsetufrelsi sem berjast fyrir réttindum þessa hóps. Samtökin hafa ítrekað óskað eftir samráði við sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps en því hafnað og ítrekað hefur verið vakin athygli á málefnum hópsins í fjölmiðlum.
Í Grænbók Innviðaráðuneytis er ítrekað talað um búsetufrelsi sem mikilvægt áhersluatriði í stefnu stjórnvalda til framtíðar. Það er þó gróflega horft fram hjá þeirri staðreynd að fólki sem hefur byggt sér hús með leyfi sveitastjórna er ekki frjálst að því að skrá sig þar með fasta búsetu (lögheimili), hús sem eru með allt það sem íbúðahús þarfnast og greidd eru af þeim fasteignagjöld eins og um íbúðarhús sé að ræða. Þarna skortir búsetufrelsi. Mikilvægt er að fólk fái að ráða því hvernig það notar sína fasteign, hvort sem hún er skilgreind sem kofi, höll eða hús. Hinum Norðulandaþjóðunum hefur tekist þetta og Íslendingar ættu núna að nota tækifærið til að taka skref fram á við en ekki festa óréttlætið og mismununina í opinbera stefnu í fimmtán ár í viðbót.
Að lokum gagnrýnum við að Grænbók skilar ekki þeim upplýsingum sem til stóð. Í inngangi Grænbókar segir m.a. að hún eigi að veita upplýsingar um það hverjar eru helstu áskoranir í landsskipulagsstefnu til næstu fimmtán ára. Við gagnrýnum skort á upplýsingum um mikilvæga áskorun sem stjórnvöld hafa lengi hunsað og gera það áfram í þessari Grænbók. Það er sú staðreynd að sífelld stærri hópur fólks kýs að hafa fasta búsetu í svokölluðu frístundahúsi í sveitum landsins. Búsetuform er að breytast hratt þessi árin. Í tölum frá Þjóðskrá má sjá hversu ör fjölgunin hefur verið á skráningum þar sem fólk er skráð Ótilgreint í hús. Í sveitum landsins eru þeir sem skráðir eru Ótilgreint í hús, oftast nær búandi í frístundahúsi. Þeir eru þó enn fleiri sem búa í frístundahúsi en skrá sig ranglega með lögheimili í öðru sveitarfélagi, hjá ættingjum eða vinum vegna skorts á lagaheimild til að skrá sig þar sem fólk raunverulega býr. Þessi staðreynd þykir það mikil áskorun að Innviðaráðherra sá ástæðu til að stofna sérstakan starfshóp á síðasta ári til að skoða málefni þessara íbúa sem eiga sitt heimili í heilsárshúsi í frístundabyggð. Ekki til að finna lausn sem kemur á móts við hópinn heldur til að kanna hvort verið sé að misnota ákvæði lögheimilislaga um skráningu. Með öðrum orðum er hópurinn sakaður um lögbrot með því einu að búa í sínu eigin húsi. Að mati Búsetufrelsis er hér mál að linni. Taka verður á þessu máli með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og sjá til þess að jafnræðis sé gætt hjá landsmönnum öllum.
Stjórn Búsetufrelsis, samtaka fólks með fasta búsetu í heilsárshúsi í frístundabyggð í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Heiða Björk Sturludóttir
Guðrún Margrét Njálsdóttir
Sandra Gunnarsdóttir
ViðhengiUmsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um skipulagsmál
ViðhengiUmsögn um Grænbók um skipulagsmál
ViðhengiSkipulagsráð Akureyrarbæjar telur mikilvægt að tryggja aðkomu sveitarfélaga að skipulagi haf- og strandsvæða. Þá þarf að mati skipulagsráðs að skýra betur mörk ríkis og sveitarfélaga í skipulagsmálum í tengslum við nýlegar breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010.
Vinsamlega sjá umsögn Minjastofnunar Íslands í viðhengi.
ViðhengiSkipulagsnefnd Skagafjarðar bendir á mikilvægi þess að tryggja aðkomu sveitarfélaga að skipulagi haf- og strandsvæða. Einnig þarf að skýra betur mörk ríkis og sveitarfélaga í skipulagsmálum í tengslum við nýlegar breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010.
Í viðhengi má finna umsögn sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um Grænbók um skipulagsmál.
ViðhengiSveitarstjórn Þingeyjarsveitar sendir eftirfarandi umsögn:
Mikilvægt er að hafa í huga að skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum og sveitarstjórnum.
Sveitarstjórn telur mikilvægt að tryggðir verði hagsmunir sveitarfélaga og möguleiki hvað varðar fjölbreytta búsetu í sveitum landsins. Til að mynda er Þingeyjarsveit að mestu dreifbýlt samfélag og mikilvægt er að tryggja eðlilega uppbyggingu í dreifbýli sem byggir ekki eingöngu á tengingu við landbúnað.
Þingeyjarsveit er landmesta sveitarfélag landsins með fjölmörg friðlýst svæði auk verndarsvæðis Laxár og Mývatns. Sveitarstjórn telur mikilvægt að gætt sé að náttúrvernd og hún sé í takti við aukna umræðu um nýtingu auðlinda.
Jafnframt tekur sveitarfélagið undir sjónarmið Akureyrarbæjar og fleiri aðila um mikilvægi þess að tryggja aðkomu sveitarfélaga að skipulagi haf- og strandsvæða. Einnig þarf að skýra betur mörk ríkis og sveitarfélaga í skipulagsmálum í tengslum við nýlegar breytingar á skipulagslögum nr. 123/2010.
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar er reiðubúin til frekara samráðs og samtals um þau atriði sem koma fram í umsögn.
F.h. Þingeyjarsveitar.
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.
Umsögn ÖBÍ - réttindasamtaka um grænbók um skipulagsmál, mál nr. 145/2023
ViðhengiÍ viðhengi er að finna umsögn Landsvirkjunar um grænbók um skipulagsmál.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um Grænbók um skipulagsmál.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Skógræktarinnar.
ViðhengiÍ viðhengi er umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
ViðhengiVinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi
kær kveðja
Auður
ViðhengiHér er að finna umsögn Samgöngufélagsins um grænbók um skipulagsmál.
Virðingarfyllst,
Jónas B. Guðmundsson, fyrisvarsmaður
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) dags. 23. ágúst 2023.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn FST um Grænbók um skipulagsmál.
Viðhengi